14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

158. mál, almenningsbókasöfn

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. í þessu máli með fyrirvara. Svo gerðu 2 aðrir hv. þm.

Fyrirvari minn er ekki í því fólginn, að ég sé því mótfallinn, að stofnaður sé Rithöfundasjóður Íslands og rithöfundar fái úr honum greiðslur vegna bóka, er almenningur nýtur fyrir miðlun bókasafna, og ég hygg, að sú sama sé afstaða meðnm. minna, sem skrifuðu undir með fyrirvara. En fyrirvari minn miðast við það, að ég tel sanngjarnara, eftir atvikum, réttara og einfaldara, að ríkissjóður gjaldi einn tillagið til rithöfundasjóðs, en sveitarsjóðir og sýslusjóðir taki ekki rúmlega helmingsþátt í því, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ber það til, að mér finnst mjög eðlilegt, að ríkið, þ. e. alþjóð, inni af hendi þetta gjald til rithöfunda sinna vegna almennings. Í öðru lagi tel ég afleita þá tilhneigingu hjá löggjafarþinginu, sem mér virðist oft koma fram, að vera að bæta útgjaldaböggum, smáum og stórum, í mörgum málum á sveitarfélögin án þess að gæta þess, að þau hafa þröngan skó og mjög takmarkaðar heimildir til tekjuöflunar.

Eins og hv. frsm. n. gat um, lá fyrir n. erindi frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem framlagi sveitarfélaganna er í raun og veru mótmælt, bæði sem auknum útgjöldum og líka vafningasömum framkvæmdum.

Ég held, að við ættum að setja þessa löggjöf þannig, að vera ekki með smásmugulega ágengni með því að fara í vasa sveitarfélaganna. Ég held, að það sé engin þörf fyrir það. Hér er ekki um svo stórt að ræða fyrir ríkissjóðinn. Og ég leyfi mér hér með að vísa fram brtt. á þskj. 488, sem ég ásamt 2 öðrum nm. úr hv. menntmn., þeim hv. 4. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, og hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundssyni, flyt. Till. er mjög einföld. En hún er um það, að í stað þess, að ríkið greiði rithöfundasjóðnum fjárhæð, er nemi 10%, álagi á árlega fjárveitingu ríkisins til bókasafna, sem áætlað er að verði 400 þús. kr. árlegt tillag í sjóðinn, og úr bæjar-, hrepps- og sýslusjóðum komi í sjóðinn 10% af framlögum þeirra til safna sinna, er talið er líklegt, að verði samt. rúmlega ½ milljón, þá greiði ríkið eitt 25%, en sú fjárhæð yrði samt. 1 millj., því að ef 10% gera í því sambandi 400 þús., gera 25 milljón. Yrði þetta skv. áætluninni 78 þús. 530 kr. ávinningur fyrir rithöfundasjóðinn, 600 þús. kr. hækkun fyrir ríkissjóðinn, en rúmlega ½ millj. kr. gjaldaléttir fyrir sveitarfélögin og miklu minni skriffinnska og innheimtuvafningar fyrir þá, sem þessa umsýslu annast. Getur okkur nú ekki öllum komið saman um að sleppa smámunalegri ágengni að þessu sinni við sveitarfélögin í þessu máli og samþ. þessa till.? Ég tel, að það yrði mjög mikil prýði á þessu annars litla frv.