02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var eingöngu vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Reykv. um Viðeyjarstofu, sem ég kvaddi mér hljóðs. Það er rétt, að heimild hefur verið til þess að festa kaup á Viðey eða fyrst og fremst Viðeyjarstofu, sem að sjálfsögðu er áhugaefni manna að vernda. Ég skal ekki rekja þá sögu, það hefur verið dálítið erfitt að leysa þann hnút, en nú er málið komið í þann farveg, að það má sjá fyrir endann á því, þannig að það hefur orðið samkomulag á þann hátt, að gefinn er kostur á að kaupa Viðeyjarstofu og vissa landræmu þar, sem þýðingu hefur í þessu sambandi, ekki alla eyna, sem ríkið hefur ekki talið ástæðu til að kaupa, en samkomulagið byggist á því, að það fari fram mat. Hvort að lokum mönnum þykir, að þar sé um slíka upphæð að ræða, að það þyki ekki ráðlegt, skal ég ekkert um segja. En við skulum vona, að það verði ekki. Út af fyrir sig er ekki ástæða til að halda, að Viðey sem slík, verðgildi hennar sé neitt í samræmi við lóðaverð hér í miðbænum.

Að öðru leyti vil ég þó aðeins undir það taka, að það eru vissulega mörg rök í því, sem hv. þm. sagði, að það væri ástæða til að leggja á verðaukaskatt, vegna þess að verðmæti eigna, sem koma til verðaukningar eingöngu vegna aðgerða þjóðfélagsins, eru auðvitað út af fyrir sig atriði, sem er eðlilegt að taka til athugunar. Það er meira mál en svo, að ég vilji út í það fara, en það er vissulega rétt hjá hv. þm., að það er mikið vandamál í vissum tilfellum að tryggja jafnvel slíka höfuðverðmuni þjóðernislega séð og menningarlega, einmitt af þessum ástæðum. Við skulum vona, að það fáist á þessu viðhlítandi niðurstaða og að þetta mat verði ekki hærra en svo, að mönnum þyki möguleiki að ráðast í þessa framkvæmd, sem vissulega er mjög þjóðnýt.