06.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

151. mál, listamannalaun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hafði gert nokkrar aths. við þær till., sem ég flyt á þskj. 327, og vildi ég í tilefni af því aðeins segja nokkur orð.

Ég vil nú fyrst taka það fram, að síðan hæstv. menntmrh. flutti sína ræðu hefur það komið í ljós, að þetta frv. sætir meiri gagnrýni af hálfu listamanna en okkur var þá kunnugt. Ég vil minna á, að Rithöfundafélag Íslands hefur birt í blöðunum þó nokkuð ýtarlega gagnrýni á þetta frv., og fer það nokkuð í bága við, að hæstv. menntmrh, hafði tjáð okkur í upphafi máls, að það væri allmikið samkomulag hjá listamönnum um málið. En hvað sem því nú viðvíkur, vil ég taka fram viðvíkjandi þeim till., sem ég flyt, nokkrar röksemdir út af mótbárum hæstv. ráðh. Það er í fyrsta lagi spursmálið um till. um féð. Ég hafði lagt til, að það yrði ákveðið, að í fjárl. yrði það ekki minna en 5 millj. kr., sem veitt yrði árlega. Hæstv. menntmrh. taldi óvarlegt að hafa slíka ákvörðun um fé þarna inni. Ég vil nú minna á, að a.m.k. að því er mér sýnist nú í hönd fara, mun koma nokkur gengislækkun eftir næstu kosningar, af því að hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að framkvæma hana fyrir þessar kosningar og ef að vanda lætur, verður nokkuð erfitt að knýja fram þær hækkanir á fjárl., sem jafni nokkuð metin, eftir að slíkt hefði gerzt. Ég held þess vegna, að það væri nauðsynlegt fyrir Alþ. nú að reyna að skapa þarna nokkra tryggingu, sem sé hækka þann hlut listamanna, sem nú er samanlagt rúmar 4 millj., upp í 5 til þess að reyna nú þegar að gera nokkuð betur í þessum efnum en gert hefur verið undanfarið. Mín reynsla er sú, að ef ekki er hægt að koma slíku í gegn fyrir kosningar, sé ekki mikill möguleiki á fyrstu árunum eftir kosningar að fá slíkt fram.

Þá er í öðru lagi spurningin um, hvernig úthluta skuli. Ég hafði lagt til í mínum till., að það yrði ákveðið sérstaklega, hvað Alþ. legði sjálft til þeirra manna, sem væru á sérstökum heiðurslaunum hjá því. Það væri tekið út úr. Það var sú gamla venja, þegar þetta var á 18. gr. fjárl., það er núna inni á fjárl. og ég álít ekki, að við eigum að eiga það á hættu, að slíkt væri tekið út á ný. Ég álít þess vegna rétt, að það sé alveg hreint ákveðið, að það skuli veita á fjárl. allt að 10 tilteknum listamönnum ákveðin heiðurslaun og það skuli ekki víkja frá þessu. En aðalatriðið í aðfinnslum hæstv. ráðh. við mínar till. var það, að þar eð til greina kæmu um 120 listamenn, væri ekki hægt að nota þá aðferð, sem ég legg til að nota, sem sé þessa stigaatkvgr., ef svo mætti kalla. Ég legg þarna til í 2. brtt. minni, að það skuli nótað þetta stigakerfi, sem nú hefur verið notað, t.d. við úthlutun af hálfu blaðamannanna til listamanna, s.s. leikara, rithöfunda og annarra slíkra. Þarna gætir nokkurs misskilnings hjá hæstv. ráðh. Ég meinti auðvitað ekki og veit ósköp vel, að svona kerfi væri ófært, ef það ætti að greiða í einu atkv. um 120 manns. Hins vegar hefur það verið svo fram að þessu, að skipt hefur verið niður í 4 flokka þeim listamönnum, sem eiga að fá listamannalaun, og nú er lagt til að skipta þeim niður í tvo flokka. En auk þess skiptast þessir listamenn af sjálfu sér niður í eina 3–4 undirflokka, eftir því hvaða list þeir fyrst og fremst stunda, myndlistarmenn, tónlistarmenn, bókmenntamenn og aðrir slíkir. Núna undanfarið hefur það t.d. verið svo, að alls hafa 16 listamenn verið í 1. flokki af þeim 4, sem hingað til hefur verið raðað í. Af þeim hafa verið 7 myndlistarmenn, 1 tónlistarmaður, en hins vegar 8 rithöfundar, skáld og aðrir bókmenntalistamenn. Það er þess vegna gefið, að ef sú aðferð er höfð við að úthluta þessu, að fyrst sé ákveðið, hve margir skuli vera í 1. flokknum, eins og mælt er fyrir í l., en síðan sé ákveðið, hve þar skuli vera margir myndlistarmenn, tónlistarmenn, rithöfundar, skáld, leikarar o.s.frv. og búið að skipta þannig niður í þessa 4 hópa, eru almennt ekki fleiri en í hæsta lagi 10 manns, stundum ekki nema 6–7 manns, stundum kannske aðeins 3–4 í hverjum hóp, þannig að þegar greidd væru atkv. eftir stigakerfi um hvern flokk út af fyrir sig, nýttust alveg hreint þeir kostir, sem við þetta kerfi eru. Við skulum segja, að menn hafi komið sér niður á, að það séu t.d. 30–40 manns í 1. flokknum eftir nýju skiptingunni og af þeim séu kannske 10–15 myndlistarmenn og 20 bókmenntalistamenn. Síðan, þegar n. byrjar að ræða þetta, kemur hún sér saman um, hvort það séu einhverjir af þessum aðilum, sem allir séu sammála um. Og nú er það ætíð svo, að um svo og svo marga af þeim listamönnum, sem um er að ræða, eru allir sammála. Það fer oft þannig, að t.d. um helminginn af þessum listamönnum eru allir sammála, og þá eru þeir þar með ákveðnir. Við skulum segja, að þá sé eftir að taka ákvörðun um t.d. 10 rithöfunda og 5 myndlistarmenn. Þá er stigakerfið notað og það veit ég, að hæstv. menntmrh. mundi ganga inn á, ef hann væri hér staddur, því að þá kemur stigakerfið alveg að fullum notum og er réttlátasta kerfi, sem þarna er hægt að nota. Þess vegna er það hreinn misskilningur og ekki nægilega vel athugað hjá honum, þegar hann heldur, að það ætti að greiða atkv, um kannske 110–120 menn í einu. Þvert á móti, það yrðu yfirleitt aldrei greidd atkv. um fleiri en kannske 10, í hæsta lagi 15 manns í einu, og þá kemur stigakerfið að fullum notum. Þess vegna álít ég, að við eigum endilega að gera þessa breyt. nú. Ég vil vekja eftirtekt hv. alþm. á því, hver afleiðingin verður, ef þetta verður ekki gert. Það er kosið pólitískt í n., og síðan er það meiri hl. í n., sem ræður öllum mönnunum, þannig að það verður argasta pólitísk og listræn hlutdrægni, sem verður framkvæmd, ef farið væri eftir þeim till., sem hérna liggja fyrir. Ef farið verður eftir mínum till. aftur á móti, skiptist þetta — allt öðruvísi. Þá komast þarna miklu fleiri sjónarmið að. Ég vil þess vegna eindregið heita á hv. þm. að setja sig nægilega vel inn í þetta, til þess að þeir skilji, hvað þarna er um að ræða og fylgi þessum brtt. mínum og þó alveg sérstaklega brtt. við 2. gr., sem eru nr. 2, a, b og c á þskj. 327. Að síðustu hafði ég svo lagt þarna til um starfsstyrkina og vildi ekki bíða eftir því, sem kynni að gerast eftir þing. Þar var fyrirheit um slíkt. Ég er allt of kunnugur því, hvernig kann að fara með slík fyrirheit, eftir að kosningar hafa farið fram og mönnum þykir e.t.v. eitthvað syrta í álinn. Það hélt ég, að hæstv. menntmrh. ætti að vera líka. Ég er hræddur um, að það heyrist hljóð úr horni eftir kosningarnar. Það verði farið að tala um, að nú hafi þjóðin lengi lifað yfir efni fram. Menn hafa kannske heyrt sönginn einhvern tíma áður. Nú þurfi að spara á öllum sviðum, og nú dugi ekki að fara að bæta við hinum og þessum styrkjum og slíku, sem menn hafa haldið í bjartsýninni fyrir kosningarnar, að væri mögulegt. Ég vil þess vegna aðeins vara menn við því, að ef menn ekki samþykkja þetta nú, er ég ákaflega hræddur um, að lítið verði úr efndunum eftir kosningar.