10.04.1967
Efri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Jarðeignasjóð ríkisins var afgreitt frá Nd. með nokkrum breytingum. Það var brtt. frá landbn. á þskj. 262, sem n. flutti í byrjun, en síðar komu brtt. frá Búnaðarfélagi Íslands, sem höfðu verið athugaðar á búnaðarþingi og n. tók þær að mestu leyti óbreyttar upp og flutti þær. Voru þær allar samþ. Það er eins og sjá má hlutverk þessa frv. að stofna sjóð, Jarðeignasjóð ríkisins. Tilgangur sjóðsins er sá að kaupa upp jarðir, sem illa eru í sveit settar, of litlar og ekki góðar til búrekstrar og sem af þjóðhagslegum ástæðum mætti telja eðlilegt að færu úr byggð. Þetta er aðaltilgangurinn. Þá er gert ráð fyrir því, að Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins kynni sér ástand þessara jarða og meti, hvort æskilegt sé að ríkið kaupi jörðina með tilliti til þess, hver tilgangur frv. er, og gert er ráð fyrir því að hafa hliðsjón af því verðmæti, sem búið er að leggja í jörðina, þegar kaupverð er ákveðið, en kaupverð skal þó ekki fara yfir fasteignamat á hverjum tíma. Þetta var dálítið gagnrýnt í Nd., að binda verðið við fasteignamatið, en þess ber að geta, að nú er að ganga í gildi nýtt fasteignamat, og það verður að ganga út frá því, að hið nýja fasteignamat verði að mestu miðað við þau verðmæti, sem álitin eru vera í jörðinni, þótt einnig eigi að hafa hliðsjón af því, hvað líklegt söluverð væri. Þess má geta, að í sambandi við Jarðakaupasjóð ríkisins, sem var stofnaður 1936, þótti sjálfsagt að hafa þetta ákvæði í l., að verðið skyldi ekki fara yfir gildandi fasteignamatsverð, og í þeim hreinsunareldi, sem þetta frv. hefur verið í bæði hjá Búnaðarfélagi Íslands, búnaðarþingi og við samningu þess, þar sem forsvarsmenn bænda voru, þá var ekki talið fært að víkja frá þessu ákvæði. Þá er gert ráð fyrir, að þriggja manna n. hafi með framkvæmd þess að gera, þegar um jarðakaupin er að ræða, en að öðru leyti verði Jarðeignasjóðurinn í vörzlu jarðeignadeildar ríkisins. Þá er einnig lagt til, að l. um gamla Jarðakaupasjóðinn verði felld úr gildi. Sá sjóður hefur ekki verið starfræktur síðustu áratugina, það eru meira en 20 ár síðan hann hefur keypt nokkra jörð, og það þykir ekki ástæða til að vera með tvo jarðeignasjóði eða tvenns konar l. um þetta efni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. Það skýrir sig sjálft, en hugmyndin um það er ekki mín. Það hefur verið rætt á fundum bænda undanfarin þrjú, fjögur ár, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til þess, að þeir menn, sem fara af jörðum sínum afskekktum, er ekki seljast á frjálsum markaði, þurfi ekki að ganga slyppir frá. Og á s.l. sumri, ég held það hafi verið í júlí eða ágústmánuði, voru samþ. drög að frv. um þetta. Það voru Sæmundur Friðriksson og Pálmi Einarsson, sem það gerðu, eftir minni beiðni, og í septembermánuði var skipuð sérstök n. til að endurskoða það frv., og samdi sú n. frv., sem hér liggur fyrir, og varð samkomulag um það í n. Í n. voru prófessor Ólafur Björnsson, Jón Þorsteinsson alþm., Gunnar Guðbjartsson, form. Stéttarsambands bænda, Kristján Karlsson fyrrv. skólastj. og Gunnlaugur Briem ráðuneytisstjóri, sem var formaður n.

Eins og ég sagði hefur þetta frv. fengið góða endurskoðun, bæði hér í hv. Alþ. og á búnaðarþingi, og a.m.k. í öllum aðalatriðum hefur verið fallizt á þær brtt., sem búnaðarþing gerði um málið.

Herra forseti, ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.