01.11.1966
Efri deild: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

35. mál, bátaábyrgðarfélög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki nýtt. Það var, eins og fram kemur í upphafi grg. þess eða í aths. með frv., lagt fram á síðari hluta síðasta þings, en fékkst þá ekki útrætt. Ástæðan til þess, að svo var ekki, var m.a. sú andstaða Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem fram kom við 1. umr. þess á síðasta þingi.

Upphaflega er þetta frv. samið, eins og fram kemur í grg., að ósk aðalfundar L.Í.Ú. í nóv. 1964 og skv. þeirri áskorun um endurskoðun þessara laga, er í ályktun þess fundar fólst. Við síðari umr. í þessum landssamtökum voru hins vegar gerðar við frv. allveigamiklar aths. og lagzt gegn framgangi þess, eins og það var lagt fyrir á síðasta þingi. Eigi að síður er talið rétt að flytja þetta frv. nú til þess að fá efnislega afstöðu Alþ. til málsins og gefa þm. kost á að ræða við þá menn, sem L.Í.Ú. hefur haft starfandi til athugunar á því síðan.

Ég tel ekki þörf á því að hafa langa eða mikla framsögu með þessu frv. og læt í því efni nægja að vísa til framsöguræðu minnar við umr. um málið á síðasta þingi, en þýðingarmestu breyt., sem í þessu frv. felast, eru þær, að fiskiskip, allt að 400 brúttórúmlestir, verði skyldutryggð hjá bátaábyrgðarfélögunum, en núna er skyldutryggingin heimiluð til skipa um 100 rúmlestir. Í öðru lagi, að bátaábyrgðarfélögunum verði, með vissum skilyrðum, heimilað að taka að sér aðrar tryggingar fyrir útgerðina, aðallega slysatryggingar og ábyrgðartryggingar, sem útgerðarmenn hafa, með samningum við sjómannasamtökin, skuldbundið sig til að kaupa. Og í þriðja lagi, að vátryggingaskilmálar verði ekki lengur ákveðnir í lögum, heldur með reglugerð, að fengnum till. stjórnar Samábyrgðar íslenzkra fiskiskipa.

Þetta eru þær meginbreytingar, sem frv. þetta felur í sér, og var, eins og áðan sagði, höfð hliðsjón af ályktun aðalfundar L.Í.Ú. frá 1964 við samningu þess, en síðan hafa þau samtök gert aðra ályktun, þar sem þau óska frekari rannsóknar á þessu máli og einstökum ákvæðum frv. og hafa fært fyrir því ákveðin rök.

Ég vildi mega beina þeim eindregnu óskum til þeirrar n., sem málið fær til frekari athugunar, að hún hafi um það náið samráð og samstarf við þá n. á vegum L.Í.Ú., sem starfar í þessu máli nú, og vænti þess, að svo verði gert.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.