14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. tók fram það, sem ég raunar hefði átt að gera hér áðan, að þetta frv. hefði tekið talsverðum breyt. í Nd. frá því að það var lagt fram og að þær breytingar séu til bóta, undir það vil ég hiklaust taka. Aðalbreytingarnar, sem þar voru gerðar á því, voru gerðar að ósk búnaðarþings og var það vel, að málið skyldi þangað fara. En hann gat líka um það, að þetta mál hefði verið samkomulagsmál milli ríkisstj. og Stéttarsambands bænda, og þannig var það lagt fram í þinginu, eins og þessir aðilar höfðu komið sér saman um. Allar brtt. búnaðarþings voru teknar til greina í Nd. nema ein, en hún fjallar um skipun stjórnar Jarðeignasjóðs.

Ég fyrir mitt leyti tel ekki, að það sé stórt atriði, þar sem Stéttarsambandið hefur þarna fulltrúa eftir frv. og landbrn. annan. Ég get ekki heldur talið það neitt óeðlilegt, þó Hæstiréttur tilnefni 1 mann í þessa stjórn, mér virðist, að það ætti einmitt að tryggja það, að vel sé frá öllum samningum um jarðakaup gengið. Hitt getur svo alltaf verið álitamál, hver eigi að tilnefna menn í stjórnir, en ég fyrir mitt leyti tel ekki ástæðu til að gera breyt. á þessu atriði, enda líklegt, eins og hv. frsm. fyrir brtt. vék að, að þess verði máske ekki langt að bíða, að einhverjar breyt. verði gerðar á þessu frv. Aftur á móti vil ég segja um hina brtt., að miða við fasteignamat, en ekki matsverð, að ég álít, að tæplega sé hægt að taka hana upp hér á þessu stigi, þar sem þetta var samkomulagsmál á milli ríkisstj. og stéttarsambandsins, og ekki einu sinni búnaðarþing sá ástæðu til að óska eftir því, að þessi breyt. væri gerð. Þess má vænta, að það fasteignamat, sem við verður miðað, gangi í gildi 1969, og ég ætla, að það verði eðlilegasta viðmiðunaratriðið um sölu slíkra jarða, sem hér um ræðir, sem finnanlegt sé, a.m.k. á meðan ekki verða verulegar verðbreytingar frá því, sem það fasteignamat miðast við. Þessar aths. eða brtt., sem hér hafa komið fram, voru til umr. í landbn., og meiri hl. n. gat ekki fallizt á að flytja þær og þar af leiðandi geri ég ekki ráð fyrir, að sá meiri hl. fallist heldur á að samþ. þær nú.