11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhansson:

Herra forseti. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það, þó skiptar séu skoðanir á því, hvort veita eigi BHM samningsaðild eða ekki. Mönnum er frjálst að hafa þá skoðun á því sem þeir vilja, og hv. 4. landsk. þm. er að sjálfsögðu heimilt að hafa sína skoðun á því og vera andvígur því, að BHM fái samningsaðild að kjarasamningum. Ég hef aldrei haldið því fram og aldrei látið mér koma það til hugar; að það ætti að fara að skipta þessu upp í marga hópa, ég er ekki talsmaður þess. Ég hef einmitt bent á það, að þetta hlyti að vera varnarástæða gegn því skipulagi, sem hefur verið að myndast, að æ fleiri starfsmannahópar eru að kljúfa sig út úr og semja sérstaklega, þá hlyti það að vera vörnin, að BHM gengi saman og hefði sérstaka samningsaðild. En það, sem er síður afsakanlegt og leyfilegt hjá þessum hv. landsk. þm., sem setið hefur á þriðja ár í n. til þess að semja og endurskoða þetta frv., er það, að hann skuli koma hingað og segja, að sér sé ekki kunnugt um það, að stjórn BSRB hafi fallizt á það, að BHM sé sjálfstæður samningsaðili. Ég verð að segja, að þegar ég heyri þetta, fer ég að skilja betur, hvers vegna það hefur dregizt svona lengi, að þessi n. hefur skilað af sér. Mér skilst, að hann hefði átt að fylgjast betur með í þessum efnum. En það er óþarfi um það að deila, hvort þetta hefur gerzt eða ekki. Ég vil mælast til þess, að hann á næsta fundi n. leiti eftir því að fá upplýsingar um þetta á vegum bandalagsins, svo að það geti þá framvegis legið skýrt fyrir í þessari n. og það þurfi ekki að deila um svona atriði, sem hann ætti að vera öðrum mönnum kunnugri vegna þess starfs, sem hann hefur haft með höndum í sambandi við öll þessi mál, og þó alveg sérstaklega einmitt með setu sinni í þessari endurskoðunarnefnd.