18.10.1966
Sameinað þing: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1967, mun ég í stórum dráttum skýra afkomu ríkissjóðs á árinu 1965 og horfur á yfirstandandi ári.

Að því var stefnt, að ríkisreikningurinn fyrir 1965 gæti orðið lagður fram strax í byrjun þings, en því miður verður prentun hans ekki lokið fyrr en í næstu viku. Ég verð að láta nægja að gefa heildarmynd af afkomu ríkissjóðs á árinu 1965, enda verður tækifæri til að ræða einstök atriði ríkisreikningsins, er hann verður tekinn til meðferðar síðar á þessu þingi.

Heildartekjur á rekstrarreikningi reyndust 3690.2 millj, kr., sem er 167.1 millj. kr. hærra en áætlað var í fjárl. Munar þar mestu um aðflutningsgjöld og söluskatt. Aðflutningsgjöld fóru 117.7 millj. kr. fram úr fjárlagaáætlun, og stafar það bæði af meiri aukningu innflutningsmagns og hærri raunverulegum meðaltolli en gert hafði verið ráð fyrir. Söluskattur fór 89.2 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. vegna meiri aukningar viðskiptaveltu en séð var fyrir, en söluskattsálagningin var óbreytt á árinu. Einnig fóru tekjur af stimpilgjöldum 5.4 millj. kr. fram úr áætlun. Flestir aðrir tekjuliðir reyndust lægri en áætlað var í fjárl., og munar þar mestu um gjöld af bifreiðum og bifhjólum, sem reyndust 14.7 millj. kr. undir áætlun þrátt fyrir hækkun leyfisgjalda í byrjun ársins. En bifreiðainnflutningurinn minnkaði verulega frá fyrra ári. Tekjur af tekju- og eignarskatti urðu 9.2 millj. undir áætlun, og hluti ríkissjóðs af umboðsþóknun og gengismun viðskiptabankanna 8.2 millj. undir áætlun fjárl. Í því skyni að rétta nokkuð við hag ríkissjóðs var á síðari hluta ársins ákveðin allveruleg hækkun á verði áfengis og tóbaks, og fór sá tekjuliður 24.6 millj. kr. fram úr áætlun.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi námu 3413.5 millj, kr. og fóru 111,5 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Var lögð rík áherzla á að spyrna gegn öllum umframgreiðslum, en þróun mála varð þannig, að hjá ýmsum nýjum útgjöldum varð ekki komizt.

Meginorsök umframútgjaldanna má rekja til þróunar kaupgjaldsmála á árinu. Þannig hækkuðu grunnlaun opinberra starfsmanna um 4% í júlímánuði og verðlagsuppbætur á laun samkv. vísitölu hækkuðu á árinu úr 3.05% í marzbyrjun í 7.32% frá og með 1. des. Komu áhrif þessara launahækkana fram í flestum útgjaldaliðum. Eftir að fjárlög voru afgreidd, var í ársbyrjun með sérstökum 1. frá Alþ. samþ. að veita bátaútveginum aðstoð, er hafði í för með sér 50.4 millj. kr. ný útgjöld fyrir ríkissjóð á árinu, og jafnframt voru samþykktar launabætur til opinberra starfsmanna, sem taldar voru óumflýjanlegar vegna launahækkana annarra stétta, og kostuðu þær launabætur ríkissjóð alls um 65 millj. kr.

Til þess að mæta þessum nýju útgjöldum ákvað ríkisstj. fyrri hluta árs að nota heimild fjárlaga til þess að lækka framlög til opinberra framkvæmda um 20% á árinu. Var áætlað, að með þessari ráðstöfun mundi sparast nægilegt fé til þess að mæta þessum tveimur nýju útgjaldaliðum. Reyndin varð hins vegar sú, að hér hallaðist á um rúmar 30 millj. kr. Við bættist svo það áfall, að í samræmi við samkomulag við verkalýðsfélögin var veitt sérstakt framlag úr ríkissjóði til byggingarsjóðs ríkisins, 40 millj. kr. Þessi útgjaldaliður var einnig utan ramma fjárl., en áætlað að mæta honum með sérstakri lagaheimild með þreföldun fasteignamats við álagningu eignarskatts. Áætlaður tekjuauki af þessari ráðstöfun reyndist algerlega óraunhæfur, þannig að ekki fékkst nema helmingur þess, er þurfti.

Um einstaka útgjaldaliði skal þetta tekið fram:

Alþingiskostnaður fór fram úr áætlun um 12.9 millj. kr. Er orsökin fyrst og fremst óraunhæf áætlun, sem ljósast sést af því, að útgjöld á þessum lið urðu 8.3 millj. umfram áætlun á árinu 1964, en hækkun í fjárlagaáætlun 1965 nam þó aðeins 1.6 millj.

Kostnaður við stjórnarráðið fór 9.4 millj. kr. fram úr áætlun. Munar þar mestu um annan kostnað rn., 4.6 millj. kr., en tilhneiging hefur jafnan verið til að vanáætla þann lið. Kostnaður við kjarasamninga, 1 millj. kr., var færður á stjórnarráðskostnað, en að öðru leyti er hér um eðlilegar hækkanir að ræða vegna launabreytinga.

Kostnaður við utanríkisþjónustuna fór 4.1 millj. kr. fram úr áætlun og kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn 8.5 millj. fram úr áætlun. Er hér fyrst og fremst um launabreytingar að ræða.

Kostnaður við innheimtu tolla og skatta fór mjög mikið fram úr áætlun eða um 17 millj. kr. Eru um 11 millj. kr. af þessari fjárhæð vanáætlaður kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofur. Vék ég að því í fjárlagaræðu minni í fyrra, að enda þótt hið nýja skattakerfi væri tvímælalaust til mikilla bóta og aukinnar samræmingar og aðhalds í skattaálagningu og skattheimtu, hafa hugmyndir manna um beinan fjárhagssparnað af hinu nýja kerfi ekki reynzt raunhæfar. Að auki hafa að sjálfsögðu einnig komið til aukin og ný verkefni á þessu sviði, m.a. tilkoma skattrannsóknadeildarinnar. Að sjálfsögðu þýddi ekki annað en koma þessum málum í viðhlítandi horf, enda víða á landinu miklar kvartanir vegna seinagangs skattstofanna við álagningu skatta, og lét ég því um mitt ár 1965 framkvæma á því rækilega athugun, hverjar væru lágmarksþarfir skattstofanna á starfsliði, svo að þær gætu með sómasamlegum hætti innt starf sitt af hendi. Verður að telja, að aðstaða skattstofanna og ríkisskattstjóra sé orðin sómasamleg að þessu leyti, en afleiðingarnar hafa orðið allverulegur kostnaðarauki. Sjást þó stundum ásakanir um það, að skattkerfinu sé enn ekki séð fyrir nægilegum starfskröftum.

Útgjöld til heilbrigðismála urðu 8.4 millj. kr. undir áætlun fjárl. Er ástæðan fyrst og fremst sú, að viðbygging Landsspítalans var ekki tekin í notkun á árinu, svo sem ráð hafði verið fyrir gert, og enn fremur, að fjárfestingarliðir á þessari grein voru lækkaðir í samræmi við almenna lækkun slíkra útgjalda.

Af sömu ástæðu urðu framlög til vegamála 9.2 millj. kr. undir áætlun. Aftur á móti urðu að venju miklar umframgreiðslur á útgjöldum vegna samgangna á sjó, og fór sú gr. 17 millj. kr. fram úr áætlun. Er þar um að ræða rekstrarhalla Skipaútgerðar ríkisins, sem varð á árinu 1963 samtals um 43 millj. kr. Mun ég víkja síðar nánar að því fyrirtæki.

Vegna skerðingar framkvæmdafjár urðu framlög til vitamála 7.5 millj. kr. undir áætlun, en aftur á móti urðu rekstrarútgjöld flugmálastjórnar 2 millj, umfram áætlun. Stafar það af launahækkunum. Af sömu ástæðu fór Veðurstofan 1.9 millj. kr. fram úr áætlun.

Útgjöld vegna kennslumála urðu 14.6 millj. kr. umfram áætlun fjárl. og þó raunar mun meira, því að skólabyggingafé var lækkað um 8.8 millj. kr. Er hér um lögbundin útgjöld að ræða, sem ekki verður við ráðið, og orsök um framgreiðslnanna fyrst og fremst launahækkanir.

Framlög til opinberra safna, bókaútgáfa o. fl. urðu 1.7 millj. kr. umfram áætlun, og er það kostnaðarauki safnanna.

Framlög til kirkjumála urðu 1.2 millj. kr. umfram áætlun vegna launahækkana. Framlög til landbúnaðarmála fóru mjög mikið fram úr áætlun eða samtals um 29.2 millj. kr. Stafar það fyrst og fremst af miklum mun meiri jarðræktarframkvæmdum en gert hafði verið ráð fyrir við afgreiðslu fjárl. Fóru jarðræktarstyrkir þannig 19.8 millj. kr. fram úr fjárl. og framlög samkv. l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. 7.5 millj. kr. fram úr fjárlögum.

Framlög til sjávarútvegsins urðu 11.3 millj. kr. umfram áætlun. Er þar aðallega um að ræða annars vegar framlag til aflatryggingasjóðs, 4.3 millj., og til fiskveiðasjóðs 5.3 millj. umfram áætlun. Hvor tveggja þessi framlög eru lögbundin og því ekki um annað að ræða en inna þau af hendi.

Útgjöld vegna raforkumála urðu 12.9 millj. kr. undir áætlun vegna skerðingar framkvæmdafjár, en kostnaður vegna rannsókna í þágu atvinnuveganna fór 3.1 millj. kr. fram úr áætlun vegna launahækkana.

Framlög til félagsmála urðu 18.2 millj. kr. umfram áætlun. Framlög til almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga taka breytingum í samræmi við launahækkanir, og enn fremur hafði fallíð niður af vangá að taka í fjárlög greiðslur vegna afborgunar af láni í Seðlabankanum vegna atvinnuleysistryggingasjóðs, er tekið var vegna þess á sínum tíma, að fellt var niður eitt ár framlag ríkisins til sjóðsins.

Eftirlaun og tillag til lífeyrissjóða fór 7.9 millj. kr. fram úr áætlun.

Framlög til niðurgreiðslna á vöruverði urðu 31.5 millj. kr. undir áætlun og framlög til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir 15.2 millj. kr. undir áætlun. Þessar greiðslur hvorar tveggja færast jafnan oft á milli ára og því erfitt um nákvæma fjárlagaáætlun.

Flestir útgjaldaliðir á 20. gr. fjárl. lækka um 20% í samræmi við niðurskurð til verklegra framkvæmda.

Útgjöld á eignahreyfingareikningi reyndust alls 193.4 millj. eða 16.9 millj. undir áætlun fjárlaga.

Á síðasta Alþ. voru samþ. ný lög um gerð ríkisreiknings og fjárl. Gera lög þessi ráð fyrir mjög víðtækum breytingum á uppsetningu fjárl. og gerð ríkisreiknings. Jafnvíðtæk breyting á öllu reikningshaldi ríkisins krefst mikils undirbúnings, en gert var ráð fyrir sem nauðsynlegri byrjunaraðgerð í því sambandi, að reikningum ríkissjóðs fyrir árið 1965 yrði lokað í árslok. Áður hefur það verið venja um langt árabil að halda reikningum opnum fram á næsta ár. Var tilgangurinn þá sá að færa öll viðskipti, sem tilheyrðu hverju ári, á reikninga viðkomandi árs, enda þótt raunverulegar greiðslur færu fram eftir áramótin. Voru slíkar færslur síðan látnar hafa áhrif á sjóðsinnstæður hjá ríkisféhirði, sem þannig var einungis bókhaldslegur sjóður, en sýndi mun hærri innstæður en raunverulegur sjóður, vegna þess að þær inngreiðslur, sem fóru fram eftir áramótin, voru jafnan mun hærri en útgreiðslur, sem inntar voru af hendi á sama tíma. Að þessu sinni er greiðsluafkoman hins vegar miðuð við raunverulega sjóðshreyfingu, og verður sá háttur á hafður framvegis. Þetta veldur nokkru ósamræmi í samanburði við fyrri ár, en misræmið er einkum fólgið í því, að í stað áðurnefndra sjóðfærslna eftir áramót eru færri leiðréttingaliðir á eignahreyfingareikningi vegna oftaldra tekna og gjalda, sem þegar hafa verið færð á rekstrarreikning og í sumum tilfellum á fjárlagaliði eignahreyfingareiknings. Nettóupphæð þessara leiðréttingaliða árið 1965 varð samtals rúmar 209 millj. kr. og er fyrst og fremst fólgin í liðunum vangreiddar tekjur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, vangreiddar tekjur frá innheimtumönnum og geymslufé. Þetta veldur að sjálfsögðu því, að borið saman við fyrri ár eykst halli á eignahreyfingareikningi sem þessari upphæð nemur.

Vegna þessara víðtæku breytinga yrði greiðslujafnaðaryfirlit mjög villandi borið saman við fyrri ár, og var því sá kostur valinn að birta ekki greiðslujafnaðaryfirlit með ríkisreikningi í þetta sinn. Það mun hins vegar verða gert í sambandi við ríkisreikninginn fyrir árið 1966. Að sjálfsögðu verður þó þrátt fyrir þessar bókhaldsbreytingar að gera sér grein fyrir raunverulegum greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1965, og með því að skoða breytingar á viðskiptareikningum og raunverulegum sjóði hjá ríkisféhirði um áramót kemur í ljós, að greiðsluhalli á árinu 1965 hefur verið 90.7 millj. kr. Á árinu 1964 var greiðsluhalli 253.2 millj. kr., og hefur greiðsluhalla þessara tveggja ára verið mætt með yfirdráttarskuld á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum. Koma þar á móti 100 millj. kr., sem lagðar voru til hliðar af greiðsluhagnaði ársins 1963.

Við undirbúning fjárlaga ársins 1966 var mönnum ljóst, að greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1965 mundi verða nálægt því, er raun ber vitni. Hallarekstur ríkissjóðs á þenslutímum hefur að sjálfsögðu alvarleg áhrif á efnahagskerfið, enda má segja, að um það hafi ekki verið ágreiningur á síðasta Alþ., að tryggja yrði greiðsluhallalausan ríkisbúskap á þessu ári, enda þótt menn væru ekki á einu máli um þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar af hálfu ríkisstj. í þessu skyni. Enda þótt enn verði ekki sagt með vissu um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári, er þó ljóst, að þessu nauðsynlega takmarki verður náð og jafnvel líklegt, að um töluverðan greiðsluafgang geti orðið að ræða. Stafar það fyrst og fremst af þróun mála, sem enginn gat séð fyrir, er fjárlög ársins voru afgreidd, enda komu þá ekki fram neinar raddir um það, að auðið væri að áætla tekjur ríkissjóðs á árinu 1966 hærri en gert var í þeirri tekjuáætlun Efnahagsstofnunarinnar, sem lögð var til grundvallar við ákvörðun tekjuáætlunar fjárl. Hin geysimikla síldveiði allt fram til áramóta á s.l. ári og stóraukin peningavelta og kaup hafa getað ]eitt til miklu meiri innflutnings og þar af leiðandi veltuaukningar á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir. Samkv. áætlun Seðlabankans á miðju þessu ári er gert ráð fyrir, að innflutningur verði 16–17% meiri í ár en á árinu 1965. Var aukningin raunar mun meiri 5 fyrstu mánuði ársins, en minni nú síðustu mánuðina. Gæti því svo farið, að tekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum yrðu 250–300 millj. kr. hærri en fjárlög gera ráð fyrir. Söluskattur hlýtur þá jafnframt að fara fram úr áætlun, er gæti numið 100–150 millj. kr. Þá hefur orðið mikil aukning á sölumagni áfengis og tóbaks á þessu ári. Er sú aukning svo mikil, að hún verður ekki skýrð með aukinni neyzlu, heldur hljóta hér einnig að koma til hagstæð áhrif af hinum nýju reglum um tollfrjálsan innflutning. Ef þessi aukning helzt út árið, má gera ráð fyrir 50–75 millj. kr. umframtekjum á þessum lið. Þá er ljóst, að tekju- og eignarskattur mun fara töluvert fram úr fjárlagaáætlun, enda þótt frádráttarliðir hafi hækkað um 12.5% samkv. skattvísitölu, sem ákveðin var með hliðsjón af meðallaunabreytingum á árinu og þó talsvert hærri en hækkun framfærsluvísitölu. Má gera ráð fyrir, að innheimtur tekju- og eignarskattur á árinu fari a.m.k. 50 millj. kr. fram úr áætlun. Loks er einn tekjuliður ríkissjóðs, sem mun verulega fara fram úr áætlun, og er það leyfisgjald af bifreiðum. Á s.l. ári varð mjög mikill samdráttur í bifreiðainnflutningi, en hann hefur aftur vaxið stórlega á þessu ári. Snemma á árinu var tekið upp 30% leyfisgjald af innfluttum jeppum, þar eð jeppar eru nú ekki síður fluttir inn til kauptúna og kaupstaða en til notkunar í sveitum. Tekjur af því gjaldi verða ekki miklar á þessu ári, þótt innflutningur jeppa hafi verið mjög mikill. þar eð þeir höfðu flestir verið pantaðir í ársbyrjun og leyfisgjald var ekki innheimt af þeim jeppum. Má gera ráð fyrir, að leyfisgjöld af bifreiðum geti farið yfir 30 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Líklegt er, að aðrir tekjuliðir ríkissjóðs verði nálægt áætlun fjárlaga.

Lögð hefur verið mikil áherzla á að forðast allar greiðslur umfram heimildir fjárl. og öllum kostnaðarliðum haldið svo í skefjum sem frekast hefur verið unnt. Er þó auðvitað aldrei hægt alveg að komast hjá áföllum, annaðhvort vegna óvæntra atvika eða vegna rangrar fjárlagaáætlunar, einkum í sambandi við lögboðin framlög. Að undanskildum nokkrum liðum, sem ég mun sérstaklega víkja að, geri ég mér þó vonir um, að ekki verði um neinar verulegar umframgreiðslur að ræða, og þykir mér rétt að láta það koma fram, að öll ráðuneyti hafi verið mjög samhent fjmrn. um það að sporna gegn umframgreiðslum og forðast öll útgjöld, sem hægt hefur verið að komast hjá. Tel ég enda með öllu fráleitt, að ríkisstj. taki sér fjárveitingavald nema í þeim tilfellum, þegar ógerlegt er að bíða ákvarðana Alþ. Á þetta ekki hvað sízt við um ýmsar styrkbeiðnir, sem oft er leitað með til ráðuneytisins eftir afgreiðslu fjárl., jafnvel eftir að fjvn. hefur synjað þeim Í launaliðum fjárl. ársins 1965 er aðeins reiknað með rúmlega 3% verðlagsuppbót, en verðlagsuppbótin er nú orðin 15.25%. Þá er hvorki reiknað með 4% launahækkun opinberra starfsmanna á s.l. sumri, sem kom til eftir undirbúning fjárlagaáætlunar, né heldur 7% launahækkun samkv. ákvörðun kjaradóms á s.l. hausti. En til þess að mæta þessum launahækkunum, sem að nokkru leyti voru séðar fyrir við afgreiðslu fjárl., voru veittar á 19. gr. fjárl. í einu lagi 107 millj. kr. vegna launahækkana. Var þó sýnt, að ef um verulega vísítöluhækkun yrði að ræða, er bæði orkaði á laun og tryggingabætur, mundi þessi fjárhæð alls ekki nægja. Enda er reyndin sú, að gera má ráð fyrir, að launaútgjöld ríkissjóðs á þessu ári fari um 90 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga.

Þegar fjárlög voru afgreidd, hafði fiskverð ekki verið ákveðið, en gert hafði verið ráð fyrir því, að auðið yrði að mæta svipaðri aðstoð við sjávarútveginn og árið 1965 með lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði innanlands. Endanlega var þó fallizt á að auka aðstoð við sjávarútveginn um 30 millj. kr., upp í 80 millj. Var sýnt, að draga yrði mjög verulega úr niðurgreiðslum, ef auðið átti að verða að afla alls þessa fjár á. þann hátt. Varð þó að ráði að fella að sinni aðeins niður niðurgreiðslur á smjörlíki og fiski, og hafði raunar af ýmsum öðrum ástæðum verið talið æskilegt að fella niður fiskniðurgreiðslur. Þar er niðurfelling þessara niðurgreiðslna náði aðeins til 8 mánaða ársins, sparast ríkissjóði ekki nema um 40 millj. kr., en hins vegar hefur hin stórfellda lækkun smjörverðs í sumar leitt til verulega aukinnar neyzlu þessarar vöru, þannig að um getur orðið að ræða útgjaldaauka allt að 25 millj. kr., því að ekki mátti lækka niðurgreiðslurnar, ef sá árangur átti að nást, sem að var stefnt með smjörverðslækkuninni. Kostnaður við niðurgreiðslur var hins vegar nokkuð of hátt áætlaður í fjárl., og má því gera ráð fyrir, að um hreinan 30 millj. kr. sparnað verði að ræða á niðurgreiðslulið. Þessar tölur eru miðaðar við niðurgreiðslur, sem í gildi voru, þegar fjárlagafrv. var samið, og aðeins nefndar hér til að gefa mynd af afleiðingum þeirra ráðstafana, sem gerðar voru fyrr á árinu.

Um veruleg aukaútgjöld mun hins vegar verða að ræða síðustu mánuði ársins vegna þegar ákveðinna og áformaðra nýrra niðurgreiðslna á vöruverði, en á þessu stigi er ekki auðið að áætla þau útgjöld. Vafalaust verður um töluverða umframgreiðslu að ræða á fjárveitingu til Skipaútgerðar ríkisins, enda þótt vandamál þess fyrirtækis hafi nú verið tekin nýjum tökum, sem ég mun síðar gera grein fyrir. Útflutningsuppbætur á landbúnaðar

vörum munu hafa verið nokkuð vanáætlaðar, enda erfitt að áætla þann útgjaldalið nákvæmlega. Þá er og ljóst, að ræktunarframkvæmdir hafa haldið áfram með vaxandi hraða, þannig að um nokkur umframútgjöld verður að ræða á þeim lið og einnig á framlögum ríkissjóðs til þeirra sjóða atvinnuveganna, sem miðast við sölu afurða. Loks má gera ráð fyrir, að ýmsar ríkisstofnanir þurfi á nokkuð auknu rekstrarfé að halda vegna aukinnar veltu og tilkostnaðar.

Þegar saman eru taldir allir reikningar ríkissjóðs og ríkisstofnana í Seðlabankanum, var 1. okt. s.l. 145 millj. kr. innistæða. En yfirdráttarskuld á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs nam þá 248.5 millj. kr. og er þá skuldfærður allur greiðsluhalli áranna 1964 og 1965. 1. okt. í fyrra var yfirdráttarskuld á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs 585 millj. kr., og hefur því staðan á hinum almenna viðskiptareikningi batnað á þessum 12 mánuðum um 336.5 millj. kr.

Skal þá vikið að fjárlagafrv. fyrir árið 1967 og þeirri meginstefnu, sem það byggist á. Í fjárlagaræðu minni s.l. haust lét ég í ljós þá skoðun, að ríkisreksturinn væri nú orðinn svo umfangsmikill, að það væri með öllu óviðunandi, að undirbúningur fjárlaga og eftirlit með ríkisrekstrinum og framkvæmd fjárl. væru í rauninni aukastörf í fjmrn., miðað við fámennt starfslið þess, og hér væri um svo mikla fjármuni að ræða, að ekki væri áhorfsmál að leggja í nokkurn kostnað til þess að koma þessu máli í viðunandi horf, enda mundi sá kostnaður margfaldlega skila sér aftur, þegar frá liði. Í samræmi við þetta sjónarmið ákvað ríkisstj. snemma á þessu ári að setja á stofn í fjmrn. sérstaka fjárlaga- og hagsýslustofnun undir forustu hagsýslustjóra ríkisins, er hafa skyldi það tvíþætta verkefni að undirbúa fjárlög og fylgjast með framkvæmd þeirra og hafa forustu um endurbætur í ríkisrekstrinum, leita að tæknilegum nýjungum og benda á leiðir til betri hagnýtingar á ríkisfé, aukins sparnaðar og hagræðingar. Öll þessi atriði hafa grundvallarþýðingu fyrir heilbrigða fjármálastjórn ríkisins og skynsamlega hagnýtingu ríkisfjár. Til þess að tryggja svo sem bezt reikningslega yfirsýn yfir ríkisbúskapinn og gefa Alþ. kost á skýrara yfirliti um einstaka þætti hans eru l. um gerð ríkisreiknings og fjárl., sem síðasta Alþ. samþykkti. Hagsýslustörfin eru svo náskyld gerð fjárlagaáætlana, að rétt þótti að láta þessi verkefni fylgjast að. Á undanförnum árum og áratugum hefur að þeim málum verið unnið af ýmsum sparnaðarnefndum og síðustu árin af sérstökum trúnaðarmönnum um hagsýslumál undir forustu ríkisendurskoðanda. Kom þá hvað bezt í ljós sá mikli annmarki, að hagsýslan og fjárlagagerðin voru ekki tengd saman. Ríkisendurskoðunin mun að sjálfsögðu áfram fylgjast vandlega með útgjöldum ríkisstofnana, og það verður að vera náið samband milli hennar og hagsýslustofnunarinnar. Þótt hér sé raunverulega um nýja stjórnardeild að ræða, eru hagsýslumálin ekki nýr útgjaldaliður ríkissjóðs, því að á árinu 1964 var varið um 900 þús. kr. til ýmiss konar hagsýslustarfa. En í áætlun fjmrn. nú er aðeins gert ráð fyrir embætti hagsýslustjóra, og er fyrirhugað, að honum verði til aðstoðar fulltrúi í ráðuneytinu.

Hin nýja fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur annazt undirbúning og gagnasöfnun í sambandi við fjárlagafrv. fyrir árið 1967. Fullyrði ég, að sú reynsla, sem þegar er fengin af hinu nýja skipulagi, réttlæti fullkomlega tilveru þess. Hagsýslustjóri gat helgað sig algerlega undirbúningi fjárl. og gat m.a. rætt fjárlagaáætlanir allra helztu ríkisstofnana við forstöðumenn þeirra persónulega og fengið þannig mun betri yfirsýn og skýringar á hinum einstöku liðum en áður hefur verið auðið að leita eftir í sambandi við undirbúning fjárl. Munu þessar athuganir geta greitt verulega fyrir störfum fjvn., enda er ætlazt til, að hagsýslustjóri verði henni til ráðuneytis.

Fjárlagagerðin sjálf hefur vitanlega verið með hefðbundnum hætti, þar eð ekki hefur verið auðið að sjálfsögðu að kryfja svo til mergjar nú þegar þá þætti ríkiskerfisins, sem helzt kæmi til mála að breyta. En það er engum efa bundið, að þörf er rækilegrar endurskoðunar á þeim grundvallarsjónarmiðum og reglum, er ákvarða veigamikla þætti ríkisútgjalda. Með þessu er ekki sagt, að auðið sé að koma við stórfelldum samdrætti í útgjöldum ríkisins. En það er hægt á mörgum sviðum að hagnýta mun betur það fé, sem til ráðstöfunar er. Er það hvað veigamesti þátturinn í hlutverki fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar að kanna þau mál í samráði við önnur ráðuneyti. Sennilega munu ýmsir benda á, að ekki hafi þessi rækilegi undirbúningur leitt til lækkunar ríkisútgjalda. Þetta er rétt, en þó ekki nema að nokkru leyti. Einmitt þessi rækilegi undirbúningur hefur haft þær afleiðingar, að hægt hefur verið með fullum rökum að synja um margvislegar fjárbeiðnir stofnana og lögð hefur verið áherzla á að sporna gegn allri óeðlilegri þenslu, en jafnframt hefur verið leitazt við að áætla öll óumflýjanleg útgjöld raunhæf. En hingað til hefur vegna tímaskorts allt of mikið verið að því gert að skera af of miklu handahófi niður ýmsa útgjaldaliði ríkisins með þeim einum árangri, að komið hefur til mikilla umframgreiðslna, og hefur þetta dregið úr nauðsynlegu aðhaldi að forstöðumönnum ríkisstofnana um að gera raunhæfar áætlanir, og dæmi munu til þess, að sumir forstöðumenn hafi áætlað fyrir niðurskurðinum.

Festa og aðhald að öllum ríkisstofnunum og framkvæmdastofnunum ríkisins er hin brýnasta nauðsyn. Og stofnunum verður að vera það ljóst, að þær verða að sætta sig við fjárveitingar í fjárl. En þá verða fjárveitingarnar líka að vera byggðar á svo raunsæju mati allra aðstæðna, að hægt sé með fullum rökum að standa gegn umframgreiðslum, Í anda þessarar meginstefnu er fjárlagafrv. nú samið, og það er skoðun okkar, sem að undirbúningi þess höfum starfað, að hægt sé með fullum rökum að krefjast þess af öllum fjárlagastofnunum, að þær haldi útgjöldum sínum innan ramma fjárlagaáætlunar miðað við núverandi aðstæður. Tekjuáætlun frv. er við það miðuð, að engir nýir skattar verði á lagðir, heldur aðeins stuðzt við núgildandi tekjustofna.

Tekjuáætlunin hefur verið gerð af Efnahagsstofnuninni. Þótt tekjuáætlun stofnunarinnar hafi reynzt til muna of lág fyrir yfirstandandi ár, er óhugsandi með öllu, að um sambærilega aukningu geti orðið að ræða á næsta ári. Horfur varðandi verðlag sjávarafurða eru ekki góðar, og um verulega framleiðsluaukningu frá síðasta ári getur naumast orðið að ræða, enda var síldveiði þá meiri en nokkru sinni áður eru dæmi til. Það verður því að teljast til fyllstu bjartsýni að reikna með jafnmiklum innflutningi á árinu 1967 eins og árinu 1966, 6200 millj, kr., svo sem gert er í fjárlagaáætluninni, því að aukning innflutningsins í ár er óvenjulega mikil, svo að markaðurinn hlýtur á ýmsum sviðum að mettast og frekari aukning enda óhugsanleg af gjaldeyrisástæðum. En nettótekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum eru áætlaðar 1829 millj. kr. Við ákvörðun söluskatts er reiknað með 5% aukningu hreinnar veltu frá árinu 1966 og er þannig reiknað með nettósöluskattstekjum 1178 millj. kr. Hefur þá í báðum tilfellum verið dregið frá framlag til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, er mundi þá nema samtals 198 millj. kr. Þar eð gera verður ráð fyrir, að hin mikla söluaukning Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins á þessu ári stafi að töluverðu leyti af strangari tollheimtu, er ekki hægt að gera ráð fyrir hliðstæðri aukningu á næsta ári. Eru nettótekjur af þessum lið áætlaðar 548 millj. kr. og þá reiknað með óbreyttu verðlagi. Tekju- og eignarskatt er mjög erfitt að áætla, bæði vegna óvissu um tekjuaukningu og skattvísitölu. Þessar tekjur eru áætlaðar 596 millj. kr. auk hins sérstaka álags vegna húsnæðismála, 40 millj. Er því ljóst, að þessi tekjuliður er í algeru hámarki. Gert er ráð fyrir sama bifreiðainnflutningi og í ár. Má það raunar teljast óvarlegt, því að reynslan sýnir, að sveiflur eru miklar í þessum innflutningi. Kann þó að vera, að fjárlagaáætlun standist með hliðsjón af því, að leyfisgjald af jeppabifreiðum kemur fyrst til að nokkru marki á næsta ári. Aðrir tekjuliðir ríkissjóðs eru áætlaðir svipað og á yfirstandandi ári.

Samtals er gert ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1967 nemi 4646 millj. 105 þús. kr., og er það 851 millj. kr. hærra en í fjárl. ársins 1966 eða 22.4% hækkun. Áætlað er, að rekstrarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 4265 millj. kr., sem er rúmum 18% meira en á yfirstandandi ári. Til viðbótar koma svo útgjöld vegna afborgana af lánum og til eignaaukningar 236.3 millj. Til þess að meta það, hvort hér sé um eðlilega hækkun að ræða, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim helztu hækkunum útgjalda, er til hafa komið, síðan fjárlög yfirstandandi árs voru afgreidd. Skiptir hækkun fastra launa hér mestu máli, en þau hafa hækkað um 25% frá fjárlagaáætlun 1966. Venjulegur skrifstofukostnaður mun hafa hækkað um 20–25%, ferðakostnaður um 25–30°/ , húsaleiga, ljós, hiti og ræsting um 16–20% og pappír og prentkostnaður nálægt 25%. Sýna þessar staðreyndir, að ekki er um að ræða neina óeðlilega útþenslu ríkiskerfisins.

Mun ég nú víkja nokkuð að ýmsum helztu útgjaldaliðum fjárl., en með hliðsjón af því, að grg. er nú ýtarlegri en áður hefur verið, mun ég aðeins drepa á nokkur meginatriði, en vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar.

Fjárlagaáætlun Pósts og síma er ekki í samræmi við rekstraráætlun stofnunarinnar. En þótt mikilvægt sé, að þessi stofnun geti eflt starfsemi sína með eðlilegum hætti og veitt nauðsynlega þjónustu, verður að telja, að útgjöld stofnunarinnar ár hvert verði að takmarkast við tekjur af eigin rekstri og hugsanlega eitthvert lánsfé eftir atvikum. Tekjur stofnunarinnar hækka mjög mikið miðað við fjárlagaáætlun yfirstandandi árs vegna gjaldskrárbreytingar um síðustu áramót. Lögð hefur verið áherzla á að breyta reikningshaldi stofnunarinnar þannig, að hægt verði að fá gleggri sundurliðun rekstarútgjalda og fjárfestingarútgjalda. Er því nú gerð veruleg breyting á uppsetningu fjárlagaáætlunar stofnunarinnar.

Nú er í fyrsta sinn gerð áætlun um rekstur sjónvarps miðað við heilt ár og heildartekjur áætlaðar samtals rúmar 56 millj. kr. Er þó enn vafalaust margt óljóst um raunverulegan rekstrarkostnað sjónvarpsins. En leggja verður á það ríka áherzlu, að útgjöld sjónvarpsins í framtíðinni verði takmörkuð við tekjur þess af afnotagjöldum og auglýsingum, svo sem verið hefur um hljóðvarpið. Í rekstraráætlun hljóðvarpsins eru 5.3 millj. kr. áætlaðar til FM-sendistöðva til þess að bæta hlustunarskilyrði á ýmsum stöðum um landið, en þeim hefur sums staðar verið mjög ábótavant og mjög eðlileg krafa fólks í strjálbýlinu, að það fái sæmilega notið síns hljóðvarps, þegar þéttbýlissvæðin hafa einnig fengið sjónvarp.

Í frv. er gert ráð fyrir óbreyttum rekstri Viðtækjaverzlunar ríkisins, en ríkisstj. hefur síðar ákveðið að leggja Viðtækjaverzlunina niður. Hefur rekstur Viðtækjaverzlunarinnar síðustu árin reynzt mjög óhagstæður og sannreynt, að auðið á að vera að tryggja meiri tekjur af viðtækjasölunni með því að láta hana vera í höndum einstakra innflytjenda. Sérstakra aðgerða er þörf í sambandi við rekstur Landssmiðjunnar, og hefur nefnd á vegum iðnmrn. unnið að ýtarlegri athugun þess máls. Mun ríkisstj. á næstunni taka ákvörðun um framtíð fyrirtækisins.

Vegna offramleiðslu landbúnaðarvara telur ríkisstj. nauðsynlegt að draga úr búrekstri á vegum ríkisins. Hefur verið ákveðið að takmarka búrekstur á Hvanneyri og á Hólum svo sem verða má, en leggja niður búrekstur að Vífilsstöðum, og stefnt er að því að leggja niður kúahald á tilraunastöðvum landbúnaðarins. Rekstur skólabúanna hefur undanfarin ár verið mjög óhagstæður og einnig rekstur Bessastaðabús, en önnur bú hafa verið rekin hallalaust.

Áætlað er, að alþingiskostnaður muni hækka um 9 millj. kr. og heildarkostnaður við stjórnarráðið um 12 millj. kr., og er á hvorugum þessum liðum um neina óeðlilega aukningu útgjalda að ræða. Sama er að segja um framlög til utanríkismála, sem hækka um 5.5 millj. kr. Heildarfjárhæð tillaga til alþjóðastofnana lækkar nokkuð, og stafar einkum af því, að nú fellur niður viðbótarframlag til Sameinuðu þjóðanna, sem veitt var á þessu ári, 3.4 millj. kr. Hins vegar hækkar framlag vegna þátttöku Íslands í heimssýningunni í Kanada um svipaða upphæð. Heildarhækkun á fjárveitingum til Alþingis, stjórnarráðs og utanríkismála er rúm 20% frá núgildandi fjárlögum, og er sú hækkun ekki óeðlileg, þar sem meginhluti þessara útgjalda er laun.

Ýmsir útgjaldaliðir vegna dómgæzlu og lögreglustjórnar hækka meira en nemur hinum almennu hækkunum, og á það allt sínar skýringar.

Kostnaður við sakadómara- og saksóknaraembættin hækkar þannig um 30%, borgardómaraembættið í Reykjavík um rúm 40% og borgarfógetaembættið í Reykjavík um 37%. Húsnæði borgardómaraembættisins var orðið algerlega ófullnægjandi, en nýja húsnæðið er mun dýrara, og vegna vaxandi starfa við öll þessi embætti hefur reynzt óumflýjanlegt að bæta við nokkru starfsliði. Hafa enda hvað eftir annað bæði hér á Alþ. og annars staðar komið fram kvartanir um óhæfilegan seinagang í meðferð dómsmála. Kostnaður við lögreglustjóraembættið í Reykjavík hækkaði einnig óeðlilega mikið, en það stafar annars vegar af vanáætlun og hins vegar af aukakostnaði vegna flutnings í nýju lögreglustöðina. Virðist mega ganga út frá því sem algildri reglu, að bætt starfsaðstaða stofnana leiði alltaf af sér aukinn kostnað, þótt í fljótu bragði kunni slíkt að virðast einkennilegt.

Á kostnaði við embætti sýslumanna, bæjarfógeta og lögreglustjóra utan Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar verður einnig nokkur aukahækkun, sem að nokkru stafar af vanáætlun í fjárlögum 1966 og að nokkru af lítils háttar fjölgun starfsfólks.

Nokkur aukahækkun verður á kostnaði við ríkislögreglu og hluta ríkissjóðs í almennum löggæzlukostnaði, vegna þess að lögregluþjónar færðust almennt upp um einn launaflokk við síðasta kjaradóm. Ýmis annar löggæzlukostnaður hækkar mjög mikið eða um 50%. Hér er um lögbundin útgjöld að ræða, og stafar þessi hækkun af því, að safnazt hafa fyrir á síðustu árum gjaldfallnar kröfur, sem að sjálfsögðu þýðir ekki annað en að greiða.

Kostnaður vegna vinnuhælisins á Litla Hrauni hækkar óeðlilega mikið, og hefur dómsmrn. nú til sérstakrar athugunar leiðir til að koma rekstrinum í betra horf.

Á fjárveitingu til almannavarna er töluverð hækkun umfram eðlilegan kostnaðarauka, og er þó gert ráð fyrir mun minni fjárveitingu en stofnunin fór fram á. Hefur verið safnað allmiklum birgðum ýmiss konar nauðsynja, og er nú unnið að byggingu birgðageymslu og skipulagningu á starfsemi stofnunarinnar á þann hátt, að hún geti veitt aðstoð á sem breiðustum grundvelli. Er hér tvímælalaust um mikilvæga starfsemi að ræða, ef rétt er á haldið.

Á kostnaði við landhelgisgæzlu verður engin óeðlileg hækkun. Samningur hefur nú verið gerður um smíði nýs varðskips, sem mun kosta um 83 millj. kr., en vegna sjóðseignar landhelgissjóðs verður ekki þörf sérstakrar fjárveitingar til skipasmíði þessarar á næsta ári. Síðar á ekki heldur að koma til nein teljandi hækkun á framlögum til landhelgisgæzlunnar vegna smíði þessa skips, því að afborgun af láni vegna Óðins er nú að ljúka. Hitt er ljóst, að nauðsynlegt er að stefna að því að losa landhelgisgæzluna við hin minni skip, sem koma að sáralitlum notum, en eru mjög dýr í rekstri. Hefur dómsmrn. það mál nú til sérstakrar athugunar.

Framlög til bindindisstarfsemi eru hækkuð nokkuð með hliðsjón af till. mþn. í áfengismálum. Hér er þó ekki um verulegar hækkanir að ræða, enda liggja ekki fyrir nauðsynlegar áætlanir um auknar áfengisvarnir í samræmi við till. mþn. Mun Alþ. till. n. til athugunar.

Vegna hins stóraukna innflutnings hafa störf tollstjóraembættisins í Reykjavík aukizt gífurlega. Hefur þannig afgreiðslufjöldi tollskjala aukizt um rösk 11% á einu ári. Er mjög mikilvægt, að ekki sé óeðlilegur dráttur á afgreiðslu tollskjala, og hefur því reynzt óumflýjanlegt að fjölga starfsliði stofnunarinnar allverulega. Leiðir þetta af sér 36% hækkun útgjalda við tollstjóraembættið. Kostnaður við tollgæzlu vex einnig verulega umfram almennar hækkanir, og stafar það af beinni aukningu tollgæzlunnar. Er nú sérstaklega að því stefnt að auka tollgæzlu utan Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Er það hin brýnasta nauðsyn, því að eftir að hert hefur verið tollgæzla í Reykjavík og nágrenni, vex hættan á smygli annars staðar á landinu. Hefur að undanförnu verið unnið að ýmiss konar endurskipulagningu tollgæzlunnar og á það lögð hin ríkasta áherzla að koma með öllum ráðum í veg fyrir smygl. Er ekki sjáandi í aukinn kostnað til þess að uppræta þessa meinsemd, enda enginn vafi, að slíkur kostnaðarauki skilar sér margfaldlega aftur.

Á þessu ári var sett reglugerð um tollfrjálsan innflutning ferðamanna og farmanna á sjó og í lofti. Sé ég ástæðu til að þakka farmönnum og flugmönnum skilning þeirra á nauðsyn þessarar reglugerðar. Var með reglugerðinni lögð áherzla á að koma þessum málum í viðunandi horf án þess að sýna nokkra óbilgirni. Auðvitað varð ekki hjá því komizt að skerða nokkuð þann innflutning, sem tíðkazt hafði með ólöglegum hætti, en engu að síður er þó réttur bæði flugmanna og farmanna samkvæmt reglugerðinni meiri en í nálægum löndum og réttur ferðamanna svipaður því og annars staðar tíðkast. Hin mikla aukning ferðalaga til útlanda eykur að sjálfsögúu mjög tollfrjálsan innflutning ýmissa vara, einkum fatnaðar. Við því verður ekkert gert, en lögð verður áherzla á að framkvæma reglugerðina af lipurð, en þó með fullkominni festu og viðurlögum, ef viðleitni verður sýnd til brota.

Unnið hefur verið að heildarendurskoðun laganna um tollheimtu og tolleftirlit, og er frv. að vænta á þessu þingi.

Á þessu ári var hækkuð verulega fjárveiting til greiðslu kostnaðar við ríkisskattanefnd og skattstofur, þar eð augljóst var, að þau útgjöld höfðu áður verið áætluð allt of lág. Rækileg athugun hefur leitt í ljós, að nauðsynlegt er að hækka enn þennan útgjaldalið nokkru meira en svarar almennum hækkunum, enda námu umframgreiðslur á þessum lið 11 millj. kr. á árinu 1965. Má nú vænta þess, að áætlunin sé raunhæf.

Þegar dómar eru felldir um kostnað við skattheimtuna, verða menn að hafa í huga, að í upphafi var erfitt að gera sér til hlítar grein fyrir því, hve víðtæk starfsemi yrði í sambandi við hið nýja embætti ríkisskattstjóra, einkum með hliðsjón af starfi skattrannsóknardeildarinnar, sem var nýr þáttur í skattakerfinu. Reynslan hefur sýnt, að þessi nýskipan skattamála hefur mjög stuðlað í senn að samræmingu skattálagningar og betri skattheimtu, og hafa ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra verið tryggðir þeir starfskraftar, sem um hefur verið beðið, hvað fjárveitingu snertir, en erfiðlega hefur reynzt að fá nægilega þjálfað starfslið.

Mér þykir rétt að gefa hér nokkurt yfirlit um starfsemi skattrannsóknardeildarinnar til þessa, þar eð eðlilegt er, að menn hafi áhuga á að fylgjast með starfi hennar, sem er nýmæli í skattakerfinu, enda þótt heimildir þær til rannsóknar, sem hún byggist á, hafi flestar verið í gildi um áratugi. En því miður hefur skattaeftirlitið jafnan verið allt of mikið í molum. Frá því að rannsóknardeildin hóf starfsemi sína, hefur hún skilað til meðferðar hjá ríkisskattanefnd alls um 142 málum. Af þessum málum hafa 84 verið rannsóknarmál, en 58 hafa verið svokölluð hliðarmál þeirra, þ.e.a.s. hafa leitt til skattbreytinga hjá 58 aðilum vegna upplýsinga, sem fram komu víð rannsókn hjá öðrum, og er hér þá yfirleitt um launþega að ræða. Auk þess hefur deildin haft til rannsóknar 31 mál, þar sem ekki þótti ástæða til skattbreytinga. Einu máli hefur verið vísað til sakadómara og tveimur málum til umsagnar saksóknara ríkisins. Í gangi eru nú til viðbótar 20–30 rannsóknarmál, sem send verða ríkisskattanefnd til afgreiðslu á næstunni, auk fjölda hliðarmála, sem annaðhvort verða falin skattstjóra eða ríkisskattanefnd til afgreiðslu.

Ríkisskattanefnd hefur lokið skattaákvörðun í þeim 142 málum, sem til hennar hefur verið vísað. Hafa þær ákvarðanir leitt til hækkunar tekjuskatts hjá 136 gjaldendum, samtals um 9.6 millj. kr., eignarskatts hjá 43 gjaldendum, samtals rúmar 700 þús. kr., söluskatts hjá 74 gjaldendum, samtals 4.3 millj., dráttarvaxta á söluskatti hjá sömu gjaldendum, samtals 1.6 millj., aðstöðugjaldi hjá 75 gjaldendum, samtals rúm 1 millj. Hefur heildarhækkun gjalda hjá þessum 142 gjaldendum numið rúmum 17.3 millj. kr. Ákvörðun útsvara hjá þessum gjaldendum er enn ekki lokið nema að litlu leyti, en hækkun útsvara, sem þegar er vitað um, nemur rúmum 3.7 millj. kr. Skattsektanefnd hefur kveðið upp úrskurð í 80 málum, og leiddi úrskurður hennar til sektaákvörðunar hjá 56 gjaldendum, að heildarupphæð rúmar 5.3 millj. kr. 10 mál voru afgreidd án sektar, en 14 mál eru enn í afgreiðslu og athugun.

Um það verður ekkert fullyrt, hvaða áhrif skattrannsóknirnar hafa haft á framtöl manna, en það var að sjálfsögðu megintilgangurinn að koma framtölum almennt í lag, því að refsingar eru aðeins nauðsynlegt neyðarúrræði til aðvörunar. Ýmislegt bendir þó til þess, að skattframtöl hafi batnað, þó að tölur sé ekki hægt að nefna í því sambandi, og það er engum efa bundið, að starfssvið skattrannsóknardeildarinnar hefur veitt aukið aðhald. Nauðsynlegt hefur verið að framkvæma í vissum tilfellum hópathuganir, en annars mun deildin hafa lagt sig fram um að framkvæma rannsóknir hjá sem flestum starfsstéttum. Þeir skattgreiðendur, sem orðið hafa fyrir barðinu á rannsóknardeildinni, bera sig að vonum illa og telja sig ekki óheiðarlegri en marga aðra. Vissulega er þetta rétt. En það hlýtur öllum að vera ljóst, að bæði á þessu og mörgum öðrum löggæzlusviðum hitta aðgerðir löggæzlunnar menn mjög misjafnlega, ekki sízt þegar um víðtæka meinsemd er að ræða eins og skattsvikin. En það sjónarmið getur þó aldrei orðið viðurkennt, að einum eigi að hlífa, af því að ekki sé hægt að tryggja það örugglega; að annar sekur náist, og linkind í þeim málum, sem upp komast, hlyti að gera að litlu þann árangur af eftirlitsstarfinu, sem að er stefnt, en það er einmitt að fæla aðra frá að brjóta lögin af ótta við þung viðurlög, ef siðgæðistilfinningin ein er ekki nægilega sterk til að forða mönnum frá hinum ólögmæta verknaði. Það verður því ekki hjá því komizt að halda skattrannsóknunum áfram af fullum krafti. En hins vegar er þess mjög að vænta, að sá tími sé skammt undan, að menn þurfi ekki að kvarta undan þungum viðurlögum, elnmitt vegna þess, að skattsvikin hverfi.

Enn er kostnaður við fasteignamat áætlaður 10 millj. kr. á næsta ári. Hefur verið lögð áherzla á það við yfirfasteignamatsnefnd að hraða matinu sem mest, en hér er um mjög víðtækt og kostnaðarsamt mál að ræða. Nú mun um helmingi matsins lokið í kaupstöðum og um 80% í sveitum og kauptúnum, en matinu mun naumast verða lokið fyrr en á árinu 1968.

Kostnaður við ríkissjúkrahúsin hefur vaxið geysilega, eða sem svarar 62% frá fjárlögum þessa árs. Er þó gert ráð fyrir, að 100 kr. hækkun verði á daggjöldum sjúkrahúsanna frá næstu áramótum að telja. Langmest er hækkunin á Landsspítalanum, sem stafar af mjög mikilli aukningu starfsliðs vegna nýrra deilda, er teknar verða í notkun í nýbyggingu spítalans. Mjög erfitt er fyrir ráðuneytin að gera sér grein fyrir nauðsyn þessarar starfsmannafjölgunar, og hefur því orðið að byggja algerlega á áætlunum stjórnarnefndar ríkisspítalanna. Það er enginn efi, að brýn þörf var umbóta á sjúkrahúsamálum og tilkoma nýrra sjúkradeilda nauðsynleg. En ég efast um, að menn geri sér til hlítar grein fyrir hinum gífurlega rekstrarkostnaði sjúkrahúsa, miðað við nútímakröfur um búnað og starfslið.

Gert er ráð fyrir sérstakri 4 millj. kr. fjárveitingu til Landsspítalans til tækjakaupa, en brýna nauðsyn ber til, að þetta aðalsjúkrahús landsins sé sem bezt búið tækjum.

Hlutfallsleg hækkun verður mest hjá geðveikrahælinu á Kleppi, eða rúm 85%. Gert er ráð fyrir verulegri starfsmannafjölgun, sérstökum kostnaði við eftirmeðferð sjúklinga, er útskrifazt hafa, og verulegum kostnaði við viðhald og endurbætur á sjúkradeildum, sem ekki má lengur dragast. Í heimildagrein fjárlagafrv. er lagt til, að veitt sé heimild til kaupa á starfsmannahúsi, ef hagkvæmt hús er fáanlegt, en gera má að öðru leyti ráð fyrir, að vandamál geðsjúklinga verði það næsta, er leysa þurfi, eftir að lokið er þeim stórframkvæmdum Landsspítalans, sem nú er unnið að og vonandi sést fyrir endann á að tveimur eða þremur árum liðnum.

Rétt er að skýra frá í þessu sambandi, að fallizt hefur verið á ósk Geðverndarfélags Íslands um, að félagið fái til sinna þarfa tekjur af auglýsingum, sem settar verða á eldspýtnabréf, er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins muni senn hefja sölu á. Er ætlunin að nota tekjurnar til að koma upp sérstöku dvalarheimili fyrir geðveila, sem þó eiga ekki heima á geðveikrahæli.

Kostnaður við önnur sjúkrahús hækkar verulega, en þó mismunandi mikið. Lagt er til að hækka fjárveitingu til byggingar sjúkrahúsa og sjúkraskýla um 4 millj. kr., og er þá hægt að fullnægja skylduframlögum í samræmi við gildandi lög. Byggingarframlög til ríkisspítalanna hækka um 10 millj. kr., og verður þó enn að gera ráð fyrir lántökum.

Sjúkrahúsin eru svo dýrar stofnanir, að nauðsynlegt er að leita allra úrræða til að leysa þessar þarfir á sem hagkvæmastan hátt. Þarf sérstaklega að gæta þess, að ekki séu margir aðilar að leysa sömu verkefnin, og þarf af þeim sökum að vera sem nánust samvinna milli allra þeirra aðila, er að þessum þýðingarmiklu málum starfa. Vinnur dómsmrn. og hagsýslustofnun fjmrn. nú að ýmsum athugunum á þessu sviði.

Ekki verður hjá því komizt að nefna hér samninga þá við lækna á ríkisspítölunum, sem gerðir voru á þessu ári og talið er að muni valda ríkisspítölunum útgjaldaaukningu á næsta ári sem nemur 14.5 millj. kr. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er, að læknar neyttu hér þeirrar aðstöðu sinnar að hafa í bókstaflegri merkingu líf fjölda fólks í sinni hendi og brutust undan launakerfi ríkisins. Læknar eiga vissulega allt gott skilið fyrir sin mikilvægu og erfiðu störf, en þeir gengu hér mun lengra en sæmilegt má teljast, og er hér um algera nauðungarsamninga að ræða. Vafalaust munu ýmsir liggja ríkisstj. á hálsi fyrir að hafa ekki tekið á þessu máli með hörku. En ég hygg, að flestir muni þó við nánari athugun sannfærast um, að hér var ekki með góðu móti auðið að koma við þvingunaraðgerðum, enda eru kjarakröfur lækna að verða stórt vandamál í mörgum löndum og vafasamt, að læknar hér hafi sýnt meiri óbilgirni en starfsbræður þeirra í ýmsum öðrum löndum. En þó að rétt sé að launa þessa mikilvægu stétt svo vel sem verða má, verður hún að eiga þá þegnhollustu við sitt litla þjóðfélag að beita það ekki fantatökum í skjóli aðstöðu sinnar. Ég skal ekki rekja þessa sögu nánar, en niðurstaðan varð sú, að gerður var sérstakur verksamningur víð þorra lækna ríkisspítalanna, þannig, að þeir eru ekki lengur fastir ríkisstarfsmenn, heldur vinna þeirra greidd eftir ákveðnum töxtum, sem samið var um, og er um mjög skamman uppsagnarfrest að ræða. Læknar þessir njóta ekki lengur réttinda sem opinberir starfsmenn og allar umræddar læknastöður eru raunverulega lausar, en tilgangslaust hefur þótt að auglýsa þær að sinni.

Þessi stórbylting á kjörum lækna hér í þéttbýlinu eykur að sjálfsögðu enn á vanda strjálbýlisins að fá viðhlítandi læknaþjónustu og gerir að litlu þær mikilvægu úrbætur, sem Alþingi hefur áður gert til að bæta úr læknaskorti í strjálbýlinu. Þrátt fyrir það, sem nú hefur gerzt, verður að vænta þess af hinum ágætu mönnum, sem skipa íslenzka læknastétt, að þeir leggi sig fram um í samráði við heilbrigðisstjórnina að finna viðhlítandi úrlausn á læknaskipunarmálum þjóðarinnar í heild.

Lagt er til að verja á næsta ári 29 millj. kr. til Skipaútgerðar ríkisins. Er jafnframt í heimildargrein lagt til að heimila að verja andvirði seldra skipa útgerðarinnar til kaupa á nýjum skipum og jafnframt að verja úr ríkissjóði eða taka að láni allt að 15 millj. kr. til að endurnýja skipakostinn og bæta vörugeymsluaðstöðu útgerðarinnar hér í Reykjavík. Í síðustu fjárlagaræðu lagði ég áherzlu á óhjákvæmilega nauðsyn þess að taka allan rekstur Skipaútgerðar ríkisins til gaumgæfilegrar endurskoðunar með það í huga að draga úr hinum gífurlega rekstrarhalla, sem hefur tvö síðustu árin verið yfir 40 millj. kr. á ári. Á liðnum árum hefur margoft verið gerð víðtæk athugun á rekstri Skipaútgerðarinnar, en ekki hefur tekizt að fá framkvæmdar þær endurskipulagningar, sem lagt hefur verið til að gera, og hefur í þess stað hallinn vaxið ár frá ári. Nefnd var skipuð á s.l. ári til að gera tilliggur um framtíð Skipaútgerðarinnar. Sýnt var, að gera yrði þegar bráðabirgðaráðstafanir, ef hinn mikli rekstrarhalli ætti ekki að halda áfram. Voru því snemma á þessu ári tilnefndir 2 menn, annar frá fjmrn. og hinn frá samgmrn., til þess að annast yfirstjórn útgerðarinnar ásamt forstjóranum, og var svo fyrir mælt, að þegar skyldu undirbúnar ráðstafanir til þess að draga verulega úr greiðsluhallanum, án þess þó að skerða að nokkru ráði þjónustu Skipaútgerðarinnar. Var stjórnarnefndinni heimilað að selja tvö skipanna, Esju og Skjaldbreið, og í haust var síðan tekið á leigu færeyskt skip, „Blikur“, sem er nýtt og hentar mjög vel til þessara siglinga. Hvort að ráði verður að kaupa þetta skip, verður ekki sagt á þessari stundu, en vel getur það komið til álita, því að það er miklu ódýrara í rekstri en Esja, en bæði Hekla og Esja eru óheyrilega dýrar í rekstri og fráleitar til strandsiglinga við núverandi aðstæður, enda þörfin ekki meiri en svo, að Hekla hefur undanfarin sumur verið höfð í skemmtisiglingum. Kann enda svo að fara af ýmsum ástæðum, að hentara þyki að selja Heklu en Esju.

Aðstaða Skipaútgerðarinnar við Reykjavíkurhöfn er hin bágbornasta, sem ljóst verður af því, að um 7 millj. kr. halli er á vöruafgreiðslu hennar. Verður að gera á þessu nauðsynlega lagfæringu og jafnhliða að taka allt mannahald fyrirtækisins og vinnubrögð til heildarendurskoðunar.

Reynt hefur verið að gera það tortryggilegt, að þessi endurskipulagning á starfsemi Skipaútgerðarinnar þýddi óeðlilega skerðingu á strandsiglingum. En hér er ekki um það að ræða. Einhverjar breytingar strandsiglinga kunna að vera nauðsynlegar. Að því er stefnt að tryggja nauðsynlega þjónustu við strjálbýlið að þessu leyti, en hins vegar er ekki hægt á það að horfa aðgerðarlaus, að yfir 40 millj. kr. á ári séu greiddar úr ríkissjóði til að greiða hallann á rekstri þessa fyrirtækis. Með þeim breytingum á skipakosti, sem þegar hafa verið ákveðnar, þykir raunhæft að áætla, að hallinn þurfi ekki að vera nema 29 millj. kr. á næsta ári í stað 43 millj. kr. á árinu 1965. Hver hallinn verður í ár, er ekki auðið að segja nú, en vonir standa til, að hann verði einnig verulega minni en á árinu 1965.

Síauknir vöruflutningar á landi auka að sjálfsögðu mjög á örðugleika Skipaútgerðarinnar. Þessir vöruflutningar eiga að sjálfsögðu fullan rétt á sér, en aðeins að vissu marki, því að hinir stóru flutningabílar fara hvað verst með vegina og síaukið álag á vegakerfið og þar af leiðandi aukinn viðhaldskostnaður vega gerir nauðsynlegt að gera á því þjóðhagslega athugun, að hverju marki gerlegt sé að flytja vöruflutninga frá sjónum yfir á vegina.

Lagt er til að hækka framlag til hafnargerða um 13 millj. kr. 3 millj. af þessari fjárhæð ganga til greiðslu lána vegna landshafna, en 10 millj. kr. þykir eðlilegast að verja til að greiða upp í vangoldin framlög ríkissjóðs til hafnargerða, sem þegar hafa verið framkvæmdar. Síðustu árin hefur verið mjög greitt fyrir hafnargerðum á þann veg, að fjár hefur verið aflað til þeirra í framkvæmdaáætlun ríkisins, og hefur verið unnið fyrir það miklar fjárhæðir, að áætlað er, að vangoldin framlög ríkissjóðs um næstu áramót muni verða um 55 millj. kr. Í sumar hefur verið unnið að endurskoðun hafnarlaga og ráðgert, að frv. til nýrra hafnarlaga verði lagt fyrir þetta þing. Rekstrarkostnaður vitaskipsins nemur nú orðið 7 millj. kr. á ári nettó. Er hér um svo mikinn kostnað að ræða, að nauðsynlegt er að taka til ýtarlegrar athugunar, hvort ekki er hér hægt að koma við einhverri skipulagsbreytingu. Er það mál nú í rannsókn.

Framkvæmdir á vegum flugmálastjórnarinnar eru meiri í ár en nokkru sinni áður, og hefur verulegs fjár verið aflað umfram fjárlög innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar í ár. Lagt er til að hækka fjárveitingar til flugvallagerðar um 4 millj. kr.

Lagt er til að hækka mjög stórlega fjárveitingu til háskólans eða um rúm 51%. Bætt er við allmörgum nýjum kennurum í samræmi við 10 ára áætlun um eflingu háskólans, og er gert ráð fyrir aukinni starfsemi í ýmsum greinum. Mjög veruleg hækkun er á fjárveitingu til Raunvísindastofnunar háskólans, sem gert er ráð fyrir að verði í fjórum deildum, er vinni að rannsóknum í stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og jarðeðlisfræði. Mun naumast vera ágreiningur um nauðsyn þess hér á hinu háa Alþingi að efla háskólann svo sem við verður komið, því að mönnum er að verða það æ ljósara, að hin æðri menntun og vísindi hafa grundvallarþýðingu varðandi flestar framfarir.

Mikil hækkun er á fjárveitingu til styrktar íslenzkum námsmönnum, eða 6 millj. kr. Hefur verið unnið að endurskoðun námslánakerfisins, og er fjárveitingin í samræmi við það, sem nú er stefnt í því efni.

Komið hefur verið af stað heildarathugun á öllu skólakerfinu. Nefnd hefur verið skipuð til að gera till. um þróun háskólans næstu 20 árin, og er ætlazt til, að sú nefnd ljúki störfum á tveimur árum, og hafin hefur verið fyrir atbeina menntmrh. fræðileg athugun á skólakerfinu í heild, að nokkru í samvinnu við Efnahags- og framfarastofnunina í París. Er hér um mjög þýðingarmikið verkefni að ræða. Rekstrarframlög til skólakerfisins gefa ekki tilefni til sérstakra hugleiðinga. Þar er að venju um mjög mikla hækkun að ræða vegna fjölgunar kennara og annars aukins kostnaðar. Er hér um að ræða þá grein ríkiskerfisins, sem veldur hvað mestri útgjaldaaukningu árlega. Framlög til byggingar barna- og gagnfræðaskóla eru áætluð jafnhá og í núgildandi fjárlögum, og á að vera auðið að greiða lögboðin framlög ríkissjóðs til þeirra skóla, sem eru í smíðum, og verja einnig töluverðu fé til nýrra skóla.

Sú nýja skipan, sem tekin var upp á árinu 1965 í sambandi við fjárframlög til skólabygginga, hefur gefizt vel. Sú nýbreytni, sem tekin var upp í fjárlögum þessa árs, að verja nokkru fé til undirbúnings skólamannvirkjum, enda þótt endanleg ákvörðun væri ekki tekin um byggingu þeirra, er einnig tvímælalaust spor í rétta átt. Skólabyggingarnar eru svo þungur baggi bæði fyrir ríki og sveitarfélög, að leita verður allra úrræða til þess að leysa þann vanda með ódýrari hætti en nú er. Er mörgu ábótavant í því efni og nauðsynlegt að finna ákveðna „standardiseraða“ gerð skólahúsnæðis og jafnvel tilbúin skólahús. Höfum við ekki efni á að hafa jafnlitla hagsýni í meðferð skólabyggingarfjár og oft á sér stað nú. Lögin um greiðslu skólakostnaðar hafa nú verið endurskoðuð með það fyrst og fremst fyrir augum að finna fastan viðmiðunargrundvöll til ákvörðunar á greiðsluskyldu ríkissjóðs til skólabygginga. Unnið er nú að miklum byggingarframkvæmdum ýmissa framhaldsskóla á vegum ríkisins og þá fyrst og fremst menntaskólanna. Eru fjárveitingar til þeirra og kennaraskólans hækkaðar um 5 millj. kr., og verður þó að afla verulegs lánsfjár á næsta ári eins og í ár, til þess auðið sé að taka nægilega stóra áfanga. Nýr menntaskóli tekur nú til starfa í Reykjavík á þessu hausti, en þar er þó enn ólokið miklum byggingarframkvæmdum og einnig á Laugarvatni. Svo er og ráðgert að hefjast handa á næsta ári um byggingu kennslustofa í eðlis- og efnafræði við menntaskólann á Akureyri. Jafnframt eru hækkaðar undirbúningsfjárveitingar til byggingar menntaskóla á Vestfjörðum og Austurlandi. Nauðsynlegt er að koma traustara skipulagi á uppbyggingu skólakerfisins á Laugarvatni og samræma þær framkvæmdir meira en verið hefur. Er nú að því unnið.

Til þess að stuðla að betri nýtingu viðhaldsfjár skólanna er því nú ekki deilt niður á einstaka skóla, svo sem áður hefur verið gert, heldur eru veittar í einu lagi fjárhæðir til viðhalds hinna einstöku tegunda skóla. Er síðan gert ráð fyrir, að menntmrn. úthluti fénu í samráði við fjármálaeftirlit skólanna eftir því, hvar þörfin er brýnust hverju sinni.

Gerð hefur verið athugun á námskostnaði á hvern nemanda í ýmsum skólum, og kemur í ljós, að þessi kostnaður er mjög mismunandi. Er mikilvægt, að athugað verði til hlítar, af hverju þessi mismunur stafar, og slík athugun verði gerð varðandi alla skóla.

Alkunnugt er, að íþróttasjóð skortir mikið fé til að greiða áformuð framlög til íþróttamannvirkja, er sjóðsstjórnin hefur samþykkt styrkhæf. En íþróttasjóður hefur engan annan tekjustofn en fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni. Lagt er nú til að hækka þessa fjárveitingu um 2 millj. kr., og er gert ráð fyrir, að það fé verði eingöngu notað til að grynna á skuldum, en ekki til nýrra framkvæmda. Er nauðsynlegt að gera ákveðna áætlun um greiðslu á vangoldnum framlögum sjóðsins og varðandi framtíðina að samþykkja ekki önnur mannvirki styrkhæf en þau, sem fjárhagsgeta sjóðsins leyfir hverju sinni.

Framlög til kirkjumála hækka um 20% . Lögboðið framlag ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs er 1 millj. kr. á ári, en lagt er til að veita nú 1/2 millj. kr. aukaframlag. Þá er og lagt til að hækka nokkuð fjárveitingu til æskulýðsstarfsemi á vegum kirkjunnar, en þar er hvað brýnast verkefni fyrir kirkjuna.

Í fjárlagaræðu minni s.l. haust komst ég svo að orði:

„Prestakallaskipunin er nú í endurskoðun að tilhlutun kirkjumrh. Skal ég ekki ræða það mál á þessu stigi, en þess er að vænta, að menn líti það mál raunsærri augum en gert hefur verið með hliðsjón af gerbreyttum þjóðfélagsháttum. Vegna mjög bættra samgangna sýnist fækkun prestakalla á ýmsum stöðum á landinu sjálfsögð og eðlileg ráðstöfun, og jafnframt ætti að létta af prestum búskaparbasli, sem er þeim nú margfalt erfiðara en áður fyrr, og virðist eðlilegt, að aðsetur presta sé í þéttbýlisstöðum eða við menningarmiðstöðvar í sveitum, þar sem þeir jafnframt gætu sinnt kennslu í kristnum fræðum. Hef ég ekki talið rétt að fallast á óskir biskups um fjárveitingar til nýrra prestsembætta í Reykjavík, fyrr en þessari endurskoðun prestakallaskipunarlaga er lokið.“

Mér þykir rétt að endurtaka þessi ummæli mín hér til þess að gefa biskupi landsins tækifæri til að leggja aftur út af þeim á næstu prestastefnu. Vonast ég þá til hans vegna, en ekki mín, að hann leggi rétt út af ummælum mínum.

Það er engum efa bundið, að kirkjunni er fengið eitt mikilvægasta hlutverkið í okkar litla þjóðfélagi, og ef hún á að geta sinnt því hlutverki á viðhlítandi hátt, tjóar ekki að halda í úrelta starfshætti, heldur verður þessi stofnun sem aðrar að laga sig eftir nýjum þjóðfélagsaðstæðum, eigi hún að fá nauðsynlega áheyrn. Það eykur ekki virðingu neinnar stofnunar að hafa hér og þar starfslitla eða starfslausa fulltrúa, og sízt af öllu hæfir það stríðandi og starfsamri kirkju. Það hefur aldrei verið ætlun mín að skerða fjárveitingu til kirkjunnar, en þjóðin á rétt á því á þessu sviði sem öðrum, að fé úr sameiginlegum sjóði hennar sé hagnýtt með sem jákvæðustum árangri. Prestar þurfa hvarvetna að fá viðhlítandi starfsaðstöðu og nægilegt að starfa, og á þetta sjónarmið er fallizt í grundvallaratriðum af endurskoðunarnefnd prestakallaskipunar og raunar einnig af prestastefnunni, þótt á kirkjuþingi hafi nú komið fram sú furðulega tillaga að setja á laggirnar þrjú sjálfstæð biskupsembætti, sem ekki munu auka trú manna á nauðsyn kirkjuþings. Þjóðin er svo lánsöm, að úrvalsmaður gegnir nú biskupsembætti og margir hinir mætustu menn í klerkastétt, og þess verður því að vænta, að kirkjan staðni ekki í úreltum og óraunhæfum starfsháttum.

Í þessu sambandi er skylt að geta þess, að það er ekki aðeins starfsemi kirkjunnar, sem þarfnast skipulagsbreytingar. Skipan lögsagnarumdæma þarfnast einnig endurskoðunar og þá ekki síður skipan sveitarfélaga. Viðhlítandi læknisþjónustu verður heldur naumast haldið uppi nema með nýju skipulagi. Það eru því margír fleiri en kirkjunnar menn, sem þurfa að sýna víðsýni og skilning á breyttum þjóðfélagsháttum, en vel væri, að þeir gæfu gott fordæmi.

Fyrirhuguð fjárveiting til atvinnuveganna í 16. gr. fjárlaga gefur ekki tilefni til sérstakra útskýringa. Fjárveiting til Búnaðarfélags Íslands hækkar um 25%. Kostnaður við búnaðarþing er nú orðinn rúm 1 millj., og sýnist full ástæða að taka til athugunar, hvort ekki sé mögulegt að halda þetta þing annað hvert ár eins og fiskiþingið, úr því að þinghaldið er orðið svo kostnaðarsamt. Ekki sýnist varlegt annað með hliðsjón af reynslu yfirstandandi árs en gera enn ráð fyrir nokkurri aukningu jarðræktarframkvæmda á næsta ári, en þessi og flest önnur framlög til landbúnaðarins eru lögbundin og því áætlunarfjárhæðir.

Fjárfesting til fiskileitar og veiðitilrauna er hækkuð um 3.4 millj. kr., og einnig er um töluverða hækkun að ræða á lögboðnum framlögum til aflatryggingasjóðs og Fiskveiðasjóðs Íslands. Það, sem mestu veldur um hækkun á þessari grein, er áætlað 80 millj. kr. framlag til aðstoðar við sjávarútveginn, og er þá miðað við, að sambærileg aðstoð verði veitt útveginum og gert er á yfirstandandi ári. Ber þó ekki að líta á þessa upphæð sem tillögu til Alþingis um endanlega ráðstöfun þessa fjár til sjávarútvegsins, heldur aðeins heimild ríkisstj. til handa til að verja allt að þessari fjárhæð í því skyni, ef það verður talið nauðsynlegt í sambandi við ákvörðun fiskverðs, sem ekki mun hafa verið ákveðið, þegar fjárlög verða endanlega afgreidd.

Samkv. lögum frá Alþingi um eflingu iðnlánasjóðs til veitingar hagræðingarlána fyrir iðnaðinn hækkar fjárveiting til iðnlánasjóðs um 8 millj. kr. Er hér um hið brýnasta nauðsynjamál að ræða til þess að tryggja íslenzkum iðnaði aðstöðu til aðlögunar vegna aukins frelsis í innflutningi.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til raforkusjóðs um 2 millj. kr., sem er sérstök nauðsyn vegna aukinna kaupa á dísilrafstöðvum til þeirra sveitabýla, sem sýnt er, að ekki fá raforku frá samveitum í náinni framtíð. Þá er og lagt til að hækka framlög til sveitaveitnanna um 3 millj. kr. til þess að geta haldið í horfinu með framkvæmdir. Loks er fjárveiting til jarðhitasjóðs hækkuð um 2.8 millj. kr.

Með hliðsjón af hinni nýju löggjöf um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er óhjákvæmilegt að heimila eflingu hinna einstöku rannsóknastofnana atvinnuveganna. Hér er líka um hið mesta nauðsynjamál að ræða, því að stofnanir þessar gegna hver á sínu sviði þýðingarmiklu hlutverkí til eflingar atvinnulífi þjóðarinnar.

Safnazt hafa fyrir töluverðar skuldir vegna vangreiddra framlaga til vatnsveitna, sem samþykktar hafa verið styrkhæfar. Er því lagt til að hækka framlög til vatnsveitna um 2 millj. kr., og framlag til byggingarsjóðs verkamanna hækkar um 2.6 millj.

Mjög miklar hækkanir verða að venju á framlögum til almannatrygginga og einnig til ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, og stafar sú hækkun fyrst og fremst af hækkun daggjalda á sjúkrahúsum. Þótt hækkun daggjalda á ríkissjúkrahúsum bæti nokkuð rekstraraðstöðu þeirra, hefur sú ráðstöfun jafnan mikinn, beinan útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkissjóð vegna ríkisframfærslunnar. Er því beinlínis óhagkvæmt fyrir ríkið að hækka daggjöldin, en það er óumflýjanlegt vegna rekstrarafkomu annarra sjúkrahúsa.

Fjárveiting til niðurgreiðslna á vöruverði er áætluð í frv. 478 millj. kr., og er þá miðað við óbreyttar niðurgreiðslur. Þar sem ríkisstj. hefur nú ákveðið, eftir að fjárlagafrv. var samið, að auka niðurgreiðslur, kemur þessi útgjaldaliður til endurskoðunar, áður en fjárlög verða endanlega afgreidd. Áætlaðar uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir nema á næsta ári 248 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir 10% verðhækkun.

Svo sem ég áður gerði grein fyrir, er fjárlagafrv. miðað við 15.25% verðlagsuppbót. Takist ekki að halda niðri verðlagi eða komi til frekari launahækkana, verður að sjálfsögðu að áætla fyrir þeim hækkunum, og er lagt til að veita í 19. gr. fjárl. eina heildarfjárveitingu, 108 millj. kr., til þess að mæta launahækkunum og eftir atvikum hækkun tryggingabóta, sem leiðir af launabreytingum.

Á síðasta þingi voru sett lög um lánasjóð sveitarfélaga. Var þar ákveðið, að aðaltekjustofn sjóðsins væri 15 millj. kr. árlegt framlag úr jöfnunarsjóði, en gert var að auki ráð fyrir árlegu framlagi ríkíssjóðs. Er nú lagt til, að það framlag verði 5 millj. kr. á næsta ári. Sjóður þessi er mikilvægur sem milligönguaðili fyrir sveitarfélögin um öflun framkvæmdalána, en ekki getur talizt eðlilegt, að um há bein ríkisframlög til lánasjóðsins sé að ræða, enda jöfnunarsjóðurinn til orðinn af tekjustofnun, sem ríkissjóður hefur afhent sveitarfélögunum.

Útgáfa íslenzkra landabréfa hefur til þessa verið í höndum danskrar stofnunar, sem að vísu hefur haft góða samvinnu við íslenzku landmælingastofnunina, en þó naumast vansalaust, að kortagerðin sé ekki í okkar höndum, úr því að hæfum mönnum er hér á að skipa til þeirra starfa. Er því lagt til að heimila að kaupa af Geologisk Institut upplag og útgáfurétt að íslenzkum landabréfum.

Lengi hafa verið uppi umr. um byggingu nýs þinghúss, en illa gengið að koma sér saman um staðsetningu þess. Mun nú svo komið, að fáar eða engar meiri háttar stofnanir ríkisins búa við eins þröngan og ófullnægjandi húsakost og Alþ., elzta löggjafarþing heims, og þótt sízt sitji á fjmrh. að gerast talsmaður útgjalda úr ríkissjóði, þykir mér sómi Alþ. liggja við, að framkvæmdir strandi a.m.k. ekki lengur á ósamkomulagi um staðsetningu nýs þinghúss. Sú skoðun hefur átt verulegan hljómgrunn, að reisa ætti þinghús hér í miðborginni. Í sumar voru ríkisstj. boðnar til kaups lóðir Sambands ísl. samvinnufélaga við Kirkjustræti, sem óhjákvæmilegt er að kaupa, ef reisa á þinghús hér við hlið núverandi þinghúss. Þótti ríkisstj. rétt að gera bráðabirgðakaupsamning um lóðir þessar, að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þar sem málið er svo sérstaks eðlis og hér er fyrst og fremst um fjárveitingu að ræða í þágu Alþingis, mun heimild þessi ekki verða notuð, nema um kaupin verði samstaða allra flokka á Alþingi.

Í sambandi við álverksmiðjuna þarf að byggja mikla höfn í Straumsvík. Samkv. samningum við Íslenzka álfélagið á Hafnarfjarðarkaupstaður að byggja höfn þessa, en kostnaður við hafnargerðina greiðist síðan á vissu árabili með hafnargjöldum álfélagsins. Nauðsynlegt er, að ríkissjóður fái heimild til að taka 150 millj. kr. lán í þessu skyni og endurlána síðan Hafnarfjarðarkaupstað, þar eð torvelt mundi verða fyrir kaupstaðinn að fá svo hátt lán, þótt hafnargjöldin tryggi endurgreiðslu þess. Hafnargerðin er nú að hefjast og lánsféð fengið.

Í lögum um atvinnujöfnunarsjóð er gert ráð fyrir sem stofnfé sjóðsins 55 millj. kr. óafturkræfu framlagi Bandaríkjastjórnar frá 1960, og í lögum um Landsvirkjun er ráðgert, að 150 millj. kr. framlag ríkisins til Búrfellsvirkjunar verði einnig greitt af þessum sjóði. Loks hefur verið ráðgert að nota 20 millj. kr. af þessu mótvirðisfé sem hlutafé ríkissjóðs í Kísiliðjunni h/f. Þótt þegar sett löggjöf heimili að nokkru ráðstöfun þessa sérstaka mótvirðissjóðs, þótti samt rétt að leita í fjárl. staðfestingar Alþ. á umræddum ráðstöfunum öllum.

Í fjárlagafrv. er ekki leitað eftir lántökuheimildum nema vegna Straumsvíkurhafnar. En orsökin er sú, að undirbúningi framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967 er ekki það langt komið, að enn verði séð fyrir, hverra lántökuheimilda sé þörf. Mun sami háttur verða á hafður og um lántökur í sambandi við framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs, að leita heimildar með sérstökum lögum síðar á þinginu, um leið og gerð verður grein fyrir framkvæmdaáætluninni.

Samkv. frv. hækka rekstrarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári um 656 millj. kr. Er hér að sjálfsögðu um geysiháa fjárhæð að ræða, og þykir mér rétt að gefa nokkra heildarmynd af orsökum hækkunarinnar.

Launagreiðslur ríkissjóðs hækka um 260 millj. Almannatryggingar hækka um 172 millj. Aðstoð við sjávarútveginn, sem ekki er í núgildandi fjárl., er 80 millj. Áætluð hækkun á útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörum 34 millj. Hækkun annars skólakostnaðar en launa 64 millj. Hækkun á framlögum til skólabygginga, sjúkrahúsabygginga og flugvallagerða 25 millj. Hækkun á styrktarfé, ellilaunum og framlögum til lífeyrissjóða 14 millj. Framlög til hafnargerða 13 millj., til iðnlánasjóðs S millj., til raforku- og jarðhitamála 10 millj.

Oft er rætt um stjórnsýslukostnaðinn eða ríkisbáknið, sem svo er orðað, og öll ógæfa talin af því stafa, án þess að menn geri sér rækilega grein fyrir, hvað þeir eru að tala um. Í fjárlagaræðu minni s.l. haust gerði ég grein fyrir athugun, er gerð hefði verið á stjórnsýslunni í þætti ríkisútgjalda, og kom glöggt í ljós, að þar hefði ekki verið um óeðlilega aukningu að ræða. Ég skal ekki endurtaka þá greinargerð hér, en fróðlegt getur verið að draga upp nokkra mynd af því, hvernig hver króna ríkisútgjalda skiptist á einstaka útgjaldaliði ríkissjóðs, miðað við fjárlagafrv., sem hér er til meðferðar. Kemur þá í ljós, að 23.7 aurar af hverri krónu ganga til hinna ýmsu þátta tryggingakerfisins, 19.7 aurar til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir og niðurgreiðslu á vöruverði, og eru þannig rúmir 44 aurar af hverri kr., sem almenningi er skilað aftur í ýmiss konar beinum fjárframlögum. Er ríkissjóður að þessu leyti aðeins milliliður til jöfnunar aðstöðu fólks í þjóðfélaginu. Langstærsti hluti hinna raunverulega rekstrarútgjalda ríkissjóðs gengur til menntamála eða 14.3 aurar af hverri kr., til löggæzlu og dómsmála 5.5 aurar, til sjávarútvegsmála 5.3 aurar, til landbúnaðarmála auk útflutningsuppbótanna 4.9 aurar, til heilbrigðismála 4.7 aurar, en til ýmissa samgöngumála 3.9 aurar, og er þá ekki reiknuð með sérstök fjáröflun til vegasjóðs. Kostnaður við toll- og skattheimtu er 2.3 aurar af hverri kr., kostnaður við stjórnarráðið 1.3 aurar, utanríkismál 1.1 eyrir og Alþingi tæpur 1 eyrir. Þessi upptalning er ekki tæmandi, en gefur nokkra mynd af skiptingu ríkisútgjalda.

Í sambandi við uppbyggingu ríkiskerfisins verður aldrei nógsamlega lögð áherzla á tvö meginatriði, sem hafa verður að leiðarljósi. Annars vegar, að við verðum sem sjálfstæð menningarþjóð að halda uppi tiltekinni stjórnsýslu og opinberri þjónustu, en hins vegar er okkur lífsnauðsyn vegna smæðar þjóðarinnar að sníða okkur á þessu sviði sem öðrum stakk eftir vexti. Skipulagning er góð og nauðsynleg, en hún getur auðveldlega endað í kæfandi pappírsflóði, ef ekki er gætt fyllstu varúðar. Þótt skriffinnska og skýrslugerð þyki hér á ýmsum sviðum mikil, stöndum við sem betur fer flestum nálægum þjóðum langt að baki í þeim efnum. Það er margt á sviði skipulagningar og skýrslugerðar, sem færa má haldgóð rök fyrir, að sé nauðsynlegt, en mín skoðun er sú, þótt ég á engan hátt vilji gera lítið úr eftirliti og skipulagningu, að gíftudrýgra sé, að skýrslugerðirnar séu of fáar en of margar, ekki sízt hjá þjóð, sem hefur takmarkað vinnuafi og má ekki missa of mikið af því til skrifstofu- og þjónustustarfa. En það væri fróðlegt að athuga það jafnhliða tíðum aðfinnslum um síaukinn kostnað í ríkiskerfi, hversu mikið af löggjöf Alþ. og þál. felur í sér myndun ráða, nefnda og nýrra stofnana.

Þrátt fyrir hina miklu útgjaldahækkun ríkissjóðs á næsta ári, er þó áætlað, að tekjurnar hækki mun meira, svo sem ég hef áður gert grein fyrir, þannig að á rekstraryfirliti frv. er rekstrarafgangur, sem nemur 381 millj. kr., og á sjóðsyfirliti er hagstæður greiðslujöfnuður, sem nemur 150.7 millj. kr. Er hér um að ræða margfalt hærri greiðsluafgang en nokkru sinni áður hefur veríð gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Þetta réttlætir þó á engan hátt nýja kröfugerð á ríkissjóð. Við lifum nú á tímum mestu velmegunar og framleiðsluaukningar í sögu þjóðarinnar og miðað við hina . miklu þenslu í þjóðfélaginu væri hið mesta óráð að ausa nú fé í stórum stíl út í nýjar framkvæmdir. Nauðsynlegar aðgerðir til þess að stemma stigu við vaxandi dýrtíð gætu einnig verið háðar því, að bagur ríkissjóðs væri svo góður, að hann gæti tekið á sig nokkra byrði í því sambandi.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1967 og mun þá víkja að ýmsum einstökum atriðum, er máli skipta í ríkisbúskapnum og annaðhvort er unnið að eða nauðsynlegt er að taka til athugunar.

Aðflutningsgjöldin eru langhæsti tekjuliður ríkissjóðs, og eru þau hærri hér en í flestum öðrum vestrænum löndum. Mikið umrót er nú í tollamálum flestra viðskiptaþjóða okkar. Tvö viðskiptabandalög stefna markvisst að afnámi allra tolla í innbyrðis viðskiptum meðlimaríkjanna, og torveldar það mjög markaðsaðstöðu þeirra ríkja, er utan standa. Á vegum Alþjóðatollamálastofnunarinnar í Genf er nú leitað úrræða til þess að koma í veg fyrir tollastríð milli bandalaganna, og þótt enn sé þar allt á huldu um úrslit, bendir þó margt til þess, að við neyðumst til að gera allvíðtækar breytingar á okkar tollakerfi í náinni framtíð, ef við eigum að tryggja viðskiptaaðstöðu útflutningsframleiðsluatvinnuveganna. Hér er við stórfellt vandamál að fást, eigi aðeins vegna hagsmuna ríkissjóðs, heldur eigi síður vegna hagsmuna margra greina íslenzks iðnaðar, sem notið hafa mikillar tollverndar: Er því nauðsynlegt að kanna allar aðstæður rækilega til þess að vera ekki óviðbúnir því, sem koma skal. Á s.l. vori var því íslenzku tollamála- ög GATT-nefndunum falið að gera nú fyrir árslok athugun á aðstöðu okkar til þess að framkvæma t.d. á 5 árum allt að 50% lækkun aðflutningsgjalda, hvernig hægt væri að tryggja starfsaðstöðu iðnaðarins, ef til þessa kæmi, og tryggja fjárhag ríkissjóðs. Þessum athugunum er enn ekki lokið og algerlega óvíst, hvað gerast kann í þessum efnum, en það er þó nokkuð víst, að til langframa getum við ekki búið við miklu hærri aðflutningsgjöld en viðskiptaþjóðir okkar, og er hér einnig um að ræða mikilvægan þátt í lífskjörum alls almennings í landinu.

Við 1. umr. fjárl. í fyrra skýrði ég frá því, að ríkisstj. hefði skipað nefnd manna til könnunar á úrræðum til þess að tryggja sem bezt nýtingu framkvæmdafjár ríkisins, bæði í sambandi við skipulagningu framkvæmda, undirbúning, útboð verka og innkaup efnis og aðra þætti, er máli skiptu. Nefnd þessi hefur nú skilað mjög fróðlegu áliti, sem er til athugunar hjá ríkisstj. Staðfestir nál. mjög rækilega annmarka þá, sem ég taldi sennilega vera til staðar, og er ljóst, að hér er um mjög mikilvægt vandamál að ræða, sem miklu varðar, að takist að finna viðhlítandi lausn á. Oft er um ónógan tæknilegan undirbúning að ræða, þar eð einungis hluti teikninga og verklýsinga er fyrir hendi, þegar framkvæmdir eru hafnar. Þess eru einnig dæmi, að mannvirki eru teiknuð og þeim ákveðin stærð og gerð, áður en fullráðið er, hvaða starfsemi skuli komið þar fyrir eða með hverjum hætti. Fyrirkomulagsatriði eru iðulega ráðin þá fyrst, þegar búið er að steypa upp mikið mannvirki, og þá koma gjarnan upp kostnaðarsöm atriði, sem betur hefðu verið könnuð á teikniborði. Allt of oft er um að ræða ónógan fjárhagslegan undirbúning opinberra framkvæmda. Ráðizt er í verk, án þess að nægilegt fé sé fyrir hendi, og fjárveitingar ekki miðaðar við að ljúka verki eða ákveðnum áfanga þess, heldur er ákveðinni fjárveitingu deilt niður á margar framkvæmdir til að sætta hin ýmsu sjónarmið. Hverju einstöku verki miðar því hægt og það verður mun dýrara en ella. Annar galli á fjárhagslegum undirbúningi verka er fólginn í því, að menn gera sér ekki nægilega grein fyrir því fyrir fram, hvaða kostnaður fellur til, þegar mannvirki er fullgert. Er því nauðsynlegt við ákvörðun framkvæmda að skoða rækilega, hvort með þessari tilhögun fremur en annarri er fundin ódýrasta leiðin til þess að fullnægja þeim félagslegu þörfum, sem leysa á, og jafnframt þarf að gera sér grein fyrir því, hvaða bundinn kostnað mannvirki hefur í för með sér í framtíðinni. Útboð framkvæmda er heldur ekki enn nýtt eins og æskilegt væri, og nútíma verkskipulagningarkerfi hefur ekki almennt verið tekið upp. Það er yfirleitt ekki heppilegt, að sami aðili sjái um undirbúning verks og framkvæmd þess. Og engin samræmd úttekt fer fram á opinberum framkvæmdum, svo að samanburðargrundvöllur fáist á milli samstæðra framkvæmda.

Í litlu og fjármagnsfátæku þjóðfélagi eins og okkar er að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn, að fyllstu hagsýni sé gætt í sambandi við hin ýmsu þjónustufyrirtæki almennings. Leggja þarf áherzlu á að lagfæra þá annmarka, sem ég hef hér drepið á, og gera sér betur grein fyrir heildarþörfum þjóðarinnar á hinum ýmsu sviðum. Nú er einmitt verið að vinna mjög mikilvægt verk á þessu sviði á vettvangi skólamála, þ.e. að kanna þarfir fyrir skólabyggingar á næstu árum. Á grundvelli þeirrar athugunar á að vera hægt að gera sér grein fyrir, hvar byggja eigi skóla. Á viðhorfum manna í því efni hafa orðið miklar breytingar í jákvæða átt á síðustu árum, því að vegna kostnaðar og ef tryggja á góða kennslukrafta þýðir ekki að hugsa sér skólabyggingar í hverri sveit, heldur verða sveitarfélög að sameinast um stærri skóla. Þá hefur og í gerð framkvæmdaáætlana ríkisins síðustu árin verið lögð áherzla á að tryggja fé til þess, að auðið væri að ljúka tilteknum stórframkvæmdum eða vissum áföngum þeirra. Allt of margar byggingar hafa verið reistar handahófskennt á liðnum árum og áratugum, og má þar t.d. nefna félagsheimili, sem víða hafa verið reist án þess að gera sér grein fyrir afkomumöguleikum þeirra og starfsaðstöðu. Það verður því að leitast við að gera áætlanir um framkvæmdir byggðar á nauðsynlegum undirbúningi og athugun allra aðstæðna og framkvæma síðan þær áætlanir og láta ekki þröngsýn hreppasjónarmið ráða, eins og því miður á sér stað enn í dag. Slík áætlanagerð á ekkert skylt við sósíalisma, heldur eru það hagnýt og óhjákvæmileg vinnubrögð til þess að nýta sem bezt fjármagn þjóðarinnar á hverjum tíma. því miður er einnig enn of mikið af því, að Alþingi samþykki lög án þess að gera sér til hlítar grein fyrir þeim fjárhagslegu kvöðum, er í framtíðinni munu af slíkri lagasmíð stafa. Yfirleitt eru þetta lög, sem menn almennt eru sammála um, en síðar er kvartað, þegar þarf að fara að afla fjár til þess að standa undir afleiðingunum. Hér eins og á öðrum svíðum verða menn að vera reiðubúnir til þess að taka afleiðingum verka sinna.

Í síðustu fjárlagaræðu skýrði ég frá athugun, sem væri að hefjast á hinum ýmsu lögum um embættisbústaði, og frekari umr. urðu um embættisbústaði í sambandi við þáltill., sem flutt var á síðasta þingi. Fulltrúar ráðuneytanna, sem unnið hafa að athugun málsins, hafa nú lokið störfum, og eru niðurstöður þeirra til athugunar hjá ríkisstj. Athugunin hefur leitt í ljós, að nauðsynlegt var að taka þetta mál til heildarendurskoðunar, því að í senn er ófullnægjandi eftirlit með embættisbústöðum, ósamræmi verulegt í leigugreiðslum og nauðsynlegt er að setja nýjar reglur um skyldur ríkissjóðs til þess að koma upp embættisbústöðum og hverjir rétt sé, að njóti þeirra, því að löggjöf um þá hefur orðið til á ýmsum tímum, en ekki öll miðuð við sömu sjónarmið. Þá er það og mikil nauðsyn að staðla — standardisera — gerð embættisbústaða, því að í mörgum tilfellum er bygging þeirra óhæfilega kostnaðarsöm og ekki fylgt neinum föstum reglum um stærð eða gerð, heldur ráða of oft sjónarmið þess embættismanns, sem verið er að byggja yfir í það og það skiptið, án nægilegrar hliðsjónar af því, hvort byggingin muni henta öðrum embættismanni jafnvel. Hér eiga auðvitað engin slík persónuleg sérsjónarmið að koma til greina. Vonandi verður auðið að leggja fyrir yfirstandandi Alþ. ákveðnar tili. um skipan embættisbústaðamálanna í framtíðinni.

Unnið hefur verið í sumar að samræmingu reglna um ferðakostnað þeirra manna, sem sendir eru til útlanda á vegum ríkisins, hvort heldur er á vegum stjórnardeilda, utanríkisþjónustu eða Alþingis. Er nauðsynlegt, að um þetta gildi samræmdar og fastar reglur. Annars eru ferðalög embættismanna og ýmissa annarra opinberra fulltrúa á margvíslegar ráðstefnur vaxandi vandamál og erfitt að setja um þetta fastar reglur. Íslendingar eru aðilar að ótal alþjóðastofnunum auk Norðurlandasamstarfsins. Þessu samstarfi þarf að sinna og ýmsar þessar stofnanir veita okkur dýrmæta aðstoð. Við verðum því oft að senda fulltrúa á ýmsar ráðstefnur. En það tjóar ekki í því efni að haga sér eins og stórveldi. Margir fulltrúar landsins við þessar stofnanir sýna fulla hófsemi um ferðalög, en aðrir miður. Er það stöðugt viðfangsefni, en ekki eftir því vinsælt, að synja einum og öðrum um ferðalög á kostnað ríkisins. Skal þá fúslega játað, að ekki hefur tekizt að takmarka þessar utanferðir sem skyldi.

Athugað hefur verið, hvort ekki væri auðið að koma við hagkvæmari tryggingu þeirra ríkiseigna, sem ekki eru í skyldutryggingu, og leitað hefur verið fyrir skömmu eftir tilboðum í ferðatryggingar opinberra starfsmanna, en varðandi slíkar tryggingar hafa engar fastar reglur verið.

Til þess að tryggja hagkvæmni í innkaupum hefur á þessu ári verið ákveðið, að öll kaup á skrifstofubúnaði, húsgögnum og áhöldum opinberra stofnana skuli gerð í gegnum innkaupastofnun ríkisins í því skyni að tryggja sem hagkvæmust innkaup. Settar hafa verið reglur um bílaúthald ríkisins og ákvörðun bifreiðastyrkja, og verða þau mál framvegis í höndum fjárlaga- og hagsýslustofnunar ráðuneytisins. Hefur jafnframt verið ákveðið að merkja bifreiðar ríkisins í samræmi við reglur þessar í því skyni að veita aukið aðhald um notkun þeirra.

Árlegar launagreiðslur ríkissjóðs nema nú um 1300 millj. kr. Samningar um launakjör ríkisstarfsmanna og eftirlit með þessum gífurlegu fjárgreiðslum eru í hendi fjmrn. Er hér um svo þýðingarmikið og vaxandi verkefni að ræða, að nauðsynlegt var að setja á stofn sérstaka launamáladeild í fjmrn., enda hafa það verið ákveðin tilmæli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að ákveðinn aðili í rn. hefði með höndum launamálin. Hefur því einn fulltrúi rn. nýlega verið skipaður sérstakur deildarstjóri launamála. Mun hann verða ráðunautur og ritari samninganefndar ríkisins í launamálum og annast af rn. hálfu eftirlit með framkvæmd kjarasamninga og úrlausn einstakra ágreiningsefna, sem upp kunna að koma. Er ljóst, að á þessu sviði er þörf meira eftirlits og betri skipulagningar.

Enginn fastur starfsmaður er ráðinn til ríkisstofnana nema að undangengnu samþykki nefndar þeirrar, sem lögum samkv. á að fjalla um nýjar mannaráðningar, en því miður er of mikið um það, að lausafólk sé þá ráðið í stofnanirnar engu að síður. Verður það verkefni hagsýslustjóra að kanna til hlítar nauðsyn stofnunar fyrir nýtt starfsfólk og launamáladeildarinnar að fylgjast með því, að ákvörðunum í þessu efni sé framfylgt. Tel ég, að með stofnun fjárlaga- og hagsýsludeildarinnar fyrr á þessu ári og nú með skipun sérstaks launamálafulltrúa sé nauðsynlegur grundvöllur að því lagður, að hægt sé að hafa viðhlítandi eftirlit með þessum mikilvægu þáttum ríkisrekstrarins.

Með launaflokkuninni í sambandi við kjarasamninga opinberra starfsmanna 1963 var stigið mikilvægt spor í áttina til skynsamlegrar skipunar launamála opinberra starfsmanna. Var þá leitazt við að ákvarða launin með hliðsjón af starfsábyrgð og menntun. Því miður fer því fjarri, að opinberir starfsmenn séu almennt ánægðir með niðurröðun sína í launaflokka, og eflaust verður aldrei fundið kerfi, sem allir geti við unað. Við kjarasamningana á s.l. ári tókst ekki að ná samkomulagi um launaflokkunina, og hefur það skapað ýmis ný vandamál, þar eð þess var alls ekki að vænta, að kjaradómur gæti haft nægilega yfirsýn yfir þann þátt vandamálsins. Viss vandamál hefur verið reynt að leysa án þess beinlínis að brjóta gegn úrskurði kjaradóms, því að það hlýtur að vera grundvallarregla að greiða opinberum starfsmönnum laun í samræmi við niðurstöðu dómsins, ef ekki koma til einhver sérstök tilvik, sem ætla má, að hefðu haft áhrif á niðurstöðu kjaradóms, ef þau hefðu þá legið fyrir. Það er brýn nauðsyn að hefja nú þegar viðræður um launaflokkun, er geti orðið til frambúðar, því að óviðunandi er, ekki hvað sízt fyrir opinbera starfsmenn sjálfa, að nýjar deilur hefjist um launaflokkunina í sambandi við hverja kjarasamninga. Leitað hefur verið eftir upplýsingum um það í sumar erlendis, hvar mest festa muni vera komin á launamál opinberra starfsmanna, og hefur Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja verið boðið að senda mann ásamt fulltrúa frá rn. til þess að kynna sér skipan launamálanna í því landi. Er einmitt með tilkomu launamáladeildarinnar auðið að hefja skipulagsbundna athugun málsins nú þegar í samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru nú í sérstakri endurskoðun, og fallizt hefur verið á þá ósk bandalagsins að hefja endurskoðun laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Góð samvinna ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna er hin mikilvægasta nauðsyn, til þess að ríkiskerfið geti þróazt og starfað með eðlilegum hætti.

Ákveðið hefur verið að efna nú í haust til sérstaks námskeiðs í hagræðingu á vegum hagsýslu- og fjárlagastofnunar fjmrn. Er ætlunin, að námskeið þetta verði fyrir forráðamenn hinna ýmsu ríkisstofnana og til þess ætlað að veita leiðbeiningar um úrræði til bætts skipulags og til sem mestrar hagsýni í rekstri stofnananna. Er hér um nýbreytni að ræða, sem vonandi gefur góða raun.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj, á síðasta þingi var gefið fyrirheit um það, að staðgreiðslukerfi skatta yrði innleitt á árinu 1967. Síðan hefur sleitulaust verið unnið að athugun og undirbúningi málsins. Rækilegra upplýsinga hefur verið aflað frá þeim löndum, þar sem það kerfi hefur þegar verið innleitt, bæði um tilhögun kerfisins og reynslu af því, og jafnframt hefur verið gerð á því ýtarleg athugun, við hvaða sérstök vandamál sé að fást hér á landi í þessu sambandi: Á þessu stigi skal ég ekki ræða málið nánar. En þessi heildarathugun hefur leitt í ljós, að málið er miklum mun vandasamara og flóknara en bæði ég og aðrir höfum gert okkur grein fyrir. Í fyrsta lagi eru kerfin mismunandi í hinum ýmsu löndum og er ekki einfalt mál að gera sér grein fyrir, hvert kerfi skuli velja, og í annan stað eru íslenzk skattalög svo flókin, að ekki mun auðið að fella þau að neinu kerfi án mjög víðtækra breytinga. Í flestum eða öllum löndum mun hafa verið fylgt þeirri reglu að lögfesta staðgreiðslukerfið alllöngu áður en það kemur til framkvæmda, og er að því ákveðið stefnt, að hægt verði að leggja málið í því formi fyrir Alþ., að þingið geti tekið um það ákvörðun að athuguðum öllum málavöxtum, hvort lögfesta skuli staðgreiðslukerfi og þá hvaða kerfi. Hefur ríkisstj. ákveðið að setja nú þegar nefnd til þess að athuga ölt þau gögn málsins, sem fyrir liggja, og verður sú n. skipuð fulltrúum bæði frá ríki og sveitarfélögum, enda er núgildandi tilhögun útsvarsálagningar eitt erfiðasta vandamálið í sambandi við staðgreiðslukerfið. Verður lögð áherzla á, að n. þessi hraði mjög störfum, enda er undirbúningsvinna ríkisskattstjóra og starfsmanna hans það ýtarleg, að flestöll vandamálin liggja þegar ljóst fyrir.

Samið hefur nú verið við Seðlabankann um að yfirtaka myntsláttuna. Þar sem öll seðlaútgáfa er í höndum Seðlabankans, verður ekki séð nein skynsemi í þeirri tilhögun, að útgáfa skiptimyntar sé í höndum fjmrn. Myntsláttan er ekki heldur neinn sérstakur búhnykkur fyrir ríkissjóðinn, og má t.d. nefna það, að nú kostar einseyringurinn 22 aura, 5-eyringurinn 53 aura, 10-eyringurinn 23 aura og 25-eyringurinn 30 aura. Er ljóst af þessu, að stefna verður að því að afnema hinar smæstu mynteiningar. Nokkrar umr. hafa einnig verið um það, hvort ekki væri rétt að auka verðgildi krónunnar, t.d. tífalda gildi hennar. Hefur sérstök athugun farið fram á þessu máli á vegum rn. og Seðlabankans og niðurstaðan verið sú, að rétt væri að athuga þetta mál í fullri alvöru. Hins vegar er ljóst, að ekki kemur til mála að gera slíka breytingu án þess að um hana geti verið fullkomin eining, því að ef reynt er að gera hana tortryggilega, er verr af stað farið en heima setið. Á síðasta þingi leitaði ég óformlega eftir því við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna, hvort þeir vildu tilnefna menn í n. til þess ásamt fulltrúum frá ríkisstj. að athuga málið, en um það gat ekki orðið samstaða á þessu stigi málsins a.m.k.

Í síðustu fjárlagaræðu gerði ég grein fyrir því, að útgjöld ríkissjóðs vegna vanskila á ríkisábyrgðalánum hefðu farið minnkandi síðari árin og með hinum nýju lögum um ríkisábyrgðir hefði orðið gerbreyting til hins betra á þessu sviði. Árið 1963 var fjárframlag ríkissjóðs til ríkisábyrgðasjóðs 93.7 millj. kr. Á árinu 1964 var framlagið 87.7 millj., en á árinu 1965 aðeins 46 millj. Urðu útborganir úr ríkisábyrgðasjóði á því ári 164.2 millj., en innborganir 123.9 millj. Stærstu útgjaldaliðir sjóðsins á árinu 1965 eru vegna togaranna, austurþýzku skipanna, nokkurra fiskiðjuvera og vegna vanskila á hafnarlánum. Þá hefur ríkissjóður nú lagt út 22 millj. kr. vegna vanskila á endurlánuðu Marshall-fé á sínum tíma, og hefur mjög lítið fengizt greitt hjá skuldurum þeirra lána. Er það óviðunandi, og hafa verið gefin fyrirmæli um að innheimta þessi lán eins og önnur. Stefna verður að því að afnema ríkisábyrgðir fyrir lánum, sem veitt eru úr opinberum sjóðum. Er með öllu óeðlilegt, að ríkið sé sett í sérstaka áhættu vegna slíkra lánveitinga. Nú á þessu ári hafa verið veittar ríkisábyrgðir fyrir geysiháum fjárhæðum og er þar fyrst og fremst um að ræða lántöku vegna Landsvirkjunar. Var ekki um annað að ræða en veita þessar ábyrgðir, ef úr stórvirkjun við Búrfell átti að verða. Hafa svo rækilegar athuganir verið gerðar á fjárhagsafkomu þess fyrirtækis, að ekki ætti að þurfa að óttast útgjöld ríkissjóðs vegna þessara ábyrgða.

Mér þykir rétt að víkja hér nokkuð að stóreignaskatti þeim, sem á var lagður með lögum frá 1957. Var álagningu þessa skatts lokið snemma árs 1958, og var talið, að skatturinn næmi um 135 millj. kr. Víðtækar kærur voru þegar fram bornar út af skattálagningu þessari, og að þeim kærum úrskurðuðum nam skatturinn um 125 millj. kr. Eftir það hófust viðtæk málaferli, sem óþekkt eru í sambandi við skattálagningu hérlendis, og varð á grundvelli dómsúrskurða að endurreikna skattinn hvað eftir annað. Lækkaði hann smám saman svo við þennan endurreikning, að hann reyndist að lokum vera 65 millj., eða rúmlega helmingi lægri en upphaflega var áætlað. Er af þessu ljóst, að hrapalleg mistök hafa orðið í sambandi við lagasetningu þessa, þótt látið sé liggja á milli hluta, hvort skattheimta þessi hafi yfir höfuð verið eðlileg eða ekki. Til þess að gera skattheimtu þessa bærilega var svo ákveðið í lögunum, að 90% skattgjaldsins mætti greiða með skuldabréfum til 10 ára. Þegar í stað voru gerðar ráðstafanir til að hefja innheimtu skattsins, en erfitt reyndist um vik vegna sífelldra málaferla og endurreikninga skattsins. Hafa því orðið mjög mikil vanhöld á innheimtu skattsins, enda málaferli staðið allt til þessa dags og enn allmörgum málum ólokið fyrir borgardómi Reykjavíkur, 8 árum eftir að skatturinn var upphaflega á lagður. Kröfur hafa verið uppi um það á ýmsum tímum, að fella bæri niður algerlega skatt þennan, sem með einstæðum hætti hefur verið á lagður. Sú krafa hefur þó ekki átt hljómgrunn á Alþingi, að 1. væru afnumin, enda væri ekki auðið að afnema þau nema endurgreiða það, sem þegar hefur verið innheimt, en það eru 12.5 millj. kr., sem afhent hefur verið þeim sjóðum, er skattinn áttu að fá, en það er annars vegar byggingarsjóður ríkisins og húsnæðismálastjórn og hins vegar veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Skuldabréf voru upphaflega gefin út fyrir um 42 millj, kr., en frá allstórum upphæðum hefur ekki verið gengið með lögformlegum hætti enn þá.

Þótt full rök geti verið fyrir eignaraukaskatti í vissum tilfellum, þá tel ég stóreignaskatt þennan hið mesta leiðindamál, eins og allt er í pottinn búið. Hins vegar tel ég fjmrn. skylt að gera ráðstafanir til að innheimta skattinn, því að þau mál, sem enn eru óafgreidd, geta ekki haft nein teljandi áhrif á síðasta útreikning skattsins, og hef ég falið sérfræðingum rn. á þessu sviði að gera nú um það ákveðnar tillögur, hvernig haga beri innheimtu skattsins, Í því sambandi rísa ýmis vafaatriði eftir allan þennan tíma. Fyrir þá, sem enn hafa ekki nema að litlu leyti greitt skattinn, er að sjálfsögðu miklum mun léttbærara að greiða hann nú en fyrir 8 árum.

Herra forseti. Síðustu vikurnar hefur ýmislegt gerzt á sviði efnahagsmála, sem ekki varð séð fyrir nema að nokkru leyti, þegar endanlega var gengið frá fjárlfrv. Gerbreyting hefur orðið á þróun verðlags útflutningsframleiðslunnar frá fyrri hluta ársins. Fram til þess tíma hafði verðlag helztu sjávarafurða farið hækkandi um alllangt skeið og gert sjávarútveginum fært án teljandi aukningar opinberrar aðstoðar að taka á sig verulegar kauphækkanir. Hafði sú hagstæða þróun m.a. leitt til þess, að talið var gerlegt sem þáttur í að rétta við fjárhag ríkissjóðs fyrr á þessu ári að lækka nokkuð niðurgreiðslur á vöruverði, sem vitanlega hlaut að leiða til nokkurrar hækkunar vísitölu. 3.5% kauphækkun sú, sem vinnuveitendur sömdu um á s.l. vori, jók svo enn á tilkostnað útflutningsframleiðslunnar, og varð því ljóst, að án áframhaldandi hagstæðrar verðlagsþróunar mundi framleiðslan ekki fá risið undir frekari hækkun. Síðustu mánuðina hefur hins vegar verðlag helztu sjávarafurða farið lækkandi og sumar þeirra lækkað verulega. Menn vona að vísu, að hér sé um tímabundið ástand að ræða, enda verðlag og kaupgjald almennt hækkandi í flestum okkar viðskiptalöndum. En engu að síður er ljóst, að miðað við núverandi ástand er óhjákvæmileg nauðsyn, ef forða á frá vandræðum, að auðið sé að stöðva um sinn a.m.k. alla hækkun verðlags og annars tilkostnaðar framleiðslunnar. Jafnsjálfsagt og það var, að aukinn afrakstur útflutningsframleiðslunnar yrði til að bæta kjör alls almennings, er það óhjákvæmilegt, að úr kröfugerðinni sé dregið, þegar að þrengir fyrir útflutningsframleiðslunni, því að gjaldþol hennar er sú viðmiðun, sem ætíð verður að styðjast við í allri kröfugerð um bætt kjör.

Á síðustu árum hefur verið lögð rík áherzla á það að fræða almenning um ýmsar helztu grundvallarstaðreyndir efnahagslífsins, og bendir ýmislegt til þess, að ríkari skilningur sé á því en oftast áður, að flokkssjónarmið megi ekki ráða afstöðu almenningssamtaka við úrlausn hinna þýðingarmestu efnahagsvandamála, heldur raunsætt mat á hagsmunum þeirra aðila, sem hlut eiga að máli hverju sinni. Sannanlegri lækkun síldarverðs hefur þannig verið mætt með skilningi allra aðila og samkomulagi, og í sambandi við ákvörðun búvöruverðs á þessu hausti hefur verið sýnd hófsemi og skilningur á þeim vandamálum, sem við er að fást. Enn er að vísu ekki vitað, hvernig fer um hina almennu kjarasamninga við verkalýðsfélögin né um ákvörðun fiskverðs um áramótin. En á þessu stigi málsins a.m.k. er ekki ástæða til að vænta annars en að fullur skilningur verði sýndur á þeim efnahagsstaðreyndum, sem við blasa.

Síðustu árin hefur tekizt að bæta mjög kjör alls almennings. Ber að fagna þeirri þróun, og ekki sýnist ástæða til að halda, að til neinnar kjararýrnunar þurfi að koma, ef skynsamlega er nú brugðizt við þeim stundarvanda, er við blasir. En það veltur vissulega á miklu fyrir framtíð þjóðarinnar, að skynsemi og róleg dómgreind ráði nú gerðum allra þeirra aðila, er áhrifavald hafa á þróun kaupgjalds- og verðlagsmála á næstu mánuðum.

Ríkisstj. hefur að sínu leyti viljað stuðla að nauðsynlegri verðstöðvun með því að auka svo niðurgreiðslur á vöruverði, að ekki yrði um neina hækkun að ræða á landbúnaðarvörum nú í haust. Er þetta auðið vegna góðrar fjárhagsafkomu ríkissjóðs, en að sjálfsögðu algerlega háð því skilyrði, að ekki verði um nýjar, óviðráðanlegar hækkanir að ræða. Vafalaust verður því haldið fram af einhverjum, að í því sé lítið samræmi að afnema niðurgreiðslur í vor, en auka niðurgreiðslur í haust. Slíkar ásakanir skipta litlu máli, ef tekst að ná því marki, sem að er stefnt, að stöðva verðbólguna, enda fullt samræmi í því að lækka niðurgreiðslur við hækkandi verðlag framleiðslunnar, en grípa til aukinna niðurgreiðslna, ef framleiðslan fær ekki um stundarsakir risið undir auknum tilkostnaði. Að hve miklu leyti gripið verður til enn frekari ráðstafana til að halda verðlagi í skefjum og jafnvel lækka það, get ég ekki á þessu stigi sagt meira en hæstv. forsrh. í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í síðustu viku. En það er að sjálfsögðu því háð, hversu fer um kjarasamninga þá, sem nú standa yfir.

Í sambandi við samkomulag um búvöruverðið á þessu hausti var af hálfu ríkisstj. lofað tvenns konar aðgerðum, sem varða fjárhag ríkissjóðs. Annars vegar var lofað að leggja á þessu ári fram 30 millj. kr. til hagræðingar í landbúnaði með það fyrir augum að taka upp hagkvæmari framleiðslu og framleiðsluaðferðir, og hins vegar var lofað að leggja fram á næsta ári allt að 60 millj. kr. sem stofnfé jarðakaupasjóðs, en þeim sjóði verður ætlað það hlutverk að kaupa jarðir, er taldar eru óhæfar til búsetu, en reynt er að halda í byggð, þar eð menn verða ella að ganga frá þeim slyppir og snauðir. Hvorar tveggja þessar ráðstafanir eru skynsamlegar og geta, þegar tímar líða, beinlínis orðið til þess að létta af ríkissjóði hinum háu útgjöldum vegna útflutningsuppbóta á landbúnaðarvörur.

Herra forseti. Þó að full ástæða væri til þess að gera mörg önnur atriði, er þýðingu hafa í ríkisbúskapnum, að umræðuefni, læt ég hér staðar numið, enda ræða mín þegar orðin æðilöng.

Ég vil að lokum mega vænta þess, að hér á hinu háa Alþingi takist um það full samstaða að afgreiða fjárlög fyrir 1967 raunverulega greiðsluhallalaus. Hallalaus ríkisbúskapur er eitt af hinum óhjákvæmilegu skilyrðum heilbrigðrar efnahagsþróunar á verðþenslutímum, og ég tel, að með fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, sé í senn sýnd viðunandi hófsemi í skattheimtu, sómasamlegum fjárveitingum varið til opinberra framkvæmda og á viðhlítandi hátt haldið uppi allri nauðsynlegri þjónustu við þjóðfélagsborgarana.

Ég legg til, herra forseti, að 1. umr. verði að loknum þessum útvarpsumr. frestað og frv. vísað til hv. fjvn.