14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

8. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, þá hafa tveir nm., ég og hv. 6. þm. Sunnl., skrifað undir nál. með fyrirvara. Eins og frsm. gerði grein fyrir, þá er það nýmæli í þessu frv. að heimila upptöku skips.

Ég tel þá upptökuheimild ekki óeðlilega, einkanlega þegar ekki verður komið lögum yfir skipstjóra. Og með þeirri brtt., sem nú er flutt, þá er efni frv. um upptökuheimildina takmarkað við það, ef ekki næst í skipstjóra, eins og þar segir. Á þetta getum við sem sagt fallizt, en okkar fyrirvari laut að síðustu mgr. 2. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við upptöku skv. 1. mgr. og aðför skv. 3. mgr. fellur niður veðréttur eða aðrar kvaðir, sem hvíla kunna á upptækum verðmætum.“

Það má vel vera, að þvílíkt ákvæði sem þetta sé nauðsynlegt, til þess að upptaka á skipi nái sínum tilgangi. En okkur er þó ekki ljóst, hverjar afleiðingar slíkt ákvæði sem þetta kann að hafa m. a. varðandi veðhæfni skipa. En ákvæði þetta er alveg fortakslaust og ákveður það, að niður skuli falla allar veðskuldbindingar, sem á skipinu hvíla, og aðrar kvaðir, þ. á m. t.d. lögveðréttur og þá auðvitað sjóveð eins og önnur veð, þau eiga niður að falla. Ég held, að það hefði verið æskilegt, að þetta mál hefði verið betur skoðað og reynt hefði verið að gera sér grein fyrir því, hvern dilk þetta getur dregið á eftir sér.

Yfirlýsing hæstv. dómsmrh. getur náttúrlega ekki breytt lögunum að neinu leyti. En það kann að vera, að þetta ákvæði valdi ekki vandræðum í framkvæmd, og í trausti þess, að svo verði, þá höfum við ákveðið að flytja ekki brtt. við þetta og greiða frv. atkvæði, en hins vegar töldum við rétt, að þessi aths. kæmi hér fram, svo að ljóst væri, að þetta hefði ekki farið fram hjá okkur.