02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. 2. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft frv. til fjárlaga til athugunar í rúman mánuð og hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. og skilar þremur nál. Á þskj. 92 eru birtar brtt. við frv., sem fluttar eru í nafni nefndarinnar. Varðandi þær tillögur vil ég taka það fram, að ég styð þær ekki allar og hef áskilið mér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við þær eða einstaka liði frv. Ég vil sérstaklega taka það fram í því sambandi, að ég er algerlega andvígur 13. till. á þskj., þar sem lagt er til að lækka fjárveitingu til greiðslu á eftirstöðvum hafnarlána. En brtt. þær, sem ég flyt við frv., eru birtar á þskj. 97, og ég mun gera grein fyrir þeim hér á eftir.

Afgreiðsla ýmissa mála bíður 3. umr., svo sem framlag til byggingar skólahúsnæðis, niðurgreiðslur og annað, og mun ég ekki flytja brtt. við þá þætti frv., fyrr en í ljós kemur, hvaða afgreiðslu þau fá í fjvn. Ég tel það óviðunandi, hve sótt hefur í það horfið að undanförnu, að veigamiklir þættir fjárlagafrv. eru ekki afgreiddir úr nefnd fyrr en við 3. umr., svo að við 2. umr. er frv. lagt fyrir hv. alþm. hálfkarað og án nokkurrar heildarmyndar. Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni yfir samstarfinu í nefndinni og flyt formanni nefndarinnar og meðnm. mínum öðrum þakkir fyrir samstarfið, sem verið hefur með ágætum hvað sem málefnaágreiningi líður.

Áður en viðreisnarstjórnin tók við völdum fyrir um 7 árum, hafði almenningi á Íslandi um langan aldur verið ljóst, hvaða stefnu Sjálfstfl. hygðist beita sér fyrir, ef hann næði þeim áhrifum í íslenzkum stjórnmálum, að hann gæti mótað stjórnarstefnuna að eigin vild, og íslenzk alþýða ól í brjósti ótta við svo mikið vald Sjálfstfl., að hann gæti komið í framkvæmd þeim kenningum, sem hann hélt á loft um, að samfélagið skyldi beygt undir vald fjármagnsins. Sá verkalýður, sem eygði þá hættu, sem hagsmunum alþýðustéttanna var búinn af yfirlýstri stefnu Sjálfstfl., skipaði sér í raðir Sósfl., Alþb. og Alþfl. til þess að hindra, að stefna Sjálfstfl. um forréttindi auðmagnsins kæmist í framkvæmd á Íslandi, og til þess að berjast fyrir því, að sósíalistískum aðferðum yrði beitt við lausn efnahagsmála. Sjálfstfl. hafði jafnan haldið því fram, að í efnahags- og atvinnumálum skuli fylgja þeirri stefnu, að atvinnurekendur, innflytjendur og aðrir þeir, sem fjármagninu ráða, eigi að hafa sem frjálsastar hendur til athafna og umsvifa. Hagsmunir þessara aðila og þjóðarinnar í heild fari jafnan saman og almenningi sé fyrir beztu að leggja ráðin í þessum málum í hendur slíkra manna, sem mest vit og þekkingu hafa til þess að sjá samtímis borgið hag sinna fyrirtækja og þjóðarheildarinnar. Athafnir og aðgerðir hins frjálsa framtaks til þess að ná til sín gróða séu eðlilegasta hreyfiaflið í þjóðfélaginu. Og allar ráðstafanir stjórnvalda beri að miða við að rýmka sem mest fyrir þessu einkaframtaki í þjóðfélaginu, svo að ekkert geti hamlað því í gróðaöfluninni. Slíkt athafnafrelsi átti að dómi Sjálfstfl. að skapa samkeppni í atvinnulífinu og í verzlun og tryggja almenningi ekki aðeins hagkvæmasta vöruverð, heldur jafnframt hagkvæmasta nýtingu fjármagnsins fyrir þjóðarheildina, því að það, sem væri hagkvæmt og skynsamlegt fyrir þann athafnamann, sem leitast við að safna gróða, það sé hagkvæmast og skynsamlegast fyrir þjóðfélagið, en hitt, sem óhagkvæmt sé og ekki eins gróðavænlegt fyrir einstaklinginn, eigi ekki heldur rétt á sér, hvorki fyrir hann né þjóðfélagið, og hverfi. Að dómi Sjálfstfl. var höfuðskilyrði til bættra lífskjara algert og hömlunarlaust frelsi fjármagnsins, til þess að þjóðin fengi notið þeirra efnahagslögmála, að fjármagnið sæki í þær atvinnugreinar, þann rekstur og þá fjárfestingu, sem mestan gróða gefur hverju sinni. Þessu þyrfti að fylgja ótakmarkað frelsi innflytjenda til þess að ráðstafa gjaldeyrinum til kaupa á því, sem gróðavænlegt er hverju sinni, og algert og óheft til álagningar.

Áróðurinn fyrir þessari skipan mála hefur Sjálfstfl. vafið í orðskrúð um verzlunarfrelsi, innflutningsfrelsi, álagningarfrelsi, einstaklingsfrelsi, athafnafrelsi og frjálst framtak einstaklingsins. En kröfur um skynsamlega skipulagningu framkvæmda við stjórn ofan frá hefur Sjálfstfl. afgreitt með ámóta orðum og þeim, sem Birgir Kjaran viðhafði í útvarpsumræðum 30. maí 1960, en þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta: „Áætlunarbúskapurinn gerir ekkert annað en að skipuleggja fátæktina og leiðir áður en varir til stjórnarfarslegs einræðis.“

Fæstir mundu hafa talið, að Sjálfstfl. gæfist kostur á að framkvæma þessar kenningar sínar um óheft vald einkafjármagnsins í þjóðfélaginu, fyrr en hann hefði öðlazt til þess meirihlutavald á Alþ., og sízt, að það gæti gerzt, að hann nyti til þess tilstyrks flokks, sem beinlínis var stofnaður til þess að vinna gegn þessum gömlu kenningum íhaldsins um alræði einkafjármagnsins og hafði um langan aldur heitið því að vinna að því, að alveg gagnstæðum stjórnarfarslegum aðferðum, þ.e. sósíalistískum aðferðum, yrði beitt til þess að tryggja hagsmuni almennings í landinu. En þetta var það, sem gerðist. Sjálfstfl. þurfti ekki að berjast til meirihlutavalds á Íslandi til þess að fá færi á því að koma öllum helztu stefnuatriðum sínum í framkvæmd og gera allsherjartilraun á íslenzku þjóðfélagi, þar sem allar þessar kenningar um alræði einkafjármagnsins og hömlulaust frelsi þess væru reyndar, og forsjónin hagaði því svo, að samhliða urðu þau umskipti í aflabrögðum, að í stað þess, að síldarleysi hafði verið í hálfan annan áratug, þá tók nú við hvert aflaárið öðru meira.

Sjálfstfl. þurfti ekki að berjast fram til meirihlutavalds til þess að fá tækifæri til þess að reyna þessar kenningar sínar. Alþfl., sem um árabil hafði haldið á lofti alveg gagnstæðum kenningum, lagði honum svo dyggilega lið sitt til ráðstöfunar, að síðan má segja, að Sjálfstfl. hafi farið algerlega einn með stjórnina. Alþfl. tók að sér allt árið 1959 að leika þann blekkingaleik, sem frægur er orðinn í stjórnmálasögunni, að þykjast vera að tryggja þjóðinni verðstöðvun, en bjó í haginn fyrir væntanlega stjórn með Sjálfstfl. með 13.6% kauplækkun og greiddi síðan niður vöruverð í eitt ár, þar til þessi sýndarmennska og þessi sýndarstöðvun hafði tryggt þessum flokkum tveimur meirihlutavald á Alþ. Eftir það tók Sjálfstfl. við stjórninni opinberlega, og gengið var fellt að loknum kosningum haustið 1959.

Nú er það svo, að Alþfl. hefur ekki haft það sem neina grundvallarreglu að vera á móti gengislækkun sem slíkri, þó að slík ráðstöfun kæmi að þessu sinni þvert ofan í öll loforð flokksins um verðstöðvun. En Alþfl. hafði fram til þess tíma haft aðrar skoðanir á því, hvaða ráðstafanir væru nauðsynlegar samhliða gengislækkun, til þess að hún væri réttlætanleg. Í kjölfar gengislækkunarinnar 1960 fylgdu ráðstafanir, sem voru í algeru samræmi við margyfirlýstar skoðanir Sjálfstfl. um alræði einkafjármagnsins, sem ég hef verið að minnast á, en fram til þessa tíma höfðu skoðanir Alþfl. á þeim ráðstöfunum, sem fylgja ættu gengislækkun, ef flokkurinn ætti að geta staðið að henni, verið alveg gagnstæðar: Um það er nál. fulltrúa Alþfl., hæstv. núverandi viðskmrh., við gengislækkunina 1950 góð heimild. Þá taldi flokkurinn höfuðnauðsyn á, að dregið væri úr hinum verðbólguaukandi áhrifum gengislækkunarinnar. Höfuðatriðið væri að hamla á móti verðhækkunum af völdum gengislækkunar. Og í nál. frá 1950 rekur fulltrúi Alþfl, þær ráðstafanir, sem gerðar hafi verið við gengislækkunina 1939, einmitt til þess að hindra verðbólgu af hennar völdum. Þar eru taldar upp m.a. eftirtaldar ráðstafanir:

1) Hækkun húsaleigu var bönnuð. 2) Hækkun útlánsvaxta var bönnuð. 3) Verðlagseftirlit var hert.

Í lok nál. um gengislækkunina 1950 skýrir fulltrúi Alþfl. afstöðu flokksins til þeirrar gengislækkunar, sem þá var á döfinni og hann taldi ekki réttlætanlega, vegna þess að á skorti, að aðrar nauðsynlegar hliðarráðstafanir væru gerðar um leið, og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef gengisbreytingin ætti að vera réttlætanleg frá sjónarmiði Alþfl., eins og ástandið hefur veríð undanfarinn áratug og er nú, yrði að gera svo róttækar breytingar á efnahags- og félagsmálum þjóðarinnar, að engar líkur eru til þess, að um þær geti orðið samkomulag, eins og Alþ. er nú skipað. Skal ég drepa á nokkur atriði í þessu sambandi:

1) Breyta þarf skipulagsháttum í útgerð landsmanna, sérstaklega á stórútgerðinni, og ýmsum fiskiðnaði, svo sem rekstri hraðfrystihúsa, þannig að tryggt verði, að tækin séu ávallt hagnýtt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum og að gróða góðæra sé ekki varið með óeðlilegum hætti, heldur einvörðungu í þágu atvinnuveganna sjálfra. Bæta þarf og rekstrarhætti bátaútgerðarinnar, hagnýta kosti stórrekstrar meira en gert er í sambandi við hana og auka sparneytni í rekstri.

2) Gerbreyta þarf skipulagi innflutningsverzlunar landsmanna og binda endi á það ástand, að hún sé mikil og örugg gróðalind. Þarf að skipuleggja hana þannig, að hún sjái landsmönnum fyrir sem beztri og ódýrastri erlendri vöru og dreifi henni með sem lægstum kostnaði. Slíkt verður ekki tryggt nema með því, að hið opinbera taki innflutningsverzlunina í sínar hendur að verulegu leyti á þeim sviðum, þar sem hagkvæmast er að gera innkaup í sem stærstum stíl eða kaupa þarf í sambandi við verzlunarsamninga, en hafi að öðru leyti náið eftirlit með verzluninni.

3) Auka þarf rekstrarhagkvæmni bæði landbúnaðar og innlends iðnaðar frá því, sem verið hefur, fyrst og fremst með aukinni tækni og bættum vinnuaðferðum og með því að efna til stórrekstrar á þeim sviðum, þar sem hann hentar bezt.

4) Gera þarf róttækar ráðstafanir til þess að leysa húsnæðisvandamálin. Þúsundir manna búa við rýr kjör, ekki vegna þess, að þeir hafi ekki atvinnu eða sæmileg laun, heldur vegna þess, að þeir búa í óhæfu húsnæði eða sæta afarkostum um kjör í skjóli skortsins.

5) Gera þarf gagngerar breytingar á skattakerfinu til þess að tryggja rétt framtöl og koma í veg fyrir, að óeðlilegur skattþungi lendi á herðum launamanna, auk þess sem hækka þarf persónufrádrátt verulega. Til þess að tryggja nokkra eignajöfnun, þyrfti að leggja á raunverulegan stóreignaskatt.

6) Enn fremur þarf að gera ráðstafanir til sparnaðar hjá hinu opinbera, og til aukinnar hagsýni í opinberum rekstri.“

Þetta voru þær ráðstafanir, sem Alþfl. taldi nauðsynlegar, til þess að hann gæti stutt gengislækkunina árið 1950. En hvar voru kröfur flokksins, þegar gengislækkunin var framkvæmd árið 1960 og fyrrverandi fjhn: maður flokksins, sem gert hafði grein fyrir þeim kröfum um óhjákvæmilegar ráðstafanir til þess að sporna við því, að verðbólgu leiddi af gengislækkuninni, var orðinn ráðherra? Hverjar voru þá kröfur Alþfl.?

Í stað þess að gerðar væru ráðstafanir, sem gætu að einhverju leyti hamlað gegn verðbólguáhrifum gengislækkunarinnar, notaði Sjálfstfl. nú það algera vald, sem hann hafði fengið á Alþ. með uppgjöf Alþfl.-forustunnar og fráhvarfi hennar frá öllum fyrri grundvallarreglum. Sjálfstfl. tók nú að innleiða það efnahagskerfi einkaframtaksins, sem hann hafði lengi boðað. Nú skyldi koma á hinu frjálsa efnahagskerfi auðmagnsins eftir erlendum fyrirmyndum, en um leið var heitið stöðvun verðbólgunnar, þótt allt verðlag í landinu hækkaði að sjálfsögðu gífurlega þegar í stað í kjölfar hinnar stórfelldu gengislækkunar. En annað höfuðverkefnið átti að vera að tryggja öruggan rekstur útflutningsatvinnuveganna án styrkja og uppbóta. Vextir voru stórhækkaðir, þveröfugt við það, sem Alþfl. taldi áður óhjákvæmilegt vegna verðbólguhættunnar. Áður hafði hann talið nauðsynlegt að banna hækkun vaxta til þess að draga úr verðbólguáhrifum þeirrar gengislækkunar, sem hann studdi árið 1939.

Skattakerfinu var umturnað, þannig að beinir skattar, álagðir eftir tekjuhæð og eignum, urðu stórum minni hluti skattheimtunnar, en þess í stað margfaldaðir almennir neyzluskattar, og þannig stórlækkuðu beinir skattar á þeim, sem mestar höfðu tekjurnar og höfðu haft hæsta skattana áður, en þeir, sem litla skatta höfðu haft fyrir vegna fjölskyldustærðar, fengu þeim mun meira af óbeinu sköttunum. Samhliða voru veigamiklar breytingar gerðar varðandi skatta fyrirtækja, því að nú varð skv. gömlum og nýjum kenningum Sjálfstfl. að sjá til þess, að athafnamennirnir og einkaframtakið héldi sem mestu eftir af afrakstri fyrirtækjanna, og það þurfti að tryggja, að gróðinn færi ekki til sameiginlegra sjóða landsmanna, í ríkissjóð og í bæjarog sveitarsjóði. Þetta var orðað svo á hinu lipra tungutaki þeirra, sem voru að auka friðhelgi gróðans, að verið væri að gefa fyrirtækjum kost á að mynda eigið fjármagn.

Um það, hvernig skattalöggjöfin býr að einkaframtakinu eftir þessar breytingar viðreisnarstjórnarinnar, sagði hæstv. fjmrh. á fundi Vinnuveitendasambands Íslands nú í haust, með leyfi hæstv. forseta:

„Einmitt skattalöggjöf okkar, eins og hún er í dag, hlynnir mjög að atvinnurekstri, sem byggður er upp með miklu eigin fjármagni, þannig að það eru ákvæði í skattalögum hér, sem eru umfram heimildir flestra nálægra þjóða og eru þess eðlis, að þau veita sérstök fríðindi þeim fyrirtækjum, þar sem um mikið eigið fjármagn er að ræða.“

Í stað þess, að hækkun húsaleigu væri bönnuð til þess að draga úr verðbólguáhrifum gengislækkunar, eins og Alþfl. hafði áður talið nauðsynlegt, til þess að væri fært að fylgja gengislækkun, þá hafa húsaleigulögin verið afnumin og óhugnanlegt okur ríkir á húsaleigumarkaðinum. Sannarlega er það eftirminnilegt, að hæstv. viðskmrh. taldi nauðsynlegt í því nál., sem ég greindi frá áðan, að leggja sérstaka áherzlu á, að ein af þeim ráðstöfunum, sem óhjákvæmilegt væri að gera sambliða gengislækkun, væri róttækar ráðstafanir til þess að leysa húsnæðisvandamálið, til þess að menn þyrftu ekki að búa í óhæfu húsnæði eða sæta afarkostum um kjör í skjóli skorts á húsnæði. Nú voru húsaleigulögin þess í stað afnumin og okrið á leiguhúsnæði látið blómstra.

Í samræmi við stefnu Sjálfstfl. um algert álagningarfrelsi hafa sífellt fleiri vöruflokkar verið leystir undan verðlagsákvæðum, svo að þau hafa í langan tíma einungis verið nafnið tómt, þótt Alþfl. hafi áður haldið því fram, að eitt af höfuðskilyrðunum til þess, að hann gæti fylgt gengislækkun, væri það, að verðlagseftirlit yrði skerpt, eins og kom fram í nál. hæstv. núv. viðskmrh., einmitt til þess að hamla gegn verðhækkunum af völdum gengislækkunarinnar og vinna gegn verðbólguþróuninni.

Vegna gengislækkunarinnar 1959 og vegna þess, að þær hliðarráðstafanir, sem gerðar voru í kjölfar hennar í vaxtamálum, í verðlagsmálum, í skattamálum og í fjárfestingarmálum og á fleiri sviðum, juku stórlega verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar, í stað þess að unnt hefði verið að gera ráðstafanir, sem hefðu haft þveröfug áhrif, upphófst að sjálfsögðu hin örasta verðbólguþróun. Þá verðbólguþróun hefur ríkisstj. beinlínis ræktað með ofurkappi sínu að tryggja atvinnurekendum, innflytjendum og öðrum þeim, sem fjármagninu ráða, sem frjálsastar bendur til athafna og umsvifa í gróðaskyni og án tillits til hagsmuna þjóðarheildarinnar. Aukinni fjárþörf ríkissjóðs á ári hverju hefur svo verið mætt með enn frekari skattheimtu og niðurskurði á verklegum framkvæmdum á vegum ríkissjóðs.

Þegar launþegar höfðu búið við skert grunnlaun frá ársbyrjun 1959 og engar vísitölubætur hlotið þrátt fyrir auknar þjóðartekjur, en bjuggu við stórhækkað verðlag, sömdu verkalýðssamtökin sumarið 1961 eftir langt verkfall um kjarabætur, sem voru fjarri því að jafna upp þá kjaraskerðingu, sem launþegar höfðu orðið fyrir. Þrátt fyrir hækkandi afurðaverð og aukið aflamagn, verðmæti sjávarafurða hækkaði á því ári um 16.7%, mætti nú ríkisstj., sem þóttist vilja vinna gegn verðbólgu, þessum kjarasamningum með nýrri gengislækkun. Og enn stóð ekki á Alþfl. að fella gengið, þótt engar minnstu ráðstafanir væru gerðar til þess að draga úr verðhækkunaráhrifum gengislækkunarinnar, enda var það sérstök ætlun stjórnarvaldanna að láta verkalýðsfélögin finna fyrir þeim hækkunum, svo að ekki yrðu í bráð gerðar frekari tilraunir til þess að bæta kjör launþega. Þær ráðstafanir að ákveða gengislækkun, sem studdist ekki við nokkur efnahagsleg rök, eru ein höfuðafglöpin, sem viðreisnarstjórnin hefur framið, og eru þau þó orðin ærið mörg á hennar ferli. En afleiðingarnar af þessari gengislækkun komu ekki aðeins niður á verkafólki, eins og til var ætlazt, heldur varð skammgóður vermir að þeim tekjuauka, sem hún færði ríkissjóði, áður en áhrif hennar voru að fullu komin í ljós. Dýrtíðaraukningin, sem af gengislækkuninni hlauzt, herti að ríkissjóði, og svo ör var verðbólguþróunin, að þeir skattar og tollar, sem ákveðnir voru við setningu fjárl., entust ekki til næstu fjárlagaafgreiðslu, og eftir setningu fjárl. haustið 1964 varð að kalla þing saman strax eftir áramótin til þess að hækka söluskatt um 300 millj. kr. ofan í nýsett fjárlög, og þessar ráðstafanir voru gerðar vegna þess, að bæta þurfti hag útgerðarinnar. Þá taldi ríkisstj. enga þörf á að halda uppi neinni sýndarverðstöðvun, og í stað þess að fara þannig að að létta útgjöldum af útgerðinni hélt ríkisstj. ótrauð áfram verðbólgustefnunni og hækkaði allt verðlag í landinu með söluskattshækkuninni og notaði síðan það, sem inn fékkst, til þess að greiða útgerðinni styrk til að mæta dýrtíðinni.

Þá var flestum landsmönnum orðið ljóst, að ríkisstj. stefndi beint fram af brúninni í hækkanastefnu sinni, og þess gat ekki verið langt að bíða, að hún kæmi atvinnuvegunum í þrot með því að brjála allan verðlagsgrundvöll innanlands með sífelldum verðbólguráðstöfunum. Þá gerðu verkalýðsfélögin tilraun til þess að koma viti fyrir stjórnarflokkana. Og það eitt er víst, að verðlagsmál og aðstaða atvinnuveganna væri önnur í dag, ef ríkisstj. hefði hagað stefnu sinni síðan í samræmi við þann vilja og þær tilraunir, sem fram komu hjá verkalýðssamtökunum, til þess að horfið yrði frá verðbólgustefnunni. Verkalýðsfélögin sömdu þá um ýmsar félagslegar úrbætur, en féllu frá svo til allri grunnkaupshækkun í trausti þess, að ríkisstj. skildi nú loks sinn vitjunartíma og breytti um stefnu við setningu næstu fjárl. og fjáröflun ríkissjóðs yrði miðuð við það, að hún kallaði ekki sjálfkrafa á sífellt auknar tekjuþarfir ríkissjóðs.

Allri viðleitni verkalýðssamtakanna til þess, að landsmenn legðust nú allir á eitt til þess að sporna við þeirri verðbólgu, sem ráðstafanir ríkisstj. höfðu hrundið af stað og viðhaldið og aukið, var mætt með nýrri stórhækkun söluskatts, og var söluskattur áætlaður 570 millj. kr. hærri á fjárl. 1965 en 1964. Þetta haust voru engar kosningar í vændum, og þá taldi ríkisstj. sig ekki þurfa að halda á neinni verðstöðvunarstefnu, heldur var haldið áfram lengra út á ófærubraut verðbólgunnar.

Eftir því sem lengra hefur liðið á stjórnartíma viðreisnarflokkanna, hefur komið betur í ljós, að sú stefna að láta einkafjármagnið vera aðalhreyfiaflið í þjóðfélaginu og það sjónarmið að gefa einkaaðilum sem frjálsastar hendur um ráðstöfun þjóðarverðmætanna með stjórnlausri fjárfestingu og með frjálsum innflutningi án minnsta tillits til þarfa þjóðarinnar og með algeru frelsi til álagningar á vörum, - sú stefna getur ekki samrýmzt neinni viðleitni til þess að hamla gegn verðbólgunni, þessi tvö sjónarmið eru í eðli sínu andstæð, enda er það mála sannast, að einmitt verðbólgan hefur verið höfuðgróðalind þeirra skjólstæðinga viðreisnarstjórnarinnar, sem harðast hafa barizt fyrir auknu olnbogarými í þjóðfélaginu og ótakmörkuðu frelsi til gróðasöfnunar. Og vegna þess að þeir, sem mestu ráða í Sjálfstfl., leggja höfuðáherzluna á að knýja fram algert frjálsræði athafnamannanna í þjóðfélaginu til þess að ráðskast með fjármuni þjóðarinnar, hefur ríkisstj. í sífellt ríkara mæli gefizt upp við að sporna gegn verðbólgunni, og við afgreiðslu hverra fjárl, hefur hún mætt afleiðingum verðbólgustefnunnar, sem fram hafa komið í meiri fjárþörf ríkissjóðs annars vegar með sífellt nýjum skattahækkunum, sem enn hafa aukið á verðbólguna og skapað nýjan vanda við næstu fjárlagaafgreiðslu, og hins vegar með því að skera niður framlög til verklegra framkvæmda, svo sem skólabygginga, vegamála, sjúkrahúsmála, til flugvalla og hafnargerða. Sem dæmi um það, hvernig ástatt er í sjúkrahúsmálum, má minna á nokkur orð í grg., sem Læknafélag Reykjavíkur sendi frá sér nýlega, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hversu mörg líf hafa þeir stjórnmálamenn í hendi sér, sem skera fjárframlög til spítalabygginga svo við nögl, að það liggur við, að neyðarástand ríki í sumum deildum spítalanna sökum plássleysis?“

Afleiðingin af þeirri stefnu að miða fyrst og fremst við það að láta fjármagnið sem frjálsast, þannig að þau efnahagslögmál megi verka sem óheftust, að fjármagnið sæki í þær atvinnugreinar og þann rekstur, sem mestan gróða gefur hverju sinni, er sú, að þær atvinnugreinar, sem ekki hafa haft aðstöðu til þess að ausa upp af óhemjulegum síldarafla, af innflutningsgróða eða af þeim gróða, sem fæst við að byggja íbúðir til sölu, hafa verið látnar dragast aftur úr og verið vanræktar. Þessar atvinnugreinar eru ekki lengur samkeppnisfærar. En þessar atvinnugreinar hafa hins vegar orðið að búa við þá óðaverðbólgu, sem stefna ríkisstj. hefur valdið með gengislækkunum, söluskattshækkunum, vaxtahækkunum, sérstökum hækkunum á rafmagnsverði og ótakmörkuðum heimildum til álagningar.

Öll þessi þróun hefur bitnað verst á ýmsum greinum íslenzks iðnaðar, á togaraútgerð og útgerð smærri vélbáta og hraðfrystihúsa. Hömlulaus innflutningur erlends íðnaðarvarnings samhliða stórfelldri verðbólguþróun innanlands veldur því, að hvers kyns iðnaðarframleiðsla dregst í æ ríkara mæli út úr landinu, og er jafnvel svo komið, að kökubakstur fyrir Íslendinga er að verða atvinnugrein fyrir Dani. Við fluttum inn um 1000 tonn af kexi fyrir 33 millj. kr. að innkaupsverði á s.l. ári, á sama tíma og vélar til fiskiðnaðar voru fluttar inn fyrir um 10 millj. kr Í sömu átt virðist stefna með smíði innréttinga í íbúðir, hurða og skápa og jafnvel heilla íbúðarhúsa, að ekki sé talað um skipasmíði. Öll er þessi framleiðsla smám saman að dragast út úr landinu, en við aukum hráefnaframleiðsluna að sama skapi. Þótt Morgunblaðið vilji reyna að gera sem minnst úr þrengingum íslenzks iðnaðar, segir málsvari atvinnurekenda, Barði Friðriksson, í blaðinu Vinnuveitandinn í ágúst s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Mörg iðnfyrirtæki hafa þegar hætt störfum eða orðið að draga saman atvinnurekstur sinn, og mun þeim fyrirtækjum fara fjölgandi, sem sömu ástæður knýja til samdráttar eða stöðvunar, ef fram heldur sem horfir.“

Krafan um algert verzlunarfrelsi, krafan um rétt heildsalanna til þess að nota gjaldeyrinn til kaupa á þeim vörum, sem gefa þeim mestan gróða án tillits til heildarhagsmuna þjóðarinnar, án nokkurs tillits til innlends iðnaðar, veldur því, að erlendar iðnaðarvörur ryðja hinum íslenzku af markaðinum og innlend framleiðsla á sífellt meira í vök að verjast og getur ekki keppt vegna verðbólguþróunarinnar. Þessari samkeppni á innlendur iðnaður sífellt erfiðara með að mæta, m, a, vegna algerrar lánsfjárkreppu. Iðnaðurinn nýtur ekki hliðstæðrar fyrirgreiðslu og sjávarútvegur og landbúnaður um kaup á afurðavíxlum. En á sama tíma frystir Seðlabankinn yfir 80 millj. kr. af fé Iðnaðarbankans, og samtímis og allt þetta gerist, hafa verið samþ. á Alþ. lög, sem tryggja erlendum aðilum heimild til iðnrekstrar hér á landi með allt öðrum og betri kjörum en innlend iðnaðarfyrirtæki eiga við að búa, þ. á m. tollfrelsi, skattfríðindum og lægra rafmagnsverði.

Á svipaðan hátt hefur stjórnarstefnan leikið togararekstur. Vissulega hefur minnkandi afli togaranna haft sín áhrif á rekstrarafkomuna. En þar kemur fleira til, og efnahagsaðgerðir viðreisnarstjórnarinnar hafa beinlínis veríð rothögg fyrir togaraútgerðina í landinu. Áður greiddu togarar t.d. rekstrarvörur sínar með 55% álagi á gjaldeyri, en seldu þann gjaldeyri, sem þeir fengu fyrir afla togaranna, með 80% álagi. Þetta var beinn stuðningur við togaraútgerðina. Þessi hlunnindi voru af togaraútgerðinni tekin við gengislækkunina, þannig að rekstrarvörurnar hækkuðu miklu meir en fiskverðið. Gengislækkunin var einnig stóráfall fyrir mörg af þessum fyrirtækjum af þeim sökum, að þau höfðu, skömmu áður en hún var framkvæmd, ráðizt í mikla fjárfestingu, svo sem kaup á 1000 tonna togurum, byggingu fiskiðjuvera fyrir erlend lán, sem stórhækkuðu að krónutölu við gengislækkanirnar. Þar á ofan bættist vaxtahækkun á innlendum lánum og fjölmargar aðrar verðbólguráðstafanir. Allt hefur þetta leikið togaraútgerðina svo grátt, að hún er með öllu að komast í þrot. Sama er að segja um útgerð vélbáta, sem ekki geta stundað síldveiðar með þeirri tækni, sem nú er nauðsynleg. Enginn rekstrargrundvöllur er fyrir hendi til útgerðar þeirra báta. Útgerð þeirra og aðbúnaður allur hefur dregizt aftur úr, en fjármagnið leitað þangað, sem það gefur meiri arð. Er jafnvel svo komið, að gamalgróin fyrirtæki, sem stundað hafa útgerð slíkra báta um árabil, mega nú teljast gjaldþrota. Hraðfrystihúsin, sem byggt hafa rekstur sinn á afla frá togurunum og smærri bátum, leggja upp laupana eitt af öðru, um leið og þessar greinar útgerðar dragast saman, og hér við Faxaflóa hefur borið á atvinnuleysi hjá því fólki, sem unnið hefur í hraðfrystihúsunum, einkum hjá konum og unglingum.

Ekki verður séð á því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, hverjar ráðstafanir ríkisstj. hyggst gera til þess að leysa vandamál þessarar greinar útgerðar og fiskverkunar. En atvinnulífi okkar Íslendinga er þann veg háttað, að afkoma hinna ýmsu atvinnugreina hlýtur oft og tíðum að vera mjög mismunandi innbyrðis frá ári til árs. Ef það er því ætlun okkar að byggja afkomu okkar á innlendum atvinnugreinum, en stefnum ekki vitandi vits að því að verða verksmiðjuþrælar erlendra auðhringa, ef við ætlum að tryggja fólkinu sem jöfnust lífskjör um allt land, verður stjórnarstefnan að vera sú að jafna milli atvinnugreina, stjórna atvinnulífinu, en láta ekki óhefta gróðahvötina og stundarhagsmuni einstakra fjáraflamanna verða hið ráðandi afl. Við verðum með yfirvegaðri stjórnarstefnu að tryggja, að þótt á móti blási í einni eða annarri mikilsverðri atvinnugrein, sé hún ekki látin dragast aftur úr, vegna þess að einkafjármagnið vilji eðli sínu samkv. leita annað. Við verðum að tryggja með stefnu ríkisvaldsins, að þótt ein eða önnur mikilvæg atvinnugrein einhvers staðar á landinu verði fyrir erfiðleikum, dragist hún ekki aftur úr og hrörni og liði undir lok og verði ekki fær um að veita fólki atvinnu og geti síðar ekki nýtt þá möguleika, sem þjóðinni kunna að gefast, ef aftur kynni að skipast veður í lofti og draga tæki úr þeim atvinnugreinum, sem mestan gróða gefa í augnablikinu. Til þess þarf að vera stjórn á atvinnulífinu. Til þess þarf að hafa taumhald á einkagróðanum. Til þess þarf stjórnarvöld, sem telja sig fyrst og fremst bera ábyrgð á atvinnuöryggi allra. Til þess þarf stjórnarvöld, sem telja það ekki æðsta markmiðið, að hömlulaus gróðahvöt fái að marka þróun atvinnulífsins, þar sem stundarhagsmunir þeirra, sem fjármagninu ráða, fá ekki að kaffæra þær atvinnugreinar, sem afkoma fólks á fjölmörgum stöðum byggist á.

Það að láta óhefta gróðahvöt einkaframtaksins vera grundvallaratriðið í stjórnarstefnu á Íslandi hlaut að bera dauðann í sér frá upphafi, og þau einkenni þeirrar stefnu, að fjárfestingin í þjóðfélaginu er ekki framkvæmd með hagsmuni almennings í landinu að leiðarljósi, komu að sjálfsögðu þegar fram og hafa orðið æ meira áberandi, eftir því sem á hefur liðið. Stórfelldur niðurskurður á nauðsynlegustu framkvæmdum, sem varða þjóðina alla, í félags- og menntamálum, heilbrigðismálum og atvinnumálum, samgöngumálum á tímum mestu góðæra í sögu þjóðarinnar eru dæmigerð einkenni þess, hverra hagsmunum slík stefna þjónar, og það hefur verið allri þjóðinni dýrt að missa af því að geta notað þessi ár stórfelldustu verðmætasköpunar í sögu þjóðarinnar til stórátaka í þessum málum.

En þau einkenni, sem nú koma fram í upplausn innlendra atvinnugreina, í uppgjöf veigamikilla þátta í framleiðsluatvinnuvegunum, þar sem þeim, sem ráða fjármagninu, þykir ekki henta að ráðstafa því þá stundina, þau einkenni komu seinna fram en búast hefði mátt við í upphafi, og það á sína skýringu í því, að verðlag erlendis á framleiðsluvörum þessara atvinnugreina hefur hækkað með ári hverju og á þann hátt hefur dregið úr þeim áhrifum stjórnarstefnunnar, að þessi framleiðsla stöðvaðist vegna verðbólguþróunarinnar innanlands. Verðbólgunni hefur þannig á vissan hátt til skamms tíma verið unnt að velta út fyrir landssteinana á bak þeirra, sem keypt hafa afurðirnar.

Nú eru viðhorfin breytt í þessu efni. Í fyrsta sinn um langt skeið hafa þessar afurðir ekki hækkað og sumar nokkuð lækkað frá þeim hæsta verðtoppi, sem þær hafa náð, og þar með er viðreisnarstefnan að bresta og stöðvun veigamikilla þátta útflutningsframleiðslunnar blasir við, samtímis því þó, að ný aflamet eru sett enn á þessu ári.

Á því er ekki nokkur vafi, að ýmsir þeir, sem áður trúðu á réttmæti þeirra kenninga, að heppilegast væri að láta einkagróðann vera undirstöðu efnahagslífsins, og bjuggust við, að sjálfvirk lögmál gróðans mundu tryggja skynsamlegasta stjórn þjóðarbúsins, eru nú farnir að falla frá þeim skoðunum sinum eftir að hafa séð árangurinn af stefnu viðreisnarstjórnarinnar s.l. 7 ár og gera sér nú ljóst, að slík stefna hlýtur að leiða til ófarnaðar. Þegar menn hafa fyrir augunum þrot veigamikilla þátta atvinnulífsins mitt í góðærum og stórfelldu aflahlaupi, samdrátt nauðsynlegustu framkvæmda þjóðarheildarinnar og að ekkert af hinni stórauknu framleiðslu kemur fram í bættum kaupmætti tímakaups, dylst engum, að hagsmunir einkagróðans hafa verið teknir fram yfir hagsmuni almennings.

Vegna árlegrar hækkunar á verði sjávarafurða erlendis komu þannig seinna fram en ella þau kreppueinkenni, sem verðbólgustefna ríkisstj. hlaut að valda. En nú er svo komið, að strax og afurðirnar hætta að hækka stöðugt í verði, riða útflutningsatvinnuvegirnir til falls og hagfræðingar ríkisstj. lýsa því yfir, að nú sé velgengnin búin og nýtt skeið stöðnunar upp runnið, og er verð á útflutningsafurðum þó verulega hærra en það hefur lengst af verið, þótt það sé ekki í þeim hæsta verðpunkti, sem það hefur náð.

Án efa hefði ríkisstj. mikið viljað gefa til þess, að hún hefði fengið að njóta þeirra einstöku aðstæðna, stöðugrar hækkunar á verði útflutningsafurða, örlítið lengur, svo að tekizt hefði fram yfir kosningar að leyna hinum óhjákvæmilegu áhrifum viðreisnarstefnunnar. En nú eru öllum landslýð ljósar þessar niðurstöður, og því hefur ríkisstj. gripið til þess ráðs eftir þrotlausa ræktun verðbólgunnar með tveimur gengislækkunum, með vaxtahækkunum, með söluskattshækkunum og hvers konar verðbólguráðstöfunum að heita nú algerri verðstöðvun með því að greiða niður allar verðhækkanir, sem snerta vísitöluna, frá 1. ágúst s.l. og heitir jafnframt á verkalýðssamtökin að gera engar kröfur um launabaetur, svo að óbreytt ástand geti haldizt í þjóðfélaginu fram yfir þingkosningar á næsta ári. Kosningaáróður stjórnarflokkanna er þannig þegar hafinn, og honum er einbeitt að því að fá fólk til að trúa því, að með verð- og kaupstöðvun sé vandinn leystur. Það er ljóst, að ríkisstj. ætlar næstu 7 mánuði að gegna nákvæmlega því sama hlutverki, sem Alþfl.-stjórnin; sem tók við völdum í des. 1958, lék allt árið 1959, að greiða niður vöruverð og halda öllu óbreyttu, þar til búið er að kjósa, en þá telja þessir flokkar óhætt og tímabært að framkvæma þriðju gengislækkunina, — og hvað væri þá eftir af stöðvuninni?

Allt er nú gert, sem unnt er, til þess að telja fólki trú um, að vandamálin, sem ríkisstj. hefur steypt útflutningsatvinnuvegunum í, verði leyst með stöðvun, með niðurgreiðslum úr ríkissjóði og með því, að verkalýðssamtökin hækki ekki kaupið, þótt þeim, sem með völdin fara, sé að sjálfsögðu fullljóst, að það er engin frambúðarlausn vandans að festa það ástand, sem nú ríkir. Þrátt fyrir allt stöðvunartalið, sem stjórnarflokkunum þykir henta að hafa í frammi til næstu kosninga, er í engu reynt að samræma það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, nokkurri stöðvunarstefnu. Þvert á móti ber það öll merki fyrri verðbólgufrv. Allt bendir til þess, að fjárlögin verði nú afgreidd 1000 millj. kr. hærri en hin síðustu, og af því er augljóst annars vegar, við hvers konar ástand í þjóðfélaginu það er miðað, og hins vegar, að slík stórfelld aukning tolla og skatta hefur sín áhrif í efnahagskerfinu.

Fjárlagafrv. hefur líka þau einkenni fyrri verðbólgufjárlaga stjórnarinnar, að þeim vanda, sem við er að glíma, er enn auk skattahækkana mætt með samdrætti verklegra framkvæmda. Af hinni gífurlegu hækkun fjárl. fara nú aðeins 50 millj. kr. til verklegra framkvæmda, en þó fer stærsti hluti þeirrar lágu upphæðar til greiðslu skuldar vegna verka, sem þegar er búið að vinna, en ekki til nýrra framkvæmda. Fjárlagafrv. hefur einnig þau sömu einkenni fyrri verðbólgufjárl., að hækkanir á rekstrarliðum kaffæra framlög til nauðsynlegustu framkvæmda, þannig að hækkun á einu ári til þriggja embætta í Reykjavík nemur jafnhárri upphæð og allt framlagið til nýrra barnaskóla. Og framlagið til allra nýrra hafnarframkvæmda á landinu, annarra en landshafna, er nærri 2 millj. kr. lægra en nemur hækkuninni á rekstrarkostnaði skattstofa og ríkisskattanefndar á einu einasta ári. Til viðbótar því, að framlög til nauðsynlegustu verklegra framkvæmda voru skorin niður um 20% fyrir tveimur árum, eru þau nú áætluð yfirleitt með sömu krónutölu og á núgildandi fjárl., sem að sjálfsögðu þýðir, að um beinan samdrátt verður að ræða vegna lækkaðs raungildis krónunnar. Á sama tíma og þetta er gert, hækkar almennur skrifstofukostnaður um 20–25% og kostnaður við einstök embætti yfirleitt um 20–40%.

Eitt einkenni fjárlagafrv. undanfarandi ára hefur verið það, að hvergi hefur örlað á minnstu viðleitni til að sýna sparnað þrátt fyrir öll fyrirheitin, sem gefin hafa verið í þeim efnum, og enn sjást engin merki um nýja viðleitni til sparnaðar á nokkrum lið, þótt fjárlagafrv. sé að þessu sinni undirbúið af fjárlaga- og hagsýslustofnun þeirri, sem sett hefur verið á stofn innan fjmrn. á þessu ári. Ég tel þó ekki sanngjarnt að búast við, að hin nýja hagsýslustarfsemi sýni raunhæfan árangur og þar með breytta stefnu varðandi sparnað svo fljótt, að það komi fram á þessu fjárlagafrv. Það tekur að sjálfsögðu nokkurn tíma fyrir nýja aðila að kanna rekstur hinna ýmsu stofnana ríkisins og gera sér grein fyrir, hvar má draga úr fjárveitingum, án þess að það komi niður á þeim verkefnum, sem vinna þarf. En með tilliti til þess, hve gersneydd fjárlög undanfarinna ára hafa verið allri viðleitni til sparnaðar og samdráttar á rekstrarliðum, ætti þessi nýja stofnun að hafa ærið að starfa og þess vegna enn þá von til þess, að nytsemi af störfum hennar svari til þess kostnaðar, sem af henni leiðir.

Í aths. við fjárlagafrv. koma fram upplýsingar um eða skoðun hagsýslustofnunarinnar á því, hvaða verkefni hún fær að glíma við í rekstri ýmissa ríkisstofnana. Þessar lýsingar á því, hvað viðgengizt hefur um fjárveitingar til ýmissa rekstrarliða, hafa vakið nokkra athygli og eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og málum er nú háttað, er grundvöllur fjárveitinga að jafnaði rekstur tiltekinna stofnana, sem hafa tilgreindan fjölda starfsmanna. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar er síðan áætlaður eftir tilkostnaði eða fjárveitingum síðustu ára með álagi fyrir tilkostnaðarhækkunum. Tilvera stofnunarinnar sem skipulagseiningar skyggir þannig á eða dregur athyglina frá þeim verkefnum, sem þessi skipulagseining á að afkasta. Hið rökrétta undirstöðuatriði ríkisrekstrarins hlýtur að vera það safn verkefna, sem unnið er að, en ekki þær skipulagseiningar, sem upp hafa verið settar til þess að sinna þessum verkefnum. Með þessum hætti fæst oft ekkert mat á því, hversu vel eða illa stofnun hefur sinnt sínum viðfangsefnum, þar sem fjárveiting til stofnunarinnar miðaðist ekki við ákveðið viðfangsefni, heldur rekstur stofnunar. Við skoðun ríkisreiknings vill gjarnan verða sama upp á teningnum. Meginatriðið verður, hversu miklu fé stofnun hefur eytt, einna helzt umfram það, sem henni var ætlað, en ekki hversu miklu verki stofnunin hefur afkastað. Upplýsingar um það fást að sjálfsögðu engan veginn með útgjaldatölunum einum saman, heldur þurfa þar að koma til víðbótarupplýsingar, sem nú liggja almennt ekki fyrir.“

Hér er án efa rétt skilgreining á vanda, sem er til staðar, og ég get ekki fyrir mitt leyti fallið í þá freistni að líta svo á, að hér felist sérstakur dómur um þá, sem málum hafa ráðið hin allra síðustu ár, þótt mjög hafi verið látið reka á reiðanum á þeim árum, heldur hefur þessi þróun staðið miklu lengri tíma og aldrei verið tekið á þessum málum sem skyldi. Dæmi um það, að skipulagseining er tekin fram yfir verkefnið, eru mýmörg. Ég get bent á eitt lítið dæmi, sem viðgekkst til skamms tíma og er þó sjálfsagt fyrir hendi enn í eitthvað breyttri mynd. Það átti sér stað um margra ára skeið, að tvær stjórnarráðsbifreiðar fóru á hverjum morgni á sama tíma eftir sitt hvorum ráðh. til Hafnarfjarðar, og sami leikur var endurtekinn á hverju kvöldi. Þarna voru fyrir hendi tvær bifreiðar og tveir bifreiðastjórar, og þær skipulagseiningar skyggðu á verkefnið að sækja tvo menn á sama staðinn og báðar gegndu sama verkefninu.

Heildarbifreiðakostnaður ríkisins liggur ekki fyrir í einni tölu, en bifreiðakostnaður ríkisstj. nam 1.3 millj. kr. á s.l. ári, og til fyrningarsjóðs fóru 4 millj. kr. Þar við bætist bifreiðakostnaður hinna fjölmörgu stofnana ríkisins. Ég tel, að hin nýja hagsýslustofnun ætti að taka til athugunar, hvort ekki er kominn tími til, að annaðhvort séu bifreiðar ríkisins sameinaðar á eina bifreiðastöð, sem annist þann akstur, sem einstakar stofnanir þurfa á að halda, þannig að full nýting fáist, eða þá að þær verði allar seldar og leigubifreiðastöðvar látnar sjá um aksturinn, eftir því sem hann fellur til og nauðsynlegur er talinn.

Tekið er fram í aths. við fjárlagafrv., að hækkaðar fjárveitingar til ýmissa rekstrarliða stafi meðfram af því, að áætlanir séu nú raunhæfari en verið hafi og leitazt hafi verið við að gera frv. svo úr garði, að það verði sem raunhæfast og líkindi til umframgreiðslna verði sem minnst. Fróðlegt væri að fá upplýst í þessu sambandi, hvort hagsýslustofnunin muni þá sérstaklega beita sér fyrir því, að þeim liðum, sem undanfarið hafa farið langt fram úr áætlun, en samt ekki verið hækkaðar, fjárveitingar til nú, verði í framkvæmd haldið innan þess ramma, sem fjárveitingin markar. Bendi ég þar t.d. á, að risna ríkisstj., sem var á fjárl. ársins 1965 áætluð 170 þús. kr., reyndist vera samkv. ríkisreikningnum fyrir það ár tæpl. 260 þús. kr., en er enn á þessu fjárlagafrv. áætluð 170 þús. kr. Má þá búast við því, að hagsýslustofnunin telji það hlutverk sitt að fylgjast með því, að þeim liðum, sem hún hefur ekki viljað hækka þrátt fyrir umframgreiðslur á s.l. ári, verði nú haldið innan ramma fjárveitingarinnar, svo að áætlunin verði að þessu leyti, eins og í aths. segir, sem raunhæfust og líkindi til umframgreiðslna verði sem minnst? Eða á enn að leika sama leikinn að sýna ekki útþenslu ýmissa liða með hækkun þeirra á fjárlagafrv. með það í huga að láta þá sömu liðina fara fram úr áætlun, eins og verkast vill?

Þær till., sem ég flyt til sparnaðar á ríkisútgjöldum, eru nánast fluttar sem tilraun til þess að kanna, hvort nokkur vottur af vilja til sparnaðar er fyrir hendi hjá stjórnarflokkunum. Fleiri sparnaðartillögur mætti koma með, till., sem e.t.v. væri meiri ágreiningur um. T.d. get ég nefnt það, að ég sé ekki nokkra skynsamlega ástæðu til þess að kasta hundruðum þús. kr. úr ríkissjóði, já, milljónum á mörgum árum, til þess að steypa einhvers konar himnastiga á Skólavörðuholti, ekki sízt, þar sem engin offramleiðsla er á steinsteypu í þjóðfélaginu. Öðru nær, hana vantar sárlega til þess að byggja sjúkrahús, skóla og önnur nauðsynleg mannvirki, sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af, að ekki yrði notuð og það fullnotuð hvern einasta dag.

Með þeim öðrum brtt., sem ég flyt við fjárlagafrv., er aðeins gerð tilraun til nauðsynlegustu lagfæringa, en grundvallarbreytingu á þeirri stefnu, sem fram kemur í fjárlagafrv., verður að sjálfsögðu ekki við komið með flutningi brtt. við frv. Vík ég þá að þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 97.

Með fyrstu þremur brtt. og 5. till. er lagt til, að sendiráð Íslands í Danmörku, Svíþjóð og Noregi verði sameinuð í eitt, og gert ráð fyrir að spara með þeim hætti tæplega 21/2 millj. kr. á næsta ári. En ef af þessari ráðstöfun yrði, gæti sá sparnaður orðið mun meiri, þegar skipulagsbreytingin yrði að fullu komin í kring, og sparnaðurinn þá líklega numið um 4 millj. kr. á ári. Þessa till. hefur Alþb. flutt um árabil, en án árangurs, þótt flestir viðurkenni, að af þessu þyrfti að verða, því að það er að sjálfsögðu alger ofrausn hjá smáþjóð að vera með 3 ambassadora á Norðurlöndum. Okkur væri vissulega nær að verja einhverju af því, sem við gætum sparað með fækkun þeirra, til þess að hafa fulltrúa hjá einhverju af hinum nýfrjálsu þjóðum Afríku, þar sem við eigum mikil verzlunarviðskipti, og ég held, að það sé ekki sannfærandi að setja upp og kosta miklu til hagræðingastofnunar, sem á að leita eftir kostnaðarleiðum, sem mætti færa niður, ef við eftir sem áður sóum milljónum króna í svo augljóst bruðl sem það er að eyða 7 millj. kr. samtals í 3 sendiráð á Norðurlöndum. Ekki er það heldur í miklu samræmi við þá stöðvunarstefnu, sem nú er verið að boða, að hækka framlag til þessara embætta um 600 þús. kr. á ári.

Eitt af því, sem valdið hefur þenslunni hér á landi, er sú árátta stjórnarvaldanna að reyna að láta Íslendinga leika stórþjóð í augum útlendinga og ætla almenningi að standa undir öllu því bruðli, sem því fylgir. Íslenzkri alþýðu, sem hefur ekki fengið kaupmátt tímakaupsins hækkaðan þrátt fyrir stóraukin afköst og hækkandi þjóðartekjur, er sagt með mikilli áherzlu þessa dagana, að nú verði hún að íeggja niður allt tal um kjarabætur, nú sé upprunninn sá tími, að herða þurfi sultarólina, en á sama tíma er þess krafizt, að hún standi undir síhækkuðum kostnaði af algerlega ónauðsynlegum embættum. Ég held, að almenningur væri tilleiðanlegri til þess að sætta sig við kröfur stjórnarvaldanna um stöðvun kjarabóta, ef hann sæi þess einhvers staðar merki, þótt í litlu væri, að einhvers staðar á fjárlögum kæmi fram vottur af vilja til að takmarka óþarfabruðl.

Með 4, brtt. minni er lagt til, að liðurinn sendiráð í París og skrifstofa fastafulltrúa Íslands hjá NATO og OECD lækki úr 6.1 millj. kr. í 2.8 millj. og miðist gjöldin einungis við sendiráðið, en felld verði niður önnur starfsemi í París. Sú ráðstöfun friðsamrar smáþjóðar með íbúatölu eins og eitt bæjarfélag meðal stærri þjóða að vera þátttakandi í hernaðarbandalagi stórvelda, í stað þess að vera friðflytjandi, er nógu fráleit, þótt hún fari ekki samtímis að spila sig svo stóra að hafa fastafulltrúa í aðalsamtökum hernaðarbandalagsins og kosta svo miklu til í fátækt sinni, að liðurinn í heild, kostnaður við alla útgerðina í París er nærri jafnhár og heildarkostnaður við öll þrjú sendiráðin á Norðurlöndunum. Ég held það sé ástæðulaust að bíða eftir því, að upplausn Atlantshafsbandalagsins spari okkur þessar 3–4 millj. kr. Við getum sparað okkur þær strax og veitir ekki af.

Næstu 4 brtt. fjalla um að sameina í einn lið þrjá liði á fjárlagafrv., sem heita ferðakostnaður, kostnaður vegna samninga við erlend ríki á vegum utanrrn. og kostnaður vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum á vegum utanrrn., og lækka samanlagða fjárveitingu til þessara liða úr 4.4 millj. kr. í 2.4 millj. Það hefur gengið erfiðlega að fá þessa liði lækkaða, þeir hækka þess í stað með ári hverju. Sjálfsagt þarf einhverju að kosta til þessara hluta, en till. mín er sú, að til þess séu áætlaðar 2.4 millj. kr. aðeins, en mér er fullkunnugt um, að ýmislegt af þessum utanferðum eru ferðir á hrein skrafskjóðuþing, sem koma okkur að engum notum, og ferðirnar fyrst og fremst hugsaðar sem ódýr sumarleyfi fyrir gæðinga stjórnarvaldanna. Ríkar þjóðir hafa sjálfsagt efni á því að taka þátt í hverri ráðstefnu, sem til fellur, en það höfum við ekki, og það er eins og það gleymist stundum, að það er hægt að fá fregnir af ráðstefnum og samkomum með öðru móti en að senda þangað dýrar sendinefndir. Ef eitthvað markvert er sagt eða gert á þessum ráðstefnum, þá er engin hætta á öðru en það sé birt á prenti, þar sem hægt er að kynna sér það með ólíkt minni tilkostnaði.

Með 10. brtt. minni legg ég til, að 240 þús. kr. kostnaður vegna Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins verði sparaður með því að hætta þátttöku í þeirri samkundu. Það má sjálfsagt deila um gildi þess að eiga fulltrúa á ýmsum þeim ráðstefnum, sem næsta till. mín á undan fjallaði um, og sumar þeirra eiga sjálfsagt rétt á sér. En ég held, að óhætt sé að fullyrða, að vandfundinn sé sá almenni borgari í landinu, sem ekki finnst það beinlínis broslegt að senda fulltrúa frá hv. Alþingi Íslands á hernaðarráðstefnu úti í heimi. Ég held, að af eðlilegum ástæðum finnist því fólki, sem óstjórnin og ráðleysið í landsmálum undanfarin ár hefur mest bitnað á, að fyrst mættu fulltrúar hv. Alþ. hafa eitthvað meira af viti til okkar mála hér heima að leggja, áður en þeir leggja fjórðung milljónar af almannafé í kostnað til að koma hernaðarspeki sinni á framfæri í útlöndum. Ég hef jafnan litið þannig á, að með því að senda fulltrúa frá Alþ. á ráðstefnur hernaðarbandalags sé óvirt þjóðþing örsmárrar þjóðar, sem aldrei hefur borið vopn.

11. till. mín stefnir að því að lækka verulega þann kostnað, sem við höfum af því að gæta herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hvort þessum millj. hefur verið varið til að gæta herliðsins fyrir Íslendingum eða Íslendinga fyrir herliðinu, hefur mér aldrei verið fullljóst, en ríkislögreglan á Keflavíkurflugvelli kostar þegnana orðið hálfa níundu millj. kr. á ári skv. fjárlagafrv. Ég er þeirrar skoðunar, að hættan af herliðinu á Keflavíkurflugvelli sé þess eðlis, að þar geti lögreglulið ekkert úr bætt, og legg til, að kostnaðurinn verði skorinn niður í 2 millj. kr., og væri þó full ástæða fyrir landsmenn að sjá eftir því fé. Til þessarar gæzlu vegna herliðsins á Keflavíkurflugvelli ver ríkissjóður ríflega ellefu sinnum meira fé en ráðamenn þjóðarinnar hafa mátt sjá af úr þeim sama sjóði til gæzlu barna á öllum dagheimilum, vistheimilum og sumardvalarheimilum á landinu.

Það er nú orðið nokkuð umliðið, síðan þingheimi voru veitt þau fögru fyrirheit um sparnað á ýmsum liðum fjárlaga, þar með var talið lögregluliðið á Keflavíkurflugvelli, en það er með þann lið eins og fleiri, að það er engu líkara en þeir liðir þenjist mest út, sem helzt var lofað sparnaði á. Ef athugaðar eru hækkanir á þessum lið undanfarin ár, kemur í ljós, að á fjárlögum 1961 nam hann 4.1 millj. kr., 1962 4.3 millj., 1963 4.6 millj. kr. Fram að þessu er hækkunin ekki svo ýkja ör, en um þetta leyti hefur sparnaðinum líklega verið lofað, því að nú tekur liðurinn stökk: 1964 úr 4.6 millj. kr. í 5.8 millj., 1965 6.2 millj. og 1966 í 6.8 millj. Og nú kemur sjálf hagsýslustofnunin til sögunnar; og þá hleypur liðurinn úr 6.8 millj. kr. upp í 8.4 millj. Þótt allt hafi verið á hverfanda hveli í fjárlögunum undanfarin ár og lítið verið gert að því að halda niðri ýmsum kostnaðarliðum, held ég, að það sé meira en kominn tími til þess að taka þennan lið sérstökum tökum og fella eitthvað af þeim útgjöldum niður, sem til hans er veitt.

Á fjárlögum ársins 1965 var ein sparnaðartill. Hún var alein á ferð og fór þess vegna ekki fram hjá neinum. Framlag til almannavarna var lækkað um 1 millj. 272 þús. kr. Í fyrra fyrirfannst aftur á móti engin sparnaðartill. Ef til vill hefur þeim, sem fjárlagafrv. sömdu, þótt hún of einmana árið áður, svo að framlagið var látið standa óbreytt og ekkert lækkað í það skiptið, fremur en aðrir rekstrarliðir, og nú er lagt til í fjárlagafrv., að framlag til almannavarna hækki aftur í 4 millj. kr. Nú er það fyllilega ljóst, að ódýrasta vörnin gegn þeirri hættu, sem okkur getur stafað af hernaði, er að uppræta hættuvaldinn með því að senda herliðið á Keflavíkurflugvelli heim og leggja herstöðina þar niður. Það er vitaskuld fráleit ráðstöfun að kalla yfir sig hættuna með því að setja niður herstöð á Reykjanesskaganum og ætla svo að kosta stórfé til að verjast hættunni, sem af henni stafar. Það hlýtur að vera hverju mannsbarni ljóst, að ef við ætlum að kosta nægilegu fé til að verjast hernaðarhættunni af herstöðinni, kostar það milljónatugi eða fremur milljónahundruð, og það efast ég um, að nokkur leggi í alvöru til að gert verði. Fyrst við erum ekki tilbúnir til þess að stefna að því, eigum við ekki heldur að vera að káka við það. 4 millj. á ári, það dregur sig saman í útgjöldum, þótt það komi að engum þeim notum, sem til er ætlazt. Hins vegar er ekki óeðlilegt, að við leggjum fram eitthvert fé vegna þeirrar hættu, sem ávallt getur stafað af náttúruhamförum í þessu landi, og því legg ég til í 12. brtt. minni, að 500 þús. kr. verði varið til almannavarna í því skyni, að þeim peningum verði varið til ráðstafana gegn hugsanlegum náttúruhamförum.

Það kom fram í viðtali fjvn. við forstöðumann almannavarna, að enda þótt milljónum króna hafi verið varið til þeirra, hafa engar ráðstafanir verið gerðar fyrir það fé til að undirbúa nauðsynleg björgunarstörf vegna hugsanlegs Kötlugoss. Verði 4 millj. kr. varið til almannavarna á næsta ári, þá er það lágmarkskrafa, að einhverju af því fé verði varið til þess að tryggja svo sem hægt er öryggi þess fólks, sem telja má í hættu, ef til Kötlugoss kynni að koma, og til að undirbúa þær aðgerðir, sem með þarf til varnar.

Á 12. gr. fjárlaga, 25. lið, er gert ráð fyrir 500 þús. kr. til sjúklinga, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis. Með 13. brtt. minni legg ég til, að þessi liður verði hækkaður um 1 millj. kr. Þó að læknisþjónusta sé komin á mjög hátt stig hérlendis, er óhjákvæmileg nauðsyn, að einstöku sjúklingar leiti læknishjálpar erlendis, og aðgerðir, sem slíkir sjúklingar þurfa á að halda, eru mjög dýrar og einatt framkvæmdar þar, sem læknisþjónustan er allra dýrust í heiminum. Auk þess kemur til kostnaður við ferðalög um langan veg, og það er ekki óalgengt að kostnaður sé talsvert á annað hundrað þús. kr. hjá hverjum sjúklingi, en mjög skortir á, að úr opinberum sjóðum fáist fullnægjandi aðstoð, og verður kostnaður við læknishjálpina því mjög tilfinnanlegur baggi hjá mörgum sjúklingi og vandamönnum þeirra, og iðulega er gripið til almennra fjársafnana til styrktar einstaklingum, en tala þeirra, sem þurfa að fara utan í þessu skyni, mun árlega vera eitthvað á annað hundrað manns. Að sjálfsögðu ætti ríkisvaldið að búa öllum landsmönnum sömu aðstöðu varðandi læknisþjónustu. Ef um er að ræða sjúkdóma, sem læknaþjónusta ríkisins getur ekki ekki bætt úr, en unnt er að fá bót á erlendis, ætti það ekki að vera sérstakur kostnaðarauki fyrir sjúklinginn, ef utanferðin er ráðlögð af yfirvöldum ríkisspítalanna. Þegar um slíkt er að ræða, á að verja almannafé til að jafna aðstöðuna gagnvart þeim, sem geta fengið fullnægjandi læknisþjónustu hér á Íslandi. Framlag á fjárlögum í þessu skyni hefur verið allt of lágt og þyrfti að hækka enn meira en ég hef talið von um að fengist samþykkt. En ég legg til, að 25. liður á 12. gr. fjárlaganna verði hækkaður úr 500 þús. kr. í 1 millj. kr.

Þegar vegalög voru sett 1963, var það samkomulag allra þingflokka, að lagðir yrðu nýir skattar að upphæð um 100 millj. kr. á bifreiðaeigendur í landinu, en því var heitið og margstaðfest, að framlag ríkissjóðs til vegamála, sem þá hafði numið 47 millj. kr., skyldi haldast, ekki lægra en það hafði verið, heldur hækkað. Hæstv. samgmrh. sór það og sárt við lagði. Æru hans mátu þó stjórnarflokkarnir ekki meira en svo við afgreiðslu núgildandi fjárlaga, að þrátt fyrir svardaga hans og þrátt fyrir skýlaus ákvæði 89. gr. vegalaga um framlag ríkissjóðs til vegamála var ekki veitt ein einasta króna til vegasjóðs. Og ekki virðist hæstv. ráðh. eiga að fá uppreisn æru við afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni, því að í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu í vegasjóð, en á sama tíma hirðir ríkissjóður 173 millj. kr. í leyfisgjöld af bifreiðum.

Með 14. brtt. minni legg ég til, að staðið verði við það samkomulag, sem gert var milli þingflokkanna við setningu vegalaga um fjárveitingu úr ríkissjóði til vegamála og legg til, að veittar verði 60 millj. kr. til þessara mála.

Á ýmsum sviðum hafa verið bundin framlög úr ríkissjóði til framkvæmda í landinu, þ. á m. eru ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í byggingu íþróttamannvirkja. Á það skortir mjög, að með framlögum á fjárlögum hafi verið séð um fjárveitingar til þessara framkvæmda í samræmi við þær skyldur, sem lagðar hafa verið á íþróttasjóð. Að lokinni síðustu úthlutun úr sjóðnum námu vangreidd framlög til íþróttamannvirkja í landinu samtals um 32.8 millj. kr., eða sem svarar tekjum sjóðsins í rúm 6 ár, eins og þær hafa verið á fjárlögum s.l. ár, og á þessu ári munu myndast um 10 millj. kr. kröfur á sjóðinn vegna byggingarframkvæmda. Þessi erfiði hagur íþróttasjóðs hefur dregið mjög úr því, að unnið væri að framkvæmd íþróttamannvirkja eins og þörf krefur og gert væri, ef sjóðurinn gæti uppfyllt þær skyldur, sem honum ber. Vantar mikið á, að unnt sé að halda uppi lögboðinni íþróttakennslu í landinu, og talið er, að í bæjum vanti um 8 leikfimisali. Á meðan íþróttasjóði er ekki séð fyrir öðrum tekjum en beinu framlagi á fjárlögum, er óhjákvæmilegt að hækka það framlag, sem honum er veitt á fjárlögum. Ég legg til með 15. brtt. minni, að það framlag verði hækkað úr 5.4 millj. í 7 millj.

Fjárframlög til leikfélaga hafa nokkuð verið hækkuð á undanförnum árum. Hins vegar hefur framlag til Bandalags ísl. leikfélaga lítið breytzt og hlutföllin milli þessara styrkja mjög raskazt. Áður fékk bandalagið sem svarar 1/3 hluta af því fé, sem varið var til leikfélaga, en nú aðeins á milli sjötta og sjöunda hluta af því fé, sem til leikfélaga fer. Að vísu er ekki óeðlilegt, að þetta hlutfall geti breytzt, en nokkuð virðist þó vanta á, að hlutur bandalagsins sé viðunandi. Því hefur verið haldið fram, að auknar fjárveitingar til leikfélaganna geri þeim kleift að greiða aðstoð bandalagsins hærra verði en verið hefur áður. í framkvæmd held ég samt, að gangur málsins verði sá, að fyrir hverja krónu, sem leikfélagið fær til viðbótar til ráðstöfunar, skapist starf, sem kostar tvöfalt meira, svo að eftir sem áður sé um svipaða og ekki minni greiðsluörðugleika að ræða hjá félögunum, heldur verði fyrst og fremst um meiri umsvif að ræða, enda er það sá jákvæði árangur, sem sótzt er eftir með auknum fjárveitingum. Ég tel, að hitt sé sanni nær, að hærri fjárveitingar til leikfélaga og meiri umsvif þeirra valdi m.a. auknum kröfum frá félögunum á hendur bandalaginu, svo að hækkun fjárveitinga til bandalagsins verði að fylgja í kjölfar meiri fjárveitinga til leikfélaganna, þar verði að vera ákveðið samræmi á milli. Fjárveiting til Leikfélags Reykjavíkur hækkar á fjárlfrv. um 300 þús. kr., og fjvn. hefur fallizt á, að fjárveiting til leikfélaganna almennt hækki um sömu upphæð. Ég legg til með 16. brtt. minni, að nokkuð verði komið til móts við Bandalag ísl. leikfélaga með því að hækka fjárveitinguna til þess úr 200 þús. kr. í 300 þús.

Næstu þrjár brtt. mínar fjalla um jarðhitarannsóknir. Jarðhitinn er eitt mesta verðmæti, sem Íslendingar eiga, og sannarlega hefði stjórnarstefnan þurft að vera slík undanfarin ár, þau miklu góðæri, sem ríkt hafa, að þau væru notuð til þess að gera stórátak í því skyni að nýta þessar náttúruauðlindir meira en gert hefur verið og spara þjóðinni með því ómældan gjaldeyriskostnað, vegna kaupa á eldsneyti til upphitunar húsa. Jarðhitinn er okkar olíulindir, og það er jafnfráleitt, að við skulum áratugum saman verja milljónahundruðum króna í erlendum gjaldeyri til olíukaupa frá útlöndum til þess að kynda upp hús á öllu þéttbýlissvæðinu umhverfis Reykjavík, á Suðurnesjum og víðar um land, eins og við ættum olíulindir á þessum svæðum, en kostuðum ekki fjármunum til að bora eftir olíunni, heldur verðum á sama tíma margföldum þeim upphæðum, sem það mundi kosta, til að flytja inn olíu frá öðrum löndum. Sérfræðingar okkar hafa einnig sýnt fram á, að möguleikar eru á því að nýta jarðhitann til hvers konar efnaiðnaðar. Frostþurrkun er nú að ryðja sér til rúms og hefur m.a. þann ómetanlega kost fram yfir venjulega frystingu, að ekki er þörf á frystigeymslum til að geyma matvælin, eftir að þau hafa verið frostþurrkuð, og við frostþurrkunina er orkukostnaður hæsti útgjaldaliðurinn, en þar er hægt að nota jarðhitann. Þessi nýja geymsluaðferð, sem ber langt af venjulegri frystingu á fleiri sviðum en því að spara frystigeymslur, veitir Íslendingum mikla möguleika í framtíðinni til þess að snúa við þeirri þróun, sem nú á sér stað, að við verðum í auknum mæli útflytjendur á hráefni, en flytjum inn tilbúin matvæli. Frostþurrkun, sem byggð yrði á jarðhita sem orkugjafa, gefur okkur sérstaka aðstöðu til þess að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar stórlega með því að flytja afurðir okkar út sem fullunna matvöru. Vegna allra þessara ómetanlegu nota, sem við getum haft af jarðhitanum, er það fráleit ráðstöfun, sem í fjárlagafrv. er lagt til að gert verði, að lækka rannsóknarkostnað jarðhitadeildar um nærri 21/2 millj. kr. á næsta ári. Þvert á móti hefði nú ekki átt að draga lengur að stórauka framlög til jarðhitarannsókna og frekari jarðborana.

Þess er ekki að vænta, að í nein stórvirki verði ráðizt á þessu sviði, á meðan sú stjórnarstefna ríkir, sem viðreisnarstjórnin .stendur að, þ.e.a.s. að draga markvisst saman allar þær framkvæmdir, sem þjóðarheildinni eru nauðsynlegastar. Þess vegna taldi ég ekki fært að fara fram á meira með minni 19. brtt. en að framlag til jarðhitasjóðs verði hækkað um 2.1 millj. kr., eins og forráðamenn raforkumálastjórnar hafa óskað eftir, og ég vænti þess, að samdráttur og afturhaldsstefna sé ekki orðin svo allsráðandi, að þessi till. fáist ekki samþykkt.

Í nútímaþjóðfélagi fer þátttaka kvenna í atvinnulífinu vaxandi og nær inn á fleiri og fleiri svið. Hér á Íslandi kemur það einnig til, að kaupmáttur tímakaups er ekki hærri en svo, miðað við óheyrilegan húsnæðiskostnað, að því aðeins gefst mörgum fjölskyldum kostur á því að eignast þak yfir höfuðið, að konan stundi atvinnu utan heimilisins. Eitt aðalvandamálið í því efni er skortur á aðstöðu til þess að koma börnum í gæzlu, hvort sem er í vöggustofur, dagheimili eða leikskóla. Skortur á slíkum stofnunum veldur því víða, að konur geta ekki stundað atvinnu utan heimilisins í þeim mæli, sem þær kysu, og hins vegar því, að atvinnugreinar, sem þurfa á vinnuafli þeirra að halda, fá það ekki af þessum sökum. Þetta er áberandi í ýmissi þjónustustarfsemi og er t.d. ein af orsökunum fyrir því, að mörgum lærðum hjúkrunarkonum er ókleift að stunda hjúkrunarstörf samhliða húsmóðurstörfum. Fjárveitingar til dagheimila og barnaheimila hafa verið furðulega lágar á fjárlögum miðað við það, hvað hér er um að ræða nauðsynlega starfsemi fyrir allan almenning, og með 20. brtt. minni legg ég til, að framlagið verði hækkað úr 750 þús. kr. í 2 millj. og til vara 1 millj. kr.

21. brtt. mín á þskj. 97 er þess efnis, að Menningar- og friðarsamtökum kvenna verði veittur styrkur að upphæð 50 þús. kr. Þessi samtök, sem eru almenn samtök kvenna og ná til landsins alls og eru öllum konum opin, hafa unnið merkt starf á undanförnum árum í samræmi við það, sem í nafni samtakanna felst. Næsta verkefni félagsins er að koma á stofn kennslu í listiðnaði, en í þeim efnum stöndum við flestum þjóðum að baki. En einmitt slík starfsemi getur náð langt í þeirri viðleitni, sem höfð er í frammi til þess að færa listina til fólksins eða fólkið til listarinnar og glæða áhuga almennings á listsköpun. Er ekki sízt þörf á slíkri starfsemi nú, þegar í það horf sækir meir og meir, að allir hlutir, sem fólk hefur daglega í kringum sig, séu unnir á vélrænan hátt og framleiddir í fjöldaframleiðslu. Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á, að ástæða sé til að styrkja slíka starfsemi.

Síðasta brtt. mín er við heimildagrein frv., 22. gr., og er þess efnis, að þar verði bætt við nýjum lið, svo hljóðandi:

„Ríkisstjórninni er heimilt að taka allt að 15 millj. kr. lán og endurlána féð til byggingar dráttarbrauta, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar.“

Grundvöllurinn undir þeim lífsskilyrðum, sem þjóðin býr við, er rekstur fiskiskipaflotans, og vöxtur hans og þróun í stærri og stærri skip hefur verið mjög ör á undanförnum uppgripaárum. En framkvæmdir í hafnarmálum hafa hvergi nærri fylgt eftir að sama skapi. Þeir vélbátar, sem eru uppistaða í síldarflotanum, eru svo stórir, að engin aðstaða hefur verið til að veita þeim nauðsynlega viðgerðaþjónustu hér á landi. En nú er á nokkrum stöðum verið að vinna að því að koma upp dráttarbrautum, sem geti annazt þjónustu við fiskiskipaflotann. Svo naumt er það fé, sem veitt er á fjárlögum til nýrra hafnarframkvæmda, að hámarksfjárveiting til einstakra staða á landinu er ekki nema 700 þús. kr., og dugir það skammt til þeirra stórvirkja, sem sums staðar er ætlað að vinna á næsta ári. Sveitarfélögin verða því mörg að leggja fram úr eigin hendi mjög veruleg framlög. T.d. eru dæmi um það, að lítið þorp hafi lagt fram fé til hafnargerðar á einu ári, sem svarar til þess, að Reykjavíkurborg hefði lagt fram 70 millj. kr. á einu ári í hafnarframkvæmdir. Þar sem verið er að vinna að byggingu dráttarbrauta samhliða öðrum framkvæmdum í hafnargerð, dugir hámarksframlagið, þessar 700 þús. kr., illa, og að sjálfsögðu dugir það skemmst þar, sem þessar tvíþættu framkvæmdir eiga sér stað, og það þarf því óhjákvæmilega að gera sérstakar ráðstafanir vegna dráttarbrautanna. Ekkert liggur fyrir um aðgerðir ríkisstj. í þessu efni, og ég legg til, að henni verði heimilað, að taka 15 millj. kr. lán til þess að endurlána til byggingar dráttarbrautanna. Ég vænti þess, að fáist sú till. ekki samþykkt, verði upplýst í þessum umr., hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera til þess að aðstoða þá aðila, sem nú eru að leysa úr einni brýnustu þörf fiskiskipaflotans með því að koma upp dráttarbrautum.

Herra forseti. Um 7 ára skeið hefur Sjálfstfl. fyrir tilverknað Alþfl. gefizt kostur á að gera tilraun til að framkvæma stefnu sína um óheft umsvif þeirra, sem fjármagninu ráða. Atvik hafa hagað því svo, að þessi tilraun hefur farið fram á þeim tíma, sem ríkt hefur mesta góðæri í aflabrögðum og viðskiptakjörum, sem þjóðin hefur lifað. Með þessari stjórnarstefnu hefur ekki tekizt að auka kaupmátt tímakaups verkafólks þrátt fyrir stórauknar þjóðartekjur á ári hverju vegna síaukinna afkasta vinnandi fólks, enda hefur það ekki verið markmiðið með henni. Með þessari stefnu hefur ekki tekizt að nýta góðærin og stórauknar þjóðartekjur til átaka í þeim framkvæmdum, sem þjóðinni eru nauðsynlegastar, heldur hafa verklegar framkvæmdir ríkissjóðs verið látnar þoka fyrir stjórnlausri og skipulagslausri fjárfestingu einkaframtaksins, svo að í óefni er komið og ýmsar atvinnugreinar eru að komast í alger þrot. Stefna ríkisstj. undanfarin ár hefur valdið því, að það verðlag, sem nú ríkir innanlands og nú er talað um að festa, er svo hátt, að án styrkja er ókleift að starfrækja veigamikla þætti útgerðar og fiskverkunar, þótt það útflutningsverð, sem fyrir afurðirnar fæst, hefði verið fullnægjandi fyrir nokkrum árum, svo mjög hefur með stefnu ríkisstj. tekizt að brjála aðstæðurnar innanlands og framleiða heimatilbúin vandamál. Tilraun Sjálfstfl. í hinum mestu góðærum til að sýna getu hins óhefta einkaframtaks til þess að tryggja jákvæða þróun efnahags-, atvinnu- og kjaramála, hefur nú með öllu mistekizt. Því verður ekki leynt með neinni gervistöðvun fram yfir kosningar. Og Alþfl. hefur allt þetta tímabil staðið að ráðstöfunum, sem forráðamönnum hans var óvefengjanlega ljóst fáum árum áður, að hlutu að leiða til ófarnaðar. Reynsla síðustu ára hefur sannað, að stefna hins óhefta kapítalisma er ófær um að tryggja þá jákvæðu þróun í þjóðfélaginu, sem vinnandi fólk leggur grundvöll að með síaukinni framleiðslu og aukningu þjóðartekna. Sú stefna hefur þvert á móti siglt málunum í strand í binum mestu góðærum. Það er mikil ógæfa, að í þau 7 ár, sem þjóðin hefur vegna ytri aðstæðna haft beztu aðstöðu til að ná langt fram á við, skuli þjóðfélagið hafa verið gert að tilraunasviði fyrir óhæfa og úrelta efnahagsstefnu, sem Sjálfstfl. hefur lengi stefnt að því að koma fram. Það ríður því á miklu, að alþýðu landsins takist við alþingiskosningarnar næsta sumar að tryggja gjörbreytta stjórnarstefnu. Um það ætti að geta staðið saman allur sá verkalýður, sem um árabil hefur skipað sér í þá flokka, sem myndaðir voru til að forða íslenzkri alþýðu frá því, að óheft og skefjalaus yfirráð fjármagnsins væru höfð að leiðarljósi í þjóðmálum.