11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta nokkurn misskilning, sem mér fannst gæta í síðustu ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Það, sem ég átti við, þegar ég talaði um, að það kæmi mér á óvart, ef bandalagsstjórnin væri búin að samþykkja samningsrétt BHM, var það, að þó að mér hafi að vísu verið kunnugt um það lengi, svo sem ég gat um í fyrri ræðu minni, að bandalagsstjórnin væri því ekki andvíg, að BHM fengi þennan samningsrétt, ef það gæti orðið án þess að hagsmunum heildarsamtakanna væri stofnað þar í hættu, og má vel vera, það kemur mér ekki á óvart, að einhver almenn samþykkt hafi verið gerð þess efnis, þá er það ekki nóg, að samkomulag sé um það almennt, að BHM eigi að fá þennan samningsrétt, heldur verður þá líka, ef það á að koma til framkvæmda, að vera samkomulag um það, hvernig markalínurnar skuli draga á milli þessara bandalaga. Það finnst mér liggja í augum uppi, að það eigi líka að vera samkomulag um það, hverjir eigi að fara með samningsrétt fyrir hvern, og það var þetta, sem ég átti við, þegar ég talaði um, að mér kæmi á óvart, ef bandalagsstjórnin væri fyrir sitt leyti búin að ráða því til lykta, því að ég hef ekki einu sinni séð neinar ákveðnar till. um það, hvernig þeim málum skuli skipað í einstökum atriðum.

Ég vil nú líka leyfa mér að leiðrétta það, þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um þau rök, sem ég hefði fært fram á móti því, að BHM fengi þennan samningsrétt. Ég var alls ekki að bera fram nein rök á móti þessum samningsrétti. Ég benti aðeins á það, að ákveðin vandamál þyrfti að leysa, áður en þetta kæmi til framkvæmda. Ég tók það fram, að ég teldi þessi vandamál ekki óleysanleg, en það verður að leggja vinnu í það að fá þar einhverja lausn. Það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. benti á í því sambandi og er í sjálfu sér ekki óeðlileg lausn, er þetta, að BHM, ef það fær samningsréttinn, semji fyrir hönd allra þeirra, sem gegna stöðum, sem háskólamenntunar er krafizt til. Slíkt kemur mjög til álita. Ég vil þó benda á ákveðinn vanda, sem mundi skapast, ef þessi leið væri farin. Ég minntist einmitt á Landssamband framhaldsskólakennara, að það hefði klofnað í tvö félög. Annað hefur sagt sig úr bandalaginu og er aðili að BHM. Hitt félagið, en í því mun nú vera allur þorri Landssambands framhaldsskólakennara, en aðili að bandalaginu. Mundi það ekki skapa vissan vanda ríkisvaldinu til handa gagnvart þessum samtökum, ef það ætti nú með l. að fyrirskipa það, varðandi Landssamband framhaldsskólakennara, sem nú er aðili að bandalaginu, og ég býst við, að það óski a.m.k. fyrst um sinn að vera aðili að því áfram, að því er snertir samningsrétt fyrir þessa kennara, sem ekki hafa að vísu háskólapróf, en gegna stöðum, sem háskólamenn hafa forréttindi til, þá skuli landssambandið afsala sér samningsréttinum fyrir sína hönd til BHM. Það má ekki skoða þetta sem nein andmæli í sjálfu sér gegn því, að BHM fái samningsréttinn. Ég tel víst, að sú verði þróunin, áður heldur en langt um líður. En einmitt til þess að slíkt geti komið til framkvæmda, þarf að horfast í augu við þau ljón, sem á veginum eru, og vinna að því að fá þeim rutt burtu.

Svo er það aðeins að lokum þetta: Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi, að sú tregða, sem hefði verið á því bæði fyrr og síðar, að hinir hærra launuðu embættismenn fengju leiðréttingu umfram aðra, væri bezta sönnunin fyrir því, að þessum málum bæri að skipa á annan veg, þannig að þessir hærra launuðu embættismenn færu sjálfir með sitt umboð. Ég tek nú vissulega ekki aftur þau ummæli, sem ég hafði hér um það, sem fjmrh. úr hinum ýmsu flokkum sögðu. Hvort orðalagið var nákvæmlega það sama, sem ég kom með, eða eitthvað annað, skal ég ekki fullyrða um, en hugsunin var þessi, að það mundi skapa óróa, sem ekki yrði ráðið við, ef það yrði farið að hækka laun lækna, sýslumanna og presta o.s.frv. frekar heldur en laun annarra. En þó að ég hefði vissulega ástæðu til að kvarta undan þeim móttökum, sem ég fékk, þar sem ég talaði þó við þessa menn í umboði 5 þús. opinberra starfsmanna, þar sem þorrinn var þó láglaunafólk þá, efast ég nú um, að formanni Dómarafélagsins hefði t.d. verið tekið öllu betur af þessum mönnum heldur en mér, svo að það er út af fyrir sig ekki nein örugg lausn á þeim vanda, sem hér er um að ræða, og ég veit, að við hv. 3. þm. Norðurl. v. erum sammála um, að vinna þurfi að að leysa. En með breytingu á fyrirkomulaginu einu, þótt hún sé góð og nauðsynleg, er ekki hægt að ráða þessum vandamálum til lykta.