14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

158. mál, almenningsbókasöfn

Karl Kristjánsson:

Hv. frsm. n. gerði þá aths., að í raun og veru mælti stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ekki á móti gjaldinu sjálfu, heldur því, hvernig hugsað er að taka það. Ég sagði líka á þá leið, að stjórnin væri andvíg málinu og fyrst og fremst af því, að það væri fyrirhafnarsamt, en sú till., sem stjórnin samþ., hljóðar, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið: „Stjórnin er andvíg frv., að því er snertir fyrirkomulag á framlögum sveitarfélaga og felur framkvæmdastjóra að láta nefndinni í té grg., þar sem færð séu rök fyrir þeirri afstöðu.“

Nú má skilja það á þessum orðum, að vitanlega er stjórnin andvíg gjaldinu, en hún er nú vön því, að mótmæli gegn slíkum álögum hafa ekki mjög verið tekin til greina, og þá snýr hún sér fyrst og fremst að því að benda á það, að fyrirkomulagið sé óþægilegt og vafningasamt, og aðalatriði mótmælanna verða þau. En nú er það svo, að mér virðist, að það sé nóg á sveitarfélögin lagt. Þetta er menntamál. Ríkið styður almenningsbókasöfn af þeirri ástæðu og vill greiða fyrir því, að almenningur geti notið bókmenntanna, og þess vegna finnst mér það liggja mjög nærri, þó að hægt sé að deila um það, að það taki á sig þessa kvöð, þessa STEF-kvöð, gagnvart rithöfundunum algerlega og slái þá tvær flugur í einu höggi, geri frávik að því leyti að heimta framlag í hverju tilfelli af sveitarfélögum, þar sem eitthvað er skylt í notkun gjalda fyrir þau, og heimti þar ekki framlag og komi í veg fyrir þá skriffinnsku og þvæling, með ekki stærri fjárhæðir en þarna er um að ræða, sem sýnilega er stefnt að, og sem sveitarfélagasambandið eða framkvæmdastjóri þess telur, að sé mjög óþægilegt. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða, það er alveg satt, hvorki fyrir sveitarfélögin né ríkið. Þó virðist mér, að við ættum að líta svo á, að ríkið munaði minna um þetta. Og það er stórkostlegur blæmunur á því gagnvart sveitarfélögunum að afgreiða málið eins og við leggjum til, sem flytjum brtt., heldur en að vera með þennan kökuskurð, sem frv. felur í sér, skiptingu með smákökuskurði.