13.03.1967
Efri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

158. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi lögum eru engin ákvæði um greiðslu til höfunda fyrir útlán bóka úr almenningsbókasöfnum. Í öðrum löndum, t.d. hinum Norðurlöndunum, hafa hins vegar verið settar um þetta reglur, þ.e.a.s. höfundum verið tryggt nokkurt gjald fyrir það, er almenningur fær rit þeirra til lestrar í almenningsbókasöfnum. Reglurnar um þetta annars staðar eru að vísu mjög mismunandi. Annars vegar er um að ræða greiðslu til einstakra höfunda í hlutfalli við raunverulega notkun bóka þeirra í söfnunum — stundum er um það að ræða, að höfundum er greitt í hlutfalli við tölu eintaka af hverri bók eftir höfundinn, sem í söfnunum eru. En það tíðkast einnig, að höfundarnir sjálfir fá alls engar beinar greiðslur, heldur greiðir ríki og/eða sveitarfélög í sérstaka sjóði, sem rithöfundarnir hafa umráð yfir og nota til styrkveitinga, verðlaunaveitinga, til þess að veita eftirlaun höfundum og ekkjum þeirra eða ekklum og þar fram eftir götunum. Það er og mjög misjafnt, hversu mikið ríki og sveitarfélög greiða í þessu skyni á hinum Norðurlöndunum. Íslenzkir rithöfundar hafa að vonum verið óánægðir með það, að þeir skuli ekki fá greiðslu í neinu formi fyrir þær bækur, sem almenningur les eftir þá í bókasöfnum. Þess vegna var það, að ég skipaði 5 manna nefnd 11. marz 1963 til þess að athuga um höfundarrétt rithöfunda vegna útlána og afnota íslenzkra bóka í almenningsbókasöfnum. Í þessari n, störfuðu þeir dr. Finnur Sigmundsson, landsbókavörður, Guðmundur G. Hagalín, bókafulltr., Matthías Johannessen, rithöfundur, Stefán Júlíusson, rithöfundur og dr. Þórður Eyjólfsson, hæstaréttardómari, sem var skipaður form. n., en hann er helzti sérfræðingur íslenzkur í höfundarrétti. Þessi n. samdi frv., og var það kjarni þess, að höfundum skyldi greidd ákveðin upphæð fyrir hvert útlánað bindi af bókum þeirra úr íslenzkum söfnum, og skyldi greiðslan að öllu leyti koma úr ríkissjóði. M. ö. o., þessi n. lagði til að taka upp þá reglu að fylgjast með raunverulegum útlánum og láta ákveðna greiðslu koma til hvers höf. fyrir hvert einstakt útlán. Að athuguðu máli þótti okkur í menntmrn. og ýmsum embættismönnum þessi regla vera hæpin og öfluðum okkur upplýsinga um, að þar sem hún gildir, t.d. í Svíþjóð, hefur í kjölfar hennar siglt mjög mikil skriffinnska og jafnvel misnotkun, þannig að ég treysti mér ekki til þess að leggja til við ríkisstj. og Alþ., að þetta frv. yrði lögfest. Hins vegar var haldið áfram að vinna að málinu í samráði við Samband íslenzkra rithöfunda, og fyrir ári ákvað ríkisstj. og tilkynnti það rithöfundasambandinu, að ríkisstj. mundi fyrir þetta þing leggja fram frv., er tryggði höfundum greiðslu fyrir not bóka þeirra í almenningsbókasöfnum, og síðan óskaði ég eftir fulltrúa frá rithöfundasambandinu til þess að endurskoða fyrra frv. Tilnefndi sambandið Björn Th. Björnsson til þess verks, sem þá var formaður rithöfundasambandsins, og vann hann síðan, ásamt Knúti Hallssyni, deildarstjóra í menntmrn., að endurskoðun fyrra frv. Með fulltingi rithöfundasambandsins komu þeir sér saman um nýtt frv., þar sem ekki var byggt á þeirri reglu að greiða fyrir hvert einstakt útlán, heldur skyldi greiðslan til höfundanna miðuð við tölu binda af hverju einstöku verki, sem bókasafnið hefði til afnota. Hér er um miklu einfaldari reglu að ræða heldur en hina fyrri, og byggir það frv., sem hér er flutt, á þessu. M. ö. o., í frv. er því slegið föstu, að höfundar íslenzkra bóka og þýðendur bóka á íslenzku skuli eiga rétt á greiðslu, ef bækur þeirra eru til útláns í bókasöfnum, og greiðslan eigi að miðast við eintakafjölda bókanna, sem í safninu eru. Og greiðslurnar fyrir þessi afnot eiga að renna í sérstakan sjóð, sem nefndur er Rithöfundasjóður Íslands. 60% af þessu fé, sem höfundarnir fá í heild, á að verja til greiðslu fyrir afnotin sjálf, miðað við eintakafjöldann í söfnunum. 40% af heildartekjunum eiga hins vegar að ganga í sérstakan sjóð, sem nota skal til styrktar einstökum rithöfundum, til verðlaunaveitinga, til eftirvinnugreiðslu og þar fram eftir götunum. M. ö. o. er gert ráð fyrir því, að notaðar verði báðar þær ráðstöfunarleiðir á fénu, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þetta hefur fullan stuðning og hefur verið gert skv. till. rithöfundanna sjálfra. Ég lít svo á, að þeir eigi það fé, sem hér er um að ræða, og eigi því sjálfir að geta ákveðið, hvernig því er varið. En þessi ráðstöfun, sem hér er gert ráð fyrir, er skv. till. þeirra sjálfra. Í samræmi við það, að ég lít þannig á, að rithöfundarnir eigi þetta fé, sem hér er um að ræða, þá hafa þeir meiri hluta í stjórn sjóðsins, eða 2/3. Það er hins vegar skv. ósk þeirra sjálfra, að einn úr stjórninni á að tilnefnast af menntmrh. Rithöfundarnir óskuðu eftir því, að sú samvinna yrði við menntmrn., að fulltrúi þess fylgdist með störfum sjóðstjórnarinnar og öllum fjárreiðum sjóðsins. Í frv. er einnig það ákvæði, að stjórn sjóðsins má, að höfðu samráði við stjórn rithöfundasambandsins, ákveða, að allar tekjur skv. þessum lögum skuli renna í almenna sjóðinn, það er að segja að verja megi öllum tekjum sjóðsins í næstu þrjú ár til almennra verðlaunaveitinga, til styrkveitinga eða í öðru því skyni, sem stjórn sjóðsins kann að ákveða. Þetta ákvæði er einnig í frv. skv. beinni ósk stjórnar rithöfundasambandsins. Um fjármálin, um tekjur rithöfundasjóðsins er það að segja, að í frv. er kveðið svo á, að tekjur þær skuli vera 10% álag á árlega fjárveitingu til rekstrar bæjar-, héraðs- og sveitarbókasafna skv. fjárlögum annars vegar og svo hins vegar 10% álag á árleg lágmarksframlög bæjar-, sveitar- og sýslusjóða til almenningsbókasafnanna. Þetta er grundvallað á þeirri hugsun, að skv. gildandi lögum um almenningsbókasöfn eru þau stofnanir, sem reknar eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, og í lögunum um almenningsbókasöfn eru ákveðnar reglur um það, hvernig sveitarfélög skuli greiða til almenningsbókasafnanna, en ríkið veitir síðan árlega fé á fjárlögum til þessara stofnana.

Fyrst það hefur verið ákvörðun löggjafans, og um það virðast allir alþm. hafa verið sammála, að almenningsbókasöfn skuli kostuð nokkurn veginn til helminga af ríki annars vegar og sveitarfélögum hins vegar, þá virðist vera mjög eðlilegt, að einnig þessi rekstrarkostnaður sé greiddur sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Því vissulega er það ekkert annað en almennur rekstrarkostnaður við rekstur almenningsbókasafna að greiða höfundum þóknun fyrir not almenningsbókasafnanna af bókum þeirra. Í raun og veru er enginn eðlismunur á því að greiða bókaverði laun eða greiða húsaleigu fyrir bækurnar annars vegar og svo hins vegar að greiða höfundum eða þýðendum bóka þóknun fyrir það, að hann leyfir að nota bók sína í almenningsbókasafninu. Og þess vegna er langeðlilegast, að þeirri reglu, sem almenningsbókasöfnin eru byggð á, þ. e., að þau séu sameiginleg stofnun ríkis og sveitarfélaga, sé einnig fylgt hér og báðir aðilarnir greiði hlutfallslega jafnt álag á þann kostnað, sem þeir að öðru leyti taka að sér. Þetta þýðir í raun og veru það, að rúmlega 10% af heildarrekstrarkostnaði almenningsbókasafnanna ganga til höfunda og þýðenda sem greiðsla fyrir það að leyfa afnot bókanna í þágu almennings í almenningsbókasöfnum. Miðað við yfirstandandi ár eru tekjur rithöfundasjóðsins 921 þús. kr. Gert er ráð fyrir því, að lögin taki þegar gildi, en þau geta ekki komið til framkvæmda fyrr en á næsta ári, vegna þess að það er allmikið verk að reikna út þær reglur, sem skipta ætti tekjunum eftir, og er gert ráð fyrir því, að fyrsta úthlutun fari fram í byrjun ársins 1968, og verður hún miðuð við raunverulega bindatölu í söfnunum skv. skýrslum um árið 1966. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni þessari 1. umr. til 2. umr. og hv. menntmn.