15.04.1967
Neðri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

158. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar síðdegis í gær með shlj. atkv. Ed.-manna. Aðeins ein brtt. hafði komið fram við frv. í hv. Ed., en hún laut ekki að meginefni eða megintilgangi frv., heldur var varðandi það, hver skyldi greiða þann — kostnað, sem leiða mun af samþykkt frv., en það gerir ráð fyrir, að sá kostnaður skiptist milli ríkis og sveitarfélaga með sama hætti og gildandi lög kveða á um, að almennur kostnaður við almenningsbókasöfn skuli skiptast milli ríkis og sveitarfélaga. Till., sem fram kom, var um það, að ríkissjóður einn skyldi greiða allan þann kostnað, sem hlytist af framkvæmd l., þ.e.a.s. höfundarlaunin. Þegar sú till. hafði verið felld, var eining um afgreiðslu málsins í hv. Ed.

Þá skal ég í örfáum orðum gera grein fyrir meginefni frv. Fram að þessu hafa höfundar og þýðendur bóka engar greiðslur fengið vegna höfundarréttar, þótt bækur þeirra séu lánaðar til lestrar úr almenningsbókasöfnum, en í flestum nálægum löndum, m. a. á öllum hinum Norðurlöndunum fjórum, hafa verið sett í lög ákvæði til þess að tryggja höfundum og þýðendum bóka greiðslu, ef þær eru lánaðar út úr almenningsbókasöfnum. Nokkuð ólíkur háttur tíðkast þó varðandi greiðslu þessa gjalds. Sums staðar tíðkast það, að notendur bókanna, þeir, sem fá bækurnar lánaðar úr söfnunum, greiða ákveðna upphæð fyrir hvert einstakt útlán. Hins vegar tíðkast sú skipan líka, að greiðslur til höfundanna eru miðaðar við eintakafjölda af bókunum í söfnunum, og greiða þá ríki og sveitarfélög það gjald, sem höfundarnir fá og miðast við það, hversu mörg eintök af hverri bók hafa verið keypt til safnsins. Við samningu þessa frv. var haft náið samstarf eða samráð við Rithöfundasamband Íslands, og sú tilhögun, sem frv. gerir ráð fyrir í þessum efnum, er sett í samráði við stjórn rithöfundasambandsins. En skipanin, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að greiðslur til höfunda og þýðenda skulu miðaðar við eintakafjölda í söfnunum og greiðslan skuli innast af hendi úr ríkissjóði og úr bæjar-, sveitar- og sýslusjóðum í sömu hlutföllum og gildandi lög um almenningsbókasöfn kveða á um, að kostnaður við rekstur safnanna skuli skiptast milli ríkissjóðs annars vegar og bæjar-, sveitar- og sýslusjóða hins vegar. Þá er, ekki gert ráð fyrir því, að höfundarnir sjálfir eða þýðendur skuli fá alla þá upphæð, sem opinberir aðilar greiða vegna útlána bókanna. Höfundarnir eiga að fá til sín beint 60% hinnar opinberu greiðslu, 40% eiga aftur á móti að leggjast í sérstakan sjóð, Rithöfundasjóð Íslands, sem rithöfundasamtökin munu fá fullkomin umráð yfir, og er heimilt að nota tekjur hans til styrkveitinga, til þess að greiða ekkjum eða ekklum eftirlaun og með öðru þvílíku móti. Eru þessi ákvæði einnig sett með fullu,samráði við stjórn rithöfundasambandsins. Sú greiðsla, sem höfundar mundu fá vegna þessa frv:, mundi — miðað við árið 1967 — verða um 921 þús. kr., og úr ríkissjóði mundu þar af koma 400 þús. kr., og frá bæjar-, sveitar- og sýslusjóðum 521 þús. kr. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.