02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að telja fram þau atriði, sem ég mun leggja áherzlu á í ræðu minni hér á eftir. Þau eru þessi:

1. Þetta fjárlfrv. er mesta verðbólgufjárlagafrv., er um getur. Tekjuáætlun þess er við það miðuð, að verðbólgan og spennan í viðskiptalífinu aukist.

2. Það er sannað, að fyrirheit þau, sem stjórnarliðið gaf í kosningunum um stöðvun verðbólgu, sparnað og hagsýni í ríkisrekstrinum, hafi verið þverbrotin.

3. Skammsýni, stefnuleysi og hringlandaháttur hefur einkennt margar athafnir hæstv. ríkisstj.

4. Fjárfestingin hefur verið skipulagslaus. Þau verkefni hafa jafnvel setið á hakanum, sem sízt skyldi, svo sem skólar. Fjárveiting til verklegra framkvæmda er æ rýrari með hverju fjárlagafrv.

5. Ástand atvinnuveganna er alvarlegt þrátt fyrir góðæri síðustu ára.

6. Tilburðir hæstv. ríkisstj. og tal um —verðstöðvun er sýndarmennska, endurtekning frá árinu 1959 vegna kosninganna í vor. Það er með öllu óframkvæmanlegt, að gera það tvennt samtímis að koma á verðstöðvun og hækka fjárl. um 1 milljarð, eins og hér er stefnt að.

7. Framsfl. flytur ekki nema eina brtt. til útgjalda við þetta fjárlagafrv. Ástæðan er sú, að svo er nú komið fjárhag ríkisins vegna rangrar stjórnarstefnu, að ekki er rúm fyrir fjárveitingar til eðlilegra framkvæmda á fjárl., sem verða þó um 5 milljarðar.

8. Alger breyting verður að koma til í efnahagsmálum og stjórnarathöfnum, ef unnt á að vera að koma fjárl. ríkisins, efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar í eðlilegt horf. Það verður að koma stefnufesta fyrir stefnuleysi. Það verður að koma stjórn á málefnum ríkisins fyrir stjórnleysi. Það verður að koma trú á landið og þjóðina fyrir trúleysi.

Þessum orðum mínum mun ég svo finna stað í ræðu minni hér á eftir.

En áður en lengra er haldið, vil ég byrja á því að þakka formanni og nm. fyrir samstarf í n., og það er ekki vegna framkomu þeirra við þau störf, að leiðir skildu í fjvn., heldur vegna stjórnarstefnunnar. Meiri hl. gerir nú eins og fyrr grein fyrir þeim till., sem fjvn. flytur sameiginlega. Fyrirvara okkar Framsóknarflokksmanna í n. um aðild að þeim till. er að finna í lok nefndarálits okkar. Vísum við þar til, en viljum þó taka fram, eins og þar er gert, varðandi afstöðu okkar til þeirrar breyt. á greiðslu til þeirra hafnarframkvæmda, sem búið er að inna af hendi, að till. um lækkun á þeirri greiðslu erum við andstæðir.

Til 3. umr. fjárlagafrv. bíða nú eins og oft áður nokkrir málaflokkar. Stærsti málaflokkurinn er fjárveitingar til skóla og skólastjóraíbúða. Enn fremur eru óafgr. hjá n. erindi um vatnsveitur, en þessi mál verða tekin fyrir við 3. umr. og afgreiðsla n. þar um liggur þá fyrir.

Í sambandi við það, sem fram kom í ræðu frsm. meiri hl., hv. formanns fjvn., og fram kemur í grg. og í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., um undirbúning fjárlaganna, — þar er því haldið á loft, að undirbúningur fjárlaga sé að þessu sinni betur gerður en áður hefur verið, — í sambandi við það vil ég segja það, að ég sé á engan hátt ástæðu til þess að gera lítið úr þeim, sem undirbúið hafa fjárlagafrv. nú, en ég tek ekki heldur undir það, að fjárlagafrv. fyrri ára hafi ekki verið vel undirbúin. Þar hafa verið að verki merkir embættismenn, sem ég tek ekki þátt í að kasta neinni rýrð á, enda ekki ástæða til. Mér finnst það greinilegt í sambandi við fjárlagaundirbúning að þessu sinni, að þar koma fram ýmsar veilur, sem ekki hafa komið fram áður, og er þar um að kenna, að hér voru nýliðar að verki, en öðru ekki.

Ég benti á það við 1. umr. fjárlaganna, að það er ekki gerð í grg. frv. grein fyrir tekjum af 2. gr. fjárlagafrv. Þar er þó gert ráð fyrir tekjum yfir 4 milljarða. Þess vegna hefði ekki verið ástæða til annars en gerð væri grein fyrir því, hvernig hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir, að þeirra tekna væri aflað, og á eðlilegan hátt þá grg., sem venja er að gera við tekjuhlið fjárlagafrv. eins og útgjaldahliðina. Ég vil líka geta þess, að það henti í sambandi við undirbúning fjárlagafrv., að það gleymdust 70 millj. af útgjöldum í sambandi við fjárlögin, svo að niðurstaðan um 150 millj. kr. greiðsluafgang var ekki raunhæf, vegna þess að 70 millj. vantaði. Þá var það, að útgjöld vegna niðurgreiðslna voru áætluð 30 millj. lægri en þá var staðreynd um og að með 40 millj. greiðslu til húsnæðismála, sem frá er dregin á 17. gr., var reiknað í tekjunum á 2. gr.

Það er rétt, að ýmis embætti og stofnanir hafa ekki kvartað sérstaklega undan fjárveitingum að þessu sinni. En ég gagnrýndi það við l. umr. þessa máls, að sumar þessar stofnanir og það margar hefðu fengið 30, 40 og jafnvel upp í 50% hækkun, og það er ekki ástaeða til, þegar svo vel er við stofnanir og embætti gert, að þá séu þau að kvarta. Ég tel, að hér hafi verið of langt gengið, og ég álít, að það sé röng stefna að áætla svo ríflega hjá embættum og stofnunum, að það sé nokkurn veginn öruggt, að þau geti ekki farið fram úr áætlun. Það mun leiða til meiri eyðslu hjá viðkomandi aðilum.

Ég vil líka geta þess, að það er gerð sú breyt. á fjárlagafrv. nú í fyrsta sinn, að fé, sem ætlað er til skóla, til viðhalds þeirra, það er nú í einni tölu á 14. gr. til barnaskólanna og önnur tala til gagnfræðaskólanna. Áður fyrr hefur þessu verið skipt niður á hinar einstöku skólastofnanir. Því er haldið fram í grg. frv., að með þessari stefnu sé hægt að gera stærri átök, í viðhaldi viðkomandi skólabygginga. Aths., sem ég hef við þetta að gera, eru í fyrsta lagi, að hér er sem víðar annars staðar sótt í það að gefa embættismönnum ríkisins meira vald. Þeir eiga að meta þörfina hjá hinum einstöku skólastofnunum og skipta þessari fjárhæð niður. En aðalatriðið er þó, að það, sem skiptir mestu máli í viðhaldi stofnana eins og skóla, er, að viðhaldið sé jafnt frá ári til árs, að þannig sé viðhaldið á þessum stofnunum, að það þurfi ekki að koma til stórra endurbóta. Ég hef af þessu nokkra reynslu og þekki skóla, sem eru milli 25 og 30 ára gamlir og líta fullkomlega eins vel út og skólar sumir hverjir innan við 10 ár, en það hefur alltaf verið fylgt þeirri reglu að halda þessum skólastofnunum við nokkuð jafnt á hverju ári, og það er ólíkt, hvað það kemur betur út fyrir sveitarfélögin og aðra þá aðila, sem eiga að leggja þar fé á móts við ríkissjóð, að þessari reglu sé fylgt, auk þess sem það mun sannast, að hin reglan um stóru átökin í einu verður dýrari í reynd. Það, sem okkur ríður á nú með okkar nýju, dýru og fullkomnu skóla, er að viðhalda þeim þannig, að þeir drabbist ekki niður, svo að við þurfum að gera endurbætur eftir fáein ár. Þess vegna tel ég, að hér hafi ekki verið stefnt í rétta átt. Og svo ekki meir um það.

Þá vil ég víkja að þeim atriðum, er ég nefndi hér áðan í upphafi ræðu minnar, og þá fyrst að því, hvernig verðbólgan setur svip sinn á þetta fjárlagafrv. Fjárlagafrv. er nú á milli 900 og 1000 millj. hærra en fjárlögin 1966. Það hefur komið fyrir hér áður, að fjárlög hafa hækkað um risaskref á milli ára, en hér mun þó ætla að verða met, og hefur hæstv. ríkisstj. þó komizt á tíunda hundrað millj. hækkun á milli ára fyrr. En það er fleira, sem segir til um það, hvað verðbólgan setur sinn svip á þetta fjárlagafrv. Eftir eru að koma inn á það fjölskyldubætur, sem þegar er búið að ákveða og munu vera tæpar 40 millj. Og þá á einnig eftir að færa þar til útgjalda niðurgreiðslur, sem búið er að ákveða og munu vera milli 200 og 300 millj. kr. hærri upphæð heldur en gert er ráð fyrir á fjárlagafrv. núna. Þetta sýnir, að verðbólgan mun setja svip sinn á fjárlagafrv. Mér telst svo til, að af þeim hækkunum, sem eru á þessu fjárlagafrv. frá fjárl. 1966 og ég sagði áðan, að væru á 10. hundrað millj., séu 50–60 millj, kr. til verklegra framkvæmda, hitt gangi til niðurgreiðslna og aukins rekstrarkostnaðar. Þetta sýnir svo greinilega sem verða má, hvert við stefnum í fjárlagaafgreiðslunni og hvernig haldið er á efnahagsmálum okkar. Niðurgreiðslurnar munu, eftir því sem ég bezt veit, að ákveðið er núna, verða um 730 millj. kr. miðað við heilt ár, fjölskyldubætur með 1. og 2. barni um 170 millj., svo að hér er um 900 millj. að ræða, og bein aðstoð við atvinnuvegina, eins og hún er í fjárlagafrv., vegna rekstrar þeirra mun vera um 300–350 millj., auk þess sem rétt er að víkja að því, hvernig rekstrarkostnaður hinna einstöku embætta og stofnana eykst hröðum skrefum. Innheimta og álagning skatta og tolla hefur hækkað í tíð núv. ríkisstj. um 370% , dómgæzla og lögreglustjórn um 440%, ferðalög og risna um 400%. Þannig mætti lengi telja dæmi, sem sýna, hvernig verðbólgan, aukin útþensla og beinlínis eyðsla ræður nú í ríkisrekstrinum.

En aðalatriðið í sambandi við verðbólguna og fjárlagafrv. er þó það, að fjárlagafrv. sjálft er byggt upp á því, að verðbólgan og spennan í viðskiptalífinu aukist á næsta ári frá því, sem nú er. Innflutningur á þessu ári er orðinn 1. nóv. 5 milljarðar 557 millj. kr., hann var 1. nóv. í fyrra 4 milljarðar 653 millj. kr., eða um 900 millj. kr. meira á árinu 1966, það sem komið er, heldur en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það, að svo mikil aukning er á milli þessara ára, gerir fjárlagafrv. samt ráð fyrir því, að enn þá meiri aukning verði að vera á næsta ári, ef miðað er við þær tekjur, sem gert er ráð fyrir að verði á yfirstandandi ári og næsta ári.

Hallinn á inn- og útflutningi 1965 var 1. nóv. 448 millj. kr., en er nú um 1 milljarður. Það má gera ráð fyrir því samkv. upplýsingum, sem fram komu í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., og því, sem fyrir liggur um tekjur til októberloka, að tekjur fjárlaga þessa árs geti orðið yfir 4 milljarðar eða fari um allt að 500 millj. kr. fram úr áætlun. En eftir því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir nú, verður að reikna með því, að til þess að öruggt sé, að ekki verði um greiðsluhalla að ræða á næsta ári, verði tekjur ríkissjóðs að vera um 5 milljarðar, og hygg ég, þó að þær séu ekki áætlaðar nema varlega, að það sé lítið borð fyrir báru eins og nú horfir um ýmsa útgjaldaliði, sem ég mun síðar koma að. Þetta þýðir það, að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir meiri verðbólgu, meiri spennu í viðskiptalífinu, það gerir ráð fyrir, að fluttar verði inn fleiri bifreiðar, meira af tertubotnum og kexi á næsta ári en á þessu ári. Þannig er tekjuáætlun fjárlagafrv. byggð upp á því, að verðbólgan og spennan í viðskiptalífinu ekki eingöngu haldist, heldur aukist.

Er ástæða til að gera ráð fyrir því, að svo mundi fara hjá núverandi valdhöfum? Höfðu valdhafarnir ekki gefið fyrirheit um stöðvun verðbólgu, hagsýni og sparnað í ríkisrekstrinum? Svo sannarlega. Ég vil máli mínu til stuðnings minna á nokkur atriði þessu viðvíkjandi og þá taka upp fyrsta boðorðið úr stefnuskrá Sjálfstfl. frá haustkosningunum 1959, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Stöðvun verðbólgu. Náð verði samkomulagi milli framleiðslustétta um að stöðva víxlhækkanir á milli kaupgjalds og verðlags, leggja inn á nýjar brautir, er sneiði hjá verðbólgu og samdrætti.“

Þannig komust þeir sjálfstæðismenn að orði, eftir að Alþfl. hafði lýst yfir því, að hann væri búinn að stöðva verðbólguna. Og það stóð ekki heldur á fyrirheitum þeirra Alþfl.- manna um, að áfram skyldi haldið á þeirri braut, sem þeir voru komnir á. Núv. hæstv. félmrh, sagði í Alþýðublaðinu 16. okt. 1959 m.a. þetta:

Alþfl. heimtar óbreytt ástand. Við í launþegasamtökunum styðjum þá stefnu. Þjóðin veit, að hverju hún gengur. Hennar er að velja á milli.“

Þannig voru yfirlýsingarnar um stöðvun verðbólgu þá og í framtíðinni. Og það voru fleiri yfirlýsingar gefnar en ég hef hér greint, og mun ég ekki greina nema lítilsháttar frá þeim, en vil þó minna á, að þáv. hæstv, forsrh., núv. hæstv. utanrrh., Emil Jónsson, sagði í útvarpsræðu 20. okt. 1959 m.a. þetta:

„Kosningarnar, sem nú fara í hönd, eru örlagaríkar. Þær eru það vegna þess, að þær skera úr um það, hvort freistað verður að leysa vandamál framtíðarinnar með svipuðu hugarfari og á sama hátt og gert hefur verið á þessu ári.“

Það var á árinu 1959. Nú hafa menn reynsluna af fyrirheitunum.

Alþýðublaðið sagði til viðbótar því, sem ég hef áður greint, 23. okt. 1959: „Menn berjast ekki gegn dýrtíð með því að láta undan henni.“ Og hvað hefur svo skeð hjá núv. hæstv. valdhöfum?

Nú vil ég leiða eitt vitni máli mínu til sönnunar um ástandið, eins og það er orðið eftir 7 ára valdatíma þessara hv. flokksmanna, sjálfstæðis- og Alþfl: manna, og fyrirheit þeirra. Hæstv. forseti sameinaðs þings sagði við 1. umr. fjárlaga í okt. s.l. þetta m.a.:

„Langsamlega stærsti þáttur í þessum vanda,“ — hann var þar að ræða um efnahagsmál, — „sem við er að etja, er verðbólgan. Hún hefur veikt starfsgrundvöll útflutningsatvinnuveganna meira en nokkuð annað. Og sú staðreynd, að ekki hefur fyrr komið til stöðvunar, byggist eingöngu á því, að verðlag hefur að undanförnu verið mjög hagstætt erlendis á flestum útflutningsafurðum sjávarútvegsins.“

Hér þarf ekki framar vitnanna við um það, hvernig ástandið er orðið. En ef menn efast; geta þeir lesið Morgunblaðið, þar sem segir frá ræðu hæstv. forsrh. á flokksfundi þeirra sjálfstæðismanna 14, okt. s.l., en þá vék hann mjög að því, hvernig mistekizt hefði um stöðvun verðbólgunnar. Og hver er ástæðan fyrir því, að þessum ágætu mönnum hefur mistekizt eins og raun ber vitni um og fyrirheitin hafa verið þverbrotin, eins og ég hef þegar sýnt? Ástæðan er í fyrsta lagi sú, að fyrirheitin voru blekking. Stöðvun verðbólgunnar 1959 var sjónhverfing ein. Verðbólgunni var haldið í skefjum með niðurgreiðslum. Þeir vissu það, valdamennirnir þá, að skráningu gengis krónunnar yrði að breyta. Það var ekki rætt um það, meðan talað var um niðurfærslu og niðurgreiðslu og verðstöðvun. En strax þegar kosningarnar voru um garð gengnar, var gengið til þess verks. Efnahagsaðgerðirnar 1960 urðu einnig til þess að auka verðbólguna. í kjölfar gengisskráningarinnar var tekinn upp söluskattur. Tekjustofna útflutningssjóðs tók ríkissjóður til sín í staðinn fyrir að leggja þá niður, þegar verkefni útflutningssjóðs var lokið. En gengisbreytingin 1961 var þó miklu alvarlegra mál. Hún var gerð í reiðihug, og það er fátt, sem hefur ýtt eins undir verðbólguna og sú stjórnarframkvæmd. Auk þess hefur það verið stefna hæstv. ríkisstj. frá upphafi að vera með skatt svo að segja í hverju máli. Skattaæði hæstv. ríkisstj. hefur verið svo gegndarlaust, að ekki er að undra, þó að eftir segi, enda hafa skattálagningin og gengisbreytingin 1961 verið verðbólgugjafi í stórum stíl. En þar til viðbótar hafa ráðstafanir þær, sem ríkisstj. hefur gert og hæstv. forsrh. talaði um á flokksráðsfundinum, að allar ættu að verka til að draga úr verðbólgu, gert hið gagnstæða. Ríkisstj. framkvæmdi vaxtahækkun í trú á að draga úr verðbólgunni. Ríkisstj. framkvæmdi sparifjárbindingu í trú á, að það drægi úr verðbólgu. Skattalagabreytingar, sagði hæstv. forsrh., þar sem við höfum tekið umframféð, voru gerðar í sama skyni. Óhagstæðari fjárfestingarlán áttu einnig að verka þannig frá sjónarmiði ríkisstj. Vísitölutrygging á húsnæðislán átti líka að draga úr verðbólgu að dómi hæstv. ríkisstj., minni afurðalán einnig. Tilgangurinn með öllum þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. var einmitt sá að draga úr framkvæmdum í landinu.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðunni á flokksráðstefnunni, að þeir hefðu ekki viljað ganga inn á atvinnuleysi. En allar þessar ráðstafanir eru miðaðar við það að draga úr atvinnu, draga úr spennu, og þær hafa ekki verkanir eins og er hugsað, nema þeim fylgi mjög takmörkuð atvinna. Þetta var hæstv. ríkisstj. ljóst. Og það eru aðrar ástæður, sem hafa gert það að verkum, að öðruvísi fór en ríkisstj. stefndi að. Það var dugnaður fólksins í landinu, það var þörfin á uppbyggingunni í landinu, það var góðærið, sem fór yfir allar þessar hindranir, sem hæstv. ríkisstj. lagði á veg þeirra, sem fyrir framkvæmdum í landinu stóðu. Þessar ráðstafanir geta ekki dregið úr verðbólgu á einn eða annan hátt nema með því að draga úr framkvæmdum í landinu. Niðurstaðan hefur svo orðið sú, að þessar ráðstafanir hafa orðið til þess að auka verðbólguna. Háu vextirnir hafa komið út í verðlagið. Það hefur gert rekstrarkostnaðinn meiri og verðlag á afurðum hærra. Óhagstæðari fjárfestingarlán hafa einnig faríð út í verðlagið. Það gerði byggingarnar dýrari. Lánstíminn var styttri, og þeir, sem stóðu fyrir fjárfestingunni, urðu að fá meiri tekjur til þess að skila aftur á styttri tíma lánunum, sem þeir fengu með hærri vöxtum. Vísitalan á húsnæðislánin hefur líka farið út í verðlagið. Þeir, sem þau lán eiga að greiða, hafa orðið að fá hærra kaup, sótt það aftur út til atvinnuveganna, og þannig hefur þetta haldið áfram. Fjárbindingin hefur orðið til þess að gera rekstur atvinnuveganna erfiðari og dýrari. Allt hefur þetta sótt í sömu átt.

Hæstv. forsrh. velti því fyrir sér á flokksráðstefnunni, hvernig það væri hér á landi, hvort þessar aðferðir, sem aðrar þjóðir notuðu, hentuðu ekki hérna. Hann var ekki alveg viss um það. Þetta ætti þó að vera hverjum manni ljóst, og hæstv. ríkisstj. hefði átt að gera sér grein fyrir því í tíma, að ráðstafanirnar, sem hún var að gera til þess að reyna að draga úr verðbólgunni í landinu, þær verkuðu allar til þess að auka hana. Ef hún hefði áttað sig á þessu í tíma; að þessar aðferðir hennar áttu ekki við í þjóðfélagi, sem átti mikla uppbyggingu fram undan, eins og í okkar þjóðfélagi, þar sem fjárfestingin er svo skammt á veg komin eins og í okkar þjóðfélagi er og atvinnuvegirnir einnig, þá hefði hún getað breytt um stefnu. En hennar stefna er alltaf þetta: Leiðin, sem við förum, er sú eina rétta. Það er engin önnur leið til að fara, segja talsmenn hæstv. ríkisstj. hér. Þessi leið er sú eina rétta. Og svo dagar hæstv. ríkisstj. eins og nátttröll uppi í þessari fásinnu sinni. Þess vegna hefur farið svo, að ráðstafanirnar, sem átti að gera til þess að draga úr verðbólgu, hafa orðið til þess að auka hana. Og ríkisstj. hefur sjálf ekki áttað sig á því, heldur hefur uppi vangaveltur um, hvort það geti ekki verið þannig, að annað eigi við í okkar þjóðfélagi eða ekki.

Þá eru það fyrirheitin um hagsýni í ríkisrekstrinum. Þeir Sjálfstfl.- menn hafa farið með embætti fjmrh. frá því á haustnóttum 1959. Nokkur árangur ætti að vera kominn af þessu starfi þeirra, og af því að þeir fóru fljótlega að tala um hagsýni í ríkisrekstrinum og settu upp hagsýslustofnun, mætti vænta þess, að eftir 7 ár væri hægt að sýna fram á, hvernig til hefði tekizt með framkvæmd á þessu atriði. Og nú vil ég máli mínu til stuðnings, til þess að sýna fram á það, á hvaða vegi þetta atriði er statt, leiða fram eitt vitni, það er hæstv. fjmrh., en hann segir svo í grg. fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., með leyfi forseta:

„Annað tæknilegt viðfangsefni, sem ekki kemur fram í þeim aths., sem hér að framan hafa verið gerðar, er skortur á upplýsingum fyrir miðstjórn ríkisrekstrarins til að tengja hvert viðfangsefni, sem unnið er að, við þær fjárhæðir, sem um er beðið eða veittar eru honum í fjárlögum. Eins og málum er nú háttað, er grundvöllur fjárveitinga að jafnaði rekstur tiltekinna stofnana, sem hafa tilgreindan fjölda starfsmanna. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar er síðan áætlaður eftir tilkostnaði eða fjárveitingu síðari ára með álagi fyrir tilkostnaðarhækkunum. Tilvera stofnunarinnar sem skipulagseiningar skyggir þannig á eða dregur athyglina frá þeim verkefnum, sem þessi skipulagseining á að afkasta. Með þessum hætti fæst oft ekkert mat á því, hversu vel eða illa stofnun hefur sinnt sínum verkefnum, þar eð fjárveiting til stofnunarinnar miðast ekki við ákveðið viðfangsefni, heldur við rekstur stofnunar.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta er sæmilega góður árangur eftir 7 ára fjármálastjórn. Þá lýsir hæstv. fjmrh. því yfir, að hann viti sjálfur ekkert um rekstur ríkisstofnana og ríkisins. Tilteknar einingar þess skyggja svo á útsýnið, að þeir sjá ekki yfir heildarsviðið. Eftir að þeir eru búnir að vera með hagsýslumenn, innlenda og erlenda, er gefin svona yfirlýsing. Hvað segja menn um slík vinnubrögð? Er þetta árangurinn, sem menn bjuggust við af bættum vinnubrögðum, meiri hagsýni? Hið sívökula auga ríkisstj., sem alls staðar átti að vera á verði, þar sem sparnaði og hagsýni mátti koma við, — það þarf ekki mikið til, ef þetta þykir góður árangur af öllu því auglýsingaskrumi, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í frammi fyrr og síðar um hagsýslu og sparnað í ríkisrekstrinum.

Um sparnaðinn vil ég í þessu sambandi nefna eitt dæmi enn þá, og það er tekið upp úr fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. í október í haust, og það er svo, með leyfi hæstv. forseta, þar segir hæstv. ráðh.: „Það er hægt á mörgum sviðum að hagnýta mun betur það fé, sem til ráðstöfunar er.“ Svo segir hæstv. fjmrh, frá því, að þeir hafi skipað n. til að athuga meðferð framkvæmdafjár. Og fleiri n. höfðu þeir skipað, sumar höfðu skilað áliti, og það var til athugunar hjá ríkisstj., framkvæmdinni var frestað um sinn. Þetta er um hagsýsluna.

Þá verður næst fyrir mér sparnaðurinn, en um hann voru gefin fyrirheit á sínum tíma. Ég gerði það einhvern tíma mér til dundurs, að ég fór að telja saman sparnaðarfyrirheitin, sem búið var að gefa á tveim fyrstu valdaárum núv. stjórnarflokka eða svo, og þau voru 59. Og nú ætla ég að spyrjast fyrir um sparnaðarfyrirheitin.

Nái. meiri hl. fjvn. um fjárlög árið 1961 er undirskrifað 2. des. 1960. Í þeim fjárl. var gert ráð fyrir því að sameina sendiherraembættin í París, og svo átti að halda áfram á þessum grundvelli, og fyrsta atriðið í sparnaðarfyrirheitunum er að fækka enn sendiráðum Íslands erlendis, að leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndum, jafnvel að lækka launagreiðslur til sendiherra og annarra starfsmanna sendiráðanna. Nú spyr ég: Hvað hefur verið gert? Þetta er frá 2. des. 1960. Þá er þetta fyrirheit gefið af meiri hl. fjvn. Áður hafði hæstv. fjmrh. vikið að því, að þessi leið væri hugsanleg.

Annað atriði var að draga úr opinberum veizlum. Reglur munu þegar hafa verið settar til að takmarka þessi útgjöld, og verður að athuga, hvort eigi sé hægt að gæta meira hófs í því. Hefur þetta verið gert? Ekki er mér kunnugt um það eftir að hafa kynnt mér þessi mál í sambandi við fjárlagaafgreiðslu ríkisins. Mér finnst, eins og ég benti á áðan, að í ferðalög og veizlur hafi hækkunin verið 400–500%. Hvernig er um framkvæmd á þessu sparnaðaratriði? Væri nú ekki tími til kominn eftir þetta mörg ár að fara að framkvæma þetta? Hæg eru heimatökin þar.

Þriðja atriðið var að takmarka svo sem auðið er tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnur, fjölda slíkra ferða, svo og tölu fulltrúa í viðskiptanefndum. Hefur þetta verið gert? Er mönnum kunnugt um, að þar hafi verið sparnaði við komið?

Fjórða atriðið var að fækka lögreglumönnum á Keflavíkurflugvelli. Þetta hafa Alþb.-menn verið að leggja til við fjárlagaafgreiðslu og það er ein till. þar um nú. En ég man ekki betur en kostnaður við lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, hækkunin frá árinu 1966 til 1967, sé um 40%, 41%, ef ég man rétt, Er það vegna þess, að það hafi verið dregið þar úr löggæzlu og lögreglumönnum fækkað?

Það má vel vera, að þessir hlutir séu lítt framkvæmanlegir. En til hvers voru ráðh. Sjálfstfl. og forustumenn þeirra í fjármálum að gefa slíkar yfirlýsingar, ef þeim var það ljóst, að þetta var þýðingarlaust og ekkert nema blekking? Var það þá gert í blekkingaskyni. Það er augljóst, að í reyndinni hefur það orðið þannig.

Fækka átti bifreiðum ríkisins og ríkisstofnana. Hefur það verið gert? Þannig mætti lengi telja. Á þessum lista einum eru 23 fyrirheit. Hin voru svo í fjárlagaræðu. Það hefur orðið harla lítið úr sparnaðinum. Skattamálin voru eitt af sparnaðarfyrirheitunum. Hækkunin er nærri 400% . Það var lesinn hér upp í ræðu langur listi um það, hvað skattanefndirnar, undirskattanefndir og yfirskattanefndir, væru margar. En kostnaðurinn við skattstofurnar, þótt færri séu, er margfaldur frá því, sem var. Þannig hefur yfirleitt orðið um framkvæmdina á sparnaðarfyrirheitunum hjá hæstv. ríkisstj. Það er hins vegar hægt að lesa upp langan lista um ný embætti og nýjar stofnanir, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur sett upp í sinni stjórnartíð. Sá listi verður allmiklu lengri en listinn um framkvæmdir á sparnaðarfyrirheitunum. Þannig hefur þetta orðið í raun, og þarf því engan að undra, þegar það er haft í huga, þó að fjárl. hafi hækkað, þegar verðbólgan hefur komið til viðbótar þessu.

Ég get minnt á stofnanir eins og Efnahagsstofnun; gjaldheimtustofnun, almannavarnir, hagsýslugerð, ríkisskattstjóra og skattstofur, fjölgun bankastjóra, bankaráðsmanna, húsnæðismálastjórn, fjölgun borgardómara, sakadómara og borgarfógeta. Þannig mætti lengi telja. Það er til langur listi um framkvæmdir hæstv. ríkisstj., en í sparnaðinum vantar hann alveg. Þar var langur listi um fyrirheit, en framkvæmdin því miður engin. Og hæstv. fjmrh. staðfesti, að svo er, í fjárlagaræðu sinni í haust. Þar segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

„Það er engum efa bundið, að þörf er rækilegrar endurskoðunar á þeim grundvallarsjónarmiðum og reglum, er ákveða veigamikla þætti ríkisútgjaldanna.“

Það hefur ekki verið tími til þess í 7 ára fjármálastjórn Sjálfstfl. að koma þessu í verk. Það er ekki einu sinni byrjað á að framkvæma þetta. Það hefur verið tími til þess að vinna að útþenslunni, fjölga embættunum, fjölga ráðunum og fjölga launuðu nefndunum. Það var eitt sparnaðaratriðið, sem átti að framkvæma af hæstv. ríkisstj., það var að fækka launuðu nefndunum. Þær hafa aldrei verið fleiri en nú. Þannig hefur verið haldið á því máli. Þarf því engan að undra, þó að við séum að afgreiða hér langhæstu fjárlög, sem nokkurn tíma hafa sézt. Stefna hæstv. ríkisstj., verðbólgan og útþenslan í ríkiskerfinu hefur leitt til þess. Sparnaðurinn hefur hins vegar gleymzt.

Þá vil ég koma að því atriði, sem ég gat hér áðan, það er skammsýni hæstv. ríkisstj. í ýmsum stjórnarframkvæmdum. Fyrir nokkrum árum var hv. Alþingi að fjalla um bráðabirgðalög, sem hæstv. ríkisstj. hafði gefið út, m.a. til að banna verkfall verkfræðinga og lækna. Hæstv. ríkisstj. var um tíma í stríði við þessa aðila, verkfræðingana og læknana, út af kaupi og kjörum. Það orkar ekki tvímælis, að í kjaradómi þeim, sem fyrst var upp kveðinn, var hlutur þessara aðila alls ekki réttilega metinn. Það var ekki tekið tillit til þess, hvað þessir menn voru búnir að leggja mikinn tíma af ævi sinni í sitt nám. Hæstv. ríkisstj, var algerlega skilningslaus á það, hvað hverju menningarþjóðfélagi ríður á góðu samstarfi við þessa sérmenntuðu menn. Það var talið fullt ábyrgðarleysi af okkur, stjórnarandstöðunni, eins og verja er til hjá þeim stjórnarsinnum, þegar stjórnarandstaðan ræðir mál, að við skyldum vera að tala máli þessara sérfræðinga. En hver hefur reynslan orðið? Reynslan er þessi, að sérfræðingarnir eru búnir að máta ríkisstj. Þeir eru nú búnir sjálfir að segja til um sín kjör. Ef hæstv. ríkisstj. hefði á sínum tíma borið gæfu til að taka upp vinsamleg samskipti og samstarf við þessa menn, hefði ekki svo illa farið sem raun ber vitni um. Og hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í fjárlagaræðunni, að þeir hefðu orðið að gera nauðungarsamninga við læknana. Það er af því, að ríkisstj. sýndi skammsýni og skilningsleysi á þýðingu og námi þessara manna. Og það er verkefni framtíðarinnar að ná þessum mönnum til samstarfs á nýjan leik. Það er svo alvarlegt mál, hvernig læknaskipunarmálin í landinu eru að verða, að það verður að finna leið til þess að leysa þau mál með vinsamlegum hætti. Það verður ekki gert með því að vera í stríði við læknastéttina, eins og hæstv. ríkisstj. hefur verið. Hún hefur þegar tapað þessu stríði, og það á að verða öðrum til viðvörunar að halda ekki þannig á málum.

Þá vil ég geta þess, að hæstv. ríkisstj. hefur sýnt í störfum sínum algert stefnuleysi. Í bók þeirri, sem ríkisstj. sendi okkur þegnum sínum við valdatökuna á haustnóttum 1959 og Viðreisn hét, kennir margra grasa. Og þar er ný stefna mörkuð, eins og segir þar. Sú nýja stefna, sem var mörkuð í bók þessari, er ekki stefnan, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að framkvæma. Mikið hefur hún á margan hátt farið út af leið, og alltaf hefur hún hrakizt. Það hafa ekki verið hennar ákvarðanir, heldur hefur hún látið hrekja sig af leið í hvert skipti. Eitt af því, sem átti ekki að gera, það var að semja við Alþingi götunnar. Vinstri stjórnin hafði tekið upp þennan ósið, og það var fyrir neðan virðingu hæstv. forsrh og hæstv. ráðh. annarra að taka þátt í slíku. Alþingi götunnar átti ekki að virða, og þeir áttu ekki að taka þátt í slíku. Nei, atvinnurekendur í landinu og launþegar áttu að semja. Það var skýrt tekið fram í þessari bók, Viðreisn. Það áttu ekki að vera neinar vangaveltur um það, atvinnurekendurnir áttu að skilja það, að ef þeir hækkuðu kaupið, þá áttu þeir sjálfir að borga það. Þeir áttu ekki að velta því yfir á ríkissjóð, eins og gert hafði verið hjá fyrri stjórnum. Það var eitthvað annað, sem þarna átti að gerast. En hvað hefur svo gerzt? Var ekki fagnaðarfundur og mikil auglýsing í sambandi við júnísamkomulagið? Mig minnir, að það hafi skyggt á 17. júní. Það var svo mikill atburður í sögu íslenzku þjóðarinnar, að hæstv. forsrh. og form. Alþýðusambandsins, hv. 5. þm. Vestf., höfðu skrifað undir samkomulag. Hér var algerlega brotið í blað í þjóðarsögunni. Forsrh. hafði gengið út á götuna og samið. Og þetta þóttu geysilega mikil tíðindi, og eins og ég sagði áðan, skyggði það meira að segja á Jón Sigurðsson, svo langt var nú gengið.

Eitt atriði, sem var tekið fram í Viðreisn, var, að kaupgjaldsvísitala átti ekki að gilda hér á landi, hún var verðbólgugjafi. Það var leiðin, sem þeir fundu til þess að komast fram hjá verðbólgunni. Það var nýja leiðin, sem Sjálfstfl. boðaði. Hvernig fór þetta? Í fyrstu samningum, sem hæstv. ríkisstj. stóð fyrir og gerði, var vísitalan tekin upp, — vísitalan, sem áður var búið að afnema með lögum. Svona fór nú um það atriði.

Atvinnuvegirnir áttu að bjarga sér sjálfir. Þeir áttu ekki að koma út til þjóðarinnar og til Alþingis og biðja um aðstoð. Þeir urðu að gera sér grein fyrir því, hvað þeir hefðu samið um. En nú er, eins og ég sagði áðan, beinn stuðningur við atvinnuvegina hundrað millj. í fjárlagafrv. og meira á eftir að koma.

Og þið tókuð eftir því í ræðu hv. frsm. meiri hl., form. fjvn., að hann vitnaði til, að þar væri útgjaldaliður vegna samkomulags við 6 manna nefnd á s.l. hausti. Það er hægt að fara í fjárlfrv. og finna marga útgjaldaliði, sem mætti setja við: Samið við forseta Alþýðusambands Íslands, samið við form. Stéttarsambands bænda, og þannig eru í fjárlagafrv. sjálfu ýmis atriði, sem hæstv. núv. ríkisstj. samdi um við Alþingi götunnar, eins og hún sjálf hafði orðað það áður, og nú er þetta allt góð og gild vara. Þetta er það, sem ég kalla stefnuleysi, það, sem ég kalla hringlandahátt í framkvæmdum hæstv. ríkisstj.

Þið munið eftír því, hv. alþm., að við fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári, þá voru tekjur fjárlaganna byggðar upp með því að tína saman smáskatta hér og þar. Þá var búið með alla stóru skattana. Og eitt sinn var farið til Danmerkur til þess að reyna að fá nafn á nýjum skatti, en annaðhvort hefur aldrei tekizt að þýða það eða eitthvað hefur orðið því til fyrirstöðu, hann hefur aldrei verið notaður hér. Nú var ástandið í fjármálunum þannig, að það varð að tína þetta saman, 20 millj. í gjaldeyrisskatti, 40 millj. í rafmagnsskatti, 60 í benzínskatti og gúmmígjaldi, og svona mætti halda áfram. En það skipti engu máli, þótt þetta færi þá beint út í verðlagið. Og til þess að undirstrika það, að ríkisstj. væri ekki hrædd við verðbólguna, var horfið að því ráði að fella niður niðurgreiðslur á sumum vörutegundum. Að þessu var gengið með dugnaði. Og það kom eitthvert hik á vini okkar í Alþfl. út af þessu. Eitthvað heyrðist talað um það, að einhver forustumaður þeirra hefði tafið þessa framkvæmd í bíli. En hæstv. ríkisstj. lét ekki að sér hæða og var ákveðin og felldi niður niðurgreiðslurnar með vorinu. Hver er svo árangurinn? Hvað hefur nú skeð? Þetta æddi beint inn í verðlagið, niðurgreiðslurnar á smjörlíkinu og fiskinum og hvað það nú var, rafmagnsskatturinn og allt það. Menn voru ekki fyrr komnir heim af þingi, þeir sem við þau mál voru riðnir, heldur en hækkað var rafmagnsverð í landinu. Og þannig hefur þetta gengið. En nú er bara öllu snúið við. Þegar komið var fram í sept., var verðbólgan orðin hættuleg. Ríkisstj. varð að breyta um stefnu, þannig að það voru teknar upp aftur niðurgreiðslur á vörutegundum, sem áður höfðu verið felldar niður, og aukið nú svo hraustlega við, að það skiptir hundruðum millj. kr. Þetta er alger hringlandaháttur í störfum hæstv. ríkisstj., og það er ekki von, að vel fari, þegar slíkt stefnuleysi og hringlandaháttur eru í framkvæmd hjá sömu ríkisstj.

Eins og ég gat um hér að framan, hefur fjárfestingin í landinu verið algerlega skipulagslaus og ýmis þau verkefni, sem enga bið þola, hafa orðið að bíða, eins og t.d. skólabyggingar. Og á þessu fjárlagafrv. eins og fyrri fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. er hlutur verklegra framkvæmda sífellt minni. Það er nú svo komið, að það eru 40 skólamannvirki, sem búið er að samþykkja á fjárlögum, að þurfi að hefja byggingu á, og af þeim eru 25, sem Alþingi er þegar búið að samþykkja að eigi að hefja byggingu á. Sum þessara skólamannvirkja voru búin að fá fjárveitingu fyrir 2 árum og eru ekki farin að hefja framkvæmdir enn. Við þetta bætist svo, að sótt er nú um fjárveitingar til 30–40 nýrra skólamannvirkja. Það má öllum vera ljóst, þegar þetta er hugleitt, til hvers það leiðir, ef ekki verður hægt að byggja skólana með nokkuð eðlilegum hraða. Þessi 40 skólamannvirki, sem komin eru þarna á biðlista, hljóta að verða þess valdandi, að hin, sem verið er að sækja um núna, verða að bíða enn þá lengur. Hér er um mjög mikið alvörumál að ræða. Með ákvörðun hæstv. menntmrh. á s.l. ári um, að skyldunámið skuli fara fram innan veggja barnaskólanna, í beinu framhaldi af þeim, þá hefur þessi þörf fyrir aukið skólahúsnæði orðið enn þá brýnni en áður. Það verður ekki komizt hjá því að leysa þessi verkefni, og því fyrr, því betra. Þetta er látið sitja á hakanum vegna verðbólgustefnu hæstv. ríkisstj.

Um hafnirnar er sömu sögu að segja. Það er gert ráð fyrir lítið eitt hærri fjárveitingu til hafna nú en í fyrra. Í árslok 1964 voru skuldir ríkissjóðs við hafnarframkvæmdir ekki nema 24 millj. kr. Það var að vísu nóg. Það er hærri upphæð en fjárveitingar til nýrra framkvæmda í höfnum. En skv. þessu frv. með eðlilegri framkvæmd í sumar verða þessar skuldir um 80 millj. kr. Þegar þannig er komið, að það þarf mörg ár til þess að vinna upp skuldir ríkissjóðs við framkvæmdirnar, þá er stefnt í óefni, enda er það svo. Nú þarf ekki að deila um nauðsyn hafnarframkvæmda, það vita allir, heldur bara hvernig á að leysa það mál. Sama er að segja um raforkuframkvæmdirnar. Þetta eru framkvæmdir, sem fólkið í landinu bíður eftir með ofvæni. Það er samt ekki hægt að veita til framkvæmda í rafveitum út í sveitir landsins álíka fjárhæð nú að notagildi og var, þegar fjárlögin voru 800–900 millj., hvað þá að fjárveitingin sé í nokkru samræmi við það, sem fjárlögin eru orðin, því fer fjarri. Þetta er einnig þannig með flugvelli og fleiri slíkar framkvæmdir.

Þá eru það vegamálin. Það gerðist á síðustu fjárlögum, að vegamálin voru alveg felld út af fjárlögum íslenzka ríkisins. Þegar verið var hér að afgreiða vegamálin, vegalagafrv., rétt fyrir jólin 1963, þá var um það rætt, hvort öruggt væri, að ríkissjóður mundi greiða til vegamálanna þá fjárveitingu, sem þá var í fjárlagafrv. Hæstv. vegamálarh. tók þá af öll tvímæli um það. Hann taldi, að það væri alveg útilokað, að nokkurn tíma yrði að því ráði horfið að fella niður þessar 47 millj. kr. Og ég gerði það víst einhvern tíma á hv. Alþingi í fyrra að lesa upp nokkuð mikið af ummælum hæstv. ráðh. þar um, og ég verð að játa það, að ég tók þau svo alvarlega, að ég taldi, að það væri öruggt, að þessi fjárveiting yrði alls ekki lögð niður. Hæstv. ráðh. kvað svo fast að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Engin hætta er á því, alveg útilokað, að ríkisframlagið til veganna verði lækkað, það er alveg útilokað.“ Og ég og aðrir þm. trúðum þessu. Og hvað gerðist svo í fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1966? Þessar 47 millj. kr. voru felldar niður. Og það breytir engu í þessu máli, þó að benzínskatturinn og þungaskatturinn hafi verið hækkaðir til þess að vega upp á móti þessu fjárhagslega. Þeir möguleikar voru til, það vissu allir hv. þm. En það var þeirra hugsun, að það yrði til þess að auka tekjur vegasjóðsins, en ekki til þess að mæta þeim tekjum, sem felldar voru niður. Og nú vil ég sýna fram á það, að þörfin í vegamálunum er ekkert lítil, og ég ætla máli mínu til stuðnings og vitna hér í skýrslu samgmrh. um framkvæmd vegáætlunar 1966, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo á bls. 4, í næstsíðustu málsgr. á þeirri bls.: „Ástand fjölförnustu malarveganna hefur í ár verið mun lakara en á s.l. ári, og það er alveg vonlaust verk að halda þessum vegum sæmilega akfærum með malarslitlagi.“ Þeir segja í þessari skýrslu frá því, hvað aukningin hefur orðið mikil, og þeir segja líka frá því, hvað innflutningsaukningin á bifreiðunum árið 1966 hefur orðið mikil. Hún hefur orðið 67% miðað við árið næst á undan, þegar skýrslan er gerð. Hér er ekkert hégómamál á ferðinni. Og þó að það megi segja, að það skipti ekki öllu, hvort 47 millj. kr. séu frá eða til, þá skiptir það þó verulegu máli, en aðalatriðið er þó, að það skiptir máli, hvort staðið er við samkomulag eða ekki. Og það er engin ástæða til fyrir ríkisstj. að fara að narta í þessa smáfjárhæð, sem á fjárlögunum var til samgöngumálanna í landinu.

Á árunum 1965 hafði ríkissjóður tæpar 419 millj. kr. tekjur af umferðinni í landinu í sinn hlut. Hann hefur þó mun meiri tekjur á árinu 1966. Leyfisgjöldin ein munu verða 170–180 millj. kr. Og það er gert ráð fyrir því, að þau verði svipuð upphæð næsta ár. Þannig er það augljóst, að það er óframkvæmanlegt og það getur ekki gengið í jafnvegalausu landi og okkar landi, að umferðin sé látin útvega ríkissjóði hundruð millj. kr. í tekjur umfram það, sem notað er til að gera vegi í landinu. Lágmarkskrafa er það, að allir sérskattar, — þar á ég við leyfisgjöldin, — gangi til umferðarinnar. Það er algjör lágmarkskrafa. Það væri eðlilegt í okkar landi, svo stóru landi og þar sem vegagerðin er jafnskammt á veg komin eins og hér, að þá gengju tekjur af bifreiðum yfirleitt í vegina, en að leyfisgjöldin geri það ekki, það verður ekki þolað til lengdar. Og það breytir engu um þessar framkvæmdir hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh. í sambandi við fjárlögin í fyrra, þó að hæstv. samgmrh. hafi skipað einhverja nefnd, eins óg hann sagði þá, til þess að reyna að leita enn að nýjum tekjustofni. Hér er þannig haldið á málum, að við það má ekki una, og verður að breytast.

En í framhaldi af því, sem ég hef sagt, um þessar verklegu framkvæmdir, þá vil ég bæta því við, að þær verklegu framkvæmdir, sem nokkuð að marki eru gerðar í þessu landi nú á tímum, þegar fjárlögin eru 4–5 milljarðar, eru gerðar fyrir lánsfé. Þannig hefur verið hægt að komast áfram í framkvæmdum eins og höfnum. Þannig hefur einnig verið hægt að komast áfram í framkvæmdum eins og flugvöllum. En ég verð að segja það, að það verður betur haldið á fjármálum ríkisins síðar en nú er gert, ef hægt verður að greiða afborganir og vexti af lánunum, sem tekin eru til framkvæmda nú, og láta eðlilegar fjárhæðir ganga til verklegra framkvæmda.

Í bókinni Viðreisn, sem ég vitnaði hér í áðan, og mætti segja mér, að höfundar hennar væru farnir að iðrast þess að hafa gefið hana út, þá stendur m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta, hér á forsíðu, að stefna ríkisstj. sé að koma atvinnu- og viðskiptalífi landsmanna á traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en atvinnuvegirnir hefðu verið á undanförnum árum. Nú hafa hin síðustu ár verið eindæma góðæri í þessu landi. Aflabrögð hafa verið góð. Það var lengi vitnað í það hér á hv. Alþingi, hvað afli hafi verið mikill 1958, og oft um það rætt, að ríkisstj., sem þá sat, hefði átt að geta notið þess í sambandi við stjórn hennar á málefnum ríkisins, hvað þá hefði verið mikið góðæri. Þá var afli hér 505138 tonn. 1964 var hann 971514 tonn og 1965 1198 304 tonn. Þegar þetta er haft í huga, ætti mönnum að vera ljóst, hvað góðærið hefur verið mikið og hvað góðærið hefur lagt hæstv. ríkisstj. til mikla möguleika. Hér er ekki það eitt, að afli hafi verið mikill, heldur hefur verðmæti aflans verið þó mun meira, því að afli hefur selzt nú síðustu árin á hærra verði en nokkru sinni fyrr, og allt hefur selzt, er á land hefur komið. Þess vegna hefði þetta átt að vera til þess að gera grundvöll atvinnuveganna traustan, varanlegan og heilbrigðan, eins og Viðreisn boðaði. En hér hefur stjórnarstefnan komið við eins og víðar og sett sitt mark á. Og þrátt fyrir góða árferðið hefur hún leikið atvinnuvegina svo grátt með vaxtaokri, lánsfjárhöftum og fleiri ráðstöfunum, að ástand atvinnuveganna er a.m.k. mjög alvarlegt, svo að ekki sé meira sagt. Það kemur fram í umræðum manna hvar sem er og er farið að sýna sig í framkvæmd.

Á þessu hausti hafa sum af frystihúsum landsins stöðvazt vegna þeirra erfiðleika, sem sá atvinnuvegur er kominn í. Og það er ekki enn þá séð, hvernig málefni frystihúsanna verða leyst. Togararnir, sem hér voru mikil atvinnugrein um tíma, þeirra málum er nú þannig komið, að helmingurinn mun annaðhvort seldur úr landi eða bundinn við bryggju. Og nú er rætt um það, að málefnum togaraflotans sé þann veg farið, að það orki tvímælis, hvort haldið verður áfram þeim atvinnurekstri. Og ljóst er það, að endurnýjun hefur ekki átt sér stað hjá þessum atvinnurekstri síðustu árin, eins og ástæða hefði verið til og eðlilegt er í atvinnurekstrinum, og því er þróunin orðin slík sem ég var hér að lýsa. Það er meira en ár síðan sett var hér á laggirnar nefnd til þess að athuga um afkomu bátaflotans. Það er öllum ljóst, að minnsta gerðin af bátaflotanum á við mikla fjárhagsörðugleika að etja, og þess vegna var nefndin sett. Hún hefur fyrir löngu skilað áliti, en framkvæmdirnar, það er eins með þær og sparnaðarfyrirheitin, þær bíða síðari tíma. Vonandi verður biðin ekki eins löng og með sparnaðinn, en hún er löng fyrir þá, sem bíða eftir og vonast til þess, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. beri einhvern jákvæðan árangur. En viðbrögð hæstv. ríkisstj. gefa nú ekki tilefni til mikillar bjartsýni.

Um iðnaðinn er það að segja, að hann á í mjög harðri samkeppni vegna innflutnings á erlendum iðnaðarvörum. Það orkar ekki tvímælis, að okkar iðnaður stendur þar verr að vígi en sá erlendi, sem er háþróaður með mikið fjármagn, en við búum hér við iðnað, sem er búinn að lifa stuttan tíma og alltaf hefur búið við lánsfjárskort og lítið fjármagn, enda er það svo, að iðnaðarfyrirtækjunum hefur fækkað og fleiri og fleiri eru við borð að stöðva sinn rekstur. Fyrirgreiðsla hæstv. ríkisstj. hefur verið ærið seinvirk, svo að ekki sé meira sagt. Og það eru vangaveltur, eins og fram komu í ræðu hæstv. forsrh. á flokksráðstefnunni, að ef menn vildu hafa iðnað, þá yrðu menn að taka þeim vanköntum, sem á því væru. Niðurstaðan varð sú hjá honum, að auðvitað vilja menn hafa iðnað eins og fleira, sem þar kom, en skörungsskapur var enginn í sambandi við þann hluta ræðunnar frekar en annað.

Landbúnaðurinn hefur átt við mikla erfiðleika að etja á þessu ári, og það er verulegur samdráttur í landbúnaðinum. Lausnarorð forsrh. á flokksráðstefnunni voru vangaveltur um þetta: Ef menn vilja hafa landbúnað, þá verða menn að taka því, sem því fylgir.

Þannig var yfirleitt um lausnarorðin, þegar rætt var um atvinnuvegi Íslendinga. Það var aðeins álverksmiðjan, þar sem brautin var rudd og bjartara fram undan að dómi hæstv. forsrh. í sambandi við atvinnuvegi Íslendinga, atvinnuvegi hér á landi.

Eins og ég vék að fyrr í ræðu minni, hefur hæstv. ríkisstj. nú síðustu mánuðina farið að ræða um verðstöðvun og viljað fá þjóðina til þess að trúa því, að hún hefði hug á því að koma hér á verðstöðvun á þessu hausti, en það er orðað, að það séu neyðarráðstafanir til bráðabirgða.

Í ræðu minni hér að framan hef ég sýnt fram á það, hvað verðbólgan setur svip sinn á fjárlfrv. og allt efnahagslíf þjóðarinnar. Ríkisstj. hefur sjálf staðið fyrir því með vaxtahækkun og fleiri slíkum ráðstöfunum, eins og ofsköttun og stefnuleysi, að slík verðbólga hefur þróazt í landinu sem raun ber vitni um. Nú virðist hæstv. ríkisstj. hins vegar farin að óttast verðbólguna og telur það kannske hyggilegt að sýna á sér eitthvert snið í aðra átt fyrir kosningarnar. Þar á að endurtaka sjónhverfinguna frá 1959. En hæstv. ríkisstj. gengur ekki hreint til verks. Hún byrjar ekki á því, sem eðlilegt er og nauðsynlegt, að gera sér grein fyrir því, hvað skortir, til þess að atvinnuvegir landsmanna geti nú gengið með eðlilegum hætti. Það á eftir að leysa mál frystihúsanna, það á eftir að leysa mál smærri bátanna, og það á eftir að leysa mál togaranna. Þetta eru vandamál, sem ég sé ekki, að nokkur ríkisstj. geti komizt fram hjá að leysa. Það er ekki verið að ræða það nú, hvað þurfi til að leysa þennan þátt, áður en talað er um verðstöðvunina. Það er ekki heldur verið að ræða um það, hvort skráningargengi krónunnar sé nú í samræmi við það, sem það raunverulega er. Það var fljótvirkt að ákveða sig um þá framkvæmd 1961, og hefði þó margur haldið, að minni ástæða hefði verið til þeirra verka þá en nú. Auk þess er svo það, sem ég sýndi fram á áðan, að fjárlagafrv. sjálft byggir á því, að verðbólgan haldist, og meira en haldist, að hún aukist.

Hæstv. ríkisstj. átti að byrja á því að segja frá vandanum, eins og hann er, en ekki hjali um verðstöðvun, sem reyndar er ekkert nema sýndarmennska. Hún er aðeins sönnun á því, að hæstv. ríkisstj. hefur dregið frelsisfánann í hálfa stöng. Það verður öllum að vera ljóst, að það er ekki hægt að gera það samtímis, að tala um verðstöðvun í landinu og afgreiða hæstu fjárlög, sem nokkurn tíma hafa verið afgreidd hér, fjárlög, sem byggja á því, að inn verði fluttir tertubotnar og kexkökur í ríkari mæli en verið hefur. Það er ekki hægt að krefja þjóðina um það, að hún borgi einum milljarði meira til ríkissjóðs á árinu 1967 en á árinu 1966, um leið og talað er um verðstöðvun. Og það sýnir sig bezt í sambandi við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, hvað þetta tal um verðstöðvun er gersamlega út í bláinn. Hækkunin á fjárhagsáætluninni nú á milli ára er álíka og í fyrra. Hér er aðeins um það að ræða að gera tilraun til þess að setja á svið sjónhverfinguna frá 1959, en þó í aumara mæli en þá var gert.

Við þetta fjárlagafrv. flytjum við Framsfl.- menn aðeins tvær brtt. Önnur er við útgjaldahliðina, en hin á heimildagrein. Þessar tillögur, sem við flytjum, eru um vegamálin. Tillagan, sem við flytjum til útgjalda á 13. gr., er um það, að ríkissjóður standi á árinu 1967 við samkomulagið, sem brást í fyrra, um greiðslu ríkissjóðs til vegasjóðsins á 47 millj. kr. Við krefjumst þess, að við það samkomulag verði staðið. Og við endurtökum, að við munum ekki una því, að ríkissjóður hirði hundruð millj. í sinn hluta og sinni vegamálunum að engu, eins og nú er gert. Tekjur ríkissjóðs af vegamálunum verða á árinu 1966 yfir hálfan milljarð, og stefnt er að því, að þær verði ekki minni á næsta ári. Það er gert ráð fyrir í tekjuáætlun hæstv. ríkisstj., að inn í landið verði fluttar yfir 4 þús. bifreiðar, og það verða a.m.k. að vera vegir til þess, að þessir bílar geti staðið einhvers staðar, hvað þá að hægt sé að keyra þá. Hér er um algert sinnuleysi að ræða, sem ekki verður búið við.

Hæstv. fjmrh. lét svo vel af ríkisbúskapnum í fjárlagaræðu sinni í haust, að hann gerði ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs á þessu fjárlagaári yrðu mun meiri en gert var ráð fyrir. Mér sýnist, að það sé reiknað með, að þær geti orðið 400–500 millj. meiri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Þess vegna leggjum við nú til, að 47 millj. kr. verði notaðar af þessum væntanlega greiðsluafgangi til þess að greiða vegasjóðnum það, sem á vantaði í fyrra. Og ég treysti því nú, að hæstv. samgmrh, meti sitt samkomulag það mikið, að hann láti ekki fórna því fyrir 47 millj. kr. Ég minnist þess, að hæstv. forsrh. mat sitt samkomulag svo mikils, að hann lét breyta söluskattsprósentunni, sem munaði ríkissjóð 60–70 millj., af því að hann taldi það orka tvímælis, hvort hann hefði gert samkomulag um annað en þar stóð. Þess vegna treysti ég því, þegar jafnsterk rök eru fyrir því, að þetta samkomulag var gert, og allir reiknuðu með, að það yrði haldið, þá treysti ég því, að hæstv. samgmrh. láti ekki á sinn hlut ganga, þó að hann gerði það í fyrra, að hann rétti sinn hlut af nú með því að láta ríkissjóð greiða þessar 47 millj., fyrst tekjur hans fóru svo mjög fram úr áætlun vegna verðbólgunnar á þessu ári.

Við höfum í sambandi við þessa afstöðu okkar að flytja ekki fleiri tillögur við fjárlagafrv. að þessu sinni gert grein fyrir því í nál. okkar. Hér er um óvenjulega aðferð að ræða, að stjórnarandstaða sýni svo mikla hófsemi, og vil ég nú, með leyfi forseta, lesa upp úr nál. okkar, þar sem grein er gerð fyrir þessari afstöðu, hún er svo:

„Ástæðan til þess, að við flytjum ekki nema eina brtt., er sú, að óðaverðbólgan, sem ríkisstj. hefur magnað með álögum og stjórnleysi, hefur leikið ríkisbúskapinn svo grátt, að ekki er rúm fyrir fjárveitingar til nauðsynlegustu verkefna á fjárlögum, sem verða hartnær 5 milljarðar. Á þessari staðreynd viljum við vekja athygli þjóðarinnar alveg sérstaklega. Við viljum undirstrika, að fjárhagsmál þjóðarinnar verði ekki lagfærð með einstökum brtt., heldur verði að ráðast að orsökum meinsins, þ.e. rótum dýrtíðarinnar.“

Ofsköttun, stjórnleysi og stefnuleysi í fjárfestingarmálum þjóðarinnar, sem ríkt hefur hjá þessari ríkisstj. og ríkir enn, hefur leitt til þess ástands, sem ríkisstj. sjálf hefur gefið þá yfirlýsingu um, að hún væri mitt í góðærinu stödd á vegamótum velgengni og vandræða. Viljann til að hanga í valdastólunum skortir þó ekki. Þess vegna biður ríkisstj. nú um aðstoð stjórnarandstöðunnar til þess að koma vilja sinum fram og reynir hverja sjónhverfinguna annarri fráleitari, eins og það að vera með tilburði og tal um verðstöðvun, um leið og hún afgreiðir fjárlög, sem eiga tilveru sína undir verðþenslu og spennu í viðskiptalífinu. Aðeins stefnubreyting í stjórn á málefnum þjóðarinnar, festa og trú á atvinnuvegi landsmanna og þjóðarinnar og þjóðina og landið getur komið afgreiðslu fjárlaga, efnahagskerfi og atvinnulífi þjóðarinnar í réttan farveg.

Á þetta vil ég leggja áherzlu og ljúka þar með mínu máli.