07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

150. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var fyrir frumkvæði háskólaráðs skipuð n. til þess að gera áætlun um fjölgun prófessorsembætta og annarra kennaraembætta við Háskóla Íslands á áratug frá því er sú ályktun var gerð. Þessi áætlun var síðan samin — það tók alllangan tíma að semja hana, — af fulltrúum frá öllum deildum háskólans. Síðan var þessi áætlun til rækilegrar athugunar í ríkisstj., sem á sínum tíma, fyrir tveim árum, tók ákvörðun um að leggja til við Alþ., að þeirri áætlun væri hrundið í framkvæmd. Tvívegis áður hefur Alþ. samþ. stjfrv., sem byggjast á framkvæmd þessarar 10 ára áætlunar um kennarafjölgun við Háskóla Íslands. Þetta frv. er þriðja frv., sem flutt er í samræmi við þessa 10 ára áætlun. Hér er gert ráð fyrir stofnun þriggja nýrra prófessorsembætta, og hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum til þeirra embætta í fjárl. fyrir yfirstandandi ár, en þær fjárveitingar koma að sjálfsögðu ekki til framkvæmda, nema hið háa Alþ. fallist á að gera þetta frv. að lögum. Þau embætti, sem stofna átti á árinu 1967 skv. áætluninni og þetta frv. gerir ráð fyrir, að verði stofnsett, eru í lagadeild, læknadeild og viðskiptadeild. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja í einstökum atriðum þau rök, sem af hálfu háskólans voru flutt fyrir því á sínum tíma og fólgin eru í 10 ára áætluninni, en hún var upphaflega prentuð sem fskj. með 1. frv., sem flutt var til þess að hrinda henni í framkvæmd. Geri ég því ráð fyrir, að hv. alþm. séu þau almennu rök kunn, sem fyrir þeirri 10 ára áætlun lágu.

Þá er hér enn fremur gert ráð fyrir því að breyta tveimur dósentsembættum í læknadeild í prófessorsembætti, en þeir dósentar, sem nú gegna þessum dósentsstörfum eru jafnframt yfirlæknar hvor við sína deild. Annar er dósent í kvensjúkdómum og hinn dósent í röntgenfræðum. Launakjör þessara yfirlækna, sem jafnframt gegna dósentsstörfum, eru nú þannig, að engin hækkun verður á heildarlaunum þeirra og því engin útgjaldaaukning fyrir ríkissjóð, þó að dósentsembættunum verði breytt í prófessorsembætti. Þeir mundu, m.ö.o., njóta sömu launakjara eftir samþykkt þessa frv. sem prófessorar og yfirlæknar og þeir njóta nú sem yfirlæknar og dósentar. En hér er um svo mikilvægar kennslugreinar að ræða innan læknakennslunnar, að læknadeild og háskólaráð hafa talið eðlilegt, að þeir, sem þessum kennslustörfum gegna ásamt yfirlæknisstörfum, beri prófessorsnafnbót.

Sjötta embættið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er prófessorsembætti í verkfræðideild, og er það embætti utan við 10 ára áætlun um kennarafjölgun, það er m.ö.o. viðbótarembætti, sem ekki var gert ráð fyrir í kennarafjölgunaráætluninni. Hér er um að ræða embætti prófessors í jarðeðlisfræði og er ætlazt til, að hann veiti jafnframt forstöðu þeirri rannsóknarstofu í jarðeðlisfræði, sem þegar hefur verið komið á fót við Raunvísindastofnun háskólans, en hefur ekki fengið fastan forstöðumann ennþá. Vonir standa til þess, ef þetta frv. nær fram að ganga og prófessorsembætti í jarðeðlisfræði verður komið á fót, að um það embætti sæki þá Gunnar Böðvarsson verkfræðingur, sem er einn helzti sérfræðingur, ekki aðeins Íslendinga heldur og í heiminum, í jarðeðlisfræði og þá alveg sérstaklega á því sviði, sem við Íslendingar höfum sérstakan áhuga á, þ.e.a.s. á sviði jarðhita og jarðhitarannsókna. Prófessor Gunnar Böðvarsson gegnir nú prófessorsembætti í Bandaríkjunum, en hefur áður um margra ára skeið verið sérfræðilegur ráðunautur bæði alþjóðasamtaka og ríkisstj. annarra landa einmitt á sviði jarðhitamála og jarðhitarannsókna. Væri það mikill fengur fyrir Íslendinga og íslenzkar rannsóknir, sérstaklega á sviði jarðhitamála, ef Gunnar Böðvarsson fengist til þess að sækja um embætti við Háskóla Íslands og þá um leið tengjast hinni nýju og ungu Raunvísindastofnun háskólans. En til þess eru, eins og ég sagði, ákveðnar vonir, ef þetta frv. nær fram að ganga og embætti prófessors í jarðeðlisfræði verður stofnað, að þessi heimskunni vísindamaður sæki þá um það.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að gera nánari grein fyrir þessu frv. og vona, að hv. Alþ. taki þessu frv. vel, eins og þeim frv., sem ríkisstj. hefur áður flutt til eflingar Háskóla Íslands á undanförnum árum. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.