08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt eftir eindreginni ósk stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Það var flutt í Ed. og urðu um það verulegar umr. í d. og nokkur ágreiningur, en það var þó afgreitt út úr þeirri d. með 12 shlj. atkv., eftir að nokkrar breytingar höfðu verið á því gerðar. Þar sem heilbr.- og félmn., sem fékk frv. til meðferðar hér í hv. Nd., var um það kunnugt, að það hafði hlotið allítarlega athugun hjá fyrri d., Ed., sem fékk það til meðferðar, var það ekki sent til umsagnar, en n. barst erindi frá einum aðila, Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem flutti þær eindrepnu óskir, að felldar yrðu út úr frv. 1. og 4. gr. þess. Út af fyrir sig þarf það kannske ekki að teljast neitt óeðlilegt, þó að hagsmunahópar óski eftir, að mál, sem þá snerta og ráðamenn þeirra samtaka telja til útgjalda hjá sér, óski eftir því að losna við þær byrðar.

Hitt er annað mál, að öll breyting á tekjustofnalögum, hvort sem það er í sambandi við aðstöðugjöld eða útsvarsstiga, er miklu flóknara mál að mínum dómi heldur en svo, að eðlilegt sé að því verði breytt með einfaldri brtt. hér á Alþ., heldur þurfi að koma þar til nokkru og ég vil segja miklu nánari athugun. Tekjustofnar sveitarfélaganna eru það samhangandi, að verði röskun á efnum þeirra innbyrðis, hefur það að sjálfsögðu áhrif á aðra til hækkunar eða lækkunar, og er eðlilegt, að Samband ísl. sveitarfélaga fái að átta sig á þeim breytingum og segja álit sitt um þær. Samkv. 1. gr. frv. eins og það er komið frá hv. Ed., er þar um að ræða breytingu á 9. gr. tekjustofnalaganna, sem eru um álagningu eða heimild til álagningar aðstöðugjalda. Þessi breyting er flutt að beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga, að ég hygg vegna niðurstöðu hæstaréttardóms, sem gekk á s.l. ári í einum kaupstað varðandi álagningu aðstöðugjalds á einu fyrirtæki þar. Með þeirri breytingu, sem þar er lagt til, er aðeins verið að gera ákvæði, sem sveitarstjórnir eða skattstjórar hafa undanfarið unnið eftir í sambandi við álagningu aðstöðugjalda, þá er verið að gera þessi ákvæði skýrari og lögfesta þau, til þess að ekki þurfi að koma til ágreinings og úrskurðar dómstóla um það, hvernig þau aðstöðugjöld beri að leggja á í hverjum einstökum flokki.

2. gr. frv. er um breytingu á 15. gr. tekjustofnal. og er í sambandi við heimild til að greiða sveitarfélagi aukaframlag úr jöfnunarsjóði, ef þannig stendur á. Um reglur þær, sem á sínum tíma voru settar inn í tekjustofnal. um heimild til greiðslu aukaframlags, má segja, að þær hafi verið nokkuð strangar, því að við það var miðað, að aukaframlag skyldi því aðeins greitt, að viðkomandi sveitarfélag hefði þurft að fullnota gildandi útsvarsstiga auk 20% álags á stigann. Fyrir sveitarstjórnarmenn, sem til þessara mála þekkja, hlýtur þetta að líta út sem nokkuð harðir kostir, og ég tel ekkert óeðlilegt, að af fenginni reynslu undanfarinna ára sé þetta ákvæði nokkuð mildað. Þessi 2. gr. frv. kom inn hjá hv. Ed. eftir, að ég held, 2. umr., en var ekki í frv. eins og það upphaflega var lagt fyrir. Að dómi heilbr.- og félmn. Nd. er þarna stigið nokkuð stórt skref, þar sem farið er frá 20% álagi á hinn löggilta útsvarsstiga niður í 15% álag miðað við meðalútsvarsstiga eftir þeim reglum, sem þessi gr. frv. gerir ráð fyrir og að fundið verði út með því að reikna út hinn mismunandi afslátt hjá einstaka sveitarfélagi og þá að sjálfsögðu álag á útsvarsstigann. Einnig gerir þessi gr. ráð fyrir, að heimilt sé að greiða aukaframlag að viðbættum 15% á þennan meðalútsvarsstiga.

Árið 1966 reyndist þessi meðalútsvarsstigi eftir útreikningi, að ég hygg, Hagstofunnar — 89% af útsvarsstiganum eins og hann er í tekjustofnafrv., en aftur 90% fyrir árið 1967. 15% viðbót við 90% meðalútsvarsstigann gerir það að verkum, að sveitarfélag, sem hefði þurft að fullnota útsvarsstigann og aðeins 31/2% til viðbótar, hefði áunnið sér heimild til þess, að félmrn. veitti því aukaframlag. Heilbr.- og félmn. Nd. taldi, eins og ég sagði áðan, að þarna væri um of stórt stökk að ræða, að fara úr 20% álagi á útsvarsstigann niður í raunverulega 3 1/2% miðað við meðalútsvar ársins 1967. N. flytur því brtt. á þskj. 479 um, að í stað 15% komi 20%, en það vill segja, að miðað við árið 1967 hefði sveitarfélag þurft að leggja á 8% umfram stigann til þess að koma til greina um að fá aukaframlag úr jöfnunarsjóði.

Það má að sjálfsögðu mjög um það deila, hvaða mark eigi þarna að vera, en ég hygg þó, að mjög óvarlegt sé að gera þarna á stærri breytingu heldur en fram kemur í brtt. heilbr.- og félmn. á þskj. 479.

Í 3. gr. frv. er nýtt ákvæði, sem ég vil segja, að nokkrum ágreiningi olli í Ed., en það er um það, að hafi gjalddagar samkv. 8. lið 47. gr. tekjustofnal. verið ákveðnir, sé sveitarstjórn heimilt að láta þá reglu gilda því aðeins, að jafnframt verði gerð full skil á fyrirframgreiðslu eigi síðar en 31. júlí, en reglan, sem þarna er átt við, er sú, að útsvar skuli verða frádráttarhæft við niðurjöfnun næsta ár eftir að það var greitt. Í frv. eins og það var lagt fyrir, var lagt til, að þetta væri ákveðið í l., að þannig skyldi að staðið með að gera fyrirframgreiðslu því aðeins frádráttarbæra, að hún hefði verið að fullu greidd fyrir ákveðinn tíma. Í meðferð málsins í Ed. breyttist þetta þannig, að það var gert að heimildarákvæði fyrir sveitarfélögin að haga þessu svo, að það væri á þeirra valdi, valdi sveitarstjórnar sjálfrar, hvort þau vildu fylgja þeim reglum, sem áður voru í gildi um, að öll útsvör, sem greidd eru að fullu fyrir áramót, skulu vera frádráttarbær eða þrengja þetta þannig, að einnig fyrirframgreiðslan yrði því aðeins frádráttarbær, ef hún yrði innt af hendi fyrir ákveðinn mánaðardag. Ég tel, að þetta hafi verið og sé breyting í rétta átt að láta sveitarfélögin sjálf ráða því, hvort þau vilja nota sér ákvæði þessarar gr. eða ekki. Viðhorf í sambandi við þetta geta verið mjög misjöfn í hinum einstöku sveitarfélögum og eru það án efa og því að mínum dómi réttara, að sveitarstjórnir hafi það á sínu valdi að ákveða þetta heldur en þau séu bundin af l. um framkvæmd þessa atriðis.

Í 4. gr. frv., sem er varðandi eignarskatt, er verið að breyta gildandi reglum vegna þess, sem nú hefur verið ákveðið, að eignarútsvar skuli leggjast á eftir sömu reglum og eignarskattur til ríkissjóðs. Þetta er eðlileg og nauðsynleg breyting, og hygg ég, að mörgum hafi þótt þarna stigið allstórt skref, þar sem fasteignamat í sambandi við eignarútsvar var þrefaldað áður, en nú er gert ráð fyrir, að það verði nífaldað. Ég leitaði mér upplýsinga hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga eða forstöðumanni þess um það, hvort þeir hafi gert á því nokkra athugun, hvernig þetta mundi koma út fyrir sveitarfélögin, og tjáði hann mér, að Akureyrarkaupstaður hefði gert á þessu athugun hjá sér, og fékk ég síðar símskeyti frá bæjarstjóra þar, þar sem fram kemur, að þessi breyting á eignarútsvari eða eignarútsvarsstiganum muni valda um 25% hækkun eignarútsvara til Akureyrarkaupstaðar. Ég hafði reiknað með, að þetta yrði nokkru meiri hækkun, en tek að sjálfsögðu trúanlega þá athugun, sem farið hefur fram í þessu sveitarfélagi, enda þegar maður athugar þá stiga, sem þarna er um að ræða, annars vegar varðandi eignarskattinn og hins vegar varðandi eignarútsvörin, kemur það í ljós, að eignarútsvör hafa yfirleitt verið allmiklu eða prósentvís allmiklu hærri heldur en eignarskattur til ríkisins, auk þess sem nú kemur inn nýtt ákvæði um það að skattfríar frá eignarskatti skuli vera 200 þús. kr. hjá hverjum einstökum gjaldanda.

5. gr. frv. er um framlengingu nokkurra bráðabirgðaákvæða, sem voru og eru enn í tekjustofnal. og gilda áttu til ársloka 1967. Í hinu upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að þessi bráðabirgðaákvæði yrðu framlengd til ársins 1973, en hv. Ed. breytti þessu nokkuð, þannig að þau ákvæði, sem hún leggur til, að framlengd verði, eiga aðeins að gilda á árinu 1968 og 1969, og auk þess felldi deildin út tvö atriði. Það var varðandi tekjur giftra kvenna, sem frv. gerir nú ráð fyrir, eins og það er komið frá hv. Ed., að skuli dragast frá að hálfu, eins og gert er við álagningu skatts til ríkissjóðs, en áður var heimilt fyrir sveitarstjórnir að meta það, að hve miklu leyti tekjur giftra kvenna voru taldar frádráttarbærar. Ég tel þetta ákvæði til bóta og eðlilega þróun þessara mála og hygg, að það sé í flestöllum stærri kaupstöðum komið svo, að framtalsnefndir hafi farið inn á þá braut að fylgja sömu reglu og skattal. gera ráð fyrir. Sama má segja um sjómannafrádrátt. Það er nú lagt til í frv., að hann skuli frádráttarbær að fullu. Ég tel þetta ákvæði nokkru hæpnara, þó að ég telji það út af fyrir sig eðlilegt að fylgja sömu reglu og skattal. gera ráð fyrir í þessu tilfelli, en mér er það ljóst, að í mörgum hinna smærri sveitarfélaga, þar sem útsvör sjómanna eru kannske meginuppistaðan í útsvörunum, getur þetta valdið nokkrum ruglingi og kannske erfiðleikum. En ég hygg þó, eftir því sem gerzt hefur á undanförnum árum, að mjög hafi stefnt í þá átt almennt hjá sveitarfélögum að gera sjómannafrádráttinn frádráttarbæran að fullu. Önnur ákvæði um að hafa það á valdi sveitarstjórnar að meta, hvort t.d. rekstrartap megi færast á milli ára og hvort gjafir til menningarmála, vísinda o.fl. skuli vera frádráttarbærar og einnig varasjóðstillög, þar sem lög heimila slíkt, það stendur áfram í frv. eins og það er komið frá hv. Ed., en gert ráð fyrir, að þessi ákvæði gildi aðeins fyrir árið 1968 og 1969, eins og ég sagði áðan.

Í 2. mgr. 6. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þó skulu ákvæði 3. gr. um frádrátt á greiddu útsvari eigi koma til framkvæmda fyrr en við útsvarsálagningu á árinu 1969.“ Ég þykist vita, að heilbr.- og félmn. Ed., sem setti þetta ákvæði inn, hafi aðeins átt við það, að þetta ákvæði tekjustofnal. gilti að því er tekur til fyrirframgreiðslna útsvara, en ekki ætti að nema úr gildi þau ákvæði, sem í lögum eru enn, að útsvar skyldi frádráttarbært, ef það væri greitt að fullu fyrir áramót. Ég tel rétt, að til þess að taka af allan vafa um þetta atriði verði þetta ákvæði 6. gr. gert skýrara og ótvírætt og er því með skriflega brtt. um, að 2. málsl. þessarar gr. orðist svo:

„Þó skulu ákvæði 3. gr. um frádrátt á greiddu útsvari, að því er tekur til fyrirframgreiðslu, eigi koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1969.“

Ég tel nauðsynlegt, að þessari breytingu sé þarna skotið inn, til þess að ekki þurfi að verða ágreiningur um það, við hvað átt er.

Eins og ég sagði í upphafi, var heilbr.- og félmn. þessarar d. um það kunnugt, að málið hafði fengið allítarlega athugun í hv. Ed., og var frv. því ekki sent neitt til umsagnar. N. klofnaði, eins og fram kemur á þskj., en meiri hl. hennar varð sammála um að mæla með frv. með tilteknum breytingum, sem fram koma á þskj. 479. Tveir nm., þeir hv. 9. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykn., áskilja sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég hef lýst fyrri brtt. n., sem er við 2. gr., en 2. brtt., sem er við 3. gr., er um það atriði, að ef sveitarstjórn vilji leita heimildar samkv. 2. málsl. þeirrar gr., skuli hún gera um það sérstaka samþykkt fyrir 15. jan. ár hvert og auglýsa hana á þann hátt sem venjulegt er um almennar auglýsingar á hverjum stað. Það verður að teljast eðlilegt, að gjaldendur fái að vita um það fyrirfram, áður en fyrirframgreiðsla útsvara hefst, hvort sveitarstjórn hefur notað heimild I. um að gera þau frádráttarbær, ef staðið er í skilum með þau að fullu, eða ekki og af því er þessi brtt. flutt.

Herra forseti. Eins og ég hef getið um, leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem hann hefur flutt.