02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjvn. fyrir það, hversu vasklega hún hefur unnið að athugun fjárlagafrv. með þeim árangri, að það hefur tekizt að taka það nú til 2. umr. svo snemma og því þess að vænta, að auðið verði að afgreiða fjárlög mjög tímanlega fyrir jólin. En það hygg ég, að allir hv. þm. séu sammála um, að sé æskilegt allra hluta vegna. Ég vil jafnframt þakka sérstaklega hv. meiri hl. fjvn. fyrir meðferð á frv. og fyrir þá sérstöku hófsemi og skilning, sem mm. hafa sýnt á mikilvægi þess að halda útgjaldaaukningu ríkissjóðs innan mjög þröngra marka.

Ég vék að því í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárl., að með hliðsjón af stefnuáætlun ríkisstj. nú um að gera sérstakar ráðstafanir til verðstöðvunar, sem hljóta að hafa í för með sér mikil ný útgjöld fyrir ríkissjóð, væri það hin mesta nauðsyn, að hv. þm. sameinuðust um að afgreiða fjárlagafrv. með mjög hófsamlegum hækkunum til annarra þarfa. Ég er formanni n. sammála um það, og það erum við vafalaust öll, að æskilegt hefði vitanlega verið að geta varið fé til margra mikilvægra atriða, bæði í framkvæmdum, félagslegum umbótum, og á mörgum sviðum. En það er vitanlega svo nú eins og áður, að þar verður að velja og hafna og ótalmargt, sem menn hefðu gjarnan viljað gera, sem ekki er auðið, vegna þess að fjárhagsgetunni eru alltaf takmörk sett. Ég tel, að það hafi verið alveg sérstök hófsemi, sem sé mjög þakkarverð, hvernig fjvn. hefur haldið á þessu máli þrátt fyrir að sjálfsögðu mikla ásókn, sem verið hefur í hækkanir.

Hv. fulltrúar minni hl. fjvn. hafa lagt hér fram á sérstökum þskj. hækkunartill., sem eru með því minna, sem frá stjórnarandstöðunni hefur komið í þá átt, og ber ekki út af fyrir sig að halda uppi neinum ásökunum á hana fyrir þessar till. Frá hálfu 1. minni hl., fulltrúa Framsfl. í n., er komið með sömu till. efnislega og þeir fluttu á síðasta þingi um það að taka inn fjárveitingu til vegasjóðs, 47 millj. kr. Nú er að vísu því bætt við að greiða af greiðsluafgangi ársins 1966 aðrar 47 millj. Þetta er í samræmi við stefnu, sem þeir hafa látið hér uppi, og skal ég ekki frekar um það segja. Það er staðreynd málsins, að á síðasta þingi voru gerðar ráðstafanir til þess að afla þessa fjár, þannig að í sambandi við framkvæmd vegáætlunar hefur ekkert á skort í þessu sambandi, enda sýnir vegáætlunin það og skýrslan um hana, sem nú liggur fyrir Alþ. Deilurnar, sem uppi voru um það efni og loforð, skal ég ekkert um segja, en ég vil á þessu stigi aðeins taka það fram, að þetta mál er til rækilegrar athugunar á vegum samgmrh., og í sambandi við afgreiðslu fjárl. er ekki auðið á þessu stigi að gera neinar breytingar varðandi þessar fjárveitingar. Það er hins vegar unnið að endurskoðun vegáætlunar og athugunum á því, hvort hægt er og þá með hverjum hætti að afla aukins fjár til vegagerða, sem vissulega er hin mesta nauðsyn, og munu koma fram á sínum tíma till. í því efni.

Það ber vissulega að þakka þá viðleitni frá hálfu hv. 2. minni hl. að benda á ýmsar till., sem horfa í þá átt að spara útgjöld ríkissjóðs Þó að þar sé ekki um meiri háttar upphæðir að ræða, þá er það alltaf góðra gjalda vert og a.m.k. betri gjalda vert heldur en það, eins og sumir fjúka, að varpa fram fullyrðingum og stóryrðum um sparnað eða áhugaleysi í sparnaði, án þess að koma nokkurn tíma með nýtilegar till. sjálfir, svo sem ég mun síðar víkja að. En þó að ég játi, að persónulega hefði ég mikla tilhneigingu til þess að fallast á till. um fækkun sendiráða, — því hef ég áður vikið að sjálfur, — þá er það nú svo, eins og hv. frsm. 2. minni hl. enda tók fram, að hér er um æðimikið vandamál að ræða. Þegar einu sinni er búið að setja þessar stofnanir á laggirnar, er það milliríkjavandamál, sem menn hafa ekki talið fært að leggja út í, ekki sízt í sambandi við þessar þjóðir, sem eru okkar nánustu samstarfsþjóðir. Ég hef hins vegar látið í ljós þá skoðun, ekki aðeins hér, heldur á öðrum vettvangi, innan Norðurlandaráðs, að það væri æskilegt að fá samstarf um það að fella niður öll sendiráð á Norðurlöndum hjá öllum Norðurlandaþjóðunum og hafa þessi mál á vegum skrifstofa Norðurlandaráðs í hverju landi. Út í þá sálma skal ég ekki fara. Kjarni málsins er sá, að menn hafa ekki treyst sér til þess að gera þetta. En ég er alveg sammála um, að það væri meiri nauðsyn, ef við stæðum andspænis því núna að taka ákvarðanir um, hvort slíkt ætti að setja á laggirnar, að setja upp sendiráð hjá einhverjum hinna nýfrjálsu þjóða, t.d. einhvers staðar í Afríku, heldur en hafa öll þessi sendiráð á Norðurlöndum.

Um útgjöld í sambandi við samninga við önnur ríki er ég hv. flm. einnig sammála um það, að það er æskilegt og nauðsynlegt að halda fullu hófl á í því efni, og ég hygg, að allír fjmrh. hafi haft fullan áhuga á því. Hitt er annað mál, að þetta er mjög vandasamt. Ég vék að því í minni fjárlagaræðu, að vafalaust mætti enn spara í því efni. En ég fullyrði, að það hefur verið reynt með öllum ráðum að fylgjast með því, að hér væri ekki um óhóflega eyðslu að ræða. Það má vafalaust segja, að hún megi vera minni, en það er, eins og enda einnig flm. sagði, mikið vandamál alltaf. Við verðum að fylgjast með í alþjóðlegu samstarfi og þess vegna miklum vanda bundið, hvað eigi að ganga langt í því efni, og það er alveg rétt, að ásókn í þessi ferðalög er ákaflega mikil og ekki alltaf þægilegt að sporna þar við fótum, það er hægt að segja þá sögu eins og er. En það er vissulega rétt að benda á þetta. Það er hins vegar tilgangslaust að vera að áætla þær fjárhæðir lægri en raunhæft er. Það er aðeins skylt að hafa vakandi auga á því fyrir þá, sem, því eiga að ráða, að það sé hóf í þessum efnum.

Um ríkislögregluna á Keflavíkurflugvelli skal ég ekki margt segja. Það er vissulega rétt, að það er nauðsynlegt að spara í því efni svo sem auðið er. Meðan hins vegar svo er ástatt, að þar er erlent lið og erlendir menn í stórum stíl, er auðvitað nauðsynlegt að halda þar uppi löggæzlu, það verður ekki hjá því komizt af hálfu okkar Íslendinga, og ég held, að það hafi ekki orðið óeðlileg útþensla í þessu efni, því að hækkunin, sem nú er á þessum lið, er ekki meiri en svo, að hún jafngildi launahækkunum og sérstökum útgjöldum, sem urðu þar vegna viðgerða, sem varð að gera á lögreglustöðinni og vikið er að í grg. um það mál frá rn.

Um hinar aðrar till. skal ég ekkert segja. Það eru allt þörf og góð mál, en ég hygg, að verði þó ekki auðið að sinna meira en gert hefur verið.

Ég vil aðeins víkja lítillega að síðasta liðnum um dráttarbrautirnar. Þar er vissulega um vandamál að ræða. Það hefur verið gert um það ákveðin framkvæmdaáætlun, en það hefur komið í ljós í vissum tilfellum, að þar er við sérstakan vanda að glíma, ekki það, að ekki hafi verið aflað lánsfjár og veitt öll aðstaða til þess, heldur hitt, að þar sem dráttarbrautir eru hluti af hafnarframkvæmdum, skortir á um greiðslu á framlögum ríkissjóðs. Það er það, sem hefur staðið á, þannig að þessi tili. út af fyrir sig er engin lausn á vandanum, vegna þess að hér er gert ráð fyrir endurlánum, sem eru ekki vandi málsins, heldur hin hliðin, og þetta er vissulega mál, sem þarf að athuga og hefur enda verið nú einmitt um þessar mundir í rækilegri athugun hjá ríkisstj. á vegum iðnmrn. vegna vanda, sem risið hefur út af dráttarbrautunum, bæði vegna þess, að sumar þeirra hafa farið fram úr áætlun, og ýmissa annarra fjárhagsvandamála, sem þar hafa risið, og vissulega má ekki láta þessar mikilvægu framkvæmdir stöðvast.

Um ræður hv. frsm. minni hl. n. mætti margt og mikið segja, og ég skal reyna að takmarka mig í því efni, þótt freisting hefði vissulega verið að gera þar mörg ummæli að umtalsefni. Ég veit nú ekki, hvort hv. frsm. hafa gert sér fullkomlega grein fyrir því, að þeir væru staddir hér á hinu háa Alþ., en ekki á framboðsfundi. Ýmislegt í ræðunum var þannig, að það hefði mátt fremur ætla, að væri verið að reyna að hafa áhrif á kjósendur en að leggja málin efnislega fyrir hv. þm. En það er auðvitað mál flm. sjálfra, hvað þeir vilja í því efni. Ég verð að segja það, að þó að margt væri við báðar ræðurnar að athuga, verð ég þó að gera á þeim æðimikinn mun, því að þar var þó mikill munur á hófsemi og skilningi á ýmsum atriðum hjá hv. frsm. 2. minni hl. heldur en hjá hv. frsm. 1. minni hl., sem taldi allt með þeim endemum og ósköpum, að það hefði ekki annað eins sézt í íslenzku þjóðfélagi. Hv. frsm. 2. minni hl., þó að margt væri efnislega við hans rök að athuga, tók þó góð og gild ýmis sanngirnissjónarmið og a.m.k. reyndi ekki að gera lítið úr ýmsu því, sem reynt hefur verið að gera til úrbóta á vissum sviðum, og er það vissulega þakkarvert, þegar menn láta þannig sanngirni ráða.

Varðandi hv. frsm. 1. minni hl. verð ég að segja, að ég bæði las nál. hans með mikilli undrun og þó með enn meiri undrun hlýddi á ræðu hans, því að hér er, eins og við vitum, um bæði greindan og gegnan mann að ræða, sem hefur mikla reynslu í meðferð fjárl. og undirbúningi þeirra, og því kom mér það í hug, sem ég hef ekki fengíð neina skýringu á enn, hvers konar innsprautun hv. þm, hefur fengið, áður en hann samdi þessa grg. sína og ræðu, því að sá málflutningur allur er með slíkum endemum, að par er í rauninni fátt bitastætt, og með hliðsjón af því, að hv. þm. mun vera sennilega væntanlegt fjmrh.-efni Framsfl., verð ég nú sannast sagna að segja, að ég öfunda hann ekki af, þegar hann fær til meðferðar að byggja upp efnahagspólitík og fjármálastefnu á grundvelli þeirra raka, sem hann flutti hér fram í sinni ræðu, því að þar var svo gersamlega gengið á svig við að viðurkenna staðreyndir og rök og gersamlega slitin úr samhengi öll eðlileg orsakalögmál, að það gegnir mikilli furðu af jafngáfuðum manni.

Ég skal ekki fara langt út í þá sálma. Það yrði til þess að lengja mái mitt allt of mikið. En ég get þó ekki komizt hjá því að vekja athygli á ýmsum atriðum hans máls, því að ég vil þó ekki annað en taka alvarlega málflutning frá talsmanni annars stærsta flokks þingsins.

Ég vil fyrst taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning út af orðum hans, að hann vék að starfi hagsýslu- og fjárlagastofnunarinnar og það hefði verið vikið að því bæði í grg. og framsöguræðu minni um fjárl., að frv. væri nú betur undirbúið en áður hefði verið, og taldi hann þar ómaklega sveigt í þessum orðum að þeim, sem þann undirbúning hefðu haft með höndum áður. Ég skil nú ekki í, að það sé hægt að leggja það í mín orð, því að það er þó ekki hvað sízt sveigt að sjálfum mér, vegna þess að sjálfur hef ég undirbúið fjárlög árum saman, og síðustu fjárlög hafði ég beinlínis með að gera að undirbúa og ber ábyrgð á þeim undirbúningi. Og því fer auðvitað víðs fjarri, að ráðuneytisstjóri fjmrn. eða aðrir embættismenn þess hafi ekki unnið þar hið ágætasta starf. Það, sem ég hef meint með þessu, og það, sem raunar ráðuneytisstjóri fjmrn. fyrrv. lagði oft áherzlu á við mig, var einmitt það, að þetta væri óviðunandi ástand, að það væri ekki einn ákveðinn aðili, sem undirbyggi jafnstórkostlegt atriði eins og fjárlög ríkisins, heldur væri þetta gert á hlaupum af embættismönnum, sem væru störfum hlaðnir, og sannast sagna var auðvitað ráðuneytisstjóranum gersamlega ofboðið með því að leggja á hann þessi störf með öðrum umfangsmeiri störfum. Þetta er það eina, sem ég hef meint, og ég skil ekki í, að það sé ástæða til þess að leggja aðra merkingu í þessi orð. Ég hef ekki vikið aðdróttunum að einum né neinum í því efni.

Það vil ég hins vegar segja, að mér finnst miður farið af hv. frsm. 1. minni hl. að reyna þegar að gera lítið úr starfi þessarar stofnunar og gefa í skyn, að hún hefði ekki unnið ákaflega merkilegt starf. Í fyrsta lagi er þessi stofnun ný og starfskraftar hennar eru ekki aðrir en hagsýslustjóri og fulltrúi, sem vinnur þar að hálfu leyti, og hef ég ekki viljað blása þá stofnun út, fyrr en smám saman mótuðust verkefni hennar, og starfsaðstaða væri könnuð, áður en ráðizt væri í aukið mannahald. Hagsýslustjóri hefur unníð sjálfur að undirbúningi fjárlagafrv. með mér sem fjmrh. og einnig í samráði við formann fjvn., og við höfum lagt á það áherzlu, sem ég endurtek, að þetta hefur leitt til mjög bættra vinnubragða, þar sem þessi embættismaður hefur algerlega getað helgað sig þessu máli. Og þegar er farið að draga hér fram atriði til að sýna, að þetta hafi allt verið meira og minna gallað, m.a. með því að tala um, að það sé óeðlilegt að fylgja þeirri stefnu, að það virðist sem gleypt sé við öllum kröfum ríkisstofnana, það eigi heldur að sýna þar aðhald og skera niður, og vissulega er rétt, að það á að sýna aðhald. En ég er ekki í neinum efa um, og það mun koma á daginn, að það er raunhæfari og heppilegri leið að meta þarfir stofnananna og aðstöðu þeirra og skera ekki niður út í bláinn. Við höfum staðið andspænis því ár eftir ár að borga stórkostlegar fjárhæðir umfram á ríkisreikningi hvers einasta árs, og ég sé ekki, að það þjóni neinu, heldur beinlínis lamar aðhald ríkisstofnana og áhuga forstöðumanna þeirra að áætla rétt, ef þeir finna, að það er alltaf skorið niður, hvort sem þeir gera rétt eða rangt. Það er engin skynsemi í slíkum vinnubrögðum, og að segja, að það sé til þess að draga úr aðhaldi að viðhafa ekki slíkan niðurskurð, þá er það mikill misskilningur. Aðhaldið kemur á allt annan hátt. Þessir menn eiga að vita, að það er vakað yfir því, hvað þeir gera og hvernig útgjöldum þeirra er háttað, og eftir að komin er sérstök starfsemi til þess að fylgjast með þeirra fjárnotkun, er ég í engum efa um, að það verður með öðrum ráðum, sem verður líklegra að koma á sparnaði, og það sýndi sig bezt á þeirri ráðstefnu, sem nú nýlega var efnt til með forstöðumönnum allra helztu ríkisstofnana, að þar skortir ekkert á góðan vilja til þess að koma við betri nýtni í vinnubrögðum og hagsýni, ef einhver aðili er til þess að tengja þessa aðila saman og skipuleggja þau vinnubrögð.

Það voru jafnframt af hv. frsm. nefnd tvö dæmi til þess að sýna, að það hefur ekki verið ákaflega vel unnið að þessum málum nú. Það vantaði tvær upphæðir í fjárlagafrv. Annars vegar vantaði 30 millj. kr. á niðurgreiðslur, sem var gefið í skyn að sýndi slælegan undirbúning. Þetta er algerlega út í hött. Það er ekki hægt að segja. Undirbúningur þessa máls var með eðlilegum hætti, og það var ekki fyrr en prentun fjárlagafrv. var lokið, sem það kom í ljós við athugun á niðurgreiðsluútgjöldum ársins, að útgjöld næsta árs mundu væntanlega verða þessu hærri. Það er hagstofustjóri, sem með þessu fylgist og gerir það með prýði eins og öll sín störf, og það hins vegar er ákaflega erfitt frá ári til árs að áætla þetta nákvæmlega.

Varðandi það annað, að 40 millj. hefðu gleymzt í sambandi við tekjuskattinn, er það einnig rangt, enda kemur það þegar í ljós, að það þarf að hækka enn tekjuskattsáætlunina. Þegar frá henni var gengið, lá ekki fyrir endanlega, hver tekju- og eignarskattur ársins í ár yrði. Það var ekki búið að ljúka álagningu hans og þess vegna ekkert að undra, að það yrði eitthvað, sem á milli bæri.

Ég tel ástæðu til að taka undir það, sem hv. frsm. 2. minni hl. sagði hér, að það væri ástæða til þess að leggja áherzlu á það, að hagsýslustofnunin sinnti vei sínu verkefni. Það er von mín, að hún geri það, og raunar vissa. Til hennar hefur valizt ágætur maður sem forstöðumaður, og það er sjálfsagt að taka til athugunar öll þau mál, sem hv. þm. vilja koma með sem ábendingar, og t.d. eitt mál, sem hann nefndi, um bifreiðakostnað ríkisins, það er gamalt vandamál, sem margoft hefur verið reynt að taka tökum. Ég man eftir því einu sinni í fjmrh.-tíð Framsfl., og segi ég það ekki þeim ágæta manni til lasts, þá var gerð tilraun til þess að fækka þessum bifreiðum og embættismennirnir áttu að skila þeim. Það lenti í því, að það var skilað einni bifreið, og þar með var það á enda. Ég nefni þetta, eins og ég segi, ekki hér til lasts, heldur til þess að sýna, að þetta er gamalt vandamál, sem er mjög erfitt. Og það er mjög handahófskennt, hvaða embættismenn hafa þessi hlunnindi, og brýn nauðsyn að taka það til athugunar, hvort þessu er ekki hægt að koma fyrir með betri hætti. Það hefur verið sett á laggirnar sérstök bíla- og vélanefnd, sem hefur visst aðhald á þessum hlutum, og hefur verið tekið nú á síðasta ári til sérstakrar athugunar, hvort ekki er hægt að gera á þessu breytingar. Það hefur t.d. verið gert nú, til þess að reyna þó að sporna eitthvað við fótum, að það hefur verið sett hámarksverð á þær bifreiðar, sem embættismennirnir mega kaupa, sem þessara hlunninda njóta. Það er ekki verulega þægilegt að fást við að fá þessa ágætu embættismenn ýmsa til þess að notast við þær bifreiðar, sem þeim eru ætlaðar eftir þessari reglu. Við hana hefur þó verið staðið. En það er auðvitað ótalmargt á þennan hátt, sem er nauðsynlegt að athuga.

Varðandi 59 sparnaðarfyrirheitin, sem ekkert hefðu verið efnd, skal ég nú ekki langt út í þá sálma fara. Ég man ákaflega vel eftir þessu. Ég samdi sjálfur allmarga af þeim punktum, sem hv. frsm. 1. minni hl. minntist hér á. Það voru ekki neinar ákvarðanir í þessu fólgnar, heldur voru þetta ábendingar frá fjvn. til ríkisstj. að taka til athugunar. Sumt af þessu er þegar komið í framkvæmd. Margt af þessu er undir stöðugu aðhaldi, og menn geta deilt um, hvað ríkt það aðhald er, eins og það að reyna að draga úr veizlukostnaði, ferðalögum og öðru slíku. Það er reynt að gera eftir megni, en erfitt vandamál, og það hefur verið bent á og var í þessum till. bent á ýmis atriði, sem hefur ekki tekizt að koma fram, eins og t.d. það að fækka sendiráðum, eins og að sameina viss embætti eins og skógrækt og sandgræðslu. Þetta væri mjög æskilegt að gera. En menn muna kannske, hvað það tók óratíma að koma því til leiðar, sem var þó gert loksins af núv. ríkisstj., að sameina áfengis- og tóbaksverzlunina, og menn ættu að gera sér þess ljósa grein, að hér er ekki alltaf þægilegt við málin að fást. En ég get fullvissað hv. þm. um það, að ekkert í þessum punktum hefur gleymzt, þannig að hann skal ekki hafa neinar áhyggjur af því, og a.m.k. meðan ég fer með þessi mál, hef ég fullan vilja á því að taka til athugunar öll þau atriði, þar sem hugsanlegt er að koma þessum málum fyrir með heppilegri hætti.

Hv. þm., til þess sennilega að fá nú hljómgrunn úr sem flestum áttum, kaus það í ræðu sinni að víkja hér sérstaklega að rangmati ríkisstj. á kjörum lækna og verkfræðinga og að það þyrfti að búa vel að þessum stéttum. Vissulega er þetta rétt. En mér er ekki fullkomlega ljóst, hvernig hann, ef hann hefði setið í sæti fjmrh., hefði ætlað að meðhöndla þessi mál eins og hann skýrði hér frá. Hann sagði, að það hefði aldrei átt að koma til, að þessar ágætu stéttir sprengdu þann ramma, sem þeim var settur, heldur hefði átt að gefa nægilega eftir, til þess að til þess hefði ekki komið, og það hefði átt að gerast í sambandi við kjarasamninga ríkisstarfsmanna. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur minnstu hugmynd um, um hvað hann er að tala. Hann ætti að bera kjör þessara stétta, t.d. þær kjarakröfur, sem læknar fóru fram á, saman við kjör annarra háskólamenntaðra manna. Það er okkar stórkostlega vandamál í dag að mæta þessu, sem þar hefur gerzt. Mér er vel kunnugt um það, hvernig þessum málum öllum var háttað, og það skorti ekkert á tillitssemi og löngun til þess að ganga eins langt til móts við þessa ágætu menn og unnt væri. En ég tel það naumast viðeigandi að reyna að fara að blása það út sem dæmi um skilningsleysi ríkisstj. á kjaramálum opinberra starfsmanna, að taka þessi mál, sem eru hrein vandræðamál, ekki sízt læknamálið, sem dæmi um það, hvernig eigi að leysa kjaradeiluna. Ég skal svo ekki lengra út í þá sálma fara og tel það hvorki til hags læknum né verkfræðingum né til neins góðs að vera að rekja þessa sögu nánar. En mér þykir það hins vegar leitt, að jafnmætur maður og hv. frsm. 1. minni hl. skuli falla í þá gröf af löngun til þess að geta látíð þessa menn heyra frá sér gott orð að segja, að þeim hefði ekki verið sýndur nægur skilningur.

Því er haldið hér fram, að þessi fjárlög, sem nú liggja fyrir, séu verðbólgufjárlög, þau hækki meira en nokkur önnur fjárlög hafi hækkað og séu þess vegna ekki annað en áframhald á þeirri verðbólgustefnu, sem ríkisstj. hafi fylgt. Nú er það í rauninni ósköp lítils virði að vera að eltast við tölulegan samanburð aftur í tímann og reikna út, hvað þessi fjárlög jafngilda mörgum fjárl. hæstv. þáv. fjmrh. Eysteins Jónssonar í sinni tíð. Það eru auðvitað svo gersamlega aðrar aðstæður, sem við er að fást. En til þess þó til gamans að gefa mönnum svolítið aðra mynd en dregin er upp af þessu í málgögnum stjórnarandstöðunnar og þá fyrst og fremst Framsfl., langar mig aðeins til þess að nefna örfáar tölur.

1959 voru fjárlög ríkisins í tvennu lagi. Það voru annars vegar fjárl. eða útgjöld ríkisins, sem námu þá um 1180 millj., og hins vegar útflutningssjóðurinn, sem kom fram með fullum þunga á árinu 1958, þegar lög um hann voru sett af vinstri stjórninni, og kostaði á því ári 1134 millj. kr. Þetta voru samtals rúmar 2300 millj. kr. Þessi upphæð nam þá 32% af þjóðartekjum landsmanna. Ef fjárlagafrv. nú er skoðað og gert ráð fyrir sennilegum útgjöldum, sem á því verði að lokum, má gera ráð fyrir, að útgjöldin verði um 4700 millj. og nema þá 18% af þjóðartekjum.

Ég held, að það sé fróðlegt að athuga þessar tölur, því að að sjálfsögðu verður að skoða útgjöld ríkisins á hverjum tíma með hliðsjón af þjóðfélagsaðstæðunum, þegar er verið að tala um það sem eitthvert dæmalaust hneyksli, hvað fjárlög og fjárlagafrv. nú séu há. Árið í ár nema fjárl. ekki nema 15.8% af þjóðartekjum, og árið 1959, þó að útflutningssjóðnum sé sleppt, námu fjárl. 15.3% eða mestum nákvæmlega því sama af þjóðartekjum. Verður af þessu ljóst, hversu þessi samanburður allur er út í hött og sýnir á engan hátt þau ósköp, sem hv. stjórnarandstæðingar vilja oft á benda. Og svo að við tökum enn eitt dæmi til þess að sýna samanburð á þessu, kemur í ljós, að frá 1960 hefur kaup almennra verkamanna hækkað meira hlutfallslega heldur en útgjöld ríkisins á fjárlögunum, þannig að það er í rauninni sama, hvernig þetta dæmi er tekið. Með þessu er ég ekkert að segja um það, að þetta sé ákaflega æskileg þróun. Því fer víðs fjarri. En ef menn eru að leika sér að svona tölum, er gott, að öll dæmin og allar hliðarmyndirnar komi fram, sem vissulega leiða í ljós, að hér er ekki um þau ósköp að ræða, sem menn vilja vera láta. Þegar svo málið er skoðað í nærmynd, ef svo má segja, verða menn að gera sér grein fyrir því, af hverju hækkanir fjárl. stafa, og þýðir ekki að óskapast yfir því einu, að það sé verðbólgumyndandi og þar fram eftir götunum. Sannleikurinn er sá, sem menn verða að gera sér grein fyrir og ég held, að allir hv. þm. hljóti að vita, að skattaálögur ríkisins koma á eftir, þær koma til þess að mæta útgjöldum, sem þegar eru á fallin. Og þegar menn þess vegna eru, eins og hv. frsm. 2. minni hl., að tala um það, að söluskatturinn hafi leitt af sér verðbólguöldu, var söluskatturinn á lagður til þess að mæta útgjöldum, sem höfðu fallið á ríkið og einhvern veginn varð að greiða. Og þetta er yfirleitt sú algilda regla, að ríkið kemur eftir á, aflar sér tekna til þess að mæta þeim kvöðum, sem á það hafa verið lagðar. Ég er ekki að segja, að þær kvaðir séu alltaf af góðu komnar. Það er allt annað mál.

Þegar menn tala t.d. um, hvað það hafi verið stórkostleg hækkun á útgjöldum ríkisins í ár, er það alveg rétt. Það er um stórfelldar hækkanir að ræða og meiri en áður hafa þekkzt frá fjárl. í ár til fjárlagafrv. fyrir næsta ár, og það hefur verið nákvæmlega gerð grein fyrir því, af hvaða ástæðum þetta er, og ég hygg ekki, að nokkur hv. þm. geti með rökum haldið því fram, að það verði ekki að horfast í augu við að mæta þessum útgjöldum. Þar er um að ræða langstærsta liðinn launahækkanir, næsta liðinn tryggingabætur og síðan niðurgreiðslurnar. Niðurgreiðslurnar eru í raun og veru ekki annað en endurborgun til fólksins aftur á þeim sköttum, sem það greiðir. Það er um jöfnun að ræða í þjóðfélaginu, sem tvímælalaust er til þess fallin að jafna aðstöðu fólksins og bæta hag þeirra, sem miður eru settir. Laun opinberra starfsmanna verður að greiða, og ég hef ekki hingað til heyrt, að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi talið, að laun opinberra starfsmanna væru óhófleg. Ég veit ekki betur en þeir hafi tekið undir hverja einustu kröfu, sem hafi gengið margfalt lengra en loksins hefur verið úrskurðað eða samið um, og talið sjálfsagt að greiða þetta. En þegar á svo að fara að setja það á pappír í fjárlagafrv., er það orðið dæmalaust óhóf og þensla. Svona vilja hlutirnir stundum rekast hver á annars horn, þegar menn athuga ekki atvikin í samræmi hvað við annað.

Þegar menn eru svo að tala um það, að hér sé um að ræða verðbólgufjárlög og það sé miðað við enn þá meiri verðbólgu á næsta ári, er þetta reginmisskilningur. Það er um að ræða stórkostlegan tekjuauka hjá ríkissjóði á þessu ári. Þessi tekjuauki byggist fyrst og fremst á batnandi hag almennings í landinu. Hann byggist á því, að innflutningur hefur stórkostlega vaxið og þar af leiðandi tekjur af aðflutningsgjöldum, samtímis að sjálfsögðu aukinni veltu og stórauknum tekjum af söluskatti og leyfisgjöldum bifreiða, sem stafa af stórkostlega auknum bifreiðakaupum, sem einnig að sjálfsögðu eru dæmi velmegunar. Hér er ekki um að ræða tekjuauka af nýjum sköttum. Þetta sýnir aðeins hina miklu veltuaukningu í þjóðfélaginu. Ef þessi veltuaukning hefði ekki átt sér stað, — og því verða menn að gera sér grein fyrir, — ef þessar kauphækkanir hefðu ekki komið til og sú stóra verðmætaaukning, sem hefur orðið í þjóðfélaginu í sambandi við aukna framleiðslu og ýmislegt annað, sem leitt hefur af sér betri kjör almennings, þá hefði að sjálfsögðu þessi tekjuauki ríkisins ekki komið til, þannig að menn mega ekki hugsa sem svo, að ef hefði tekizt að stöðva dýrtíðina, væri nú gott að lifa, því að þá hefði ríkið þessar miklu tekjur. Það hefði bara ekki þessar miklu tekjur, það er ósköp einfalt mál, þannig að þetta verður allt að skoðast í samhengi hvað við annað. Með því er ég síður en svo að segja, að dýrtíðin sé góð fyrir ríkið, það er langt í frá. Hún hefur mikið böl í för með sér jafnt fyrir þjóðfélagsborgarana í heild og einstaka hópa þeirra. En menn verða að skoða þetta í samhengi.

Þegar menn eru svo að tala um næsta ár, miðum við við enga nýja skatta. Það eru að vísu hærri fjárhæðir, en ég tel það ekki nýja skatta, því að auðvitað hlýtur það að liggja í eðli málsins alveg eins og í sambandi við tekjuöflun, að það er eðlilegt, að menn borgi af því beina skatta, þá er jafnvel eðlilegt, að með aukinni neyzlu borgi menn meira í aðflutningsgjöldum, sölusköttum og öðru slíku. Og það merkir ekki viðbótarálögur. Fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ekki miðað við aukna þenslu á því ári. Það er misskilningur. Það er miðað við sama ástand og er í ár. Ég skal fúslega fallast á, að það er mjög hæpið, að sú þróun geti varað, sem er á þessu ári. Þó að það hafi nú frá ári til árs orðið aukning í þessu efni, þá er það mjög vafasamt. En hins vegar er ekki hægt að halda því fram, að hér sé út í bláinn stefnt með þessu fjárlagafrv. og byggt á gersamlega óraunhæfum hlutum. Hér er byggt á því ástandi, sem er á árinu í ár, og ekki miðað við aukningu, nema eðlilega aukningu tekna, sem vitanlega mun verða, vegna þess að tekjur eru meiri á þessu ári heldur en í fyrra. En það er ekki gert ráð fyrir, — og það er ástæða til að leggja áherzlu á það, vegna þess að því er mjög haldið á lofti, — það er ekki gert ráð fyrir því með þessu fjárlagafrv., að áframhald verði á þeirri verðbólguaukningu, sem átt hefur sér stað á þessu ári, því að það bryti að sjálfsögðu alveg í bága við þá stefnu, sem nú er mörkuð.

Ég tel, að það sé alveg nauðsynlegt, að menn geri sér fulla grein fyrir þessu tvennu. Það er hin aukna velta í þjóðfélaginu, það eru bætt kjör alls almennings í landinu, sem hafa leitt af sér þann mikla tekjuauka, sem er hjá ríkinu, og það er nauðsynin að samræma kjör þeirra, sem hjá ríkinu vinna, við kjör annarra starfsstétta, sem gera óumflýjanlega þá stóraukningu á launaútgjöldum ríkisins, sem raun ber vitni um.

Hv. frsm. 1. minni hl. hefur framkvæmt mikla útreikninga í sinni grg. Af þessum útreikningum skal ég ekki vera að gagnrýna þær tölur, sem þar eru fram settar, ég hef ekki skoðað þær, tel víst, að þær séu réttar, en ósköp finnst mér nú þessar tölur vera lítt til þess fallnar að gefa rétta mynd af efnahags- og fjármálaþróuninni. Það er ákaflega einfalt að taka skilnings- og skýringarlaust einstaka liði og fá út úr þeim háar tölur, sem líta illa út á pappír. Það er þó ýmislegt í þessu, sem er næsta fróðlegt, t.d. þegar hv. 1. minni hl. kemst að þeirri niðurstöðu, sem er rétt, að mjög mikill hluti af útgjaldaaukningunni nú sé í sambandi við niðurgreiðslur og tryggingabætur, sem séu þáttur í þeim ráðstöfunum að halda niðri verðlagi. Þeir reikna það um 900 millj. kr. og muni þó þurfa um 300 millj. í viðbót. Mér finnst þetta ekki sýna neitt ákaflega skelfilega mynd. Niðurgreiðslur eru að vísu alltaf mikið vandamál. Tryggingabætur hafa hingað til ekki verið taldar vandamál, og það er ekki mín skoðun, að þær séu það. En við sjáum á þessu, að það er ærið stór hluti af þeim auknu útgjöldum, sem er talað um, sem beinlínis er ætlunin, að ríkissjóður skili borgurunum aftur, þannig að hér er vissulega ekki um að ræða neina útþenslu í ríkisbákninu, þó að þarna sé um að ræða háar tölur á pappír.

Varðandi svo þá liði, sem teknir eru og eiga að sýna þensluna, eins og að kostnaður við stjórnarráð og utanríkisþjónustu hafi aukizt um 360% og niðurgreiðslur um 535% og margar tölur eftir því, álagning og innheimta skatta og tolla um 370%, þetta er vafalaust rétt, en spurningin er aðeins sú: Hvernig átti að forðast þessar hækkanir? Er hér um að ræða óeðlilega þróun eða ekki? Er hér um að ræða óhóflega eyðslu eða ekki? Það eru ekki færð nokkur minnstu rök fyrir því. Ég skal játa það t.d. um útgjöld við skatta, ég hef komið sjálfur inn á það í báðum þeim fjárlagaræðum, sem ég hafi flutt, að þar hefur verið um að ræða mikla aukningu og meiri en menn áformuðu eða gerðu ráð fyrir. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að ég er í engum efa um það, að þessi aukning er ekki þess eðlis, að hún sýni óhæfni þess kerfis, sem upp hefur verið sett. Með þessu kerfi hefur tekizt að koma á alveg nýjum vinnubrögðum, og það hefur verið lögð áherzla á það að reyna að koma þessu kerfi á eðlilegan starfsgrundvöll, og ég hygg, að hv. frsm. 1. minni hl. hafi a.m.k. ekki verið sá, sem mest hefur úr því dregið, að það væri nauðsynlegt að hraða starfi skattstofanna og skapa þeim eðlilegan starfsgrundvöll, vegna þess að sveitarfélögin hefðu annars ekki aðstöðu til að leggja á útsvör með eðlilegum hætti. Þetta hefur verið gert, og ég tel, að þetta sé komið í viðunandi horf. Það kostar mikið fé. En ég fullyrði, að margt af því, sem gert hefur verið til útgjaldaauka í sambandi við bæði skattkerfið og tollkerfið, — þar hefur einnig verið um mikla aukningu mannahalds að ræða, — það hefur þegar skilað sér. Það munar áreiðanlega ótöldum milljónatugum, sem hefur komið inn í gegnum aukið og bætt skattaeftirlit, og aðeins skattalögreglan og þeir úrskurðir, sem hafa verið felldir í sambandi við athuganir hennar, hafa þegar leitt til milljónatuga aukinnar skattaálagningar. Og allt kerfið hefur leitt af sér aukið aðhald. Það er jafnframt vitanlegt, að tollgæzlan hefur verið miklu árangursríkari en hún áður hefur verið. Þetta nefni ég sem dæmi um, að það þýðir ekki alltaf að benda á útgjaldaliði við þetta og annað. Það verður að gera sér grein fyrir því, hvort útgjöldin eru raunhæf eða ekki og hvort þau skila jákvæðum árangri eða ekki.

Í sambandi við þetta langar mig til að koma að öðru atriði, sem hefur verið endurtekið hér í dag af hv. frsm. 1. minni hl. og mér finnst gegna mikilli furðu, að hann skuli endurtaka hér, og það er sú fullyrðing, að ég hafi lýst því yfir, að ég þekki ekki neitt til ríkisrekstrarins. Það eru teknar setningar úr grg. fjárlagafrv., sem hann telur sanna það, að ég hafi gefizt upp og viti ekki neitt um ríkisreksturinn. Ég er ekki hér að hæla þekkingu minni, en ég hygg samt, að a.m.k. ætti ég miðað við reynslu mína í þessum efnum að hafa álíka mikla þekkingu á ríkisrekstrinum og hver annar, þó að það geti vel verið, að hann hafi hana meiri, ég skal ekkert um það segja. En ég held, að allir þeir, sem ekki horfa á það, sem þeir lesa, gegnum Framsóknargleraugun, hljóti að skilja, hvað við er átt í þessu efni. Það hefur nefnilega verið sagt stundum, að því meira sem menn kynntu sér hluti, kæmust þeir að raun um, að þeir vissu því minna, og ég held, að einmitt sú aukna skoðun, sem hefur farið fram á ríkiskerfinu öllu, uppbyggingu okkar stjórnsýslu, uppbyggingu okkar starfsemi allrar á vegum ríkisins, sé að leiða það æ betur í ljós, hvað á þessu eru margir vankantar. En ef ætlazt er til, að hægt sé að kippa því í lag með einu pennastriki eða á nokkrum mánuðum, þá er það auðvitað slík fásinna, að ég reikna ekki með, að nokkur hv. þm. ímyndi sér það. En ef menn skilja það þannig, þegar er verið af fullri hreinskilni að benda á, að það séu margþættir, stórfelldir annmarkar á því, hvernig við höfum unnið að þessum málum, að það eigi að sýna, að fjmrh. hafi ekki hugmynd um ríkisreksturinn, það er í rauninni ekki hægt að ræða við menn, sem halda fram svona fásinnu. Við vitum, að það eru stórfelldir annmarkar á ýmsu því, sem við höfum byggt upp. Það hafa verið settar upp stofnanir, það hefur verið tekin upp þjónusta og lagt út í útgjöld af hálfu Alþ., sem enginn hefur gert sér fyrir fram grein fyrir, hvert mundi leiða okkur. Þetta er ekki einsdæmi hér á Íslandi. Þetta er vandamál langflestra þjóða í sambandi við sitt fjármálakerfi. Það er tilhneiging til, að alltaf aukist þensla útgjalda ríkisins, — þetta er í samræmi við athugun, sem farið hefur fram í mörgum löndum, —miklu meira en sem svarar auknum þjóðartekjum, og menn hafa áhyggjur af, hvert þetta leiði. En það er ekki eingöngu þessi hlið, heldur einmitt hin, sem hvað helzt á við okkur sem lítið þjóðfélag. Við verðum að gera okkur grein fyrir, hvernig við notum hverja krónu. Opinberar framkvæmdir hafa verið allt of handahófskenndar, og það er eitt af því, sem við er átt með þessum orðum, og það hefur verið sett í gang sérstök athugun, hvort ekki er hægt að setja löggjöf um, hvernig að þessum málum skuli unnið, undirbúningi verklegra framkvæmda ríkisins, skipulagi þeirra, athugun á, að hvaða marki þær eiga að stefna, og alhliða skoðun málsins, áður en út í þær er ráðizt. Við þekkjum sjálfir, að það hefur verið samþ. hér á Alþ. að ráðast í byggingar, án þess að nokkur maður hafi haft hugmynd um, hvað það mundi kosta. Hv. frsm. 1. minni hl. fjvn. veit þetta mætavel. Hann hefur fengizt við í fjvn. athuganir í sambandi við skólabyggingar t.d. árum saman. Það er eitt af okkar mestu vandamálum, hvernig að þeim málum er staðið. Þar er um stórkostlegar þarfir að ræða. Það er talað um það, að við þurfum að byggja skóla, og fyrir því liggja umsóknir, sem munu kosta um 500 millj. kr. Skólahúsnæði okkar er óhæfilega dýrt, og það er óumflýjanlegt annað og að því hefur verið unnið mjög merkilegt og mikið starf, m.a. í samráði við Efnahagsstofnunina í París, að gera sér grein fyrir því, hvernig er hægt að leysa þennan vanda með ódýrari hætti og að koma þessum málum á skipulegri hátt. Það hefur þegar ýmislegt verið gert í þessum efnum. Menn muna kannske eftir því, þegar voru sett lög um eftirlit með skólakostnaði. Það kom á daginn, að það voru millj. kr., ef ekki milljónatugir, sem ríkið hafði verið látið borga, sem það átti ekki að borga, bara fyrir eftirlitsleysi. Svona eru stórir liðir, sem þarf að taka föstum tökum og kanna frá grunni, og það er þetta, sem menn meina, þegar þeir tala um í forsendum fjárlagafrv., að það vanti yfirsýn og ég vil segja innri könnun á eðli og stefnu margra þeirra mála, sem við erum að vinna að, höfum lögfest og komið í gang, en hafa þróazt oft og tíðum með allt öðrum hætti en menn hafa gert sér grein fyrir.

Þetta er nú þekkingarleysið, sem hv. þm. er að tala um, og ef þetta er túlkað sem þekkingarleysi, lofa ég hamingjuna fyrir það þekkingarleysi. Og ég hef aldrei haldið, að það væri sérstök leið til umbóta að loka augunum fyrir því, sem er að, en segja ekki hreinskilnislega, hvað maður telji, að þurfi að skoða niður í kjölinn. Það getur verið, að það sé góð Framsóknarpólitík, en ég tel hana ekki til bóta.

Varðandi útfærslu ríkiskerfisins, sem hv. frsm. 1. minni hl. varð einnig tíðrætt um, er það sama að segja, að það var ekki lögð nokkur rækt við að gera grein fyrir því, hvort þar væri um að ræða hluti, sem hefðu átt rétt á sér eða ekki. Og þegar jafnvel er gengið það langt og seilzt það langt að taka Gjaldheimtuna sem dæmi um útþenslu í ríkiskerfinu, finnst mér vera farið að kóróna vitleysuna, því að það er þó sennilega eitt af því, sem bezt hefur verið gert til þess að koma á aukinni hagkvæmni og hefur leitt af sér stórsparnað á mörgum sviðum og hagkvæmari vinnubrögð í ríkiskerfinu, eftir að henni var komið á. Það kunna að vera einhverjir til, sem halda því fram, að Efnahagsstofnunin sé ekki nauðsynleg stofnun. En ég held, að almennt séu menn þeirrar skoðunar, að við þurfum á að halda fremur meiri en minni athugun á eðli okkar vandamála, og ég fullyrði um það, að Efnahagsstofnunin hefur átt stóran þátt í því bætta andrúmslofti, sem er í þjóðfélaginu í samskiptum hinna ýmsu þjóðfélagsstétta um kjaramál sín, og fyrir efnahagsmálin almennt hafi upplýsingar og rannsóknir Efnahagsstofnunarinnar haft stórmerka þýðingu. Ég hef áður vikið hér að ríkisskattstjóra og skattstofnunum, sem ég tel, að sé síður en svo að lasta, og muni þau útgjöld hafa þegar skilað sér og betur en það í bættum vinnubrögðum. Það má segja, að hagsýslugerðin sé ný stofnun, en ég mundi einnig þora hiklaust að fullyrða, að það sé hægt að láta þá stofnun skila margföldum þeim kostnaði, sem hún hefur í för með sér, ef rétt er á þeim málum haldið.

Það væri fróðlegt að ræða hér efnahagsmálin. Ég skal samt stilla mig um það, vegna þess að þau verða rædd á öðrum vettvangi og gefst þá tækifæri til þess. En mér finnst það þó næsta einkennilegt, miðað við þekkingu beggja þessara hv. þm., að þeir skuli láta sér það um munn fara, eins og þeir lögðu áherzlu á í sínum ræðum báðir, að stjórnarstefnan hefði verið einhver lamandi hönd á atvinnuvegi þjóðarinnar og hindrað þar eðlilegar framfarir. Það liggur fyrir algerlega ómótmælt og er staðfest rækilega í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til hagráðs, sem ég hef ekki séð neins staðar mótmælt, að fjármunamyndun hafi orðið meiri nú en nokkru sinni áður hafi þekkzt og þar sé um að ræða sparnað og fjármunamyndun, sem hafi deilzt nokkurn veginn jafnt á atvinnuvegi þjóðarinnar og sé það í raun og veru einstætt hér í okkar landi. Og m.a. segir í þeirri skýrslu, með leyfi hæstv. forseta, án þess að ég ætli að fara að rekja það mál:

„Vergur sparnaður þjóðarbúsins, þ.e. fjármunamyndun að viðbættum eða frádregnum breytingum bústofns og útflutningsvörubirgða á viðskiptajöfnuði út á við, nam á síðasta ári 6150 millj. kr. eða 30% af þjóðarframleiðslunni.“ Og enn segir: „Hin mikla aukning fjármunamyndunar síðustu árin hefur dreifzt tiltölulega jafnt yfir allar helztu greinar atvinnulífsins, opinberar framkvæmdir og íbúðahúsabyggingar.“ Og sérstaklega er vikið að því, að hún hafi orðið mikil í þeim atvinnugreinum, sem byggjast mest á notkun véla og tækja, en að sjálfsögðu er hvað mest þörf á í sambandi við hagræðingu og aukna framleiðni að efla slíkar atvinnugreinar. Og enn segir: „Atvinnuvegirnir hafa haft forystu í þeirri þróun, sem hefur átt sér stað síðan 1962.“ Þetta liggur fyrir öllum hv. þm. Og þó að sé við ýmsa erfiðleika að glíma nú, — og hvenær hefur ekki verið við erfiðleika að glíma í rekstri okkar atvinnuvega? — hélt ég satt að segja, að menn bæru það ekki fyrir sig lengur að halda því fram, að það hafi verið einhver stöðnun í þjóðfélaginu nú undanfarin ár. Það hefur verið slíkur gróandi í þjóðfélaginu, að það er vandamál okkar í dag að halda í skefjum okkar efnahagskerfi vegna þeirrar geysilegu þenslu úr öllum áttum í framkvæmdir vegna stórhugs og áhuga við margvíslegar umbætur.

Herra forseti. Ég bið afsökunar á, að ég hef orðið langorðari en ég vildi í þessu efni, og hefði gjarnan viljað tala um þetta í öðrum dúr. En því miður hafa umr. gert nauðsynlegt að taka til athugunar nokkur atriði, sem eru þó ekki þess eðlis, að það gefi efnislega miklar upplýsingar um kjarna málsins. En það er auðvitað það, sem þýðingu hefur í sambandi við úrlausn þessa mikla vanda, sem vissulega er við að glíma, ekki eingöngu varðandi afkomu ríkissjóðs, heldur varðandi það, hvernig við eigum að tryggja okkar efnahagslegu uppbyggingu í landinu, sem er auðvitað fyrsta áhugamál okkar allra. Það verður ekki gert með því að reyna að fela kjarna málsins með stóryrðum og rangfærslum. Það verður gert með því einu að reyna að skoða eðli málanna niður í kjölinn, og eins og ég áðan sagði, held ég, að hinar auknu upplýsingar frá ýmsum aðilum síðustu árin, bæði Efnahagsstofnun og ýmsum nefndum, sem starfað hafa, bæði á vegum ríkisins, launþegasamtaka og annarra aðila, hafi átt sinn þátt í því að leiða þessi málefni inn á skynsamlegri grundvöll. Og þetta hefur leitt til þess, að málin hafa verið tekin öðrum tökum, og þrátt fyrir það, þó að ýmsir aðilar hafi reynt að koma illu af stað, hafa hin áhrifamestu almannasamtök í landinu sýnt mjög vaxandi skilning á eðli vandamála þjóðfélagsins og efnahagslífsins með þeim árangri, að það hefur skilað öllum almenningi miklu betri útkomu en ella hefði orðið. Fyrir þessu liggja yfirlýsingar og staðreyndir, sem ég þarf ekki að rekja hér, en öllum hv. þm. er vel kunnugt um, og það er í þessum anda, sem að málunum þarf að vinna. Og sannleikurinn er sá, að þó að það vissulega séu góðærin, sem séu okkar mesta happ, þegar á allt er litið, hafa góðærin ekki hvað sízt oft í för með sér vanda og kannske meiri vanda en þegar vel gengur, vegna þess að góðærin valda þenslu. Og t.d. hefur það góða atvinnuástand, bætt viðskiptakjör og önnur bætt aðstaða sjávarútvegsins haft í för með sér veruleg vandamál fyrir aðrar atvinnugreinar í landinu og jafnvel vissa þætti sjávarútvegsins sjálfs. Það er ekki verðbólgan, sem er þessi illi valdur, sem öllu er skellt á og á að vera einhver sérstakur ástmögur ríkisstj., þó að mér gangi alltaf erfiðlega að skilja, hvernig það má vera eftirsóknarvert fyrir eina ríkisstj. að beita tæki, sem öllum er fjandsamlegt og öllum er illa við. En látum það vera. Það er nefnilega margt annað en verðbólgan sjálf, sem hér á sök á og við verðum að skilja, ef við ætlum að leysa þennan vanda, sem við er að glíma.

Ríkisstj. hefur ekki, eins og segir í niðurlagi nál. hv. l. minni hl., beint neinum liðsbónum eða áskorun til stjórnarandstöðunnar um það að hjálpa sér í þessu máli. Við reiknum ekki með neinni aðstoð úr þeirri átt. Hins vegar er það rétt, að við höfum átt samvinnu með góðum árangri við þau stéttasamtök í landinu, sem mesta þýðingu hafa í þessu efni. Það er að vísu sagt hér, að það sýni bezt, hversu illa ríkisstj. sé komin, að hún sé farin að ræða við Alþingi götunnar. Þetta er ákaflega mikill misskilningur. Þegar var rætt um Alþingi götunnar á sínum tíma, var það í þeim skilningi, að það var fordæmt, að stéttasamtök væru látin hafa úrslitaákvörðun um afstöðu ríkisstj. Ríkisstj. verður að stjórna, og Alþ. verður að stjórna, og þess vegna má ekki fara fyrir ríkisstj. eins og gerðist með vinstri stjórnina, af því að hún fékk nei frá stéttasamtökum við tilmælum sínum, — þá bara gafst hún upp og sýndi það, að hún stjórnaði alls ekki sem ríkisstj. og leit ekki á Alþ. sem hinn rétta aðila til að taka endanlega ákvörðun um úrlausn málanna. Það hlýtur hver einasta ríkisstj. að hafa samvinnu við stéttasamtök, og því aðeins er friður í þjóðfélaginu og skynsamleg úrlausn mála, að takist að fá góðan skilning í þessu efni milli ríkisstj. og stéttasamtaka. En það verður að vera með því fororði, að ríkisstj. og Alþ. stjórni, þegar allt kemur til alls, og geri sínar ráðstafanir, ef ekki tekst að fá viðhlítandi samkomulag. Þetta hlýtur að vera forsenda allra lýðræðislegra og eðlilegra stjórnhátta, og þetta er sá meginmunur, sem þarna hefur verið um að ræða.

Það er sagt, að velmegunin hafi bjargað núv. ríkisstj. Það má vel til sanns vegar færa. En það var þó dálítið kaldhæðnislegt, að velmegunin varð vinstri stjórninni að falli, því að það var mesta velmegun, sem þá hafði komið, sem var það ár, sem hún hvarf frá völdum og lýsti yfir, að allt væri þá á hengiflugi. Og sannleikurinn er sá, að það er dálítið kaldhæðnislegt að hlusta á menn, sem þá voru ráðþrota um öll úrræði, að nú hafi þeir ráð undir hverju rifi, að vísu ráð, sem þeir alls ekki segja, en eru þó a.m.k. nógu ráðagóðir til þess að segja, að allt sé ómögulegt, sem aðrir gera. Þetta kann að vera gott og blessað, en ekki er það nú ákaflega trúverðugt, og ég er ekki alveg viss um, að þeir hafi erindi sem erfiði, sem þessum málflutningi halda uppi.

Herra forseti. Ég vil að lokum aðeins leggja áherzlu á það sem grundvallarkjarna þessa máls, að einmitt hin góða afkoma ríkissjóðs í ár og horfurnar um góða afkomu hans á næsta ári eru undirstaða og forsenda þess, að við getum komið á þeirri stöðvunarstefnu, sem við nú erum að reyna að beita okkur fyrir. Henni hefði ekki verið hægt að koma á, ef engin fjárráð hefðu verið fyrir hendi til þess að leysa þann vanda að halda niðri vöruverði t.d., sem er forsenda þessarar stöðvunar. Hefði það þurft að gerast með nýjum skattaálögum, hefði það ekki verið auðið. Það hefði hlotið að leiða af sér nýjar hækkanir, sem hefðu þá valdið nýrri spennu. Það er því nákvæmlega hin rétta stund til að gera þær ráðstafanir nú, og með hliðsjón af öllum aðstæðum, með hliðsjón af því ástandi í okkar útflutningsmálum, sem öllum hv. þm. er kunnugt, er lífsskilyrði fyrir þjóðina í dag, að þessi stöðvunarstefna takist, og það er okkar stóra happ, að við skulum einmitt nú hafa það ástand í okkar ríkisfjármálum, að það sé auðið að gera þessa mikilvægu ráðstöfun, sem nú þarf að gera, til þess að geta undirbyggt enn betur það, sem þarf að koma til eflingar okkar atvinnulífi. Því er haldið fram, að þetta sé gert til þess að fleyta fram yfir kosningar. Það er mikill misskilningur. Það fer auðvitað algerlega eftir atvikum máls, hvað þarf að gera eftir kosningar. Það veit enginn um verðlagsþróunina. Það er það, sem hefur úrslitaáhrif í þessu efni. Við höfum aðstöðu til þess að gera þessar ráðstafanir með þeim hætti, að ef ekki kemur til ný dýrtíð, ef ekki koma til einhver þau öfl eða aðgerðir, sem annaðhvort auka vanda útflutningsframleiðslunnar með enn meira verðfalli eða auka tilkostnað í þjóðfélaginu, sem við sjáum ekki fyrir í dag, er engin ástæða til þess að halda, að þetta geti ekki gengið. Og ég tel ekki sýnilega ástæðu til að halda, að það sé um alla framtíð, sem ekki komi til, að okkar útflutningsafurðir hækki aftur í verði. Hér hefur orðið óvenjulegt verðfall, og ég vil leyfa mér að vona, að þetta sé aðeins tímabundið, þannig að með því, sem við séum að gera hér, sé ekki á nokkurn hátt verið að fela eitt né neitt, heldur sé þetta raunhæf aðgerð og skynsamleg og sú eina, sem til greina kemur til þess að mæta þeim vanda, sem við eigum við að glíma. Það er enginn beðinn að fórna neinu, heldur nema staðar um skeið í sinni framfarasókn til þess að leggja betri undirstöðu að næstu átökum. Og við skulum vona það, af því að ég veit, að innst inni er það áhugamál okkar allra, að það megi takast, að í kosningahitanum freistist menn ekki til þess að blása upp neinu moldviðri til þess að villa mönnum sýn í þessu efni, vegna þess að ef illa fer, kemur það ekki niður á ríkisstj., það kemur niður í þjóðinni í heild. Það er hún, sem geldur þess eða nýtur, hvort vel eða illa tekst til.