14.03.1968
Efri deild: 70. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga er nú margrætt hér í þessari þd., en ég vil aðeins koma hér að einni athugasemd til að skýra mína afstöðu til málsins.

Hv. 3. landsk., Jón Þorsteinsson, frsm. 1. minni hl. heilbr.- og félmn., túlkaði þannig í framsögu við 2. umr. 1. lið brtt. á þskj. 317, sem samþ. var og felld hefur verið inn í 1. gr. frv. Orðrétt sagði hv. frsm.: „Breytingin er á þá leið, að aðstöðugjaldsskyld eru einungis þau verðmæti, sem flutt eru á milli atvinnugreina hjá sama gjaldanda, en hugtakið atvinnugrein er mun þrengra en hugtakið atvinnurekstrarþáttur. Með atvinnugrein er fyrst og fremst átt við fiskveiðar, iðnað, verzlun, siglingar, landbúnað og þjónustustarfsemi“. Og síðar í sömu framsöguræðu: „Dæmi úr fjölþættum atvinnurekstri, þar sem milliflutt verðmæti yrðu hins vegar ekki aðstöðugjaldsstofn, er þegar verðmæti er flutt á milli heildverzlunar og smásöluverzlunar og milli ullarverksmiðju og saumastofu. Skilsmunurinn liggur í því, að í þessum síðargreindu dæmum tilheyra atvinnurekstrarþættirnir sömu atvinnugreininni.“ Með þessari skilgreiningu á 1. gr. með áorðnum breytingum get ég fallizt á frv. í heild, eins og það liggur fyrir til atkvgr.