15.04.1967
Efri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

151. mál, listamannalaun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm, hafa heyrt, ber okkur hv. 8. þm. landsk. ekki mikið á milli í þessu máli. Eins góður stjórnarstuðningsmaður og hann er, mundi hann hafa talað öðruvísi, ef hann hefði ekki talið þetta frv. vandræðagrip af hendi sinnar ágætu ríkisstj. Og ég verð nú að segja það, að eitt af því, sem mér þykir að undirbúningi hjá menntmrh., það er sjálfsagt ekki fjmrh., sem á neina sök í þessu máli, heldur mun sökin um slæman undirbúning vera hjá hæstv. menntmrh., er það, að mér þykir einmitt hafa vantað á hjá honum að hafa kvatt menn, sem hafa unnið að þessu máli í framkvæmd áður, til þess að vera með í því að semja þetta fram. Ég þóttist heyra það á öllum lotum, að hv. 8. landsk. hefði ekki komið nærri því að semja þetta frv., ekki verið til þess kvaddur, og þó hefur hann á undanförnum stjórnarárum þessarar hæstv. ríkisstj. setið fyrir hönd síns flokks í úthlutunarn. listamannalauna. Hann vildi mótmæla því, að hann hefði talið, að það hefði verið ófremdarástand á þessum málum þar að undanförnu, en sagan, sem hann sagði; fól nú í sér, að málin höfðu verið illa á vegi stödd. En til þess er vitanlega ekki ætlazt af honum, að hann kveði upp þann dóm í sínu nefndarstarfi, að það hafi verið slíkt ástand þá. Ég ætlast ekki til þess, en óbeint kom þetta fram í ræðu hans. M.a. sagði hann, að það hefði verið haft samstarf við Bandalag ísl. listamanna, enda væri sagt frá því í grg. frv. Ég taldi það nú ekki fyllstu sönnun fyrir því, að þetta samband hefði verið fullkomið; þó að það stæði í grg., og það, sem ég sagði áðan, var ekki rangt, því að ég sagði, að ég væri ekki kunnugur, hvort við þessu hefði verið orðið; en grunur væri mér á, að það hefði ekki lánazt þetta samband. Og ég sagðist ráða það af raunalegum andvörpum frá bandalagsins hálfu, sem heyrzt hefðu í blöðum, og ég vona, að einhver ykkar hafi orðið var við stunur, sem þar hafa komið fram, svo að þið vitið, að hér er farið rétt með af minni hálfu. Eitt af því, sem sýnir, hvað kastað hefur verið margvíslega höndum að þessu frv., er, að hér í 1. gr. segir, að n. skuli kosin af Sþ., 7 manna nefnd, en það er ekkert tilgreint, með hvaða hætti það skuli vera, hvort það skuli með hlutfallskosningu gert eða öðrum hætti. Slíkt mundi meiri hl. á þingi geta haft á valdi sínu í svona löggjöf.

En reynt var að stoppa í þetta gat, að hnýta saman þráð þarna, með því að frsm. n. var falið, eins og hann gerði, að lýsa því yfir, að það væri meiningin, að hér yrði um hlutfallskosningu að ræða, því að ekki mátti breyta frv., svo mikið var tímahrakið, að ekki mátti laga það einu sinni í þessu efni, sem enginn ágreiningur gat verið um, og er þá reynt að hengja við það þessa yfirlýsingu. Ómynd er þetta í löggjöf.

Að því er snertir þá samvinnu, sem við listamenn átti að hafa, má geta þess, að eitt félag, Myndlistafélagið, sem hefur í sínum hópi um þriðjung myndlistarmanna landsins, á ekki, samkv. 1., að hafa neinn rétt, og hefur því þó verið neitað um að ganga í Bandalag ísl. listamanna. Ekki gat það verið ætlun Alþ. og ekki eðlilegt, að löggjafinn bolaði því frá að mega hafa fulltrúa á skraffundinum, og úr þessu er ekki bætt með breyt. á í., því að tímahrakið leyfir það ekki, heldur er reynt að bæta úr því með yfirlýsingu, sem frsm. n. flutti. Og vonandi duga þær úrbætur, sem gefnar eru með þessum tveim yfirlýsingum, fyrir það, sem þau atriði snertir, en þetta er ekki að vinna, eins og vinna á að lagasetningu. Ég ætlaði nú ekki að gera þetta að umræðuefni, nema af því að hv. frsm. taldi, að samvinnan við listamennina mundi hafa verið í lagi, en hún hefur alls ekki verið í lagi, enda ekkert tillit tekið til þeirra, eins og ætti að vera í löggjöfinni og ætlazt hafði verið til.