05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun hafa kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var síðast til umr. hér í hv. d., en nokkuð er nú liðið síðan, og má vera að eitthvað af því, sem ég ætlaði að segja um málið, sé mér nú úr minni liðið.

Ég hef ásamt öðrum landbnm. skrifað undir nál. um þetta frv., dags. 22. febr. s.l. Með þessu nál. voru af hálfu n. bornar fram 2 brtt. við frv., sem n. stóð að og samþ. voru við 2. umr., en með þessum brtt. var leiðrétt vansmíð, sem orðið hafði á 1. og 6. gr. frv. Undir þetta nál. skrifuðu nm. allir, með þeim fyrirvara, að þeir áskildu sér rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt., sem fram kynnu að koma. Þennan fyrirvara munu menn hafa gert með sérstöku tilliti til þess, að kunnugt var um, að málið var í athugun á búnaðarþingi, sem hafði fengið frv. í hendur og nm. vildu gjarnan kynna sér þær till., sem frá búnaðarþingi kæmu, svo sem eðlilegt var og sjálfsagt. Brtt. frá búnaðarþingi bárust síðan n. á milli 2. og 3. umr., ef ég man rétt, og hefur n. flutt allmargar af þessum till. sem brtt. við frv. á þskj. 331, en fyrir þeim till. hefur þegar verið gerð grein af hv. form. og frsm. n., sem nú hefur horfið af þingi um sinn. Fram hafa komið brtt. við frv. bæði á þskj. 299 frá hv. 3. þm. Vestf., og þskj. 297 og 361 frá hv. 1. þm. Norðurl. v. Þær liggja hér einnig fyrir og hefur n. sem slík, eins og gerð var grein fyrir af form., ekki tekið afstöðu til þeirra, en nm. greiða sjálfsagt atkv. um þær, eins og aðrir. þegar þar að kemur. Ég er að rifja þetta upp, vegna þess að svo langt er liðið, síðan málið var til meðferðar hér í hv. d., en aðalerindi mitt hér í þennan ræðustól nú er að gera grein fyrir því í fáum orðum, hvernig ég lít á þetta frv., sem hér liggur fyrir. Eins og tekið var fram í grg, og hæstv. landbrh. gerði einnig grein fyrir, þegar hann mælti fyrir þessu frv., er hér um samkomulagsmál að ræða í sambandi við ákvörðun verðlags á landbúnaðarvörum á s.l. hausti, en af hálfu ríkisstj. var á það fallizt, að stofnaður yrði Jarðakaupasjóður eða lagt fé í Jarðakaupasjóð, til þess að kaupa jarðir, sem sérstaklega stæði á um.

Í septembermánuði s.l. gaf hæstv. landbrh. út bréf um þetta efni þ.e.a.s. um það sem samningar tókust um í sambandi við verðlagsmálin. Ég hef litið svo á, að eðlilegt væri, að þetta samkomulag gengi fram hér á Alþ. á þann hátt, að stofnaður yrði þessi sjóður og tekið í l. að leggja í hann það fé, sem gert er ráð fyrir í 5. gr. frv., að í hann verði lagt. Hins vegar hef ég litið svo á, að hér væri ekki um stórmál að ræða. Aðalatriðið væri það, að fé væri lagt í Jarðakaupasjóð skv. samkomulaginu frá í haust og þegar byrjað á því, og síðan mætti ræða þessa hluti nánar. Á frv. hafa verið gerðar nokkrar breyt. með samkomulagi og aðrar liggja fyrir, sem líklegt er að gerðar verði með samkomulagi. Á hitt atriðið, hvort meiri breyt. verða á frv. gerðar, legg ég ekki mikla áherzlu. Mér finnst aðalatriðið vera þetta, að samþykkt verði að leggja fé í sjóðinn, eins og samkomulagið gerði ráð fyrir. En það mál, sem hér er hafið, er í rauninni miklu stærra en það, sem frv. fjallar um. Þar er um mál að ræða, sem ég hygg, að óhjákvæmilegt sé að gefa nánari gaum mjög fljótt eða á næstu þingum. En ég vil leyfa mér að benda á og minna á það, að fyrir þessu þingi liggur till. til þál. um þessi mál. Hún er lögð fram í Sþ. snemma á þinginu, er 16. mál þingsins og fjallar um endurskoðun l. um jarðakaup ríkisins o. fl. En í gildi eru, svo sem kunnugt er, lög, sem munu vera nálægt því 30 ára gömul, um Jarðakaupasjóð ríkisins, sem ekki hafa verið framkvæmd, að ég ætla, nú í seinni tíð, sakir fjárskorts og annmarka, sem eru á ákvæðum l. En þessi till., sem liggur fyrir á þskj. 16 og er 16. mál þingsins, er flutt að tilhlutun þingflokks framsóknarmanna af þm. Helga Bergs, Ólafi Jóhannessyni og Ágúst Þorvaldssyni. Í samb. við þetta frv. held ég að það sé mjög til glöggvunar, að lesið sé upp meginmál þessarar till., því að það gefur í raun og veru hugmynd um það mál, sem fyrir liggur að fjalla um á næstu árum. En till. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu 7 manna n. til að endurskoða l. nr. 92, 23. júní 1936, um jarðakaup ríkisins og önnur gildandi lagaákvæði, sem varða kaup meðferð og sölu ríkisjarða, og gera svo fljótt sem verða má till, um lagabreyt. og ný lagaákvæði, sem miða að því í fyrsta lagi að auðvelda þeim, sem hætta verða búskap, vegna aldurs eða annarra orsaka, að koma eignum sínum í verð og skapa jafnframt skilyrði fyrir betri skipulagningu, með því að ríkið kaupi eyðijarðir eða jarðir, sem ella færu í eyði, svo og aðrar jarðir, sem ekki eru nytjaðar með eðlilegum hætti.

Í öðru lagi að efla þá starfsemi Landnáms ríkisins, er lystur að því að gera heildarskipulag fyrir landbúnaðarbyggðirnar, sbr. 22. gr. laga nr. 75 27. apríl 1962, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum.

Í þriðja lagi að tryggja sem bezt umráða- og eignarrétt bænda á jörðum og opinbera aðstoð við eigendaskipti m.a. með stórauknu lánsfé til bænda til jarðakaupa, svo að þeim, sem vilja leggja stund á búskap, sé gert sem auðveldast að eignast jörð.

Jafnframt séu möguleikar athugaðir á því, að ríkisjarðir, sem felldar hafa verið inn í heildarskipulag byggðarinnar, séu seldar með hagkvæmum kjörum þeim, sem vilja nytja þær til ábúðar, í samræmi við staðfest skipulag.

Í fjórða lagi að tryggja sjálfseignarbændum eðlilegt öryggi um verðgildi eigna sinna og jafna aðstöðu þeirra og leiðuliða um þau efni.

Í fimmta lagi, að settar verði reglur um mat á jarðeignum til kaups og sölu í því skyni að skapa meiri festu í verðlagningu slíkra verðmæta.“

Þáltill. gerir sem sé ráð fyrir, að settar verði reglur um slíkt mat. „N. skal leita aðstoðar þeirra embættismanna og sérfræðinga, sem um þessi mál fjalla, svo og Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.“ Í meginmáli þessarar till., sem ég hef nú leyft mér að lesa, og nú liggur fyrir hinu háa Alþ. til afgreiðslu, ætla ég, að dregin sé upp mynd af þessu viðfangsefni, sem fyrir liggur, eins og það er í raun og veru. Frv., sem hérna liggur fyrir til meðferðar í þessari umr., er í raun og veru ekki nema lítill þáttur þess og getur ekki verið til annars ætlazt, eins og frá því er gengið. Hins vegar vil ég segja það, að ég hygg að þetta frv. myndi nú þegar geta gert nokkurt gagn, ef að lögum yrði. Það sem mér finnst t.d. að helzt muni verða að gagni, ef þetta frv. verður að lögum, væri það, að hreppum og sveitarfélögum kynni að verða gert kleift að eignast eyðijarðir, sem víða eru í reiðuleysi og óvíst hversu fer um á komandi tímum, en eðlilegt er að séu í eigu sveitarfélaganna.

Um leið og þetta frv. verður nú afgr. hér við 3. umr., og ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með því, vildi ég sem sé nota tækifærið til þess að gera grein fyrir þessu máli, eins og mér finnst það liggja fyrir, jarðeignamálinu; og minna á það, að till. um vinnubrögð í þessu máli liggur fyrir þessu þingi, sem nú situr. Það færi einnig mjög vel á því, — ég vil alveg sérstaklega beina því til hæstv. landbrh. — að um leið og þetta frv. um jarðakaupasjóðinn á þskj: nr. 278 er afgr., þá yrði einnig afgreidd frá Alþ. till. til þál. um endurskoðun laga um jarðakaup ríkisins o.fl. á þskj. 16.