02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1967

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki í hyggju að blanda mér í þær almennu umr. um fjárl. og fjármálastefnu hæstv. ríkisstj., sem hér hafa orðið í dag og kvöld: En á þskj. 110 flyt ég ásamt hv. 3. þm. Reykv. fáeinar brtt., og um hær ætla ég að fara nokkrum orðum.

Þessar brtt. snerta allar mennta- og menningarmál með einhverjum hætti. Það virðist svo, að í umr. hér á hv. Alþ. er farið fyrst og fremst út í þá sálma, svo sem skiljanlegt er, að ræða um hin daglegu vandamál, ræða um það, hvernig á að skipta því, sem aflast, milli þegnanna og þar fram eftir götunum. En það gefst sjaldan og allt of sjaldan tóm til þess að ræða okkar þjóðmál frá dálítið víðara sjónarhóli, ræða þau m.a. frá þeim sjónarhóli, að hverju er stefnt, þegar við tölum um það, að við ætlum að byggja hér menningarþjóðfélag. Það vill gleymast of oft hjá okkur, að deilan um það, hvernig á að auka tekjurnar og hvernig á að skipta þeim milli þegnanna, er ekki hið eina nauðsynlega, svo nauðsynlegt sem það er, því að við verðum einnig að gæta að hinu, hver er tilgangurinn með því öllu saman, hvort hann er eingöngu sá, að menn geti það sem kallað er lifað góðu lífi, þ.e.a.s. haft sæmileg fjárráð, en það er sjaldnar um það rætt, hvort það er nægilegt fyrir manninn og fyrir eitt þjóðfélag, þó að það takist, hvort það þarf ekki einnig að byggja upp það, sem við köllum í einu orði menningarlíf, til þess að þegnunum geti í rauninni liðið vel og þeir fáí notið sín svo sem skyldi. Þessar almennu hugleiðingar vildi ég nú setja hér fram í fáum orðum, þó að ástæða væri til að fara um þær fleiri orðum, vegna þess að mér hefur þótt þess gæta allmikið og lengi nú á undanförnum árum nokkuð mörgum, að hið almenna góðæri, sem hér hefur verið, og þeir miklu fjármunir, sem hafa óneitanlega verið til skiptanna, hafa í helzt til litlum mæli oft og tíðum verið látnir renna til þess að byggja upp menningarlífið í landinu. Það eru vitanlega margar þarfirnar, en sú þörfin er ekki hvað minnst að treysta það á allar þær lundir, sem mögulegt er.

Það er hægt að benda á það með ýmsum tölum, að stuðningur við íslenzka námsmenn, sem fara til náms erlendis, hefur farið hlutfallslega minnkandi, til að mynda s.l. 7 ár, þ.e.a.s. sá stuðningur, sem hver um sig fær, hefur farið hlutfallslega minnkandi. Skýrslur sýna, að fyrir 7 árum, ef ég man rétt, nam sá stuðningur, sem íslenzka ríkið veitti hverjum námsmanni, sem var við nám erlendis, um það bil helmingi þess, sem kostaði manninn að dveljast við nám erlendis. Það var nokkru meira í hinum ódýrari löndum, en nokkru minna í hinum dýrari. Á s.l. ári hygg ég, að sambærilegar tölur hafi verið um það bil þriðjungur þess eða rúmlega þriðjungur þess, sem það kostar að dveljast við nám erlendis. Þetta er uggvænleg þróun og hefur valdið ýmsum allmiklum örðugleikum við nám. Nú er það að sjálfsögðu rétt, að þessi upphæð í krónutölu hefur farið nokkuð hækkandi á undanförnum árum, en mjög lítið, og það hefur ekki gert miklu meira en að mæta þeirri fjölgun námsmanna, sem um hefur verið að ræða, 10–12% fjölgun á hverju ári, en sá aukni kostnaður, sem orðið hefur í svo að segja öllum löndum, misjafnlega mikill, hefur ekki fengizt bættur námsmönnum nema að mjög litlu leyti.

Nú er það að vísu, að í þetta skipti, í fjárl. fyrir næsta ár, er lagt til, að þessi upphæð, lán og styrkir til íslenzkra námsmanna erlendis, hækki nokkuð, og þar er um að ræða allmiklu meiri hækkun í prósenttölu en hefur verið undanfarin ár, og má gera ráð fyrir, að þessi hækkun geri nokkru meira en að mæta væntanlegri fjölgun námsmanna. En þó sýnist mér, að ef eigi að gera verulega bragarbót í þessu efni, sem full þörf er á, verði að gera betur en hér er gert. Þess vegna leggjum við til, að í stað 19 millj. og 200 þús. kr. til lána og styrkja handa íslenzkum námsmönnum, baeði heima og erlendis, verði sú upphæð hækkuð í 25 millj. kr., og mun sízt af veita, ef á að gera námsmönnum sæmilega úrlausn, því að ekki er síður þörfin á því að hækka lánveitingar til námsmanna hér í Háskóla Íslands, og vissulega þarf að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki er orðið eðlilegt og raunar nauðsynlegt að veita námsmönnum við aðra framhaldsskóla, dýra og langa framhaldsskóla, svipaða aðstöðu og háskólanemendur njóta þó að því er snertir námslán. Þetta mun sízt gera betur en rétta hag námsmanna í þá átt, sem hann var þó fyrir um það bil 7 árum, þegar hann var e.t.v. einna beztur að þessu leyti og þeir gátu fengið í lán og styrki um það bil helming námskostnaðar.

2. till. okkar snertir þetta sama efni, en það er nokkur hækkun á hinum svonefndu 5 ára styrkjum, en það eru námsstyrkir til úrvals námsmanna, 7 á ári, veittir í 5 ár samfellt, og við leggjum til, að þeir hækki í svipuðu hlutfalli og hin almennu námslán og námsstyrkir, hækki úr 1 millj. 766 þús. kr. í 2 millj.

3. till. okkar er varðandi Landsbókasafn Íslands. Eins og kunnugt er, er það auk háskólabókasafns hinn eini vísir, vil ég segja, að vísindalegu bókasafni hér á landi, og það þarf ekki að lýsa því, að ég hygg, fyrir þeim, sem hafa eitthvað kynnt sér þetta safn, að aðstaða þess til að gegna sínu mikilvæga hlutverki er engan veginn eins og hún þarf að vera. Þar er um tvennt að ræða, sem á skortir. Í fyrsta lagi hefur safnið fyrir löngu sprengt utan af sér það gamla, en á sínum tíma tiltölulega góða húsnæði, sem það hefur. Það húsnæði er fyrir löngu orðið allt of lítið. En jafnframt hefur það viðgengizt árum saman, að þetta aðalbókasafn landsins hefur haft svo vesældarlegar fjárveitingar til bókakaupa og til þess að hlynna að handritum og gömlum bókum, binda þær inn og annað þess háttar, að það tekur engu tali. Þessi upphæð hefur numið örfáum hundruðum þús. lengst af hin síðari árin, hækkaði örlítið í fyrra, og það verður að viðurkennast, að hún er á fjárlagafrv. núna hækkuð einnig dálítið, en þó er þetta svo naumt skammtað enn þá, að við það er ekki hægt að una til lengdar, ef þetta safn á að gegna hlutverki sínu. Við leggjum til, að í staðinn fyrir 1.3 millj. til þessara hluta komi 3 millj. kr. Ég skal aðeins bæta því við, að hér er um að ræða þá fjárveitingu alla, sem Landsbókasafnið hefur til bókakaupa, til handritakaupa og viðgerða og til bókbands á öllum bókum á heilu ári, og rúml. 1 millj. kr. hrekkur skammt til þeirra nota nú á dögum. 3 millj., sem við leggjum til, er vitanlega of lítið, en væri þó til mikilla bóta.

4. brtt. okkar fjallar um stuðninginn við skáld og listamenn. Þetta málefni skálda og annarra listamanna, hvernig beri að styðja þá og hversu mikið, hefur oft verið til umr., ekki mikið hér á Alþ. síðari árin, en þeim mun meira í blöðum og á mannfundum, og ég hygg, að menn séu nú orðnir almennt sammála um það, að sá háttur, sem hefur verið hafður á núna alllengi og meira að segja mjög lengi um úthlutun hinna svonefndu listamannalauna, hafi svo marga og mikla annmarka, að þar verði að fást breyting á til bóta. Alþ. í fyrra lýsti yfir slíkum vilja sínum, að þessi mál yrðu tekin til endurskoðunar, með því að samþykkja till. til þál. um að fela hæstv. ríkisstj. að endurskoða þessi mál og leggja þau síðan fyrir Alþ. Mér er ekki kunnugt um það, hver undirbúningur hefur verið á hafður af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu efni, en ég sé, að í fjárlagafrv., eins og það enn þá liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu. Þar er reiknað með hinum samla úthlutunarhætti og áður, og mér sýnist, að jafnvel þó að síðar á þessu þingi kæmi fram frv. um þessi úthlutunarmál frá hæstv. ríkisstj., geti það ekki komið til raunverulegra framkvæmda á næsta ári, eftir að búið yrði að ganga frá fjárl., eða tæplega, að það gæti komið til framkvæmda á næsta ári, nema þá fjárupphæðin, sem til þessara hluta ætti að fara, yrði hækkuð allverulega, því að ég býst við, að það yrði erfitt, hvaða nýtt fyrirkomulag sem haft yrði á þessum úthlutunarmálum, að skipta hinni gömlu upphæð þannig, að veruleg breyting verði þar á til bóta fyrir listamennina og fyrir þjóðina, sem á að njóta verka þeirra.

Ég hef stundum lýst því hér áður, hvernig þessi stuðningur við skáld og listamenn hefur minnkað mjög verulega einmitt frá þeim árum, þegar fjárráð ríkisins voru miklu minni en nú. .Ég skal ekki rifja margt upp af því, sem ég hef áður um þau mál sagt, vil þó aðeins benda á það og rifja það upp, að á kreppuárunum, þegar skáld eins og t.d. Guðmundur bóndi á Sandi fékk sin listamannalaun frá Alþingi, þá námu þau á þeim árum andvirði 200 –250 dilka og voru mjög verulegur stuðningur, eins og af þessu sést, þ.e.a.s. þar var um að ræða eins og afrakstur af meðalbúi, að ég hygg, eins og þá var. En hvað mundi Guðmundur á Sandi t.d. fá á þessu ári, ef hann væri á lífi? Segjum, að hann væri í flokki heiðurslaunaskálda, sem ég teldi í alla staði eðlilegt, hann væri í hinum allra hæsta launaflokki, en mér sýnist, að hann muni þó ekki njóta nema eins og þriðjungs af því, sem íslenzka ríkið veitti honum af fátækt sinni á árunum um og upp úr 1930.

Við leggjum sem sagt til, að þessi stuðningur við skáld, rithöfunda og aðra listamenn hækki úr 4 millj. rúmum, eins og nú er í fjárlagafrv., í 6 millj. En jafnframt vil ég leggja á það ríka áherzlu, að jafnvel þótt þessi tiltölulega litla hækkun fengist, þá tel ég það ekki viðunandi lausn í sjálfu sér, fyrr en með löggjöf hefur verið búið þannig um þessi listamannamál, að það geti orðið til nokkurs sóma fyrir Alþ. sjálft og þjóðina í heild, en þau mál eru í algerlega óviðunandi ástandi, eins og nú er, og hafa lengi verið.

5. brtt. okkar er við 20. gr. fjárl. Þar er og hefur lengi staðið lítill liður til byggingarsjóðs Listasafns ríkisins. Ég hygg, að það sé kominn um það bil áratugur, síðan fyrst var farið að veita fé í byggingarsjóð Listasafns ríkisins, og sú upphæð mun upphaflega hafa verið 300 pús. kr. í fjárlögum, en nokkur síðustu árin hefur hún verið 400 þús. kr. á ári og er það enn. Nú er það alveg vafalaust, að ein af allra nauðsynlegustu þjóðstofnunum, til þess að við getum haldið uppréttu höfði, ef svo má segja, í menningarmálum, — ein af allra nauðsynlegustu stofnunum er Listasafn ríkisins, og það er ekki vansalaust, að á þeim velgengnisárum, sem yfir þjóðina hafa gengið nú um langan tíma, skuli ekki hafa tekizt að þoka málefnum Listasafns ríkisins lengra áleiðis en gert hefur verið. Ég vil aðeins benda á það, hversu þýðingarlitið það er að vera að veita ár eftir ár svona örsmáa fjárupphæð til verkefnis, sem vitanlega kostar nokkuð margar millj. Ég sé ekki betur en að dýrtíðin hafi farið þannig með þennan sjóð Listasafns ríkisins, sem nú er kannske 4 millj. eða tæplega það, að verðbólgan hafi farið þannig með þennan sjóð, að það sé lítið meira hægt að gera með þær ef til vill 4 millj., sem í sjóðnum eru nú í dag, heldur en hefði verið hægt að gera fyrir svo sem 7 eða 8 árum fyrir þær 8 eða 9 hundruð þús. kr., sem þá voru í þeim sjóði. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé hægt að leysa byggingarmál Listasafns ríkisins í áföngum og það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera það, það þurfti ekki að reisa eina stóra milljónatugahöll upp á margar hæðir, það sé úrelt og óeðlilegt fyrirkomulag. Það þarf að skipuleggja hentugt svæði, það mun ekki hafa verið gert enn þá, og ég veit ekki til þess, að lóð undir þessa bráðnauðsynlegu þjóðarstofnun, sem listasafnið hlýtur að teljast, hafi enn þá verið fengin. Það þarf vitanlega að vinda að því bráðan bug og skipuleggja þar gott og hentugt svæði og byggja byggingu, sem hægt væri að ljúka í nokkrum áföngum, og ég mundi telja, að með svo sem 8–12 millj. í byggingarsjóði megi vel hefjast handa og ljúka allmyndarlegum fyrsta áfanga, sem hægt yrði að una við til bráðabirgða og síðan bæta við, — það hljóti að vera lausn þessara mála, sem því miður hefur vafizt fyrir ráðamönnum okkar allt of lengi að koma á réttan, fastan kjöl. Við leggjum sem sagt til, að í staðinn fyrir þessar litlu 400 þús. kr. í byggingarsjóð listasafnsins, sem tæplega duga til þess að hann beinlínis rýrni ekki í dýrtíðinni, þá komi 5 millj. og við það verði miðað, að hafizt verði handa um listasafnsbyggingu innan tveggja ára.

Loks er 6. brtt. okkar. Hún fjallar um það, að í 20.. gr. komi nýr liður til byggingar bókhlöðu fyrir landsbókasafn og háskólabókasafn, 10 millj. kr. Um þetta mál væri vissulega ástæða að fara mörgum orðum og ég hefði gjarnan viljað ræða það nokkuð við hæstv. menntmrh., en þar sem ég sé, að hann er hér ekki í kvöld, þá skal ég stytta mál mitt mjög. Ég vil aðeins undirstrika það, að þessi tillaga um 10 millj. kr. fjárveitingu til þess að byggja yfir landsbókasafn og háskólabókasafn sameiginlega, hún er flutt til þess að undirstrika það, að það er orðið okkur ekki aðeins til stórkostlegs vansa, heldur stórkostlegs tjóns fyrir alla fræðilega og vísindalega starfsemi í landinu, að húsbyggingarmál þessara safna beggja hafa verið látin svo að segja reka á reiðanum, að það hefur ekki verið hafizt handa um að leysa þau, svo nauðsynlegt sem það er.

Fyrir allmörgum árum var skipuð nefnd, ég hygg af hæstv. núv. menntmrh., skömmu eftir að hann tók við því embætti, til þess að gera tillögur um lausn málanna. Sú nefnd skilaði ýtarlegu og rökstuddu áliti og taldi, að það væri ekki aðeins bráðnauðsynlegt, heldur hið eina rétta að byggja samsiginlega yfir þessi söfn og hafa sem fyllsta samvinnu þeirra á milli, og það væri í raun og veru eini möguleikinn fyrir okkur til þess að geta komið hér upp viðhlítandi vísindalegu bókasafni, og þetta var sem sagt rökstutt mjög ýtarlega. En því miður hafa framkvæmdir í þessu bráðnauðsynlega máli dregizt mjög úr hömlu, og við það er ekki á nokkurn hátt unandi. Í því sambandi má aðeins benda á það, þó að ég telji það ekki neina höfuðröksemd í málinu, að eitt af því, sem andstæðingar okkar danskir í handritamálinu hafa eiginlega helzt fært fram sem röksemdir gegn því, að íslenzku handritin flyttust til Íslands, það er það, að bókasafnamál okkar eru því miður þannig á vegi stödd, að hér er ekki nema vísir að því vísindalega bókasafni, sem hver og ein menningarþjóð verður að eiga. Og þarna kreppir að á tvennan veg. Annars vegar eru hin gömlu hús, sem hýsa þessi tvö bókasöfn, orðin allt of lítil, og hins vegar hefur skort og skortir enn fjárveitingar til bókakaupa og til þess að reka söfnin og þá alveg sérstaklega háskólabókasafn á þann veg, að af þeim geti orðið full not.

Þetta er vissulega stórmál, þetta byggingarmál safnanna okkar og allur aðbúnaður að þessum aðalbókasöfnum landsins, en ég skal ekki að þessu sinni fara um það miklu fleiri orðum, en vil aðeins undirstrika, að það getur ekki beðið öllu lengur án þess að verða öllum fræða- og vísindastörfum hér til stórtjóns að leysa þennan mikla vanda.