02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1967

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gaf þær upplýsingar í ræðu sinni hér áðan, að 4700 millj. kr. væru 18% af þjóðartekjunum, m.ö.o. að okkar þjóðartekjur væru nú um 26 þús. millj. Ég hafði satt að segja ekki fengið upplýsingar um það, að þær væru orðnar þetta háar, en það er mjög eftirtektarvert, að þegar svo er komið hjá okkur — (Gripið fram í.) Jæja, þá skulum við segja það, að það sé áætlað á næsta ári. Ef við áætlum okkar tekjur á næsta ári 26 milljarða, þýðir það, að það er á hvert mannsbarn í landinu 134 þús. og gefur til kynna, að okkar heildartekjur séu orðnar miklum mun meiri en ég fyrir mitt leyti og þeir, sem ég tala við um þessi mál, hafa fram til þessa reiknað með. Ég verð að segja það, að ef þessar tölur reynast réttar, þá eru þessar upplýsingar einhver sterkustu rök fyrir því, að það þurfi að gerbreyta tekjuskiptingunni hjá þjóðinni, alveg gerbreyta henni. Það er vitanlegt t.d., að Dagsbrúnarmaður, sem vinnur 8 tíma árið um kring, hefur nú, ef hann er í 1. launafl., ekki nema rétt rúmar 100 þús. kr., í 3. og 4. launafl. eru það 110–120 þús. Þetta eru einhver sterkustu rök, sem fram hafa komið fyrir því, að það þurfi að verða verulegar breytingar á því, hvernig þjóðartekjum sé skipt á milli íbúanna. Það er þá mun meira ranglæti í okkar þjóðfélagi hvað tekjuskiptingu snertir heldur en nokkurn hefur yfirleitt grunað, sem hefur þó haft augun sérstaklega opin fyrir þessari þróun. Ég held, að þetta þurfi mjög alvarlega að athuga, ekki sízt með tilliti til þess, sem nú er rætt um t.d. ráðstafanir gegn verðbólgunni, hvaða ráðstafanir þjóðfélagslegar út frá réttlætissjónarmiðum þurfi að gera um leið. Þetta bendir til, að það hljóti að vera, svo að þúsundum skiptir, menn í landinu, sem hafa tekjur, sem eru um milljón og þar yfir á ári, og ákaflega mikill fjöldi milli hálfrar og heillar millj., án þess að þessar tekjur yfirleitt komi fram á skattskýrslum. Enda er það svo í sambandi við þær eignayfirfærslur, sem heyrist talað um nú, að það virðist sýna mikla gloppu í öllu eftirliti hvað skattana snertir. Ég skal aðeins nefna dæmi: Menn, sem hafa engan eignarskatt og það, sem kallað mundi vera vinnukonuútsvar, geta keypt villur, sem kosta 5 millj. kr., og snarað út 5 millj. kr. í reiðufé. Ástandið í okkar þjóðfélagi er þannig, að með þessum gríðarlegu þjóðartekjum er þörfin á nýrri uppskiptingu orðin miklu brýnni og miklu réttlátari en nokkurn, sem yfirleitt hefur viljað að henni vinna, hefur grunað. Ég hafði satt að segja fram á síðustu stundu reiknað með þjóðartekjum, sem væru undir 20 milljörðum. Ef þjóðartekjurnar komast á næsta ári upp í 26 milljarða miðað við það, sem gengið hafði verið út frá að verði nú í ár, og sjálfur hæstv. fjmrh., sem er ákaflega gætinn maður í þessum efnum, getur reiknað með svona tölum, þá er sannarlega þörf fyrir okkur að fara að íhuga ýmsa hluti betur.

Þetta var nú aðeins innskot. Ég ætla ekki að fara út í almennar umræður í sambandi við þetta, heldur aðeins segja nokkur orð um brtt., sem ég flyt á þskj. 113 ásamt hv. 5. þm. Reykn. Það eru ósköp litlar till. og virðast ekki munu valda miklu raski á þessum stóru fjárlögum, sem hér er um að ræða.

Það er í fyrsta lagi till. um, að menntmrh. sé heimilað að ráða til kennslu í háskólanum þrjá háskólakennara í íslenzkri sögu og bókmenntum, það er náttúrlega ekki um að setja ný embætti þar, heldur aðeins að ráða þar í vetur. Ég flutti slíka till. í fyrra, og ég held, að það hafi á vissan hátt mætt nokkrum skilningi, — það hefur komið fram á öðru sviði, og ég vildi mega vonast til þess, að þetta mætti líka skilningi núna. Sérstaklega legg ég það til, að þessum mönnum sé gefið tækifæri til vísindastarfs á sínum sviðum. Ég tel, að það skipti bæði okkar núverandi öld, sem nokkuð var rætt um í fyrra og við vorum sammála um að væri mjög út undan í öllum vísindalegum rannsóknum, en líka hvað snertir eldri tíma.

Þá legg ég til í öðru lagi, að til þjóðminjasafnsins séu veittar 200 þús. kr. til kvikmyndagerðar til að taka dokumentmyndir, bæði af því, sem er að gerast, og eins af sögulegum minjum. Við höfum hvað eftir annað séð það, hvernig gamlar sögur eða minjar, hús í bæjunum og annað slíkt hverfur, án þess að það meira að segja séu til myndir af því. Með öllum þeim tækjum, sem við höfum í þessum efnum nú, er þetta alveg ófært varðandi þá atvinnuhætti, sem enn viðgangast hjá okkur og við þyrftum að búa til heilar myndir af, sjóróðra upp á gamla mátann, ef það væri hægt enn þá, eða vinnuna í sveitinni og annað slíkt. Þetta eru allt saman atriði, sem þarf að taka filmur af hjá okkur og hverfandi lítið er gert að.

Þá legg ég til í þriðja lagi í sambandi við 14. gr. B, að það séu veittar til viðhalds Viðeyjarstofu 500 þús. kr. Ég vil í því sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., — það þarf ekki endilega að gefa upplýsingar um það nú, það má gera við síðari umr., — mig minnir, að fyrir nokkrum árum, eða kannske bara fyrir 1–2 árum, hafi verið gefin heimild handa ríkisstj. á 22. gr. til kaupa á Viðey. Einhvern tíma, þegar ég var að grennslast eftir þessu, minnir mig, að ég hafi fengið þær upplýsingar, að það hafi verið horfið frá því að reyna slíkt. Ef ég man rétt, þá skildist mér, að það væru svo háar upphæðir, sem þarna væru heimtaðar fyrir, að menn hefðu horfið frá því. Ég skal ekki selja það dýrara en ég keypti, en einhvern tíma hef ég heyrt fleygt upphæð upp á 80 millj. fyrir Viðey. Nú vil ég segja það, ekki sízt þegar við vitum, hvað er að gerast hérna í kringum okkur við að kaupa upp lóðir, sem kosta milljónatugi hér í miðbæ Reykjavíkur, að það er að verða gjörsamlega óþolandi ástand í þessum efnum, og það er slæmt, að við skulum ekki hafa fyrir löngu sett verðhækkunarskatt á lóðir, því að við vitum, að öll gildisaukningin í þeim er ekki bara verðbólga, það er líka beinlínis, að aðgerðir hins opinbera, aðferðir þjóðfélagsins skapa þarna verðmæti, sem einstaklingurinn sjálfur hefur ekki gert og á í raun og veru ekki skilið að hafa neitt upp úr. Mér hefur oft dottið það í hug, hvort við gætum ekki komið okkur saman um að setja verðhækkunarskatt. Að vísu veit ég, að ýmsum mundi þykja það að því leyti óréttlátt, að ýmsir, sem selt hafa lóðir, slyppu þó vel, en aðrir, sem hafa ekki selt enn þá lóðir, yrðu verr út úr því. En það verður varla komizt hjá því, að einhvern tíma gerist slíkt óréttlæti í sambandi við, að verið sé að skapa réttlæti gagnvart framtíðinni. Það mætti upp á framtíðina m.a. koma því þannig fyrir, að menn væru látnir meta sínar lóðir nú sjálfir til eignar, til verðs, og það væri skráð í þeirra eignarskattsskýrslum, hvað þeir mætu þær á. Síðan væri keypt á því verði, þegar ríkið vildi kaupa. Þangað til svo yrði gert borga þeir eignarskatt af þessu. Ég skýt þessu fram til athugunar. En eitthvað þarf að fara að gera til þess að hemja þá auðsöfnun, sem skapast fyrirhafnarlaust hjá einstaklingum með því að liggja bara með lóðir. Við skulum bara hugsa okkur, um það bil sem byggð yrði brú út í Viðey, hvað hún mundi hækka, og er það sannarlega ekki framkvæmd, sem viðkomandi eigandi t.d. hafi lagt peninga fram til. En hvað sem það þá snertir allt saman, það á a.m.k. ekki að láta glatast það þjóðminjaverðmæti sem Viðeyjarstofa er. Þess vegna álít ég, að það þurfi af hálfu ríkisins að taka ákvarðanir um að leggja frami fé til þess að viðhalda henni, þangað til róttækari ráðstafanir eru gerðar.

Þá legg ég það til, og ég stend einn að þeirri till., að í sambandi við 15. gr., þ.e.útgjöldin til kirkjunnar, sé sá liður, sem nú er framlag til byggingar Hallgrímskirkju, um 800 þús., orðaður eins og þar stendur: „Til þjóðkirkju Íslands til þess að líkna hungruðum og þjáðum þar í heimi, sem biskup landsins álítur þörfina mesta.“ Ég verð að segja það, að þessi bygging Hallgrímskirkju er í mínum augum eitthvert leiðinlegasta dæmið um spillingu í kristnum sið á Íslandi. Ég held það sé varla nokkur hlutur, sem ber annan eins vott um þá sýndarmennsku, sem er að gagnsýra okkar þjóðfélag og kirkjan alveg sérstaklega hefur smitazt af. Það eiga sér stað hörmungar úti um heim, eins og oft hefur verið áður og ekki síður nú, og það er eftirtektarvert t.d., að ekki hvað sízt á Norðurlöndum og ekki hvað sízt hjá æskunni er athyglinni meira beint nú t.d. á öllum Norðurlöndum að því, sem er að gerast í þeim hluta heimsins, sem hungrar, heldur en því, sem er að gerast í löndunum sjálfum. Í sambandi við æskulýðshreyfingu, t.d. í Svíþjóð, og ekki sízt í sambandi við verkalýðshreyfinguna, þá er áhuginn fyrir því, sem er að gerast, og fyrir því, hvernig því fólki liður, sem á um sárt að binda í vanþróuðum löndum, ég tala nú ekki um í þeim löndum, sem þar að auki er styrjöld í, — þá er áhuginn fyrir því að líkna á einhvern máta, hjálpa á einhvern máta og annað slíkt meiri en fyrir sjálfri kjarabaráttunni í viðkomandi löndum. 1. maí t.d. í Svíþjóð var fyrst og fremst helgaður þessari baráttu frekar en kjarabaráttu verkalýðsins sjálfs. Við hér heima höfum því miður verið aftur úr í þessum efnum, og ég sé ekki, að hin evangelíska lúterska kirkja hér á Íslandi hafi verið þar öðruvísi en aðrir. Til allrar hamingju hefur einmitt æskulýðurinn hér á Íslandi og það æskulýðssamtökin, bæði í pólitískum flokkum og fleirum, sýnt þar lofsverðan árangur. Þegar verið er að gera annað eins og byggingu þessarar Hallgrímskirkju, sem auðsjáanlega ruglar öllum þeim hlutföllum, sem verið hafa í allri byggingu í Reykjavík til þessa og verður dæmi um smekkleysu, sem menn koma til með að líða undir í framtíðinni, ef þetta verk kemur til með að halda áfram, þá held ég það mætti gjarnan draga upp þá mynd frammi fyrir kristinni kirkju, hvort er nær þeim anda, sem hún þykist vera fulltrúi fyrir, að kasta peningum í svona steinbákn til að sýnast voldugur eða verja fé til að reyna að líkna þeim, sem þjáðir eru. Ég held það væri rétt, að Alþ. léti þjóðkirkju Íslands fá að vita af skoðun sinni í þessum málum. Alþ. leggur fram fé til kirkjubyggingasjóðs, þ.e. óskert, ef ég man rétt, ég man ekki hvað það er, 11/2 millj., og ég sé ekki, að það liggi meira á kirkjubyggingum hér á Íslandi en svo, að það sé alveg nægilegt í bili. Enn sem komið er er það Svo, að fegurstu kirkjurnar, sem við eigum, eru gamlar torfkirkjur. Meðan við höfum ekki lært að gera öllu betur í kirkjubyggingum, held ég við eigum að taka þetta alveg rólega, og sérstaklega ekki gera það, sem væri í senn alveg í mótsetningu við alla kristna siðfræði, en yrði um leið til stórlýta á höfuðborg landsins, ef haldið yrði áfram eins og nú er gert.