17.04.1967
Efri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

151. mál, listamannalaun

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. flutti ég 2 brtt. við frv., en þar sem ég hafði ekki tök á að vera á þingfundi, þegar 2. umr. fór fram, tók ég þessar till. aftur til 3. umr., en vil nú mæla nokkur orð fyrir þeim.

Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, varð ég fyrir allmiklum vonbrigðum með það frv. til l. um listamannalaun, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Alþ. Ég hafði vænzt þess, að þegar að því kom loksins, að stjfrv. kæmi fram um þetta mál, yrði það að mörgu leyti fyllra og veigameira en þetta frv. reyndist að mínum dómi. Ég hafði alveg sérstaklega vænzt þess, þar sem mér er kunnugt um, að hæstv. menntmrh. hefur bæði fyrr og síðar haft áhuga á því að koma fram bættri skipan þessara mála.

Nú hefði það verið freistandi fyrir mig að flytja gagngerðar brtt. við þetta frv., nokkuð til samræmis við það frv. til l. um listamannalaun og listasjóð, sem ég hef flutt nú á 2 þingum og ekki hefur hlotið afgr. Með tilliti til þess, að samtök listamanna hafa, að því er virðist, kosið fremur að þetta stjfrv., eins og það er úr gerði gert, yrði samþ. en að una við óbreytt ástand, þ.e.a.s. enga ákveðna löggjöf um þessi úthlutunarmál, hef ég hætt við að flytja gagngerðar brtt. við frv. og eftir atvikum sætt mig við það, að það fái að reyna sig í framkvæmd. Þó vildi ég ekki láta hjá liða að taka upp tvö atriði, sem, einkum annað þeirra, ég tel með veigameiri atriðum úr frv. mínu, en það er ákvæði um það, að Alþ. leggi til á fjárl. hverju sinni tiltekna upphæð til sérstakrar úthlutunar til starfsstyrkja listamanna. En hugmyndin með slíkum starfsstyrkjum er fyrst og fremst sú, að listamenn, sem hafa sýnt, að nokkurs eða jafnvel mikils má af þeim vænta, ekki sízt ungir og álitlegir listamenn, eigi þess kost um nokkurt skeið að helga sig tilteknum verkefnum, meiri háttar verkefnum, og ættu þar með kost á því að sýna e.t.v. betur en ella hvað í þeim býr og hvers þeir eru megnugir, ef þeim gefst aðstaða til þess að sinna list sinni nokkru óskiptari en ella væri, ef þeir nytu ekki slíks styrks. Ég legg til í brtt. við þetta frv., að upp verði tekin ný gr. og þar ákveðið, að allt að 20 listamönnum verði veittir starfsstyrkir 2 eða 3 ár í senn og að þetta verði umtalsverðar upphæðir, sem verulega getur munað um, til þess að listamenn geti glímt við meiri háttar verkefni um tveggja eða þriggja ára skeið, án þess að um það sé að ræða, að þeir séu þar með komnir á föst listamannalaun á fjárl. Þetta væri þar með að vissu leyti nokkur hliðstæða við styrki Vísindasjóðs, sem vísinda- og fræðimenn njóta nú, ekki síst ungir og efnilegir menn, sem eru að vinna að sérstökum vísindaverkum.

Hin brtt. mín við þetta frv. er ósköp einföld. Hún er um það, að tekið sé í l., að verði almenn hækkun á launum opinberra starfsmanna, þá skuli listamannalaunin, bæði heiðurslaun og hin almennu listamannalaun á fjári., hækka í sama hlutfalli. Þetta tel ég mjög mikilvæga breyt. til þess að tryggja það, að þessi listamannalaun dragist ekki aftur úr með breyttu verðlagi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessar till., en vil leggja þær fram aftur nú við 3. umr.