14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. beggja þd. hafa eins og jafnan áður undanfarin ár unnið saman að till. um framlög til flóabáta og vöruflutninga. Segja má, að heildarskipulag þessara samgangna, flóabátaferðanna við strendur landsins, hafi haldizt litt breytt frá ári til árs. Skv. till. samvn. nú er lagt til, að 21 flóabát og flutningafyrirtæki verði veittar samtals 8 millj. 677 þús. kr. í styrk á næsta ári, og er það 305 þús. kr. hærra en á yfirstandandi ári.

Nokkur hækkun hefur orðið á árinu á rekstrarkostnaði flóabátanna. Sum fyrirtækin hafa keypt nýja báta og tekið þá í notkun, en önnur hafa orðið að endurnýja vélakost báta sinna. Af því spretta þær hækkunartill., sem n. flytur. En sú staðreynd verður þó ekki sniðgengin, að fjárhagur sumra bátanna er mjög lélegur og nauðsynlegt að athuga nánar, hvernig úr megi bæta.

Um rekstur og afkomu hinna einstöku flóabáta leyfi ég mér fyrir hönd n. að taka eftirfarandi fram: Um Norðurlandssamgöngur er það að segja, að nokkur óvissa ríkir um rekstur og framtíð Norðurlandsbátsins Drangs, vegna þess að gerbreyting hefur orðið á samgöngum á landi við kaupstaðina Ólafsfjörð og Siglufjörð. Múlavegur til Ólafsfjarðar hefur verið opnaður, og lokið er gerð jarðganga um Strákaveg, þannig að gert er ráð fyrir, að þessir kaupstaðir njóti akvegasambands meginhluta ársins. Af þessu leiðir mjög minnkaðar tekjur fyrir flóabátinn Drang, og telur útgerðarmaður hans ekki koma til greina að ætla honum áætlunarsiglingar eins og áður árið um kring. Hins vegar hefur hann farið fram á það við n., að hann fengi að halda óbreyttum rekstrarstyrk á næsta ári, miðað við það, að hann haldi uppi ferðum um farsvæði sitt eftir þörfum. Varð það ofan á, að n. féllst á að verða við þeirri ósk, en leggur til, að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins athugi í samráði við útgerðarmann bátsins framtíðarskipulag ferðanna og hafi þá jafnframt samráð við forustumenn byggðarlaganna, sem báturinn hefur haldið uppi þjónustu fyrir. En það er enn sem fyrr skoðun samvn., að nauðsynlegt sé að útvega útgerðarmanni Drangs, Steindóri Jónssyni, lengri og hagkvæmari lán í stað hinna erlendu lána, sem enn hvíla með allmiklum þunga á fyrirtækinu. En útgerðarmaðurinn hefur í hyggju vegna breyttra aðstæðna að endurskipuleggja rekstur bátsins, stækka hann nokkuð og gera farsvæði hans víðtækara.

Þá er lagt til, að framlag til Strandabáts verði óbreytt, þ.e.a.s. 60 þús. kr., en sú breyt. varð á s.l. ári, að akvegasamband skapaðist við Árneshrepp, og því hefur þótt fært að fella flóabátasamgöngur við það byggðarlag að mestu leyti niður. Hins vegar er talið nauðsynlegt, að kostur sé á slíkum ferðum framan af vori, ef snjóalög kynnu að hindra landsamgöngur. Þess vegna er lagt til, að nokkur hluti flóabátastyrks haldist áfram til þessarar þjónustu.

Þá er lagt til, að framlag til Haganesvíkurbáts verði óbreytt, en lagt er til, að Hríseyjarbátur fái 60 þús. kr. vélarstyrk, en haldi óbreyttum rekstrarstyrk.

Það er einnig till. n., að styrkur til flugsamgangna við Grímsey hækki um 10 þús. kr. Hafa áætlunarferðir Tryggva Helgasonar á Akureyri til Grímseyjar bætt mjög úr samgönguerfiðleikum Grímseyinga, og er gert ráð fyrir, að á þessu ári verði farnar um eða yfir 100 áætlunarflugferðir til eyjarinnar. Er Grímseyingum, er byggja eina afskekktustu og nyrztu byggð þessa lands, stórmikið hagræði að þessum flugsamgöngum.

Loks er lagt til í sambandi við Norðurlandssamgöngur, að styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda verði 120 þús. kr. Er það 10 þús. kr. lægra en á þessu ári, en þá var bátnum veittur 30 þús. kr. viðbótarstyrkur vegna vélarkaupa.

Austfjarðasamgöngur eru með svipuðum hætti og áður. N. leggur til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 30 þús. kr., en tekjur þessa báts eru sárarýrar, en ferðirnar hins vegar nauðsynlegar fyrir hina afskekktu byggð í Mjóafirði.

Þá er lagt til, að Loðmundarfjarðarbátur fái óbreyttan rekstrarstyrk, en nýr aðili tók við rekstri þessa flóabáts á þessu ári.

Loks er lagt til í sambandi við Austfjarðasamgöngur, að styrkur til snjóbifreiðar á Austfjörðum hækki um 20 þús. kr., en þessi snjóbifreið heldur uppi ferðum á milli Seyðisfjarðar og Héraðs um Fjarðarheiði, og hefur þótt mjög mikið gagn að þeirri þjónustu, sem snjóbifreiðin veitir, þegar snjóalög hindra almennar bifreiðaferðir.

Um Suðurlandssamgöngur er það að segja, að mörg undanfarin ár hefur verið veittur ríkisstyrkur vegna vöruflutninga til hinna hafnlausu héraða í Skaftafellssýslu. Leggur samvn. til, að svo verði gert áfram á næsta ári, og leggur til, að styrkur til vöruflutninga til Vestur-Skaftafellssýslu hækki um 40 þús. kr. upp í 590 þús. kr. N. leggur hins vegar til, að styrkur til vöruflutninga til Öræfa verði óbreyttur frá síðasta ári, 165 þús. kr. Loks leggur n. til, að styrkur til Vestmannaeyjabáts vegna mjólkurflutninga hækki um 50 þús. kr.

Þegar komið er að Faxaflóasamgöngum, kemur fyrst til álíta fyrirtækið h/f Skallagrímur, sem heldur uppi ferðum á milli Reykjavíkur og Akraness. Afkoma þessa fyrirtækis hefur á yfirstandandi ári verið mjög bágborin. Fyrirtækinu voru á þessu ári veittar 1600 þús. í rekstrarstyrk og 300 þús. kr. vegna viðgerðar á skipi sínu, m/s Akraborg. Fyrirtækið sótti nú um 2 millj. kr. rekstrarstyrk og 650 þús. kr. styrk vegna rekstrarhalla, sem stafaði að mestu leyti frá síðustu flokkunarviðgerð á m/s Akraborg. N. leggur til, að Skallagrími verði veittar 1700 þús. kr. rekstrarstyrkur og 300 þús. kr. styrkur vegna viðgerðar Akraborgar, samtals 2 millj. kr. Er þar um að ræða 100 þús. kr. hækkun frá yfirstandandi ári. Jafnframt er það tili. n., að sérstök n. verði skipuð til þess að rannsaka flutningaþörf og samgöngur á milli Akraness og Reykjavíkur með það fyrir augum að finna hagkvæmari lausn á flutningavandamáli þessa farsvæðis. Má raunar segja, að það sé rannsóknarvert, að afkoma flóabáts á einmitt þessu fjölfarnasta farsvæði landsins skuli vera svo bágborin sem raun ber vitni.

Er þá komið að Breiðafjarðarsamgöngum. Þar er lagt til, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts á Breiðafirði verði nú 455 þús. kr. Þessi bátur heldur uppi samgöngum á milli vestureyja Breiðafjarðar og enn fremur við landhreppana í Austur-Barðastrandarsýslu á vetrum. Í þessari styrkupphæð er innifalið 20 þús. kr. framlag til ferða af Barðaströnd með beltisdráttarvél yfir Kleifaheiði til Patreksfjarðar, þegar snjóar hindra ferðir bifreiða á þessari leið. Samtals verður framlagið til þessa báts 55 þús. kr. lægra en á yfirstandandi ári, en þá var Flateyjarbát veittur 200 þús. kr. styrkur vegna kaupa á nýjum bát. Það er till. n., að hreppsnefnd Flateyjarhrepps verði framvegis falin umsjón með rekstri og ferðum Fateyjarbáts.

Þá er lagt til, að styrkur til Stykkishólmsbátsins Baldurs verði 1500 þús. kr. Er þar um að ræða 50 þús. kr. hækkun frá yfirstandandi ári. Hinn nýi flóabátur Baldur, sem er 180 brúttótonn að stærð, hóf þjónustu sína í byrjun aprílmánaðar s.l., og er hagur flóabátsins mjög erfiður. Lánum í sambandi við smíði bátsins hefur ekki verið komið á fastan grundvöll, og veruleg óvissa ríkir um verkefni fyrir hann í framtíðinni. Skapaðist því fyrirtæki, sem bátinn rekur, verulegur vandi vegna þess, hve lengi dróst, að hinn nýi bátur kæmist í gagnið. En það er skoðun samvn., að nauðsynlegt sé, að fjárhagsvandamál þessa báts verði tekin til ýtarlegrar athugunar og úrlausnar.

Þá er lagt til, að styrkur til Langeyjarnesbáts á Breiðafirði verði óbreyttur.

Um Vestfjarðasamgöngur er það fyrst að segja, að afkoma Djúpbátsins h/f á Ísafirði, sem rekur m/s Fagranes, hefur verið sæmileg á yfirstandandi ári. Skipið hefur eins og undanfarin ár haldið uppi ferðum um Ísafjarðardjúp og til kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hafa farþega- og bifreiðaflutningar með skipi félagsins verið með mesta móti. Leggur n. til, að rekstrarstyrkur til Djúpbátsins verði 1350 þús. kr., og er það sama upphæð og á yfirstandandi ári.

Þá er lagt til að lokum, að framlag til þriggja smábáta á Vestfjörðum, Dýrafjarðarbáts, Patreksfjarðarbáts og Skötufjarðarbáts, verði óbreytt að öðru leyti en því, að styrkur til Dýrafjarðarbáts hækki um 10 þús. kr.

Samkv. því, sem hér hefur verið greint, er það till, samvn. samgm., að heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1967 8 millj. 677 þús. kr., og er það, eins og ég sagði í upphafi, 305 þús. kr. hærra en á yfirstandandi ári. Flytur n. á þskj. 125 brtt. um þessa hækkun.