27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls, hefur hv. 5. þm. Austf. á undanförnum þingum flutt frv. um breyt. á l. nr. 5 frá 1920 um bann gegn botnvörpuveiðum, sem stefnt hafa í höfuðatriðum að því sama og frv. það, sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi lagði hv. 5. þm. Austf. til, að sektir fyrir landhelgisbrot yrðu hækkaðar verulega. Í öðru lagi lagði hann til, að bannað yrði að láta af hendi eða selja upptæk veiðarfæri þeirra, sem sekir hafa gerzt um landhelgisbrot, fyrr en í fyrsta lagi einum mánuði eftir að sektardómur hefur verið kveðinn upp. Í þriðja lagi lagði hann til, að sett yrðu ótvíræð ákvæði í lögin um það, að náist ekki í sekan skipstjóra á skipi, sem staðið hefur verið að ólöglegum veiðum, sé heimilt að dæma útgerðarfyrirtæki skipsins og gera það á allan hátt ábyrgt fyrir landhelgisbrotinu.

Í apríl 1965 lagði sjútvn. hv. d. til, að umræddu frv. hv. 5. þm. Austf. yrði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar í sambandi við heildarendurskoðun laganna, og er frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., árangur af þeirri endurskoðun.

Fyrsta og þriðja meginatriðið í frv. hv. 5. þm. Austf. eru tekin upp í þetta frv., en þau eru um hækkun sektanna og heimild til upptöku skips, ef refsiábyrgð verður ekki komið fram gegn sekum skipstjóra. Öðru atriðinu, um það að ekki megi afhenda upptæk veiðarfæri fyrr en að liðnum mánuði frá uppkvaðningu dóms, er sleppt í þessu frv.

Í sambandi við sektarákvæðin er í þessu frv. fallizt á till. hv. 5. þm. Austf. um flokkun skipa eftir stærð í þrjá flokka og misháar sektir í hverjum flokki. Í fyrsta flokki, þ.e. skipa allt að 200 rúmlesta, er gert ráð fyrir óbreyttum sektum, eins og var í frv. hv. 5. þm. Austf., en í 2. og 3. flokki ganga till. þessa frv. skemmra en till. hv. þm. gerðu. Getur þetta alltaf verið matsatriði og vafasamt, hvað á að stíga stór skref í einu í þessum efnum, eins og hv. 5. þm. Austf, viðurkenndi við 1. umr. þessa frv., þegar hann jafnframt lýsti þeirri skoðun sinni, að í þessu efni bæri að ganga lengra en gert er í frv. ríkisstj. Um þetta atriði geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir, og leyfi ég mér að benda á, að þegar sjútvn. hafði frv. hv. 5. þm. Austf. til athugunar 1965, fékk hún um það umsögn frá saksóknara ríkisins, þar sem hann taldi, að of mikið stökk væri í lágmarkssektarfjárhæð skv. till. hv. þm., þegar stærð skipanna fer yfir 200 rúmlestir brúttó. Einnig taldi saksóknari vafasamt, hvort nægileg ástæða væri til að hækka sektarviðurlögin svo mjög sem frv. hv. þm. gerði ráð fyrir. Loks varpaði saksóknari fram þeirri spurningu, hvort eigi mætti teljast eðlilegt og nauðsynlegt frá friðunarsjónarmiði og til samræmis við stærri skipin að hækka sektarfjárhæð skipa upp að 200 rúmlestum til samræmis við stærri skipin. Á þetta síðasta atriði hefur ekki verið fallizt, en greinilegt er af ábendingu saksóknara ríkisins, að hann telur viðurlög gegn landhelgisbrotum hinna minnstu skipa ekki nægileg til varnaðar. Aðrir mundu kannske segja, að þeim viðurlögum, sem í gildi eru, sé ekki nægilega röggsamlega beitt, og eins og ég áðan sagði, getur það alltaf verið matsatriði, hversu ströng slík refsiákvæði eigi að vera.

Ég hygg, að ég hafi þá gert nokkurn veginn grein fyrir því, sem á milli ber í þessu frv. og fyrri till. hv. 5. þm. Austf. Tillögur frv. um heimild til þess að gera upptækt skipið sjálft eða andvirði þess að hluta falla saman við till. hv. 5. þm. Austf., og eins og fram kemur í grg. með frv., er hliðstæð ákvæði að finna í norskum lögum. Þar hefur slíkum ákvæðum verið beitt í ríkara mæli en sektarákvæðum.