09.02.1967
Efri deild: 35. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

111. mál, ríkisreikningurinn 1965

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið eftir ríkisreikningnum fyrir árið 1965, og er þar farið fram á, að Alþ. samþykki þær niðurstöður, sem orðið hafa á reikningnum. Svo sem í aths. með lagafrv. segir, er gert ráð fyrir, að reikningurinn sé lagður fyrir þingið samtímis frv., sem að sjálfsögðu er eðlilegt. Reikningurinn var lagður fram nú í haust, en án aths. yfirskoðunarmanna. Þeir hafa lokið sínum aths., og var ætlunin, að reikningnum yrði með aths. þeirra útbýtt hér í dag, en því miður hefur orðið á því dráttur í prentsmiðju, að hann væri til. Að sjálfsögðu er ekki nema eðlilegt, ef einhver hv. þdm. óskaði þess að fresta þessari umr. þangað til reikningurinn liggur fyrir með aths. Hins vegar held ég að það hafi aldrei orðið umr. um reikninginn við 1. umr. málsins, heldur eftir að hann er kominn frá hv. fjhn. og ef ekki koma fram andmæli gegn því frá hv. þdm., mundi ég leggja til, að þessari 1. umr. yrði lokið og frv. yrði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og reikningurinn þá að sjálfsögðu ekki tekinn til meðferðar, fyrr en hann liggur hér fyrir með eðlilegum hætti og þm. hafa haft nægan tíma til þess að athuga hann, enda kemur frv. auðvitað ekki til athugunar í hv. fjhn., fyrr en reikningnum hefur verið hér útbýtt.