15.04.1967
Efri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

151. mál, listamannalaun

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að ég lét ekki í ljós neina sérstaka hrifningu yfir þessu frv., sem ég þó mælti með, eins og hann einnig gerir: Hann vitnaði í það, að ég hefði þó sérstaklega látið í ljós í minni framsöguræðu, að ég teldi þau ákvæði frv. til bóta, sem gera ráð fyrir því, að úthlutunarn. sé kosin til lengri tíma en verið hefur. Þetta var vegna þess, að af þeim kunnugleika, sem ég hef af þessum málum, vissi ég, að úthlutunarn. hafa aldrei talið sér fært að skapa neinar reglur um úthlutun eða verulegan ramma, þar sem þær bjuggust ekki við að starfa nema árið. Ég álít, að sú úthlutunarn., sem tekur við þessum málum undir lagaákvæði þessu, geti þetta miklu frekar.

Hins vegar var það ekki rétt hjá hv. þm., að ég hefðil lýst því yfir, að úthlutunarmálin hefðu ætíð verið í ófremdarástandi. Hinu lýsti ég nokkuð, að listamenn sjálfir og vissir menn, sem telja sig vera þeirra málsvara, hefðu ætíð verið óánægðir eða látið óánægju í ljós eftir hverja úthlutun, hverjir sem hana höfðu haft með höndum. Þar með er alls ekki sagt, að ég telji, að þar hafi verið ófremdarástand, að því er snertir úthlutunina frá hendi úthlutunarn., hvorki þeirra n., sem ég hef starfað í eða annarra. Það er langt frá því, né heldur þegar listamenn sjálfir úthlutuðu og munu hafa orðið óánægðari á eftir en nokkurn tíma í annað skipti. Ég var ekki heldur að segja, að það hefði verið ófremdarástand á þessum málum, þegar Alþ. sjálft úthlutaði, heldur var ég að segja hitt, að það er ákaflega örðugt að gera þessa svokölluðu listamenn ánægða. Og ég efast um, að þeir verði gerðir ánægðir, hverjir svo sem fara með þessi mál.

Hv. þm. vék að því, að það mundi ekki hafa verið höfð samvinna við Bandalag ísl. listamanna um flutning þessa frv. Honum hlýtur að hafa sézt yfir það, að í grg. frv. stendur, að það hafi verið höfð samvinna við bandalagið og því sent frv. til athugunar. Og bandalagið lýsti sig í aðalatriðum samþ. frv. Og til þeirrar n., sem hafði þetta mál með höndum, menntmn., kom ekkert erindi með ósk um breyt., hvorki frá bandalaginu né heldur einstökum deildum þess. Það kom aðeins eitt erindi, sem ég lýsti hér við framsögu í gær, þar sem látin var í ljós óánægja yfir því, að eitt félag, sem er utan bandalagsins, mundi ekki fá rétt til þess að senda þessa ráðuneytisfulltrúa á fund n., af því að þeir væru ekki í bandalaginu. En hin félögin eða þau, sem eru í bandalaginu, hafa ekki látið neitt frá sér fara til menntmn. Eitt félag hefur að vísu birt grg. í blöðum og ýmsar vangaveltur um þetta mál, en ekki þó tekið neina ákveðna afstöðu með frv. né heldur á móti því.

Það var dálítið rætt um þetta frv. í menntmn., og ég lét þar í ljós þá skoðun mína, að ég væri ekki ánægður með öll ákvæði frv. Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði það einnig og hv. 5. þm. Reykn., sem ekki er hér mættur, lét einnig í ljós, að hann væri óánægður með ýmis ákvæði frv. Það er því alveg satt, að það var engin sérstök hrifning yfir frv. í n., þó að allir nm. væru þó á eitt sáttir, að rétt mundi vera, að frv. næði fram að ganga, þar sem þetta mál, úthlutunin, mundi lenda í miklum handaskolum, ef frv. yrði ekki samþ. á þessu þingi.

Það er rétt að geta þess, að hér liggur fyrir brtt., sem ekki hefur enn verið mælt fyrir við þetta frv. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að a-liður þeirrar brtt. er á þá leið að ákveða aukið fjárframlag til þessara mála á árinu 1968, og breyt. í sambandi við úthlutun. Ég tel ekki tímabært að taka afstöðu til þessa atriðis nú, þar sem fyrir liggur í grg. frá hæstv. menntmrh., að ríkisstj. hafi ákveðið að skipa n. til þess einmitt að athuga þessi atriði fyrir næsta þing og skila áliti. Þar af leiðandi tel ég ekki ástæðu til að samþ. þessa brtt., og um b-lið brtt. er einnig það að segja, að ég sé ekki ástæðu til að samþ. þann lið heldur, því að það er nú ekki ætlunin, að laun hækki á þessu ári og þar af leiðandi ekki tímabært að taka afstöðu til þess, hvort hækkanir verði á framlagi til listamanna eftirleiðis eða ekki. Treysti ég mér því ekki til að fylgja þessari brtt., hvorki a-lið né b-lið.