02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði úr ræðu hæstv. fjmrh., sem ég þarf að gera aths. við. Út af stóryrðum þeim, sem hann viðhafði í ræðu sinni hér áðan um endemi, rangfærslur, ósköp og að koma illu af stað, vil ég segja það, að í ræðu minni var ekkert af þessum orðum. Ég þurfti ekki til þeirra að grípa, vegna þess að sá málstaður, sem ég talaði fyrir og ræddi um, nægði til að ræða það, sem þar var um að ræða, en stóryrðin þurfti þar ekki. Það er ekki heldur mín sök, þó að hæstv. fjmrh. komi í hug orð eins og endemi og hann standi undrandi, þegar lýst er rétt fyrirheitum stjórnarliða og framkvæmdum þeirra á þessum fyrirheitum. Ég á ekki sök á því, hvorki á fyrirheitunum né framkvæmdinni, og þess vegna er það alveg laust við mig. Hæstv. fjmrh. vék hér að vegamálunum og 47 millj. kr. úr ríkissjóði, sem vantaði á fjárlög yfirstandandi árs og vantar á fjárlagafrv. næsta ár. Hann taldi sig ekki vita um fyrirheit samgmrh. þar um. Það má þó öllum ljóst vera, sem vilja kynna sér málið. Um það eru óyggjandi sannindi í þingtíðindum, sem ég vitnaði til hér áðan. Það breytir engu um þetta atriði, þó að málið nú sé til athugunar, eins og hæstv. fjmrh. vék að. Hæstv. samgmrh. reyndi að skjóta sér undan því í fyrra, að málinu yrði bjargað með nýjum athugunum, en það er ekki að veita fé á fjárlögum, þó að nýr tekjustofn verði fundinn. Ef verður horfið að því ráði að veita fé á fjárlögum aftur, 47 millj. kr., er staðið við það, sem samið var um, en öðruvísi ekki.

Hæstv. ráðh. vék að því, að ég mundi vera fjármálaráðherraefni Framsfl., og fannst honum það ekki álitlegt. Það hefur verið venja þeirra hæstv. ráðh., að inntakið úr ræðum þeirra hefur venjulega verið þetta tvennt: Ykkur langar í stólinn minn. Það er aðeins ein leið til í hverju máli. — Það má vel vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki litizt á þá efnahagsmálastefnu eða þá fjármálapólitík, sem honum fannst hann finna út úr ræðu minni. En eitt vil ég segja þessum hæstv. ráðh. í sambandi við þetta, að ég treysti því, að næsti fjmrh. og næsta ríkisstj. átti sig á því, að það eru til fleiri en ein leið í hverju máli. Og þegar ríkisstj. er farin að framkvæma eina leið og sér, að hún misheppnast, eins og ég sýndi fram á með rökum, að efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. hefðu gert, á hún að átta sig á því, að þær hafa mistekizt og að það þarf að finna aðrar leiðir.

Ég vil minna á ræðu hæstv. forsrh. á flokksráðsfundinum. Þar var hann farinn að velta því fyrir sér eins og mörgu fleira í þeirri ræðu, hvort það gæti verið, að það ættu ekki við sömu leiðir í efnahagsmálum hér á landi og annars staðar. Það hefði verið nauðsyn, að hæstv. forsrh, og hæstv. fjmrh. og ríkisstj. yfirleitt hefði gert sér grein fyrir því, að stefna hennar í efnahagsmálum hefur mistekizt, og um þessa einu leið, sem hún taldi sig eygja, hefði verið fullkomin ástæða til að gera tilraun til að leita eftir því, hvort það væri ekki önnur leið til.

Þá kom hæstv. fjmrh. að því, sem ég sagði hér í sambandi við undirbúning fjárlagafrv. Taldi hann, að ég hefði sveigt þar óeðlilega að hagsýslugerðinni, og þar hefði enginn verið að sveigja neitt að embættismönnum þeim, sem hefðu starfað að fjárlagaundirbúningnum. Hvað gerði hæstv. fjmrh. í ræðunni hér áðan, þegar hann talaði um fjárveitingar til embætta? Hann sagði, að þær væru nú raunhæfari, og að skera niður út í bláinn, það væri engin skynsemi í slíkum vinnubrögðum, en það voru vinnubrögðin, sem hæstv. fjmrh. beindi orðum sínum að, að áður hefðu verið viðhöfð.

Það var skorið niður út í bláinn. Það var engin skynsemi í slíkum vinnubrögðum. Og svo er ekki verið að sveigja að neinum, þó að sagt sé, að þeir viðhafi slík vinnubrögð við undirbúning á fjárlögum ríkisins að skera þau niður út í bláinn, alveg án tillits til þess, hvort þau eru raunhæf eða ekki. Þetta segi ég, að sé að sveigja að mönnum.

Þá var það hagsýslan. Hæstv. ráðh. taldi, að hún hefði leitt til bættra vinnubragða. Gott væri, ef svo mundi reynast og áætlanir nú væru raunhæfari en áður Ég vil endurtaka, að það er ofrausn, það er ekki rétt stefna að veita hverju embættinu á fætur öðru 30–40 og jafnvel upp í 50% hækkun. Ef það á að gera, er ekki hægt að neita um framlög til nauðsynlegra verkefna, eins og hér hefur verið drepið á, ef ríkið hefur efni á því að vera rausnarlegt. Ég er líka sannfærður um, að þessi rausn þeirra mun ekki leiða til minni eyðslu hjá þessum embættum, nema síður sé. Þeir þurfa að sækja minna undir ráðuneytin til þess að eyða háum fjárhæðum en áður hefur verið, og ég er sannfærður um, að það hefur dregið úr rekstrarkostnaði hjá embættunum einmitt það, þegar fjárveitingarnar hafa verið þannig, að þau hafa orðið að sækja undir ráðuneytin. Hitt er svo annað mál, að í sambandi við fyrri áætlanir, þó að nokkuð rétt hafi verið áætlað, þá hefur verðlagið í landinu haft áhrif þar eins og á annað og breytt auðvitað áætlun. En það hefur verið reglan hjá ríkisstj. og þeim, sem hafa undirbúið þetta, að ganga ekki of langt í fjárveitingum til embætta og starfshópa. Það má vel vera, að þessi hagsýsla reynist vel, ég skal ekkert um það segja. Hitt er jafnrétt, að tekjuskatturinn gleymdist úr áætluninni, þó að hann fyndist í lokin. En hvernig fannst hann? Hann fannst þannig, að Efnahagsstofnunin gerði nýja áætlun, sú áætlun varð 47 millj. kr. hærri en sú, sem fjárlagafrv. byggði á, 7 fóru inn á fjárlagafrv., en hinar féllu í gleymskuna. Það þýðir ekkert á móti að mæla, enda fékk ég þessar upplýsingar í fjvn. Það er líka rétt, að niðurgreiðslurnar voru 508 millj., áður en haustniðurgreiðslurnar komu til. Ég óskaði eftir því við hagsýslustjóra að fá upplýsingar um niðurgreiðslurnar, eins og nú væri áætlað, og fékk á mánudagsmorgun bréf frá honum um það, að þær lægju ekki fyrir. Ég frétti af því á laugardaginn, að hann lægi veikur, svo að ég hringdi í hagstofustjóra og bað um þetta og og fékk þær allar tafarlaust, þ. á m. það, að 508 millj. voru það, sem var ákveðið fyrir septemberhækkunina. Hitt er viðbótin. Þetta er augljóst mál, og við þurfum ekkert að deila um það. Þetta vitum við, sem nú erum í fjvn., og það var ekkert leyndarmál. En eins og ég sagði áðan, segir þetta ekkert um það, að þessum mönnum geti ekki tekizt, þó að viss yfirsjón eigi sér stað í byrjun starfs. Hitt sýnist mér, að hér eigi að fara að sem fyrr, að það eigi að vera sama auglýsingaskrumið og hefur verið hjá hæstv. ríkisstj. um sparnað, hagsýslu og annað því um líkt. Það hafa verið hennar ær og kýr, en framkvæmdin hefur svo orðið eins og ég hef lýst.

Í framhaldi af þessu vil ég svo koma að sparnaðarliðunum. Hæstv. fjmrh. sagði, að það þýddi ekkert að vera að tala um sparnað út í hött, það yrði að vera raunhæft, og þetta hefði verið ábending. Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, kveðja til eitt vitni og jafnvel minna hæstv. ráðh. á það, að þeir eru ekki að byrja í ríkisstjórn núna. Þetta er ekki fyrsta fjárlagafrv., sem þeir sjálfstæðismenn semja. Þeir hafa samið fjárlagafrv. fyrr, og þeir geta ekki alltaf búizt við því, þeir hæstv. ríkisstjórnarherrar, að þeir geti komið hér á hv. Alþ. eða í ræðum og riti, talað um sparnað, hagsýslu og annað því um líkt og haft framkvæmdirnar svo eins og raun ber vitni um.

Nú ætla ég að leiða eitt vitni enn til sönnunar um það, að það var gefið fyrirheit um rækilega endurskoðun á fjármálakerfi ríkisins. Það þótti þörf á því, þegar Framsfl. fór úr ríkisstjórn. Og það var ekki litið á verkefni, sem þá blöstu við, með neinum Framsóknargleraugum, og það voru ekki heldur gefin fyrirheit eftir neinum Framsóknarkokkabókum. Og nú ætla ég að lesa hér úr nál frá meiri hl. fjvn. um fjárlög ársins 1960. Undir það nál. skrifa, með leyfi hæstv. forseta, Magnús Jónsson, formaður og frsm., Birgir Finnsson, Guðlaugur Gíslason, Jónas G. Rafnar og Jón Árnason. Og nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér ályktunargrein, sem er tekin úr síðasta kafla úr þessu almenna yfirliti. Þar segir svo:

„Það er álit meiri hl. n., að við undirbúning næstu fjárlaga verði að framkvæma slíka heildarathugun ríkisútgjalda og gera allar tiltækilegar ráðstafanir til sparnaðar. Till. um það efni verða ekki fram bornar án rækilegrar athugunar og undirbúnings, sem fjvn. er ekki unnt að framkvæma á fáum vikum. Því miður hafa flestar sparnaðarráðstafanir á undanförnum árum ekki borið mikinn árangur, og er því mikilvægt, að málið verði nú tekið föstum tökum og raunhæfar sparnaðarráðstafanir gerðar. Tekur meiri hl. n. undir ummæli fjmrh. í framsöguræðu hans fyrir fjárlagafrv. og væntir þess fastlega, að næsta fjárlagafrv. beri þess merki, að verulegur árangur hafi orðið af viðleitni fjmrh. í þessu efni.“

Þetta var árið 1960, sem þessi yfirlýsing var gefin. Og nál., sem ég las úr hér í dag, þar sem talin voru upp sparnaðarfyrirheitin, var nál., sem kom, eftir að heildarathugun hafði verið gerð með sparnað fyrir augum. Það var nál., sem kom 1961. Þá voru þeir búnir að hafa tíma til að gera heildarathugun á fjárlögum ríkisins til þess að miða sparnaðartill. við raunhæfar till. Þá voru gefnar yfirlýsingar, fyrirheitin um 29 atriðin í fjárveitinganefndarálitinu, og ráðh. bætti svo 30 við fyrsta árið og annað árið. Og svo er hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, undrandi yfir því, að stjórnarandstaðan skuli leyfa sér að fetta fingur út í þessi vinnubrögð. Það er bara með endemum að ganga að slíkum verkum, telur ráðh.

Er það með endemum, segi ég, að gagnrýna slík fyrirheit? Hvað má þá segja um þá, sem gáfu fyrirheitin, sem ekkert hefur orðið úr?

Hæstv. ráðh. sagði, að skattstofurnar hefðu orðið mikið til bóta og ég hefði sem sveitarstjóri rekið þar eftir verkum. Það er rétt, enda hefur ekki af veitt. Var það Framsfl. eða ég, sem lýsti því yfir hér á hv. Alþingi, að breytingin á skattakerfinu yrði til sparnaðar? Hæstv. fjmrh. ætti að glugga í tvær fyrstu fjárlagaræður fyrirrennara síns, vita, hvaðan fyrirheitin um sparnað á skattakerfinu eru komin. Ég var ekki að ræða um breytinguna á skattakerfinu hér í dag. Ég var að sýna, hvernig fyrirheitin um sparnað af breytingunni hefðu orðið, 360% hækkun. Það er þetta, sem ég var að ræða um. Mér var það ljóst þá í upphafi, að þetta mundi ekki leiða til sparnaðar. Hitt gat vel verið, að þetta yrði til þess að gera skattaeftirlitið í landinu betra. Því miður hef ég einnig orðið fyrir vonbrigðum þar. Sú reynsla, sem ég hef af framkvæmd skattalaganna, er ekki svo góð, að þetta kerfi hafi skapað trú hjá mér, þó að ég vilji ekki segja, að það sé forkastanlegt. En við verðum bara að gera okkur grein fyrir því, að þegar ríkisstj. slær um sig með slíkum fyrirheitum, verður hún einnig að sæta gagnrýni fyrir það, þegar það gengur á annan veg.

Ég minnist þess einnig, að þegar Gjaldheimtan var boðuð, átti það að vera mikill sparnaður við tollstjóraembættið. Raunin er svo önnur. Það hefur hækkað á milli 300 og 400% kostnaðurinn við það embætti. Það er ekki dómur minn um þessa stofnun, sem um er að ræða, heldur fyrirheitin og yfirlýsingarnar.

Ég minnist þess einnig, að hæstv. fjmrh. og utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sagði hér á hv. Alþingi, þegar var verið að afgreiða fjárlögin 1959, að það mætti mikið spara í ríkisbákninu. Ég minnist þess líka, að hann talaði um að leggja niður sendiráð á Norðurlöndum. Þessi hæstv. ráðh. sat hér lengi í ríkisstj. Þið sjáið, hvernig hefur verið sparað í ríkisbákninu, hvernig hefur verið framkvæmd á utanríkismálunum, undir hans stjórn. Þeir, sem slá slíku fram, eins og hefur verið gert af hæstv. stjórnarliðum oft og mörgum sinnum, verða einnig að þola, að það sé gagnrýnt af öðrum. Það var ekki heldur yfirlýsing Framsfl. um það að halda dýrtíðinni í skefjum án nýrra skatta. Það er hægt að finna í ræðu, sem Emil Jónsson, hæstv. utanrrh., flutti í útvarpið fyrir kosningarnar 1959. Í lok þeirrar ræðu hygg ég, að þar standi: „Fyrirheitin, það eru þau, sem ég er að ræða um, og framkvæmdirnar.“ Það er þetta, sem ég gagnrýni, að slá slíku fram, án þess að nokkuð verði úr.

Þá kom hæstv. fjmrh. að því, að ég hefði tekið mikið í fang, er ég fór að reyna að gera mig góðan í augum lækna og verkfræðinga. Svo er nú það. En hvað sem hæstv. ráðh. kann um það að segja, er staðreyndin þessi, að hæstv. ríkisstj. er búin að vera nokkur ár í stríði við þessar stéttir. Hún fór með brbl. og bönnum að verkfræðingunum og ætlar að taka læknana sömu tökum. Niðurstaðan er sú, að hæstv. ríkisstj. er búin að tapa fyrir báðum þessum aðilum. Það er líka jafnvíst, að menningarþjóðfélag þarf að eiga gott samstarf við slíkar stéttir, en ekki að vera í stríði. Og það er líka staðreynd, að nú er svo komið í læknaskipunarmálum hér á landi, að til stórra vandræða horfir. Enginn vafi er á því, að þetta stríð hæstv. ríkisstj. við þessa menn hefur leitt til þess, að það er verra nú en fyrr að leysa þau á skynsamlegan hátt. Þeir ætluðu að beita valdinu, hæstv. ríkisstj., og sýna, hvað þeir gætu við þá stóru, en töpuðu svo herfilega, að þeir lýsa sjálfir yfir, að þeir hafi gert nauðungarsamninga. Það má vel vera, að það mætti segja, að svona karlar eins og ég, sem ekki hafa komið í háskóla, ættu ekki að vera að tala um þetta. En háskólamönnunum mistókst þessi leikur og standa nú uppi eins og glópar. Það er dýrt fyrir þjóðina. Og þeir bæta ekki sinn hag, þótt þeir reyni að slá því fram, að þessi eða hinn kunni þar ekki mikið til verka, því að þeirra verklag hefur a.m.k. ekki mikið dugað.

Þá kom hæstv. fjmrh. að því, að menn hefðu misskilið grg, fyrir fjárlagafrv., þar sem hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann hefði engin tök á fjármálum ríkisins og vissi í raun og veru ekki neitt um það. Hæstv. ráðh. sagði og vitnaði þar í orð Sókratesar, að menn áttuðu sig á því, þegar þeir væru vitrir og hefðu aflað sér mikillar þekkingar, hvað þeir vissu lítið, og auðvitað átti ég að vita lítið og þess vegna væri ég að gagnrýna þá. En man ekki hæstv. ráðh. eftir því, að þeir eru búnir að sitja í ríkisstjórn í fjmrh.-embættinu í sjö ár. Hvað hafa aumingja mennirnir verið að gera? Er það núna fyrst, af því að þeir fá ungan mann sér til hjálpar, að þeir eru pínulítið að átta sig á því, hvað þeir áttu að gera fyrir 7 árum? Hvað var um heildarendurskoðunina með sparnaðinn fyrir augum og allt þetta raunhæfa, ef það hefur allt gleymzt? Hæstv. ráðh. verður bara að gera ráð fyrir því, að ég reiknaði með, að eitthvað af því, sem þeir hefðu sagt hér á hv. Alþingi, tækju þeir alvarlega og reyndu að framkvæma það og m.a. að kynna sér, hvernig rekstri ríkisins væri fyrir komið, hvar væri þörf á fjárveitingu, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson sagði áðan, að þeir áttuðu sig kannske á því, að það þyrftu ekki tveir bílar að fara suður í Hafnarfjörð, þegar einn gæti nægt. En ég held, að það sé bara einn suður í Hafnarfjörð núna, af því að það er ekki nema einn ráðh. þar. Ég held, að breytingin sé ekki fólgin í öðru þrátt fyrir hagsýsluna, — hinn er kominn til London. Það er erfitt að senda bíl þangað eftir honum.

Ég hef reiknað með því, að þegar þessir hæstv. herrar gefa slíkar yfirlýsingar hér á hv. Alþ., megi eitthvað taka tillit til þeirra. Og ef ég er eitthvað sekur í sambandi við þetta, þá er það af því, að ég þekki málið ekki. Ég hafði ekki áttað mig á því, að allar yfirlýsingarnar, allt talið um sparnaðinn, heildarendurskoðunina og bætt vinnubrögð, það var ekki nokkur hugsun á bak við það að framkvæma það. Ég bara ætla ekki mönnum slíkt, og ég var þess vegna undrandi, þegar ég sá það í fjárlagafrv. í haust, að hæstv. fjmrh. lýsti þessu yfir. Ég sagði það hér við 1. umr., að ég hefði ætlað honum annan og betri hlut. Og ég er ekki enn þá farinn að átta mig á þessu. En fyrst hæstv. ráðherra gerir sig ánægðan með þetta, þá get ég ekki verið að taka af honum ómakið eða bera af honum blak í sambandi við það. En svona vinnubrögð kann ég ekki að meta, og þau eru fyrir ofan eða neðan þann skilning eða þá vinnutilhögun, sem ég hef tileinkað mér. Og það er engum sómi að því að haga þannig sínum vinnubrögðum.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að ég hafi ekki verið réttlátur í dómum, þegar ég sagði, að fjárl. væru verðbólgufjárlög. Í því sambandi fór hæstv. ráðherra að vitna í fjárlögin frá 1958, sem hafa verið óskabarn eins og margt annað frá því ári, og vildi þá tileinka sér það, að ríkissjóðurinn hafi verið í tvennu lagi, útflutningssjóðurinn hefði tilheyrt ríkissjóðnum einnig. Nú er það á allra vitorði, að með gengisbreytingunni 1960 var hlutverki útflutningssjóðsins lokið. Hlutverk útflutningssjóðsins var að bæta útflutningsframleiðslunni það, að rétt skráning var ekki á genginu. Þetta var á allra vitorði. Og nú ætla ég að leiða enn eitt vitni og það er „Viðreisn“, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, neðst á bls. 31: „Hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna afnáms útflutningssjóðs nemur því 113 millj. kr.“ Þetta eru staðreyndir. Það var sá hluti af niðurgreiðslu, sem greiddur var úr útflutningssjóði umfram það, sem ríkissjóður lagði þeim sjóði til. Þess vegna hefur afnám útflutningssjóðs aldrei haft önnur áhrif á afkomu ríkissjóðs en hér er frá sagt. Og við skulum halda okkur við staðreyndirnar, og þá. eru þær þessar. Ég hef t.d. ekki heldur í mínum ræðum eða við í okkar nál. lagt vegasjóðinn við ríkissjóðinn, þó að það hefði verið miklu meiri ástæða til þess, vegna þess að fjárveiting til vegamálanna var öll inni á fjárlögunum 1958, en ekki nú. Það hefði mátt gera með miklu betri samvizku. Samt hef ég ekki gert það, enda ekki verið þörf á því. En þess vegna er þetta alveg fráleitt.

Það, sem ég hef haldið fram í sambandi við fjárlögin og hækkun þeirra, er einmitt það, að það sé dýrtíðin og verðbólgan, sem hafi verið völd að því fyrst og fremst, hvað fjárlögin eru há. Ég hef rökstutt þetta með því að benda á dæmi um það, hvað rekstrarkostnaðurinn hefur hækkað, hvað miklu er varið nú til niðurgreiðslna, sem ekki var, og að hluti af fjölskyldubótum, sem upp voru teknar 1960, tilheyrðu líka niðurgreiðslum, því að þær eru látnar verka á vísitöluna og lækka þannig kaupgjaldið. Þetta hef ég talið sönnun þess, að verðbólga hafi ráðið mestu um í efnahagskerfinu og í fjármálum ríkisins. Og nú ætla ég að vekja athygli á einu, og það er í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan. Hann fór að gera grein fyrir hækkununum frá yfirstandandi fjárlögum til næstu fjárlaga. Hvaða liðir voru það, sem hæstv. ráðh. sagði að tækju þar aðalhækkunina? Það var hærra kaup. Það var það, sem ég sagði, hærri rekstrarkostnaður. Það voru tryggingar, hluti af fjölskyldubótunum. Það voru niðurgreiðslur. Þetta er það, sem ég hélt fram í minni ræðu og við höldum fram í okkar nál., að það setji svip sinn á fjárlögin. Þess vegna segi ég enn og aftur: Það er verðbólgan og hin ranga stjórnarstefna, sem hér er að verki.

Þá vildi hæstv. ráðh. líka halda því fram, að það væri ekki vel með mál farið að segja, að þetta fjárlagafrv. byggðist á, að verðbólga héldist. En hvað sagði hæstv. ráðh. í ræðunni hér áðan? Hann sagði: Ef tekizt hefði að stöðva verðbólguna á þessu ári, hefðu ekki verið þessar auknu tekjur hjá ríkissjóði, sem nú eru. — Það er nákvæmlega þetta, sem ég held fram. Ég segi: Verðbólguspennan verður að haldast á árinu 1967, til þess að ríkissjóður geti fengið þær tekjur, sem ætlazt er til. En ég held því fram, að það verði að vera meiri spenna á næsta ári en er núna, vegna þess að það er gert ráð fyrir hærri tekjum. Það verður sem sagt að halda áfram að flytja inn fleiri tertubotna, fleiri kexkassa, að ég tali nú ekki um bíla. Þetta er það, sem ég hef haldið fram og við í okkar nál., og þetta staðfesti ráðherrann með því að segja: Ef verðstöðvun hefði átt sér stað á þessu ári, hefðu umframtekjur ríkissjóðs ekki reynzt eins miklar. Ég þarf ekki að vera óánægður með þennan dóm og þakka hæstv. ráðh. fyrir.

Þá kom hæstv. ráðh. að framkvæmdum á vegum ríkisins og sérstaklega skólabyggingunum. Hann lét illa af undirbúningi þeirra og taldi, að þörf væri á því, að betur væri hagnýtt það fé, sem væri til framkvæmda á vegum ríkissjóðs. Ekki vil ég draga það í efa, og ég sá í fjárlagaræðunni, að hann hafði lýst þessu mjög sterklega. En gleymir hæstv. ráðh. því alltaf, að þeir hafa setið í ríkisstj. og stutt ríkisstj. síðan rétt fyrir jólin 1958? Gleymir hæstv. ráðh. því, að menntmrh. er búinn að sitja í ríkisstj. í rúman áratug? Hver átti að lagfæra þetta og leysa þessi verkefni? Hverjum var það skyldara en hæstv. ríkisstj.? Er það þá ekki hæstv. ríkisstj. og hennar framkvæmdalið, sem hefur sofið á verðinum? Það er alltaf verið að bæta við eftirlitsmanni á eftirlitsmann ofan í sambandi við skólabyggingarnar. Hvað er allt þetta lið að gera? Ég spyr. Og dettur hæstv. ráðh. í hug, að það sé hægt að skella skuldinni á stjórnarandstöðu fyrir svona framkvæmd á málum, sem ríkisstj. tilheyra? Nei, þetta er eitt af verkefnunum, sem hæstv. ríkisstj. átti að leysa, og ég er sannfærður um það, að ef við stjórnarandstæðingar hefðum tekið kaflann úr ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti hér við 1. umr. þessa fjárlagafrv., og lýst, hvernig unnið væri að þessum málum, hefði verið talað um ábyrgðarleysi og ósanngirni af okkar hálfu. Nei, hæstv. ríkisstj. verður að muna það, að hún er búin að sitja það lengi á valdastóli hér, að ef hún er með slíkar ásakanir, hittir hún sjálfa sig fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að Efnahagsstofnunin hefði unnið mikið og þarft verk. Ekki skal ég nú reyna að fara að bera á móti því. Til þess brestur mig kunnugleik, því að mikið af störfum hennar er unnið þannig, að við úr stjórnarandstöðu höfum þar takmarkaðan aðgang að. Hinu get ég ekki neitað, að mér kom í hug, að fyrst ástandið í atvinnumálunum er nú eins og lýst hefur verið og hæstv. forsrh. lýsir því yfir, að hann sé að gera neyðarráðstafanir til bráðabirgða, og þetta gerist þrátt fyrir allt góðæri undanfarinna ára og þrátt fyrir öll ráðin frá Efnahagsstofnuninni, hvernig halda þá hv. þm., að þessi hæstv. ríkisstj. hefði dugað á kreppuárunum? Hvernig haldið þið, að hæstv. ríkisstj. hefði dugað, þegar saltfiskmarkaðurinn hrundi og bókstaflega hrundu þeir markaðir, sem útflutningsvörur okkar voru seldar á? Eftir allt góða starfið hjá Efnahagsstofnuninni, öll ráðin og alla sérfræðina plús góðærið stöndum við í þessum vanda. Ég verð að endurtaka það, að það er mikið gáleysi hjá hæstv. ríkisstj., að málefnum þjóðarinnar skuli ekki vera betur komið en raun ber vitni um, þegar svo hefur verið að henni búið og hún hefur haft slíka ágætisstofnun sér við hlið.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði látið liggja að því, að hæstv. ríkisstj. hefði verið einhver dauð hönd á atvinnuvegunum í landinu. Ég vil endurtaka það, sem ég var að segja, að undanfarandi ár hafa verið mikil góðæri. Ég sýndi fram á það í ræðu minni hér í dag, að fiskaflinn í landinu hafði meira en tvöfaldazt síðan 1958. Ég sýndi einnig fram á það, og það er ekki um deilt, að þessi afli hefur selzt fyrir betra verð en nokkru sinni fyrr og allt hefur selzt, sem á land hefur komið, og það er ekki fyrr en seint á þessu ári, að á því hefur orðið breyting. Ég vil líka minna hæstv. ráðh. á það, að það voru ekki framsóknarmenn, sem auglýstu það í Morgunblaðinu, að þjóðin stæði á vegamótum velgengni og vandræða. Það var hæstv. forsrh., sem ætlaði að fara að tala fyrir sínu liði og hafði þessa yfirskrift fyrir fundarboð. Ef hér hefur verið ofsagt, er það hæstv. ráðh. og þeir, sem auglýstu fundinn, sem þannig hafa haldið á málum. Þetta eru ekki okkar orð, heldur þeirra. En hvernig er svo ástandið? Hvað segja menn um togaraflotann? Hver er endurnýjun hans á þessum síðustu árum? Það eitt er nú þar um talað annaðhvort að leggja hann niður eða hleypa honum inn í landhelgina. Það er algert ráðleysi. Það vakti athygli um daginn, að einn útgerðarmaður kom í útvarpið og talaði um þessi mál, og þá sögðu menn: Hann talar hressilega. Þetta er eins og hjá mönnum, sem vilja bjarga sér, en ekki vandræðaúrtölurnar, sem koma frá hæstv. ríkisstj. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert fyrir bátaflotann, sem nefnd var skipuð í í fyrra? Ég spyr. Það er ekki ljóst enn þá. Hvað hefur verið gert fyrir frystihúsin? Af hverju lokar sænska frystihúsið í slíku árferði eins og þessu? Það verður að gefa skýringu á þessum hlutum. Það er ekki hægt að afgreiða þetta einfaldlega með því, að stjórnarandstaðan taki nú svona á þessu.

Á kreppuárunum, þegar úrræði íslenzku þjóðarinnar voru lítil og möguleikar í fjármálum minni, — úrræðin voru náttúrlega nokkur, en möguleikarnir í fjármálum voru litlir, — þá höfðu menn dug til þess að leita eftir nýjum leiðum og komast þannig út úr vandanum. Nú eru vangaveltur um, að ef við ætlum að vera sjálfstæð þjóð, verði menn að taka kostnaðinn af því. Ef menn ætla að reka landbúnað, verða menn að taka kostnaðinn af honum og borga vörurnar dýrari. Ef menn vilja hafa iðnaðinn í landinu, verða þeir að taka þann kostnað, sem því fylgir. Og þannig eru vangavelturnar hjá hæstv. ríkisstj., og kannske passa ekki efnahagsráðstafanir hér á landi, þær sem öðrum þjóðum henta. En að hæstv. ríkisstj. leggi út í raunhæfar aðgerðir, er fjarri öllu. Og svo kemur verðstöðvunin. Hana á að gera með því að borga nokkur hundruð millj., af því að tertubotnarnir hafa flutzt vel inn í ár og hefur verið kaupgeta til að kaupa þetta. Og staðreyndin er sú, að það er ekki nokkur leið að halda þessu áfram, nema verðbólgan haldi áfram líka, innflutningurinn flæði inn og kaupgetan leyfi það að greiða þetta aftur.

Hæstv. fjmrh. sló varnagla áðan í sambandi við dýrtíðina. Hann sagði um framtíðarlausn á þeim málum: Það er ómögulegt að segja, hvernig ástandið verður eftir kosningar. Það getur orðið breytt. Jú, það vitum við, það verður breytt. Við vitum það, að það vantar að segja hlutina eins og þeir eru. 1959 var ríkisstj. ljóst, að það varð að breyta skráningu á gengi krónunnar. Ég er sannfærður um það, að hæstv. ríkisstj. er það einnig nú. En slíkt skipbrot má ekki segja þjóðinni fyrir kosningar. Viðreisninni verður að reyna að halda á floti, hvernig sem það er framkvæmanlegt, og meðan aurarnir eru til í kassanum, á að gera það með þeim.

Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að vinstri stjórnin hefði gefizt upp við að leysa vandann. Þetta hefur heyrzt fyrr, og það hefur oft verið skýrt frá því af hendi þeirra manna, hver var ástæðan fyrir því, að sú stjórn sat ekki lengur en raun ber vitni um. Það var sem sagt sjónarmið þeirrar ríkisstj., að hún mætti ekki sitja lengur en hún hefði vald á þeirri verkefnum, sem hún ætlaði að leysa. Það var líka sjónarmið þeirrar ríkisstj., að hún yrði að leysa verkefnin á þann hátt, sem hún hafði gefið fyrirheit um. Þegar þetta brast, var hún ekki að koma í veg fyrir það, að aðrir gætu leyst vandann, ef mögulegt var.

Hæstv. núv. ríkisstj. á ekki slíka hugsun. Hún hefur setið í valdastólunum, þótt hún hafi hrakizt af þeirri leið, sem hún hafði markað sér, og nú upp á síðkastið hefur hún ekki leyst, heldur komið málefnum þjóðarinnar þannig fyrir, að það hefur verið reynt að komast fram hjá því skerinu, sem fram undan

stafni var, en ekki um það hirt, þó að komið væri að öðru. Hæstv. ríkisstj. hefur yfirleitt byggt allt sitt á því, að ráðstafanirnar dygðu lítið lengra en daginn út. Stephan G. Stephansson sagði: „Að hugsa ekki í árum, en öldum, að alheimta ei daglaun að kvöldum, því svo lengist mannsævin mest.“ Hæstv. ríkisstj. virðist eiga það takmark að eyða upp að kvöldi því, sem aflað er, og rúmlega það og telja sig hafa sloppið vel, ef hún kemst til næsta dags.