27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur nú mælt fyrir till. sinni um að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá. Grg. hans um málið að þessu sinni var mjög á sömu lund og við 1. umr. málsins, en þá svaraði hæstv. dómsmrh. hv. þm., og þarf ég því ekki miklu við að bæta.

Ég hygg, að við getum tæplega vænzt þess, að félög áhugamanna geti tekið á sínar herðar allt það starf og allan þann viðbúna,ð, sem félagslegt öryggi okkar krefst, að haft sé til reiðu í þjóðfélaginu, og jafnframt er ég sannfærður um, að því mun fjarri fara, að þarna kunni að verða nokkrir árekstrar á milli almannavarna og þeirra ágætu félaga, Slysavarnafélags Íslands og Rauða krossins og annarra slíkra félaga. Slysavarnasveitir, hjálparog björgunarsveitir, sem starfandi eru innan félagasamtaka áhugamanna, geta orðið og munu vafalaust verða kjarninn í almannavarnasveitum, og starfsemi þeirra mun áreiðanlega styrkjast við þá aðstoð, sem almannavarnirnar geta í té látið, bæði um búnað og þjálfun, og á það má benda, að nú þegar munu þessi félög hafa notið góðs af almannavörnum, t.d. með því að senda menn í almannavarnaskóla erlendis fyrir milligöngu almannavarnanna á Íslandi. Aldrei verður vitað, hvenær ósköp kunna yfir að dynja, og allur er varinn góður. Það er eðlilegt, að sú krafa sé gerð til löggjafarvalds og framkvæmdavalds, að uppi sé hafður skynsamlegur viðbúnaður til verndar almenningi og til hjúkrunar og hjálpar þeim, sem á þurfa að halda, ef ósköp kunna yfir að dynja. Annað væri ófyrirgefanlegt andvaraleysi, og ég er sannfærður um, að hv. 9. þm. Reykv. mundi, ekki síður en aðrir, ásaka stjórnvöldin fyrir vanrækslu, ef einhver slík ósköp kynnu yfir að dynja og enginn viðbúnaður hefði verið uppi hafður af þeirra hálfu til þess að mæta slíku. Ég held því, að það væri mjög óskynsamlegt að afgreiða þetta mál á þann veg, sem hv. þm. leggur til. Hvort tveggja er, að hér er um að ræða víðtækara og yfirgripsmeira mál en ætla má, að þessi ágætu félagasamtök, sem um hefur verið rætt, gætu ráðið við, og eins er á hitt að líta, að ekkert þessara félaga hefur látið í það skína, að þau hafi áhuga á eða bolmagn til að taka að sér þetta viðamikla verkefni. Þau hafa þó haft til þess tækifæri og tilefni.

Allshn. þessarar d. sendi bæði Slysavarnafélaginu og Rauða krossinum frv. til umsagnar, og Rauði krossinn hefur að vísu ekki neinu svarað, en hann hefur þó haft tilefni til þess, ef honum hefði þótt ástæða til, en umsögn Slysavarnafélagsins um frv. er á allan hátt mjög jákvæð. Og ég tel ekki nokkrum vafa bundið, að þessi ágætu félög munu fús til samstarfs við Almannavarnir ríkisins, hvenær sem á kann að reyna. Frávísun málsins mundi hafa í för með sér ástæðulausar tafir í framkvæmd þessa alvarlega máls, og enginn er kominn til að segja frá því nú, hvaða afleiðingar það kynni að geta haft.

Hv. 9. þm. Reykv. er óánægður með framkvæmd gildandi almannavarnalaga og telur hana hafa verið í molum. Ég skal nú ekki leggja dóm á þetta, en hæstv. ráðh. svaraði þessu við 1. umr. málsins. En hvað sem því líður, teldi ég ekki nema gott eitt um það að segja, ef þetta nýja frv. gæti orðið til þess að blása nýju lífi í framkvæmdina, og væri þá betur farið en heima setið.

Þá endurtók hv. þm. þá fullyrðingu sína, sem kom fram við 1. umr. málsins, að afnám herstöðva væri mikilvægasta ráðstöfun til almannavarna. Þessu svaraði hæstv. ráðh. á þann veg, að reynslan hefði sýnt okkur, svo að ekki yrði um villzt, að þessi staðhæfing væri röng. Þetta svar hæstv. ráðh. tek ég fullkomlega undir. Að öllu athuguðu hygg ég, að það væri mjög misráðið, svo að ekki sé sterkara til orða tekið, ef hin rökstudda dagskrá yrði samþ., og ég endurtek, að allur er varinn góður.