14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er stjfrv., hefur sjútvn. haft til athugunar og er sammála um að mæla með samþ. þess með þeirri breyt., sem fram kemur á þskj. 484. Tveir nm. hafa þó undirritað nál. með fyrirvara. Frv. þetta felur í sér þá efnislegu breyt. á gildandi l., að sektarákvæði fyrir landhelgisbrot hækki verulega;, frá því sem nú er. Að vísu er ekki um hækkun að ræða hjá minnstu bátunum, allt að 200 smálestum, en hækkunin er t.d. um 50% á stærðinni 200–600 smálestir.

Í 2. gr. frv. er um nýmæli að ræða, sem talið er vera að norskri fyrirmynd, en það er upptökuheimildin á skipi eða andvirði þessu að hluta, og í síðustu mgr. 2. gr. segir, með leyfi forseta: „Við upptöku skv. 1. mgr. og aðför skv. 3. mgr. fellur niður veðréttur eða aðrar kvaðir, sem hvíla kunna á upptækum verðmætum.“

Út af þessu ákvæði frv. bárust hv. sjútvn. Nd. mótmæli frá L.Í.Ú. og frá Fiskveiðasjóði Íslands, sem telur, að þetta ákvæði frv. stefni hagsmunum sjóðsins í mikla hættu. Við framsögu málsins í þessari hv. d. sagði hæstv. dómsmrh., að augljóst væri, að upptökuheimildin mundi aldrei koma til framkvæmda nema í sambandi við erlenda skipstjóra, sem af einhverjum sérstökum ástæðum næðist ekki til. Sjútvn. þessarar hv. d. er sammála því, að þessi forsenda varðandi íslenzka skipstjóra, þ. e. að ekki náist til þeirra, verði vart fyrir hendi. Þess vegna taldi n. rétt að kveða hér skýrar á og leggur til að breyta 1. mgr. 2. gr. þannig, að á eftir orðunum „svo og allur afli innanborðs, upptæk“ komi: „Nú næst ekki í skipstjóra, og er þá einnig heimilt að gera upptækt skipið sjálft“ o.s.frv. Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á þessa breytingu, og legg til, að frv., þannig breytt, verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.