27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það var aðeins örstutt aths. til skýringar á því, hvers vegna ekki hefur verið talið fært að taka upp í þetta frv. till. hv. 5. þm. Austf. um það, að ekki megi láta upptæk veiðarfæri af hendi, fyrr en mánuði eftir uppkvaðningu dóms.

Þegar sjútvn. hafði frv. hv. þm. til athugunar 1965 og fékk um það umsögn frá saksóknara ríkisins, gerði hann í þeirri umsögn einmitt þetta atriði að umtalsefni og benti á, að það gæti verið vafasamt, hvort heppilegt væri að taka slík ákvæði inn í lögin, einkum þegar höfð væru í huga þau tilvik, að sakfellt væri í héraði, en sýknað í Hæstarétti. En það veit ég, að allir hv. þm. kannast við, að það kemur iðulega fyrir í landhelgisbrotamálum, að Hæstiréttur hnekkir sektardómum undirréttar, og ef farið væri inn á þessa braut að afhenda ekki veiðarfærin gegn fullkomnum tryggingum að sjálfsögðu, þegar þannig stæði á, gæti það bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu. Þetta skilst mér, að sé meginástæðan til þess, að ekki hefur verið talið fært að taka þetta ákvæði upp í frv. það, sem hér liggur fyrir.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða málið frekar, en ég vil aðeins til upplýsingar geta þess, að ef þær till., sem í frv. felast um hækkun sekta á stærri skipum, ná fram að ganga, nemur hækkunin 50% frá því, sem nú er.