09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Þegar ég sagði áðan, að með till. hv. 4. þm. Vestf. væri skapað misrétti milli einstakra gjaldenda, þá var það vegna þess, að till. gerir ráð fyrir, að sveitarstjórnir fái heimildir til að meta það, hvort þær vilji taka tapsfrádrátt og afskriftir hjá einstaka fyrirtækjum eða einstaka tegund fyrirtækja, en annarra ekki. Ég benti á það, að þetta mundi skapa, eins og ég sagði, misrétti og væri brot á þeirri grundvallarreglu, sem mér er kunnugt um, að sveitarstjórnarmenn hafa starfað eftir undanfarið, að láta lög og reglur um niðurjöfnun gjalda ná sem jafnast og með sama hætti til gjaldendanna. Það, sem mér skilst að menn geri mikinn greinarmun á hérna — eða a.m.k. kom það fram hjá hv. 4. þm. Vestf., að hann virðist líta þannig á, að ekki megi — sveitarfélögin hafi ekki heimild til þess að meta þessi atriði, hvort þau vilja nota sér þessi ákvæði eða ekki og vitnaði þar um til skattalaga en í sambandi við niðurjöfnun útsvara og skatta til ríkisins er um tvö að nokkru leyti ólík sjónarmið að ræða. Annars vegar eru skattar til ríkisins, sem lagðir eru á eftir alveg föstum og ákveðnum reglum. Þeir eru aðeins lítill hluti af heildartekjum ríkissjóðs og það skiptir ríkissjóð ekki svo miklu máli, hvort þeir eru meiri eða minni. Aftur í sambandi við niðurjöfnun útsvara er það staðreynd, sem ekki verður komizt fram hjá, að séu gerðar ívilnanir til einstakra gjaldenda eða einstakra flokka eða tegunda gjaldenda, hlýtur það að yfirfærast á aðra gjaldendur í sama byggðarlagi. Það er einmitt vegna þessarar aðstöðu, sem ég tel, að það sé alveg grundvallarskilyrði fyrir sveitarfélögin að haga álögum sínum þannig, að þar séu allir jafnir fyrir, en ekki verið að skapa misræmi á milli gjaldenda. Það er af þeim ástæðum, sem ég benti á það og lýsti því yfir, að ég teldi það mjög misráðið að samþykkja þá till., sem hér er fram komin, og ég endurtek, að eftir því, sem ég þekki til, er þetta brot á þeirri grundvallarreglu, sem sveitarfélögin hafa starfað eftir, og ég tel það alveg ástæðulaust og tortryggni gagnvart sveitarstjórnarmönnum yfirleitt í landinu, að þeir séu að beita þeim lagaheimildum, sem þeir fá, þannig, að það verði til tjóns fyrir einstaka atvinnufyrirtæki, sem oft og tíðum eru undirstaðan undir rekstri sveitarfélaganna, ef svo mætti segja, undir atvinnulífinu, sem auðvitað skapar hverju sveitarfélagi þær tekjur, sem það þarf til þess að standa undir sínum útgjöldum.

Ég skal nú ekki tefja umr. neitt meira. Þær eru orðnar alllangar eins og hér kom fram, kannske ekkert óeðlilegt, þar sem þetta virðist vera nokkuð mikið deilumál í báðum deildum, en ég mundi telja það einna verst farið, ef sú till., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. Ekki vegna þess, að það skipti kannske sveitarfélögin miklu máli fjárhagslega, þau hafa aðstöðu til að meta það sjálf, heldur vegna þess, að það skapar misræmi, sem er óeðlilegt og ósanngjarnt í sambandi við álögur á íbúa hvers byggðarlags í landinu.