27.10.1966
Neðri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ýmislegt í máli eins og þessu, sem getur verið álitamál og matsatriði, eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Austf., og alveg sjálfsagt, að n. sú, sem fær málið til athugunar, athugi þau sjónarmið, sem hann setti fram, og mundi rn. að sjálfsögðu verða til aðstoðar, eftir því sem óskað yrði við athugun málsins, sem — eins og ég sagði áðan er í verulegum atriðum nokkuð sérfræðilegs og lögfræðilegs eðlis. Varðandi fyrsta atriðið, að hækkun sektanna sé ekki eins mikil og áður hefur verið lagt til af þessum hv. þm. og e.t.v. ekki nægjanlega mikil, vil ég þó benda á það, að um leið og sektirnar eru hækkaðar að því marki, sem hér er gert ráð fyrir, er einnig heimilt að gera upptækt skipið sjálft eða andvirði þess að hluta, svo að það gæti komið til, að sektir væru dæmdar í hámarki, en dómstóli fyndist málsatriði engu að síður slík, að hann vildi gera upptækt skip að hluta eða að öllu leyti, og það er auðvitað um mjög rúmt atriði að ræða, þegar verið er að meta það, hvernig sektarákvæðin eigi að vera.

Upptaka veiðarfæra með þeim hætti, að upptekin veiðarfæri megi ekki afhenda aftur eða selja, eins og hv. þm. gerði grein fyrir, gat að sjálfsögðu komið til álita. Um það voru þó uppi nokkrar efasemdir, sem m.a. komu fram í áliti saksóknara ríkisins til sjútvn., en hann sagði um það atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjórða lagi tel ég fyrst og fremst vafamál, hvort heppilegt sé ákvæðið um veiðarfæri í niðurlagssetningu 1. mgr. 1. gr. frv.“ — hér er verið að tala um frv. hv. 5. þm. Austf. — „og eru þá einkum höfð í huga þau tilvik, að sakfellt sé í héraði, en sýknað í Hæstarétti.“

Hins vegar finnst mér ekki nema eðlilegt, að þetta atriði sé athugað nánar, en það voru nú að mínu áliti eftir nánari athugun málsins helzt þeir meinbugir á, sem hér er vikið að, að við gætum haft af því nokkur vandræði. Kanna má betur hliðstæð ákvæði annarra nágrannaþjóða okkar, sem fiska hér á Norður-Atlantshafinu, og geri ég þá ráð fyrir, að hv. n. taki það nánar til athugunar, þegar hún fær málið til meðferðar.