08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

151. mál, listamannalaun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér brtt. þá, sem hv. 3. þm. Reykv. flytur við frv. við 3. umr., og hef um hana það eitt að segja, að ég treysti mér ekki til að mæla með samþykkt hennar. Ég tel að þetta frv., í því formi, sem það var lagt fyrir hið háa Alþ. og hefur verið afgr. við 1. og 2. umr., hafi hlotið svo rækilegan undirbúning og um það sé svo víðtæk samstaða, að varhugavert sé að gera á því breyt. með jafnóvissum afleiðingum og samþykkt þessarar brtt. mundi hafa í för með sér. Þess vegna legg ég til að brtt. verði felld.