15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

110. mál, fjáraukalög 1965

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1965, sem hér liggur fyrir, er, eins og aths. við frv. bera með sér, flutt skv. till. yfirskoðunarmanna ríkisreikninga, en er í því fólgið að leita eftir aukafjárveitingum til þeirra umframgreiðslna, sem orðið hafa á einstökum liðum fjárlaga fyrir árið 1965.

Frv. til l. um staðfestingu á ríkisreikningnum hefur verið lagt fyrir hið háa Alþingi enn fremur, en því miður hefur enn ekki verið útbýtt ríkisreikningnum sjálfum með athugasemdum. Honum var útbýtt í haust, án athugasemda, og er því hægt að bera saman allar niðurstöðutölur, en vegna seinkunar í prentsmiðju hefur dregizt í nokkra daga, að honum verði útbýtt, en ég vonast til, að það verði núna alveg næstu daga, sem hann verður lagður fram.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að gera að umræðuefni þær umframgreiðslur, sem hér hafa átt sér stað — ég gerði það ýtarlega í sambandi við 1. umr. fjárlaga — ef ekki gefst frekara tilefni til þess, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.