18.10.1966
Sameinað þing: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1967

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Stuðningsflokkar ríkisstj. hafa frá upphafi stjórnarsamstarfsins stefnt að því að hafa ríkisbúskapinn hallalausan, og þegar litið er á öll árin til samans frá 1960, hefur þetta tekizt þrátt fyrir nokkurn halla á árunum 1964–1965. Þetta er mjög mikilvægur árangur af þeirri efnahagslegu viðreisn, sem átt hefur sér stað, og í því frv. til fjárl. fyrir árið 1967, sem hér liggur fyrir, er enn fylgt sömu stefnu, þar sem greiðslujöfnuður á sjóðsyfirliti er áætlaður rúmlega 150 millj. kr., eftir að varið hefur verið til afborgana lána og til eignaaukninga rúml. 236 millj. kr. Láta mun nærri, að um fimmti partur þjóðarteknanna fari um ríkissjóðinn, og er af því augljóst, hversu mikilvægt það er, að jafnvægi sé í ríkisbúskapnum og helzt að hann sé gerður upp með sem ríflegustum greiðsluafgangi, þegar vel árar.

Ríkisreksturinn er margþættur, og auk alls konar þjónustu, félagsmála og framkvæmda á ríkisins vegum þykir nú á dögum einnig sjálfsagt, að ríkissjóður stuðli að eflingu atvinnuveganna og styrki þá, ef með þarf. Greiðslugeta ríkissjóðs og lánstraust verður þess vegna að vera öruggt, þannig að starfsemi ríkisins komi að því gagni, sem til er ætlazt, og jafnan eru uppi till. um það, að starfssvið ríkisins sé aukið. Á tímum mikillar verðþenslu eins og undanfarin ár er greiðsluafgangur ríkissjóðs enn fremur mælikvarði á það, hvort ríkisrekstrinum hafi verið hagað þannig, að hann stuðli að fjárhagslegu jafnvægi. Af þessum ástæðum m.a. er afgreiðsla fjárl. jafnan eitt mikilvægasta málið, sem fyrir Alþ. kemur, og getur ráðið miklu um þróun efnahagsmálanna, a.m.k. á því ári, sem þau ná til hverju sinni, og oft lengra fram í tímann. Hefur t.d. komið fyrir, að orðið hefur að hækka skatta mjög verulega, til þess að unnt væri að hlaupa undir bagga með atvinnuvegunum, og hafa af því stafað ótal keðjuverkanir í efnahagslífinu og jafnvel farið svo, að stuðningurinn, sem veita átti, hefur orðið harla lítils virði og ekki náð tilgangi sínum. Þegar þannig hefur farið, hefur það stafað af því, að staða ríkissjóðs hefur raunverulega verið of veik, og ef vel hefði átt að vera, hefði þurft að veita atvinnuvegunum stuðning án þess að leggja á nýja skatta.

Nú er þannig ástatt um sumar greinar útflutningsframleiðslunnar, að þær standa höllum fæti vegna verðfalls á erlendum mörkuðum, verðbólgu hér innanlands og af ýmsum fleiri samverkandi orsökum, og er greinilegt, að þessar mikilvægu framleiðslugreinar þurfa stuðnings með, ef ekki á svo að fara, að þær stöðvist eða dragist saman, þannig að við fáum á ný að kynnast atvinnuleysi, sem verið hefur óþekkt í mörg ár. Vonandi eru a.m.k. sumir þeir erfiðleikar, sem um er að ræða, tímabundnir, en samt þarf að gera ráðstafanir til þess að mæta þeim og sigrast á þeim. Og hvernig er þá ríkissjóður undir það búinn að taka þennan vanda á sig, eins og nú er ástatt? Langsamlega stærsti þátturinn í þeim vanda, sem við er að etja, er verðbólgan. Hún hefur veikt starfsgrundvöll útflutningsatvinnuveganna meira en nokkuð annað, og sú staðreynd, að ekki hefur fyrr komið til stöðvunar, byggist eingöngu á því, að verðlag hefur að undanförnu verið mjög hagstætt erlendis á flestum útflutningsafurðum sjávarútvegsins. Nú hefur hins vegar brugðið svo við, að veruleg lækkun hefur orðið á síldarlýsi, síldarmjöli og freðfiski á erlendum markaði, og verðlagið þar er þess vegna ekki lengur sú vörn gegn hinum innlenda verðbólguvexti, sem áður var. Gagnráðstöfunin, sem gera þarf, liggur í augum uppi: Það verður að stöðva verðbólguvöxtinn innanlands, hvað sem það kostar. Og það kostar mikið, það vitum við, því að verðhækkanirnar nú í haust á landbúnaðarafurðum og ýmsu fleiru mundu valda allt að 9–11 stiga hækkun framfærsluvísitölunnar, ef ekkert væri að gert. Hækkun kaupgreiðsluvísitölu mundi þá nema um 5% og verðbólguskriðan halda áfram með fyllsta þunga.

Þeirri byrði, sem af þessu mundi leiða, getur ríkissjóður nú létt af atvinnuvegunum með því að taka á sig kostnaðinn við að greiða niður þessa miklu hækkun. Þá aðstoð er nú hægt að veita, án þess að grípa þurfi til nýrra skatta eða samdráttar, og þess vegna er þessi leið til stöðvunar verðbólgunnar nú líklegri til árangurs en oft áður, þótt hún sé ekki frambúðarlausn á vandamálum verðbólgunnar í heild. En það þarf fleira til að koma en það, að ríkissjóður leggi fram fé í niðurgreiðslurnar, og leyfi ég mér í því sambandi að vitna til orða hæstv. forsrh. í tilkynningu ríkisstj., er hann flutti hér á þessum stað s.l. fimmtudag. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Skilyrði þess, að stöðvun verðlags fyrir atbeina ríkisvaldsins takist, er, að ekki séu gerðar aðrar ráðstafanir, sem leiða hljóta til verðhækkana, og veltur þá á miklu, að í þeim efnum takist samvinna milli ríkisstj. og Alþingis annars vegar og stéttarfélaga verkalýðs og annarra launþega og atvinnurekenda hins vegar.“

Í sömu tilkynningu gat hæstv. forsrh. þess, að þegar hefði verið ákveðið að auka niðurgreiðslur vegna hækkunar búvöruverðsins og ríkisstj. hefði nú til athugunar fleiri ráðstafanir í þá átt að draga úr áhrifum verðhækkana frá 1. ágúst. Það hefur þegar sýnt sig, að þessar aðgerðir mælast vel fyrir. En til þess að þær beri tilætlaðan árangur, þurfa þær að mæta almennum skilningi, þannig að verðlaginu verði haldið í skefjum á öllum sviðum. Máltækið segir, að of seint sé að byrgja brunninn, þegar barnið sé dottið ofan í, eða m.ö.o., ef ekki sé forðað frá augsýnilegum hættum í tæka tíð, séu slysin sjálfskaparviti. Nú er augsýnileg hætta fram undan í atvinnulífinu, ef haldið er áfram að magna verðbólguna hér innanlands meira en í nokkru öðru nágranna- og viðskiptalandi. Sú þróun hlýtur að enda með stórslysi, ef ekki er spyrnt við fótum í tæka tíð. En það er miklu hægt að bjarga, ef farið er nú að ráðum ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, og niðurgreiðsluleiðin er nú vel fær, eins og ég áðan sagði, vegna góðrar afkomu ríkissjóðs og þess aðhalds, sem beitt hefur verið í ríkisrekstrinum að undanförnu.

Það er margt í þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, og í upplýsingum hæstv. fjmrh. um afkomu þessa árs, sem sanna þetta. Þannig hækkar tekjuhlið frv. 4.4% meira en gjaldahliðin, þrátt fyrir óbreytta skatta og þrátt fyrir það, að ýmsir útgjaldaliðir eru nú áætlaðir af meira raunsæi en oft áður. Þau vinnubrögð eiga að tryggja það, að Alþ. fái sem sannasta mynd af útgjaldaþörfinni, eftir því sem hægt er að búast við á verðbólgutímum, og umframgreiðslur umfram fjárlög ættu að minnka, þegar áhrifa þessara vinnubragða fer að gæta enn betur. Nú, þegar þessum vinnubrögðum er beitt í fyrsta skipti, hefur ýmiss konar útgjaldaþörf ríkisstofnana verið viðurkennd í fjárlagafrv., sem undanfarið hefur verið raunveruleg og greidd úr ríkissjóði með umframgreiðslum umfram fjárlög. Einnig eru nú teknar inn í frv. 80 millj. kr. til aðstoðar fyrir sjávarútveginn, en í ár og s.l. ár var sú aðstoð ákveðin með sérstökum lögum, eftir að afgreiðslu fjárl. var lokið. Af þessu stafar að sjálfsögðu að nokkru leyti sú 18% hækkun útgjalda, sem frv. gerir ráð fyrir, en að öðru leyti má rekja útgjaldahækkunina til hinnar almennu verðþenslu. Þannig nemur hækkun fastra launa um 25% frá fjárl. þessa árs, skrifstofukostnaður hefur almennt veríð ráðgerður 20–25% hærri, og ferðakostnaður innanlands hækkar um 25–30%, að því er upplýst er í aths. með frv. Hjá ríkinu og ríkisstofnunum mun vera talið, að við hvert stig, sem framfærsluvísitalan hækkar, hækki launagreiðslur um allt að 10 millj. kr. Niðurgreiðsla vísitölunnar um 9–11 stig mundi þannig forða ríkinu frá 90–110 millj. kr. hækkun gjalda, en mundi samt sem áður kosta ríkissjóð 200–300 millj. kr. Ætla má, að niðurgreiðsla vísitölunnar um 9–11 stig geti forðað atvinnuvegunum frá 400–500 millj. kr. hækkun á launakostnaði, en almenningi yrði samtímis forðað frá enn þá meiri hækkunum á vöruverði og þjónustu, sem sífellt mundu halda áfram að velta upp á sig vegna vísitölutengslanna milli verðlagsins og kaupgjaldsins, og að lokum yrði ástandið óviðráðanlegt. Með þetta í huga finnst mér, að auðvelt hljóti að vera að velja stöðvunarleiðina. Og þeir menn, sem kynnu að hafna henni, mundu taka á sig þunga ábyrgð, ekki sízt gagnvart launþegum og atvinnuöryggi þeirra.

Þrátt fyrir þá erfiðleika og þá hættu, sem ég hef nú gert að umtalsefni, er engin ástæða til fyrir þjóðina að trúa því, sem stjórnarandstöðuflokkarnir halda fram um bágborinn efnahag og allsherjarhrun atvinnuveganna. Stjórnarandstæðinga hefur dreymt sama móðuharðindadrauminn í 7–8 ár og alltaf haldið á hverjum morgni, að nú mundi draumur þeirra rætast þann daginn. En allan þennan tíma hefur það verið að gerast, að efnahagurinn hefur farið batnandi, atvinnuleysi hefur verið óþekkt og þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa aukizt meira en hjá flestum öðrum þjóðum. Við höfum eignazt meiri varanleg verðmæti en nokkurn tíma áður, og þessi efnahagslegi bati nær ekki aðeins til fárra útvaldra, heldur til þjóðarinnar allrar. Þannig erum við nú betur undir það búnir en nokkurn tíma fyrr að mæta aðsteðjandi erfiðleikum, jafnvel miklum erfiðleikum. En við skulum þó vona, að sú blika, sem nú er á lofti, sé tímabundin. Það er margt til marks um batann í efnahagslífinu og árangur viðreisnarinnar á liðnum árum, og blasir flest af því við allra augum. En ef við viljum kynna okkur það betur, höfum við m.a. fyrir framan okkur skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til hagráðs um ástand og horfur í efnahagsmálum. Í henni koma m.a. fram eftirfarandi atriði:

Að meðaltali hefur ársvöxtur þjóðarframleiðslu numið 51/2% frá 1960–1965 og vöxtur þjóðartekna 7.6%. Sé árið 1961 ekki talið með, en á því ári dró langt verkfall úr framleiðslunni, er vöxturinn enn örari eða 6.4% fyrir þjóðarframleiðslu og 8.2% fyrir þjóðartekjur frá 1961–1965. Mest er aukningin í fiskveiðum og fiskvinnslu eða um 8–9% að jafnaði s.l. 5 ár, svo og í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en þar er aukningin um 10% til jafnaðar á ári. Aukning þjóðarframleiðslu til jafnaðar á mann frá 1961–1965 nemur 4.6%, en aukning þjóðartekna 6.3%, og er þetta örari hagvöxtur en þekkist á sama tíma í nokkru öðru iðnþróuðu landi innan vébanda Efnahagsog framfarastofnunarinnar, að Japan undanskildu. Ekki ber þetta vott um hrun. Orðrétt segir í skýrslunni um hlutdeild launþega í þjóðartekjunum:

„Launþegar hafa því að fullu notið góðs af hinni miklu aukningu þjóðartekna á undanförnum árum og haldið þeirri hagstæðu hlutdeild í þjóðartekjunum, sem þeir höfðu áður náð á árinu 1960.“

Þetta er betur skýrt nokkru síðar, þar sem segir um aukningu raunverulegra atvinnu- og ráðstöfunartekna launþega orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé reiknað frá því ári“ — þ.e. 1961 — „telst heildaraukningin yfir 4 árin frá 1961–1965 vera 37–41% og meðalaukningin á ári 8–9%. Aukning raunverulegra þjóðartekna á mann var á sama tíma 6.3%.“

Samkv. þessum tölum er aukning rauntekna launþega á umræddu tímabili nokkru meiri en aukning raunverulegra þjóðartekna. En vegna ýmissa fyrirvara við útreikningana er ekki fullyrt meira í skýrslunni en það, að launþegar hafi fyllilega notið góðs af hinni miklu aukningu þjóðarteknanna. Ekki ber þetta vott um aukið arðrán eða launakúgun, og yfirlit skýrslunnar um þróun kaupgjalds sýnir meðalhækkun kauptaxtanna á ári frá 1960–1965 um 15%, en á sama tíma er árleg: meðalhækkun í iðnaðarlöndum VesturEvrópu um 8%. Þá er í skýrslunni athuguð aukning kaupmáttar meðalkaupsins á vinnustund, og kemur í ljós, að alls hefur kaupmættinum samkv. vísitölu framfærslukostnaðar skilað fram um tæp 28% frá 1960 til 1. júní 1966, en það samsvarar 4.2% meðalaukningu á ári. Að þessu leyti hefur þannig þrátt fyrir allt verið haldið í horfinu og vel það í kapphlaupinu við hina ört vaxandi dýrtíð hér á landi, en verðlagið hefur hækkað að meðaltali á ári 1960–1965 um 11–12.4%, eftir því, hvort miðað er við vísitölu framfærslukostnaðar eða vísitölu neyzluvöruverðlags. Á sama tíma hefur meðalhækkun verðlagsins í 11 Evrópulöndum verið um 4% á ári. Þá fræðir skýrslan okkur um það, að viðskiptajöfnuðurinn út á við á umræddu tímabili hafi verið hagstæður, að undanskildum árunum 1960–1963, þrátt fyrir sérstaklega mikinn innflutning skipa og flugvéla, sem komst upp í 938 millj. kr. árið 1964, og bifreiðakaup, sem námu um 520 millj., á útsöluverði að vísu, árið 1963. Einkaneyzla og samneyzla, þ.e. rekstrarútgjöld vegna þjónustu hins opinbera við borgarana, en þó ekki fjárfesting og styrkir, hafa hvor um sig aukizt um 5.1%, og er það svipað og raun hefur á orðið í öðrum löndum. Fjármunamyndunin aftur á móti jókst frá 1960–1965 um 7% á ári, og er það örari meðalvöxtur en í 11 Evrópulöndum, þar sem hann var 6.5%.

Heildarupphæð fjármunamyndunar á síðasta ári nam 5600 millj. kr. á verðlagi þess árs, og svarar það til 27.6% allrar þjóðarframleiðslunnar. En annars hefur fjármunamyndunin verið breytingum háð frá ári til árs. 1963 jókst hún um 30.7% , 1964 um 17.6%, en hélzt svo að heita mátti óbreytt 1965. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnuvegirnir hafa haft forustuna í þeirri þróun, sem átt hefur sér stað síðan 1962. Árið 1965 var fjármunamyndun á þeirra vegum 61% meiri að magni en árið 1982. Sama ár var fjármunamyndunin í íbúðabyggingum 62% meiri en 1962 og í opinberum framkvæmdum 43% meiri. Þó var fjármunamyndun atvinnuveganna enn meiri 1964 heldur en 1965. Á því ári voru gerð meiri kaup fiskiskipa en nokkurt ár síðan 1960 og langhæst kaup flutningatækja, sem nokkru sinni hafa verið gerð, eða um 60% meiri en árið 1947, er þau voru mest áður. Fjármunamyndunin í fiskiðnaði hefur verið mjög svipuð frá og með árinu 1962, er miklar framkvæmdir hófust í síldariðnaði, en þá var fjármunamyndun í fiskiðnaði alls um 57% meiri en að meðaltali 5 síðustu árin á undan, 1957–1961. Fjármunamyndun í öðrum iðnaði en vinnslu sjávarafurða hefur aukizt mjög mikið. Var hún um 75% meiri 1965 heldur en 1963, en hafði nærfellt tvöfaldazt frá 1960. Meginhluti þeirrar aukningar féll á árið 1963. Fjármunamyndun í landbúnaði hefur aukizt jöfnum skrefum, en einnig mjög ört, var árið 1965 um 50% meiri en 1962, en um 78% meiri en 1960. Aukningin er hvað fyrirferðarminnst í byggingu verzlunar-, skrifstofu- og gistihúsa, sem árið 1965 var 45% meiri en 1962 og 65% meiri en 1960. Íbúðabyggingar drógust talsvert saman árið 1961, en hafa aukizt mjög ört frá árinu 1962 eða alls um 52% til 1965. Langmest varð aukningin árið 1963, 28%. Íbúðabyggingarnar hafa farið talsvert fram úr því, sem þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin gerði ráð fyrir, þannig að þær munu samsvara um 1600 íbúðum á ári 1964–66 í stað 1500 íbúða samkv. áætluninni. Auk þess hefur meðalstærð íbúðanna aukizt. Fjármunamyndun í mannvirkjum og byggingum hins opinbera var árið 1965 43% meiri en 1962, en um 58% meiri en 1960. Mest varð aukningin 1963, 17%, en hefur farið minnkandi síðan.“

Ég læt þessi sýnishorn af úttekt Efnahagsstofnunarinnar á tímabilinu 1960–1965 nægja að sinni. Þau tala sínu máli um blómlegt atvinnulíf og batnandi efnahag. Hið sama verður uppi á teningnum, ef blaðað er í samanburðarskýrslum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, t.d. fyrir árið 1964. Samkv. þeim urðu þjóðartekjurnar reiknaðar í dollurum á mann það ár hæstar í Bandaríkjunum, um 3330 dollarar, en Ísland var í 5. sæti, næst á eftir Svíþjóð, Kanada og Sviss, með 2110 dollara. Þátttökuríkin í Efnahagsstofnuninni eru 21 talsins. Fjármunamyndun var hæst í Sviss, 650 dollarar á mann, en Ísland er í 2. sæti með 590 dollara, næst á undan Bandaríkjunum, Svíþjóð og Kanada. Í einkaneyzlu á mann var Ísland í 3. sæti með 1350 dollara, aðeins Bandaríkin og Kanada voru hærri. Og í bílaeign og talsíma var Ísland í 6. sæti.

Þetta, sem ég nú hef rakið, vitnar allt gegn stjórnarandstöðunni og þeim áróðri hennar, að við höfum verið að gera þá ríku ríkari og greitt fyrir því, að ofsagróði safnaðist á fárra manna hendur. Allt slíkt tal er úr lausu lofti gripið og sömuleiðis söngurinn um allsherjarhrunið, sem nú er upphafinn, aðallega í tilefni af erfiðleikum togara, minni vélbáta og hraðfrystihúsa, og skal þó engan veginn gert of lítið úr þeim vanda, sem þar er við að glíma. Þau vandamál hefðu fyrir nokkrum árum haft í för með sér mikið umrót í þjóðfélaginu og naumast verið hægt að leysa þau án gengisfellíngar, eða hliðstæðra ráðstafana, af því að þá höfðum við ekki efni á því að fara aðrar leiðir. Í dag er allt öðruvísi ástatt og margt er hægt að gera til aðstoðar þessum mikilvægu atvinnugreinum einmitt vegna þess, að viðreisnin hefur borið árangur og fjárhagsafkoma þjóðarinnar er traustari en nokkru sinni fyrr. Þessi mál eiga eftir að koma fyrir þingið, svo sem boðað hefur verið, og gefst þá tækifæri til að fjalla nánar um þau.

Sá vandi, sem við er að etja, á rætur sínar í ýmsu fleiru en dýrtíðinni, og þarf að kanna rækilega mörg önnur vandamál en þau, sem beinlínis leiðir af vaxandi dýrtíð. Tökum t.d. togarana. Þeirra vandi er m.a. sá, að afli þeirra hefur minnkað stórkostlega. Á fyrstu árunum eftir stríðið var algengt, að hvert skip aflaði um 5000 tonn á ári, og á karfaveiðunum komst aflinn jafnvel hærra. Nú mun meðalafli vera nálægt 2000 tonnum á skip á ári. Og þessi mikli mismunur leiðir að sjálfsögðu til lélegri afkomu skipanna.

Þá vaknar sú spurning, hvernig á þeim mikla mismun standi, og hafa dagblöðin hér í Reykjavík svo lengi og oft haldið því fram, að þetta megi rekja til þess, að togararnir hafi misst hefðbundin fiskimið við útfærslu landhelginnar, að sumir eru farnir að trúa þessu og telja, að mestallan vanda togaranna megi leysa með. því að veita þeim aukin leyfi til . fiskveiða í landhelginni. Hef ég heyrt talað um, að með því móti megi auka ársafla hvers togara um 600 tonn. Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi hafa íslenzk togveiðiskip og dragnótaskip nú þegar mjög víðtækar undanþágur til veiða innan fiskveiðilandhelginnar. Mega þau sums staðar veiða allt árið um kring á yztu 4 mílunum, en annars staðar mega þau veiða í 4–6 mánuði á ári á 4–8 mílum yzt í landhelginni, en það er breytilegt eftir stöðum. Og þar eð þessar undanþágur miðast við grunnlínurnar frá 1958, ná þær sums staðar, t.d. á Selvogsbanka, langt inn fyrir núgildandi grunnlínur. Vestfirðir eru eini landshlutinn, þar sem engar undanþágur eru leyfðar: Blaðaskrifin um útilokun frá hefðbundnum fiskimiðum eru þannig vægast sagt ónákvæm.

Í öðru lagi er það engan veginn víst, að afli hvers togara mundi aukast um 600 tonn, þótt undanþágur þeirra yrðu auknar, svo mjög hefur afli íslenzkra, brezkra og þýzkra togara minnkað á hverja sóknareiningu, og setja fiskifræðingar þá útkomu í samband við of háa dánartölu hins kynþroska fisks og ofveiði á ókynþroska fiski, en þetta þýðir víst hvort tveggja nokkurn veginn það sama. Þannig var afli íslenzku togaranna árið 1960 1185 tonn á millj. togtíma, en hann var kominn niður í 411 tonn árið 1964, miðað við sömu einingu. Hjá vélbátunum er svipaða sögu að segja. Á vetrarvertíð 1964 var heildarafli 393 báta á svæðinu frá Hornafirði að Ísafjarðardjúpi 234146 tonn. Í ár voru gerðir út hér um bil jafnmargir bátar á þessu svæði, eða 397, og varð afli þeirra aðeins 173932 tonn, eða 60164 tonnum minni en árið 1964. Að þessu athuguðu tel ég, að ræða sú, sem hæstv. utanrrh., Emil Jónsson, flutti nýlega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hafi verið fyllilega tímabær og áhrifamikil aðvörun til allra þjóða um þá hættu, sem ofveiðin hefur í för með sér fyrir fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi, Í því efni þarf samkomulag, sem nær langt út fyrir íslenzka landhelgi.

Ég hef ekki trú á því, að auknar landhelgisveiðar togara mundu skipta sköpum um afkomu þeirra, og tel þær hugmyndir, sem fram hafa komið um þetta efni, ekki vera neitt bjargráð þeim til handa. Sjálfsagt er þó að athuga þær till. vandlega eins og allt annað, sem til greina getur komið í þessu mikla vandamáli.

Hér er ekki tími til að ræða þetta mál ýtarlega. En mér virðist af því, sem fram hefur komið um togaraútgerðina, að eigi hún að halda áfram, dugi ekkert annað og minna en að keypt séu ný skip með fullkomnum tæknibúnaði, sem hægt sé að gera út með fámennari áhöfnum en tíðkast, m.ö.o. skip, sem séu hagkvæmari og ódýrari í rekstri en gömlu skipin. Vandi vélbátanna er m.a. sá, að veiðisvæði síldarinnar hafa færzt mjög til í ár og í fyrra frá því, sem áður var, þannig að bátar undir 150 rúml. þykja nú ekki lengur gjaldgengir til síldveiða. Margir þessara báta sitja þannig uppi með dýran síldveiðiútbúnað, sem nú kemur þeim ekki lengur að notum, og flestir þeirra eru nýlegir og lítið afskrifaðir.

Ég var formaður í n. þm., sem var falið að rannsaka vandamál minni vélbáta. Sú n. gerði ýmsar athuganir á vandamálum vélbátanna og skilaði fyrir nokkru áliti sínu og till. til hæstv. ríkistj., og hafa þær verið hjá henni í athugun síðan. Að gefnu tilefni í fram kominni fsp. vil ég upplýsa, að hæstv. sjútvmrh. hefur tjáð mér, að þingflokkarnir hafi þegar fengið skýrslu okkar til athugunar sem trúnaðarmál og öllum hv. alþm. verði sent eintak af henni. Sé ég því ekki ástæðu til að rekja efni hennar hér. Þess vil ég þó geta, af því að n. var sérstaklega falið að gera till. um, hvort rétt sé að veita vélbátunum aukin réttindi til fiskveiða með dragnót eða botnvörpu í landhelgi, að n. var ekki meðmælt frekari undanþágum en nú gilda. Í n. voru auk mín Sigurður Ágústsson, Matthías Bjarnason, Lúðvík Jósefsson og Jón Skaftason.

Vandamál hraðfrystihúsanna eru samtvinnuð vandamálum útgerðarinnar og aflabrögðunum. Hraðfrystihúsin eru afkastamikil og vantar hráefni, en það fá þau ekki, nema því aðeins að unnt sé að gera út og afli fáist. Vegna mikils tilkostnaðar þurfa bæði bátar og togarar hærra verð fyrir aflann, en það geta frystihúsin ekki greitt vegna verðfallsins á hraðfrystum fiski og vegna mikils tilkostnaðar í landi. Meðan eins horfir og nú með fiskverðið, er þess vegna nauðsynlegra fyrir sjávarútveginn en flestar aðrar atvinnugreinar, að verðbólguskriðan sé stöðvuð. Takist ekki að stöðva hana, verður lítið gagn að öðrum aðgerðum. Gleymum því ekki, að sjávarútvegurinn stendur undir mestallri þeirri gjaldeyrisöflun, sem nauðsynleg er, til þess að þjóðin geti lifað hér menningarlífi á nútímavísu. Við höfum engu að tapa, en allt að vinna með því að standa vörð um það, sem áunnizt hefur á síðustu árum. Það gerum við með því að fara nú stöðvunarleiðina.