27.10.1966
Neðri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti: Eins og fram kemur í upphafi aths. við lagafrv. þetta, hefur verið rætt um það á undanförnum þingum, að tímabært væri að endurskoðuð yrðu ýmis atriði laga nr. 5 frá 18. maí 1920 um bann gegn botnvörpuveiðum. Hv. 5 þm. Austf. hefur á undanförnum þingum flutt frv. til breyt. á þessum lögum, og hafa þau verið til meðferðar bæði í þn. að sjálfsögðu og í dómsmrn. Ýmsar þær till., sem þar voru fram settar, eða meginbreytingarnar, sem hér er lagt til að gerðar verði, og um hefur verið rætt, hafa verið að verulegu leyti mjög lögfræðilegs eðlis og því þurft nokkuð gaumgæfilegrar athugunar. Eins og vitnað er einnig til í aths., afgreiddi sjútvn. Nd. frumvarp hv. 5. þm. Austf. í fyrra með eftirfarandi álitsgerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er sameiginlegt álit nefndarinnar, að lög nr. 5 frá 18. maí 1920 um bann gegn botnvörpuveiðum þurfi í heild endurskoðunar við. Enn fremur telur n., að við þá endurskoðun þurfi að taka tillit til þeirra atriða, sem frv. fjallar um, þótt ágreiningur sé hins vegar innan n. um einstakar breytingar, sem frv. hefur inni að halda. Og með hliðsjón af þessu leggur n. til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar í sambandi við heildarendurskoðun laganna, og leggur n. áherzlu á, að málið verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þetta var úr áliti sjútvn. Í framhaldi af þessu hefur svo þetta frv., sem hér liggur nú fyrir, verið undirbúið og lagt fyrir þingið.

Það má segja, að einkum hafi þótt þörf endurskoðunar á ákvæðum laganna um viðurlög við brotum gegn þeim, og það kemur m.a. fram í áliti saksóknara ríkisins, sem hann lét sjútvn. Nd. í fyrra, í té, dags. 26. marz 1965, en þar segir svo með leyfi hæstv. forseta: „Látlaus ásókn veiðiþjófa í fiskveiðilandhelgina virðist bera þess vott, að þau viðurlög, sem nú er beitt við fiskveiðibrotum, séu eigi til nægilegs varnaðar og þess vegna sé eðlilegt að gera þau strangari.“

Í 2. gr. þessa frv. eru ákvæði, sem lúta að því að herða viðurlögin við þessum brotum, og þar er að finna veigamestu breytingarnar á lögunum, sem ráðgerðar eru með þessu frv. Þar er lagt til, að lágmark sekta skipa yfir 200 rúml. brúttó hækki um 50%, þ.e. úr 10 þús. í 15 þús. kr., og hér er átt við gullkrónur, en hámarkssekt verði 20 þús. eða 25 þús. kr. eftir stærð skipanna og miðað við 600 rúml. mark. Nú er á það að líta, að þrátt fyrir það, að ákvæði gildandi laga séu þannig, að sektir skuli miðaðar við gullkr. og þessi ákvæði hafi þess vegna tryggt það, að sektirnar hafi fylgt breyttu verðgildi peninganna, þá eru ýmsar aðrar ástæður, sem valda því, að það má teljast eðlilegt, að sektir verði nú hækkaðar. Eftir stækkun fiskveiðilandhelginnar hefur löggæzlan átt við erfiðara og meira viðfangsefni að etja. Það hafa svo komið til stórmiklar breytingar á skipunum, sem stundað hafa veiðarnar.

Þau hafa stækkað og tekið upp miklu veigameiri veiðarfæri og tækniútbúnað og þess vegna eðlilega öðlazt meiri möguleika til fiskveíða á skemmri tíma og freistast kannske fremur til þess, e.t.v. vegna þess að viðurlögin hafa ekki verið nægjanlega ströng, að fara inn í landhelgina á ólöglegan hátt heldur en ella mundi verið hafa.

Þessi hækkun, sem hér er lögð til, ætti að hafa veruleg áhrif í þessu sambandi. Svo er annað vandamál, sem skapazt hefur, þó að það sé ekki algengt. Við höfum dæmi þess, að það getur verið erfitt að koma fram refsiábyrgð gegn skipstjóra, þótt málsástæður geri viðurlögin eðlileg, og um það eru næsta óljós ákvæði í íslenzkum lögum hvernig fara skuli með slík mál. Við höfum um þetta eitt alþekkt dæmi, hið svokallaða Milwood-mál, þegar brezki togarinn Milwood var staðinn að ólöglegum veiðum í landhelgi og veitt eftirför á sínum tíma langt út á haf, en því lauk, eins og menn rekur minni til, með því, að skipstjórinn komst undan, en íslenzka varðskipið færði skipið til hafnar. Varð af þessu allveruleg málaflækja, eins og eðlilegt mátti teljast. Skipstjóranum voru birtar kærur á heimili hans í Skotlandi, ef ég man rétt, en hann sinnti ekki þeirri kröfu að mæta hér fyrir rétti. Það voru niðurstöður Hæstaréttar í því máli, að ekki væri unnt að höfða refsimál á hendur skipstjóranum, þar sem ekki væri hægt eftir okkar lagakerfl að fella dómsúrskurð í slíku málí, án þess að prófa skipstjóra fyrir rétti, en hann var hins vegar ákærður fyrir brot á almennum hegningarlögum og siglingalögum. Hins vegar þótti sýnt, að um brotið gegn fiskveiðum í landhelgi væri hægt að fjalla, og var svo gert og dæmdar sektir í því og gerð upptæk veiðarfæri og togarinn kyrrsettur til tryggingar því, að sektarákvæðum yrði framfylgt. Niðurstöður þess máls urðu þær, að Íslendingar fengu greiddar þær sektir, sem dómur hafði upp kveðið í málinu, en refsimálið gegn skipstjóranum var ekki höfðað. Nú má segja, að þarna hafi að vísu rætzt vel úr. Það lék nokkur vafi á um það, hvort sjálft fiskveiðibrotið yrði tekið fyrir, en íslenzkir dómstólar komust að þeirri niðurstöðu, að svo yrði gert. En hér er farið í þessu frv. inn á nýjar leiðir til þess að taka af öll tvimæli um möguleika til þess að ganga a.m.k. að þeim verðmætum, sem í skipinu kunna að felast, þó að ekki verði höfðað refsimál á hendur skipstjóranum, ef hann af einhverjum ástæðum skyldi komast undan. Þess vegna segir svo í 2. gr.:

„Einnig er heimilt að gera upptækt skipið sjálft eða andvirði þess að hluta. Og upptöku má einnig beita, þótt ekki hafi verið höfðað refsimál út a,f broti og þótt refsimáli verði ekki komið fram. Máli til upptöku má þá beina gegn eigendum skipsins, umboðsmönnum þeirra eða umráðamönnum þess.“

Í þessu ætti að felast öryggi um það, að alltaf hljóti að vera einhver aðili, sem hægt væri að beina upptökumálinu gegn. Það er að sjálfsögðu almenn regla, þetta um upptökuheimildina fyrir utan refsiákvæðið, að það megi gera upptækt skip eða andvirði þess, en aðalreglan mundi að sjálfsögðu í framkvæmd verða sú, að slík upptökuheimild yrði notuð, ef ekki yrði komið fram refsimáli, og ég hygg, að fyrst og fremst yrði miðað við, hvernig sektarákvæðin eru greind á milli minni og stærri skipa, þar sem um hin stærri skip er að ræða, hina stærri togara, og þá auðvitað fyrst og fremst í þeim tilfellum, sem hætta er á því, að skipstjóri slíkra skipa komist með einhverjum hætti undan, en á því mundi ekki vera talin nein hætta með íslenzka skipstjóra. Inn í lok 2. gr. er svo tekið ákvæði, sem er nokkuð veigamikið. Í lok gr. segir: „Við upptöku skv. 1. mgr. og aðför skv. 3. mgr. fellur niður veðréttur eða aðrar kvaðir, sem hvíla kunna á upptækum verðmætum.“ Nú hygg ég, að íslenzkir dómstólar muni e.t.v. hafa talið sér heimilt að líta svo á, en þó ekki nema með lögskýringaraðferðum, en hér eru tekin af öll tvímæli um það. Um öll þessi lögfræðilegu atriði frumvarpsins hefur aðallega fjallað ráðuneytisstjórinn í dómsmrn., og ráðuneytið hefur einnig haft samráð við Þórð Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómara þar að lútandi.

Í síðustu gr. er svo gert ráð fyrir því, að ef þetta frv. verður að lögum, skuli fella það inn í meginmál laganna frá 1920 með áorðnum breytingum og gefa þau út að nýju með fyrirsögninni „Lög um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu“. En það hefur áður verið vikið að því í grg. þessa frv., að texti laganna er orðinn nokkuð margsamsettur vegna breytinga, sem smám saman hafa verið á þeim gerðar, og því eðlilegt að gefa þau út að nýju, og þá er jafnframt lagt til, að breytt verði fyrirsögn laganna, og það er vegna þeirrar breytingar, sem varð 1959, er bætt var í lögin banni við veiðum með flotvörpu. En fyrir þann tíma var þetta aðeins bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi.

Ég vildi mega vænta, að með þessu frv. sé komið til móts við þær óskir, sem uppi hafa verið hér á þingi um endurbætur á eldri löggjöf í þessu efni, og að takast megi að ná hér verulegum árangri til varnar gegn þeirri allt of miklu ásókn, sem er á íslenzku landhelgina.

Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.