15.04.1967
Efri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

151. mál, listamannalaun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Frsm. menntmn. í þessu máli, hv. 8. landsk. þm., er eini maðurinn, að ég held, í þessari hv. d., sem hefur reynslu af því að starfa í úthlutunarnefnd listamannalauna og meira að segja alllanga reynslu. Hann er óhvikull og heils hugar stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. Enginn mun geta vefengt það. Ekki var þó hægt að segja, að fagnaðarhljóð væri í framsöguræðu þm. í gær yfir hinu langþráða stjfrv. um listamannalaun. Hið eina, sem ég get heyrt, að hann teldi því til gildis, var, að skv. því ætti að kjósa úthlutunarn. launanna til fjögurra ára í stað eins árs í senn áður. Með því gæti fengizt meiri festa í úthlutunarstarfið. Það getur verið rétt, að þetta sé til bóta, en því aðeins þó, að ekki takist svo illa til með val í n., að þörf sé á að skipta strax um menn. Ég vil benda á, að aðalreglan, þegar kosið hefur verið í n. þessa á undanförnum árum, hefur verið að endurkjósa ár hvert og það virtist alls ekki koma þá að gagni. Lausn vandans er því varla fundin með þessu fjögurra ára kjörtímabili n., því er miður. Ég tel ólíklegt, að hv. 8. landsk. þm. hafi trú á því heldur, þótt hann teldi þetta til bóta til þess að segja eitthvað jákvætt um frv.

Ég skrifaði undir nál. um frv. þetta með fyrirvara. Sá fyrirvari var vegna þess, að mér virðist frv. lítilmótlegt og óburðugt mjög. Ég hafði átt von á myndarlegu frv. af hendi hæstv. menntmrh., sem er listunnandi maður, en svo kemur þessi óburður.

Á undanförnum árum og áratugum hefur úthlutun listamannalauna verið í miklu ófremdarástandi, eins og hv. frsm. n. talaði nokkuð um í gær. Allir virðast hafa verið óánægðir með ástandið í þessum efnum. Loks fól síðasta Alþ. ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. löggjöf um úthlutun listamannalauna og hafa um það samráð við Bandalag ísl. listamanna. Ég legg áherzlu á það, að hæstv. ríkisstj. átti að undirbúa löggjöfina fyrir næsta reglulegt Alþ. Hvernig var við það staðið? Frv. þessu var fleygt inn á Alþ., þegar afgreiðsluös vegna væntanlegra þingslita var byrjuð, og við í seinni d. fáum það ekki til meðferðar, fyrr en í fullkomnum ótíma. Fyrsti og eini nefndarfundur í menntmn. var haldinn um það í fyrradag. Þetta eru vítaverð vinnubrögð af hendi hæstv. ríkisstj. Og niðurstaðan verður því sú, að enginn tími er til þess fyrir þm. að vinna að málinu, eins og þurft hefði og málið verðskuldaði, því að þetta er vissulega þýðingarmikið mál. Að byggja frv. upp með brtt. er ekki hægt, bæði vegna þess algera tímaleysis, sem þingið er komið í, og einnig vegna hins, — það vil ég taka fram — að uppistaða frv. er svo léleg, að hún tekur ekki á móti slíku ívafi, sem getur falizt í brtt. Það þyrfti að efna til nýrrar uppistöðu, setja upp vefinn allan að nýju, ef að gagni ætti að koma. Hvernig ætli hafi svo til tekizt með samráð það, sem Alþ. ætlaðist til, að haft yrði við Bandalag ísl. listamanna? Ég er því ekki kunnugur, en grunur er mér á, að það hafi ekki lánazt. Ræð ég það af raunalegum andvörpum af bandalagsins hálfu, sem heyrzt hafa í blöðum út af frv.

Seinlætið hjá hæstv. ríkisstj. í þessu máli, samhliða flaustursbandbragði, finnst mér furðulegt og óafsakanlegt af því líka, að málið er búið að vera svo lengi á döfinni, það er búið að vera á döfinni í mörg ár. Og n. þær, sem úthlutað hafa listamannalaunum, hafa beðið um löggjöf til að fara eftir. Frv. hafa líka áður komið fram um löggjöf í þessum efnum, bæði á vegum ríkisstj. og frá einstökum þm. Á síðasta þingi var tveim frv. vísað til ríkisstj. hér úr þessari hv. d., frv., sem ég flutti um listlaunasjóð, og frv., sem hv. 5. þm. Reykn. flutti um þessi efni. Ég fullyrði það, að í báðum þeim frv. var miklu ýtarlegar tekið á efninu en gert er í þessu frv., og í þeim er a.m.k. hægt að fá uppistöðu í betri vef en er í vefstólnum hér, settur upp af hæstv. ríkisstj.

Ég lít svo á, að það sé mjög misráðið, að Alþ. kjósi úthlutunarnefnd listlauna, eins og tíðkazt hefur og þetta frv. gerir enn ráð fyrir. Menn, sem stjórnmálaflokkar kjósa, verða jafnan kosnir eftir pólitískri afstöðu þeirra, og þeir líta á sig sem fulltrúa þeirra flokka, sem kjósa þá, þótt í listlaunanefnd sé kosið. Aðrir líta einnig á þá sem slíka, og margir ætlast beinlínis til þess, að þeir séu sér pólitískt hliðhollir. Engin trygging er fyrir því, að menn, sem stjórnmálaflokkar kjósa, séu að þekkingu, gáfum og smekk vel til þess hæfir að vera listdómendur, þó að þeir kunni að vera vel gerðir sem þm. Enn minni trygging er fyrir því, að 7 menn, sem 4 þingflokkar kjósa, hafi yfir að ráða forsvaranlegri þekkingu í öllum þeim listgreinum, sem þeir eiga að launa menn fyrir. Það er sannfæring mín, að þótt pólitík sé nauðsynleg og geti verið fullkomlega heiðarleg á sínu sviði, stjórnmálamenn geti verið fjötmenntaðir og fjölvitrir, eigi stjórnmálaflokkar ekki að velja listdómendur. Það er ekki á þeirra sviði. List og stjórnmál eiga ekki þannig suðu saman.

Í frv. mínu, því, sem ég áðan nefndi um listlaunasjóð, lagði ég megináherzlu á þetta, lagði áherzlu á, að menningarstofnanir þjóðfélagsins, svo sem háskólinn og menntamálaráð; tilnefndu menn í úthlutun listlauna í hverri listgrein og hlutaðeigandi samtök listamanna í listgreinum tilnefndu fulltrúa fyrir sig, sem þó hefðu þar sjálfir ekki eigin hagsmuna að geta. Með því vildi ég tryggja, svo sem unnt væri, að óviðkomandi öfl, eins og flokkapólitík, væru ekki í listdómarasæti, en þekking aftur á móti, og listgreinum væri ekki ruglað saman.

Skv. frv. því, sem hér er til umr., á Alþ. enn að kjósa listdómara. Í 2. gr. eru reglur um, hvernig listdómararnir skuli búa út kjörseðla og kjósa listamenn til launa. Allt er þar sem líkast því, sem gerist í pólitískri togstreitu. Í 3. gr. er að vísu svo ákveðið, að aðildarfélög Bandalags ísl. listamanna skuli eiga rétt til að tilnefna hvert um sig tvo fulltrúa til skrafs við n., sem Alþ. kýs, en ekki nema til skrafs. Gæti þá orðið haldinn rúmlega 20 manna fundur til umr. um úthlutun launanna. Mér er sem ég heyri kliðinn frá þeim fundi og sjái niðurstöður hans. Alger þagnarskylda á að vísu að vera um það, sem sagt er á þeim mannamótum. En þegar úthlutun er lokið, má þó hver segja frá því, sem hann sjálfur hefur sagt, en alls ekki, hvað aðrir hafa lagt til mála. Það þarf mikinn barnaskap til að halda, að hægt sé að skapa slíkan þagmælskuklúbb með löggjöf. Eða hverjum dettur það annars í alvöru í hug? En þetta eigum við nú að samþykkja og þetta á að vera ein af mikilsverðustu lausnum. Mig undrar ekki, þó að listamönnum finnist hálfpartinn, að hér sé verið að bjóða þeim upp á snuðferðir á fundi.

En hvað sem þessu líður, vil ég ekki bregða fæti fyrir frv. Ég afsaka þá afstöðu mína með því, að engu er hægt um að þoka vegna þess tímaleysis, þeirrar tímaleysissjálfheldu, sem málið er komið í vegna þess, hve illa hefur verið að því staðið hjá hæstv. ríkisstj. Úthlutun listamannalauna má ekki falla niður. Einhverja ráðstöfun verður Alþ. þetta að gera um það, að þau falli ekki niður að þessu sinni. Frv., þótt meingallað sé, sekkur auðvitað ekki landinu, og máske verður það til þess, vegna meingalla sinna, að reka verulega eftir Alþ. á næstu árum að koma sómasamlegri og menningarlegri skipan á þessi málefni, og þá er kannske hægt að segja, að framlagning þess hafi ekki verið til ónýtis, en varla er gildi þess annað.