13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

149. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Skv. gildandi l. fá þeir starfsmenn ríkisins, sem hætta störfum áður en þeir ná aldursmörkum til eftirlauna, eftirlaun miðað við kaup, sem fylgdi starfinu, þegar þeir hættu störfum. Á verðbólgutímum geta þessi réttindi orðið lítils virði miðað við þær iðgjaldagreiðslur, sem greiddar hafa verið. Efni frv. er að tryggja það, að sjóðfélögum, sem hafa verið í þjónustu ríkisins í 15 ár eða lengur, verði tryggð eftirlaun miðað við þau laun, sem fylgdu starfinu, þegar lífeyrissjóðsgreiðslur hefjast. Hv. Ed. þótti rétt að láta þetta einnig taka til starfsmanna sjálfseignarstofnana, sem aðilar eru að sjóðnum, og hefur breytt frv. í samræmi við það. Jafnframt hefur Nd., skv. ósk Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, samþ. brtt. um að heimila starfsmönnum bandalagsins aðild að sjóðnum. Fjhn. leggur shlj. til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá Ed. Ég vil aðeins geta þess, að það er þarna annað mál á dagskránni, tilsvarandi mál um lífeyrissjóð kennara. Það hefur verið samþ. í Ed. og fjhn. leggur til, að það verði samþ. óbreytt hér einnig.