11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., það er óþarfi. Hér er um mál að ræða, sem allir eru sammála um og fullt samkomulag um. En ákveðin orð hjá hv. frsm. get ég ekki látið fram hjá mér fara án þess að gera við þau aths. Hann sagði, að sér kæmi það nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir, að ég hefði gefið það í skyn í ræðu hér í gær, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefði fallizt á það eða samþ. það fyrir sitt leyti, að Bandalag háskólamanna fengi samningsaðild. Þessi orð hans má skilja svo, að ég hafi verið að fara þar með staðlausa stafi. En þetta er staðreynd. Það liggur fyrir samþykkt stjórnarinnar, hún hefur verið birt. Um það er ekkert að efast. Það þarf þess vegna ekki að láta sér það koma ókunnuglega fyrir sjónir eða vera að tala um það, að það hafi verið gefið í skyn, að svona sé þessu varið. Enda man ég ekki betur en það kæmi fram hjá hæstv. fjmrh. hér í gær, að hann kannaðist fyllilega við það, að þessi samþykkt hefði verið gerð. Um þetta atriði er þess vegna ekki hægt að efast eða deila. Stjórn BSRB hefur samþykkt það fyrir sitt leyti, að BHM fengi samningsaðild. Hitt er svo annað mál, hvort menn álíta það heppilegt eða óheppilegt. Ég get alveg út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. fjmrh., sem fram kom hjá honum í gær og sem er kannske eðlilegt sjónarmið af hálfu fyrirsvarsmanna ríkisins, að það sé æskilegast að hafa einn viðsemjanda. En það, sem ég vil segja, er það, að eins og þessum málum er komið nú, þar sem það hafa verið teknir út úr ákveðnir hópar háskólamanna og við þá verið gerðir samningar sérstaklega, þá held ég fyrir mitt leyti, að þetta kerfi sé að nokkru leyti niður brotið og ekki verði við það unað til lengdar, að svo verði haldið áfram, sem byrjað hefur verið nú ú. Og það verð ég þó að segja, að það hlýtur að vera hagkvæmara fyrir ríkið og fyrirsvarsmenn þess að semja við tvö bandalög, tvo aðila, heldur en kannske mjög marga aðila og flokka, eins og þróunin gæti orðið, ef hún heldur áfram í sömu stefnu eins og að undanförnu. Það eru þessi rök sérstaklega, sem ég vil færa fram fyrir því, að ég tel það eðlilegt, eins og komið er, að BHM verði veitt samningsaðild og það verði viðurkenndur samningsaðili. Ég sé nú ekki ástæðu til og vil ekki fara út í það að blanda inn í þessar umr. þeim atriðum, sem hv. frsm. n., hv. 8. þm. Reykv., taldi hér fram sem rök gegn því að veita BHM samningsaðild. Þau rök, sem hann taldi mæla þar í gegn, tel ég fyrir mitt leyti ekki sérstaklega þung á metunum. Sjálfsagt er það einhver vandi, sem við er að etja, hvernig þarna á að draga markalínurnar. En það er þó áreiðanlega ekki neinn óleysanlegur vandi, og þessi n., sem hefur fjallað um þetta, hefur haft á þriðja ár til þess að leysa þann vanda. Ég álít, að það hefði ekki átt að vera ofætlunarverk. Mér sýnist það tiltölulega auðvelt. Það hlýtur að mínum dómi að verða miðað við það, hvort störfin eru þess eðlis, að háskólamenntunar sé krafizt til þess að gegna þeim. Það er sú eðlilega markalína að mínum dómi. En auðvitað á ekki háskólamenntaður maður að hafa neina sérstöðu, ef hann gegnir ekki slíku starfi, sem sérstakt háskólapróf þarf til. Það finnst mér liggja alveg í augum uppi.

Ég ætla heldur ekki að fara sérstaklega út í það að tína fram hér rök fyrir því, að mér finnst eðlilegt að veita BHM samningsaðild, fram yfir það, sem ég hef reyndar þegar gert, þ. e. vegna þess ástands, sem ríkir nú í þessum efnum og hefur smám saman komizt á. — Ég vil ekki á neinn hátt gera lítið úr BSRB né þeim árangri, sem þar hefur náðst. En mér fannst nú hv. frsm. benda á nokkur gögn því til styrktar, að heppilegt væri, að BHM væri viðurkenndur sérstakur samningsaðili, þar sem hann gerði grein fyrir því; hve lítill hluti háskólamenn eru af öllum bandalagsmeðlimunum, og gerði líka rækilega grein fyrir þeirri reynslu, sem hann hefði haft í þessum málum, og hversu það hefði einmitt verið örðugt að ná leiðréttingum á kjörum þessara manna alveg sérstaklega, svo að það er ekki svo óeðlilegt, þó að þeir telji sér henta að hafa fyrirsvarsmenn sérstaklega fyrir sig í þessum samningum, sem hér er um að tefla. Ég er ekki í nokkrum vafa fyrir mitt leyti, að það líður ekki langur tími, áður en BHM verður viðurkenndur samningsaðili.