14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

158. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. við þetta lagafrv., var í fyrra vor skýrt frá því í frétt frá menntmrn., að ríkisstj. hefði ákveðið að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþ. frv. til l. um greiðslu fyrir höfundarrétt vegna afnota af bókum í almennum söfnum og það frv. yrði að meginstefnu byggt á þeirri löggjöf, sem gildir í þessum efnum á Norðurlöndum.

Frv., sem hér liggur fyrir, hefur svo verið undirbúið í samráði við Rithöfundasamband Íslands.

Efni frv. er í stórum dráttum það, að stofnaður verði sjóður, Rithöfundasjóður Íslands, og 60% af árlegum tekjum hans verði úthlutað til ísl. eigenda höfundarréttar, en 40% leggist í sérstakan sjóð, sem verði m. a. varið til bókmenntaverðlauna, starfsstyrkja til höfunda o. fl.

Skv. frv. eru sjóðnum áætlaðar tekjur þannig, að í hann renni 10% álag á fjárveitingar á, fjárlögum til almenningsbókasafna og 10% álag á árlegt lágmarksframlag úr bæjar-, sveitar- og sýslusjóðum til bókasafnanna. Slík lágmarksframlög eru ákveðin í 1. og 2. kafla l. um almenningsbókasöfn, og þau eru ákvörðuð sem viss prósenttala miðuð við hvern íbúa á bókasafnssvæði. En það mun vera allmisjafnt, hve miklu er varið úr bæjar- og sveitarsjóðum til bókasafnanna umfram lögákveðin framlög. Sums staðar má reikna með, að það séu jafnvel engar umframfjárveitingar, annars staðar eru þær margfalt hærri en lágmarksupphæðin skv. l. En gjaldskyldan til rithöfundasjóðsins er sem sé eingöngu miðuð við lágmarksframlag, eins og það er ákveðið í l. um almenningsbókasöfn.

Úthlutun úr þessum sjóði er skv. frv. í höndum sjóðstjórnar, og miðast úthlutunin til ísl. eigenda höfundarréttar við eintakafjölda rita þeirra í bókasöfnum.

Við 1. umr. málsins gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir mismunandi leiðum, sem til greina gætu komið, þegar ákveðið er, eftir hvaða reglum sé farið um úthlutun, og nefndi þá að sjálfsögðu fyrst og fremst þessa leið eða þessa viðmiðun, sem frv. gerir ráð fyrir. Einnig nefndi hann t.d. útlánafjölda á ritum einstakra höfunda úr söfnunum. Það verður sjálfsagt seint fundin sú leið, sem allir telja, að fyllilega sanngjörn sé. Ég býst við, að það séu einhverjir annmarkar á þeim flestum. N. hefur ekki álitið rétt að benda á aðrar leiðir en þá, sem með frv. er gert ráð fyrir að þessu leyti.

Menntmn. sendi frv. til umsagnar stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, en eins og ég áðan gat um, gerir frv. ráð fyrir því, að greiðslur komi frá sveitarfélögunum. Umsögn sambandsins er sú, að á stjórnarfundi hefur verið gerð þar svohljóðandi samþykkt: „Stjórnin er andvíg frv., að því er snertir fyrirkomulag á framlögum sveitarfélaga, og felur framkvæmdastjóra að láta n. í té grg., þar sem færð séu rök fyrir þeirri afstöðu.“ Grg. fylgir með þessu, og skal ég lesa hér það atriði úr henni, sem að gjaldinu snýr, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Ákvæði frv. eru mjög óglögg. Í 36. gr., sem kveður á um framlag almenningsbókasafna til sjóðsins, segir t.d. ekki, hver eða hvenær eigi að inna framlag af höndum til sjóðsins. Stjórnin teldi eðlilegast og einfaldast, að allar greiðslur til sjóðsins kæmu beint úr ríkissjóði, í stað þess að ríkið greiddi fyrst styrk og þau (það er líklega þar átt við sveitarfélögin) endurgreiddu sjóðnum síðan hluta af styrknum. Trúlega mætti þó kveða á um slíka tilhögun í reglugerð.“ Síðar í þessari grg. kemur aftur að því. Þeir segja þar: „Niðurstaða þessarar grg. er hér sú, að ef frv. þetta nær fram að ganga á annað borð, óskar stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga eftir því, að breyt. verði á því gerðar, þannig að ljóst verði, að framlag rithöfundasjóðsins verði greitt úr ríkissjóði.“ Og hér stendur í svigum: „og jafnvel þótt það verði þá dregið af rekstrarstyrk safnanna.“ Enn fremur kemur fram í grg. — að því er ég hygg, að muni vera — að það sé erfitt að átta sig á því, hvernig ætlazt sé til, að þeirri skýrslugerð verði hagað, sem um ræðir í 38. gr. frv., þar sem segir, að úthlutun úr sjóðnum fari fram skv. skýrslum um eintakafjölda rithöfunda í söfnum.

Ég hef nú rakið það úr umsögn sambandsins, sem mér sýnist, að hér skipti máli. Menntmn. flytur ekki brtt. við frv., en mælir með samþ. þess, en 3 nm. undirrita þó frv. með fyrirvara, og sé ég, að þeir hafa flutt brtt. við frv., eina brtt., sem þeir munu svo að sjálfsögðu gera grein fyrir, og skal ég ekki að svo stöddu hafa fleiri orð um málið.