27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál að þessu sinni. Ég efast um, að nokkurs staðar, a.m.k. í hinum vestræna heimi, hafi læknir nokkurn tíma talað af jafnmiklum öfuguggahætti og fávizku um almannavarnir og hv. 9. þm. Reykv. Og það sýnir sig bezt á því, hversu í raun og veru kjánaleg, frá hans sjónarmiði, er sú till., sem hann flytur. Hann flytur till. um það að vísa þessu frv. frá, þar sem gert er ráð fyrir því, að almannavarnir taki sterkar en áður til varnar gegn náttúruhamförum, hafísum, eldgosum og annarri slíkri vá. Og ef þetta yrði samþ., standa eftir gömlu almannavarnalögin, en enginn held ég, að dragi í efa, að það sé bót að því að fá þessa breyt. á þeim og meira til öryggis fyrir almenning. Sök sér væri, ef hv. þm. hefði flutt sérstaka till. um það að endurskoða almannavarnalögin, en ekki flytja hana með þessum hætti. Hitt fær svo engan veginn staðizt, að ekkert hafi verið gert á grundvelli þessarar löggjafar. Það er ég búinn að segja áður, get að vísu endurtekið og það liggur fyrir í þskj., og hefur ekki verið mótmælt. Það kemur fram í grg. frá forstöðumanni almannavarna, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan þau tóku gildi, hafa ýmsir þættir almannavarna verið teknir til meðferðar og skýrslur og grg. samdar til undirbúnings þeim framkvæmdum, sem lögin kveða á um að gerðar verði og eru forsenda fyrir uppbyggingu almannavarnakerfisins. Er hér m.a. um að ræða fjarskipti, viðvörun, fræðslustarfsemi, könnun á skýlingarhæfni bygginga, námskeið fyrir leiðbeinendur, svo að nokkuð sé nefnt. Síðan hefur verið unnið að ýmsum öðrum atriðum, s.s. að útbúa gagnlegan upplýsingabækling fyrir almenning, sem tiltækur er, þótt ástæða hafi ekki þótt til þess enn að senda hann út. Svona staðhæfingar eins og þessar æ ofan í æ eru næsta furðulegar, þegar það liggur fyrir í grg. og er upplýst hér í ræðum, að sitthvað hafi þegar verið gert, sem hefur verulegt gildi. Hitt er viðurkennt og kemur fram í grg., að framkvæmd l. um almannavarnir hefur gengið hægt, og það er m.a. rakið til þeirra orsaka, að frumkvæðið á að vera hjá sveitarstjórnunum að setja upp almannavarnanefndir, en ekkert sveitarfélag hefur gert það nema Reykjavík. Mín skoðun er sú, að það sé alvörumál, að sveitarfélögin hér í nágrenni Reykjavíkur skuli ekki hafa sett upp almannavarnanefndir hjá sér, en ég get ekki sakast við þau um það, það er þeirra mál. En á meðan þau sjá ekki ástæðu til þess að gera neinar ráðstafanir til að koma á fót almannavarnanefndum, er það ekki á valdi dómsmrh. eða forstöðumanns almannavarna að hafa áhrif á gerðir þeirra. En ég endurtek það, að ég tel það alvörumál og andvaraleysí af hálfu fyrirsvarsmanna þessara sveitarfélaga að hafa ekkert gert í þessum efnum.

Ég tel fráleitt að tala um, að l. um almannavarnir geti orðið til að skyggja á eða hindra starfsemi félaga eins og Rauða kross Íslands eða Slysavarnafélagsins. Það liggur í augum uppi, að þetta fær ekki staðizt. Frá því er skýrt í nál. hér í d., að um þetta frv. hefur komið jákvætt svar frá Slysavarnafélagi Íslands, en forseti Rauða kross Íslands, dr. Jón Sigurðsson, var einn af aðalmönnunum við að semja frv. um almannavarnir í upphafi. Til ráðuneytis dómsmrh, á þeim tíma voru tveir íslenzkir menn kvaddir, lögreglustjórinn í Reykjavík og dr. Jón Sigurðsson, sem er form. Rauða kross Íslands, og það má nærri geta, hvort hann hefði unnið að því máli, ef Rauða krossi Íslands mislíkaði þessar aðgerðir. Þvert á móti hefur verið góð samvinna, að svo miklu leyti sem framkvæmdir hafa komizt á, á milli Slysavarnafélagsins og allt í fullu samráði við Rauða krossinn. Og þegar við fengum erlenda sérfræðinga til aðstoðar við samningu frv.. á sínum tíma, var það yfirmaður „Sivilforsvaret“ eða almannavarna í Noregi, og læknir frá Danmörku, sem var yfirmaður þeirra þátta almannavarna, sem lækningar og hjúkrun snerta, og hann hafði nokkuð aðra skoðun á þessu máli en fram hefur komið hér hjá hv. 9. þm. Reykv., sem er þó læknir líka sjálfur.

Ég nenni svo ekki að elta ólar við allan þennan öfuguggahátt, en vænti þess, að d. afgreiði þetta mál og það megi verða til góðs. Það er alveg rétt, að það getur enginn sagt fyrir um það, hvenær kemur að því, að það verði gagn og bót að því að hafa slík lög. En það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í, og hver einasta þjóð, sem við þekkjum til í nágrenni okkar, bæði austan og vestan járntjalds, hefur víðtækar ráðstafanir til almannavarna hjá sér, og ég hygg, að það mætti segja, að við Íslendingar værum nokkuð einkennilega gerðir, ef við styngjum algerlega höfðinu í sandinn, eins og strúturinn, og hefðumst ekkert að í þessum efnum.