10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

122. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er í rauninni fylgifrv. með frv. því um afnám heimilda til einkasölu á viðtækjum, sem hefur legið einnig hér fyrir þessari hv. d., og hefur þegar verið afgreitt frá n.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja orsakir þess, að það mál er hér flutt, en eins og hv. þdm. er kunnugt, var hagnaði af rekstri viðtækjaverzlunarinnar varið með tvennum hætti. Annars vegar til reksturs Sinfóníuhljómsveitarinnar og hins vegar til að greiða niður byggingarskuldir Þjóðleikhússins. Í annan stað var svo ákveðið, að allur hagnaður af innflutningi sjónvarpstækja, þ. á m. tolltekjur af innflutningi þeirra, skyldu renna til þess að greiða stofnkostnað sjónvarps. Þær tekjur hafa óskorað runnið til uppbyggingar sjónvarpinu, og hefur reksturskostnaður viðtækjaverzlunarinnar ekki verið greiddur af því fé, heldur af því, sem inn hefur komið, annars vegar fyrir sölu viðtækjaverzlunarinnar á hljóðvarpstækjum, og hins vegar af sérstöku leyfisgjaldi, einkasölugjaldi, sem þeir aðilar hafa orðið að greiða viðtækjaverzluninni, sem hafa fengið leyfi til þess að annast sjálfir innflutning og sölu hljóðvarpstækja.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að gerðar séu breyt. á tollskránni í þá átt, að verðtollur á hljóðvarps- og sjónvarpstækjum verði ákveðinn 100%. Með þessu móti mundu nokkuð aukast tekjur af sölu sjónvarpstækja og smávægileg verðhækkun verða á þeim, eða um 6%, en aftur á móti mundu hljóðvarpstæki lækka um 8% í verði og samdráttur verða nokkur í tekjum af þeim. Þetta mun þó ekki koma að sök varðandi hljóðvarpstækin, vegna þess að þegar er lokið greiðslum á byggingarskuldum Þjóðleikhússins, en þetta mundi gefa nokkrar tekjur til þess að standa straum af þeim kostnaði vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem hefur verið greiddur af þessum tekjulið. Hagnaður fyrir ríkissjóð yrði enginn af þeim ráðstöfunum, sem hér eru gerðar, vegna þess að verðtollurinn af sjónvarpstækjunum mundi að sjálfsögðu renna óskiptur áfram til uppbyggingar sjónvarpi. Af tolltæknilegum ástæðum þykir ekki eðlilegt að hafa mismunandi tollflokka á sjónvarpstækjum og hljóðvarpstækjum, enda þótt hér verði um smávægilega verðbreytingu að ræða. Ég geri einnig ráð fyrir því, að miðað við þann mikla áhuga, sem virðist vera hjá öllum um uppbyggingu sjónvarpsins, þyki mönnum það ekki nein goðgá, þótt tekjur þess aukist um nokkrar millj. kr. af þessum ástæðum.

Ég sé ekki ástæðu, nema tilefni gefist til, herra forseti, til að orðlengja frekar um málið. Það er mjög einfalt í sniðum, en ég legg til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn.