20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

150. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað frv. til l. um breyt. á l. um Háskóla Íslands og fengið á sinn fund rektor háskólans til að ræða við hann innihald frv.

Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir 6 nýjum prófessorsembættum við Háskóla Íslands, og væri þó réttara að tala um 4 ný embætti, því að hvað tvo þeirra varðar, er aðeins um breytingar að ræða. Embættin eru þessi:

Það fyrsta er í læknadeild. Er ætlunin að aðskilja meina- og sýklafræði, sem nú er eitt embætti, og gera að tveimur. Þessu eina embætti gegnir nú próf. Ólafur Bjarnason og er talið mjög nauðsynlegt að skilja þætti þess í sundur.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir sjötta prófessornum í lagadeild og er reiknað með, að hann kenni refsirétt, sem talið er mikið verkefni, og mundi þar m.a. verða, allmikið um rannsóknir. Í sambandi við umr. um prófessorsembætti í lagadeild kom það í ljós í n., að nokkur misskilningur hefur verið á milli alþm. og háskólans. Hér hefur verið upplýst, þegar prófessorum hefur verið fjölgað áður, að ætlunin væri að setja upp embætti t.d. í réttarsögu. Hins vegar var auglýst prófessorsembætti í lagadeild almennt, án þess að það væri tilgreint í hvaða grein lögfræðinnar hið nýja embætti ætti að vera. Alþm. munu hafa talið, að greinin yrði tengd beint við hið nýja embætti, en rektor upplýsti, að lagadeild hefði ávallt haft þann hátt á að auglýsa embætti sem almenn prófessorsembætti í lagadeild, en deildin síðan skipt með sér kennslugreinum innbyrðis. Enda þótt ekki hafi beinlínis verið auglýst eftir og skipaður prófessor í réttarsögu, heldur aðeins í almennum l., fullvissaði rektor háskólans menntmn. um, að niðurstaðan mundi verða hin sama, því að þessi fjölgun embætta mundi þýða, að einum prófessor yrði gert kleift að helga sig réttarsögu, þó að það verði deildarinnar að ákveða, nú eins og áður, hvort það yrði hinn nýi prófessor eða einhver hinna eldri.

Þriðja embættið er í viðskiptadeild og verður prófessorsembætti í þjóðhagfræði. Þar eru nú 145 stúdentar og lögð vaxandi áherzla á kennslu í hagfræði.

Fjórða embættið er í læknadeild, prófessorsembætti fyrir fæðingarhjálp og kvensjúkdóma. Þetta er nú dósentsembætti og er ætlunin að breyta því í prófessorsembætti. Því gegnir Pétur Jakobsson yfirlæknir.

Fimmta embættið er einnig í læknadeild, í röntgenfræði. Þar er sömu sögu að segja. Dósentsembættinu er breytt í prófessorsembætti og gegnir því nú Gísli Petersen yfirlæknir.

Loks er sjötta embættið í verkfræðideild. Það er prófessorsembætti í jarðeðlisfræði og standa vonir til þess, að Gunnar Böðvarsson muni sækja um það embætti og hann þar með fást til starfa hér á landi, en hann er nú prófessor í Bandaríkjunum.

Menntmn. er sammála um að mæla með samþ. frv. óbreytts.