11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

166. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég komst víst þannig að orði hér áðan, að það hefði sín áhrif, þegar ráðh. færi með stjórnarþm. út í horn og ræddi við hann afsíðis, og ég held, að ég hafi nú fengið fullkomna sönnun fyrir þessu strax eftir að ég lét þessi ummæli falla, því að þeir þm., sem minnast hinnar skeleggu ræðu, sem 11. landsk. þm. flutti hér, þegar veiðarfærafrv. var til umr. á sínum tíma, og bera hana svo saman við þá ræðu, sem hann flutti hér áðan, hljóta að sannfærast um það, að það sem ég hef sagt um ráðherra og stjórnarþm., hafi við fullkomin rök að styðjast, því að ég man ekki eftir því, að það hafi verið öllu meiri vindur, í þm. en hv. 11. þm. landsk., þegar hann reis upp og fór að mótmæla veiðarfæraskattinum, sem fólst í upphaflega frv. ríkisstj. Hann talaði þá mjög kröftuglega, og það svo kröftuglega, að margir þingbræður hans urðu hrifnir af honum, og einn meira að segja svo hrifinn, að hann flutti um hann á eftir mikla hólræðu í ríkisútvarpið og sagði, að það væri þó a.m.k. einn stjórnarþm. á Alþ., sem þyrði að standa uppi í hárinu á ráðh. Og mér er ekki grunlaust um, að þetta hól hafi átt sinn þátt í því, að Þorvaldur Garðar féll frá fundinum á Ísafirði, eins og frægt er orðið. Nú er Þorvaldur fallinn og ráðh, búinn að tala við þm., og þá kemur hann hér upp sem ljúfur og beygður maður, og ákaflega hógvær, eins og hann var hér áðan. Það sem hann hafði að gera hér upp í pontuna var eiginlega að rekja sína eigin píslarsögu, sem var í stuttu máli á þann veg, — jú, það er alveg rétt, að hann hafði talað skelegglega á móti 2% veiðarfæraskattinum, — að hann hefði svarið og sárt við lagt, að hann skyldi sjá um það, að slíkur skattur skyldi aldrei ná fram að ganga, en ríkisstj. var nú heldur ekki ráðalaus til að beygja þennan óþekka þm., því að það, sem hún gerði næst, var að setja innflutningshöft á veiðarfærin. Þá var nú þannig komið, að hans dómi, að hann þurfti að fara að semja, og út úr því kom það, að ríkisstj. fékk hann til að fallast á 1% veiðarfæraskatt eða svona 4–5 millj. kr. álag á útgerðina. Ég held, að hv. þm. hefði farið allt öðruvísi að, ef hann hefði verið trúr og sannur fulltrúi fyrir þennan atvinnuveg, sem hann telur sig bera fyrir brjósti. Ég held, að hann hefði blátt áfram sagt þáð og staðið við það, að afkomu sjávarútvegsins væri nú þannig komið, að það væri ekki undir neinum kringumstæðum rétt að bæta á hann nýjum pinklum. Og ég held, að ef hann hefði nú bara staðið eins fast í ístaðinu og ráðh. og ekki látið undan síga, hefði það orðið ríkisstj., sem hefði bognað, en ekki hann. Ég er ekki farinn að sjá það, ef þessi hv. þm. og einhverjir af hans flokksbræðrum hefðu haldið fast við þá afstöðu, sem þeir höfðu hér upphaflega í þinginu, að ríkisstj. hefði treyst sér til þess nú fyrir kosningarnar, að leggja þennan skatt á, í andstöðu við sína stuðningsmenn, hún hefði heldur ekki getað gert það, vegna þess að hún hefði ekki haft fylgi til þess. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef þeir hefðu tekið nógu öfluglega í taumana, þegar innflutningshöftin voru lögð á veiðarfærin, hefðu þeir líka getað fengið þau felld niður, ef þeir hefðu bara staðið sig jafn hraustlega og ráðh, hafa gert í þessari viðureign við þá. Þeirra afstaða er vissulega sú, þeirra manna, sem eru fulltrúar fyrir sjávarútveginn nú, að þeir eiga ekki að þurfa að semja neitt um það, að það eigi að leggja skatt á þennan atvinnuveg, vegna þess að það er ekkert annað en fjarstæða og rangindi að halda slíku fram. Á hallarekinn atvinnuveg á ekki að leggja nýja skatta.

Hv. þm. talaði mjög fagurlega um það, að það mundi allt standa og falla með sjávarútveginum, og það er talsvert mikið rétt í því, en því aðeins verður sjávarútveginum haldið uppi og hann fær um að gegna því mikilvæga hlutverki, sem hann hefur í þjóðfélaginu, að þeir menn, sem sérstaklega telja sig valda til að vera forsvarsmenn hans, haldi fast á málum og bogni ekki, eins og hv. þm. hefur gert í þessu máli. Því að hans afstaða er vissulega þannig, og afstaða sjávarútvegsins er þannig, að þeir eiga ekki að þurfa að semja um að lagðir séu á hann neinir nýir skattar. Ef þeir standa nógu traustlega á verði gegn ríkisstj., sem vill leggja slíka skatta á, þá verða þeir ekki látnir ná fram að ganga. En það, sem hér hefur gerzt, er það, að með því að ráðh. hafa tekið þessa óþekku stjórnarþm. út í horn. hafa þeir vikið frá sinni upphaflegu afstöðu og ríkisstj. komið fram mestu af því, sem hún ætlaðist til með sínu upphaflega frv. Og niðurstaðan verður sú, að enn þá verður einum pinklinum bætt á sjávarútveginn til viðbótar. Og þess vegna var það líka ákaflega auðskiljanlegt, að hv. þm., sem var hér fullur af vindi fyrir 4–5 mán. síðan, þegar verið var að mótmæla þessum skatti upphaflega, var núna bljúgur og sagðist hafa þurft að semja. En sannleikurinn var bara sá, að þm. hafði slíkan málstað, að hann þurfti ekki neitt að semja. Og ég vildi að lokum segja það, að þessi hv. þm. þarf að öðlast þann skilning á afstöðu sjávarútvegsins og standa þar svo fast á verði fyrir hann, að í slíkum málum á hann ekki að vera að hugsa neitt um það að semja, heldur halda málstaðnum fram til hins ýtrasta, og þá getur hann verið viss um það, að þeir, sem á móti standa; láta undan, og það er aðeins með þessum eina hætti, sem hægt er að tryggja sjávarútveginum í framtíðinni þá aðstöðu, sem hann vissulega á að njóta.