27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

6. mál, almannavarnir

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég gerði þetta mál að umtalsefni við 1. umr. og lét þá í ljós að ýmsu leyti mína skoðun á l. um almannavarnir, svo og um frv. það, sem hér liggur fyrir. Ég þarf þess vegna ekki að vera fjölorður um málið að þessu sinni. Við 1. umr. benti ég rækilega á, hvernig aðilar hefðu lagzt á eitt um að hafa l. um almannavarnir að engu. Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi hér í þessari hv. d., að hann hefði ekki gert það, sem honum bar að gera í samræmi við lögin. Hann hefði vanrækt að setja þær reglur og reglugerðir, sem honum bar skv. ákvæðum laganna. Þetta var hans þáttur í framkvæmd þeirra. Einnig kom það í ljós og er reyndar viðurkennt, að langflestar sveitarstjórnir landsins eru með öllu mótfallnar því að framkvæma lögin að sínu leyti, eins og þau eru úr garði gerð.

Þannig er það um þessa aðila, sem eiga að framkvæma lögin. Þeir hafa ekki, af einhverjum ástæðum, kært sig um, að l. um almannavarnir kæmu til framkvæmda. Þess vegna hefur það lítt komið til kasta almennings að taka afstöðu til þeirra, en ég hygg, að ef framkvæma ætti ýmis ákvæði, sem í þessum lögum eru, mundi þáð mæta mjög harðsnúinni andstöðu almennings, og ég hygg, að það sé einmitt þetta, sem valdhafarnir óttist, og það sé einmitt þetta, sem gerir þá hikandi við að framkvæma l. um almannavarnir. Nú á að reyna að gera hér einhverja bragarbót á, hnýta við verkefnin, auka verksviðið. Það á að fara inn á verksvið Slysavarnafélagsins og inn á verksvið Rauða krossins og annarra viðlíka mannúðar- og hjálparsamtaka.

Ég er ekki alveg ósmeykur við þetta, eins og ég hef látið í ljós áður. Ég ei hræddur um, að svo geti farið, að hin dauða hönd almannavarna legðist óþægilega yfir þessi ágætu félög eins og Slysavarnafélagið og Rauða krossinn, og þá væri vissulega verr farið en heima setið. Af þessum ástæðum óska ég þess, að þetta mál allt saman verði athugað miklu betur en gert hefur verið til þessa, að l. um almannavarnir verði tekin til athugunar og athugað verði betur en gert hefur verið um afstöðu áðurnefndra mannúðarfélaga til málsins. Ég vil taka saman í örfáum orðum það, sem ég meina með þessu: Það eru margir og augljósir gallar á l. um almannavarnir. Þess vegna þarf að endurskoða þau lög. Hugmyndina um, að almannavarnir rugli reytum við Slysavarnafélagið, Rauða krossinn og fleiri samtök, tel ég varhugaverða, öðruvísi en að mjög vel athuguðu máli, og það hefur ekki verið gert enn sem komið er. Og í þriðja lagi vil ég nefna, að það er möguleiki á því að fela áðurnefndum samtökum allt verkefnið, sem hér er um að ræða, og leggja almannavarnir niður. Ég hef sérstakan áhuga é, að þessi möguleiki verði kannaður, að athugað verði, hvort ekki sé rétt að fela þessum lífrænu félögum, sem svo góð reynsla er fengin af í starfi, allt verksviðið, sem hér um ræðir, einnig það, sem nú felst í l. um almannavarnir, afnema lögin og leggja almannavarnir niður. Við erum búnir að vera að burðast með svokallaðar almannavarnir í 25 ár og það hefur aldrei nokkur skapaður hlutur verið gerður, sem gagn er í á því sviði, annað en eyða nokkrum tugum milljóna til einskis.

Þegar frv. til l. um almannavarnir var hér til umr. árið 1962, benti ég á margt af þessu, sem ég nú tala um. Því var ekki anzað, og nú átti svo sannarlega að fara að framkvæma þessa nauðsynlegu hluti, sem í frv. fólust, en hvað hefur skeð? Síðan eru liðin 4 ár, og enginn hreyfir hönd eða fót til þess að framkvæma ákvæði 1. um almannavarnir. Ég tel það ekki, þó að skrifstofubákni sé komið upp og þó að nokkrum millj. kr. úrlega sé varið til einhverrar skriffinnsku. Það hefur ekkert gagnlegt komið fram í sambandi við þessi lög ennþá. Og það má segja mér það, að svo muni haldast áfram. Lögin eru andvana fædd og þau verða líflaus, og ég tel hættulegt, eins og ég hef sagt, að ætla að gæða þau lífi, ætla að gæða þau blóði félaga, sem nú starfa við góðan orðstír og mikinn árangur. Það gæti orðið þessum félögum hættulegt. Þess vegna er það, að ég legg hér til, að málínu öllu verði vísað til hæstv. ríkisstj., það tekið til endurskoðunar og síðan teknar ákvarðanir í samræmi við niðurstöður hennar.