09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að greiða atkv. með þeirri till. hv. 4. þm. Vestf., sem hér hefur verið fram borin. En ég kemst samt ekki hjá því að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni, vegna þess að ég hef oft hér í hv. d. haldið því fram, að ég áliti, að það ætti að vera fullkomið jafnræði á milli atvinnuvega og iðnaðurinn ætti að búa við sama rétt og sjávarútvegur og landbúnaður, en eins og hv. 3. þm. Sunnl. hefur bent á, má kannske segja, að með þessari till. sé skapað visst misrétti þarna á milli. En ég hygg nú samt, að vegna þess að hv. 3. þm. Sunnl. er úr sjávarplássi, sjái hann við nánari athugun, að það er kannske ekki óeðlilegt, að það sé gerður nokkur greinarmunur á þessu. Það er ekki annað hægt en viðurkenna það, að sjávarútvegurinn býr við sérstöðu í þessum efnum. Hann er miklu meira háður sveiflum heldur en nokkur annar atvinnuvegur, háður aflabrögðum, veðráttu og erlendum markaði í miklu ríkara mæli heldur en nokkur atvinnugrein, og þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að nokkurt tillit sé tekið til þess í sambandi við álagningu skatta. Hjá sjávarútveginum kemur það miklu oftar fyrir heldur en hjá öðrum atvinnuvegum, að það getur orðið mikill gróði eitt árið, mikið tap hitt árið, og þess vegna er eðlilegra, að hann njóti þess frádráttar heldur en jafnvel aðrir atvinnuvegir, þess frádráttar, sem hér um ræðir. Þess vegna finnst mér, að þó að þessi till. hv. 4. þm. Vestf. líti í fljótu bragði þannig út, að hún skapi visst misrétti, þá eigi hún þó rétt á sér, þegar tillit er tekið til allra ástæðna. Ég mundi líka álíta það, að með því að samþykkja hana og veita þessa undanþágu hvað sjávarútveginn snertir, mundi það ýta undir það, að það kæmist til framkvæmda, sem löggjafinn ætlaðist upphaflega fyrir, sem er það, að öll fyrirtæki nytu þess frádráttar, sem hér er um að ræða, því að eins og hefur komið fram í umr., var ekki ætlazt til, að þessi undanþága sveitarfélaganna til þess að afnema þennan frádrátt gilti lengur en í 4 ár. Nú er ætlazt til að framlengja þetta í tvö ár til viðbótar, en ég álít rétt, eins og hér er gert ráð fyrir, að þetta nái til sjávarútvegsins og það mundi þá flýta fyrir því, að þessi regla yrði almenn, eins og löggjafinn ætlaðist til upphaflega.

Ég vildi líka segja það í sambandi við þessar umr., að ég álít, að það sé, kominn tími til þess hér eins og annars staðar, að menn fari að endurskoða viðhorf sitt til þess, hvernig eigi að skattleggja atvinnuvegina. Ég held, að það hafi átt sér stað í vaxandi mæli í öðrum löndum að undanförnu, að í sambandi við skattaálagningu sé tekið miklu meira tillit til taps hjá fyrirtækjum en áður var, og eins hafi verið mjög auknar afskriftir frá því, sem áður tíðkaðist. Það stafar m.a. af því, að vegna breytinga, sem hafa orðið á atvinnuháttum, sérstaklega af því að tækninni fleygir mjög fram, verða félögin að endurnýja atvinnufyrirtæki miklu örar en áður gerðist, og það gerir það eðlilegt, að þeim séu veittar víðtækari heimildir til afskriftar. Og ég verð svo að segja það að síðustu, að ég held, að sveitarfélögin verði að gá að sér í þessum efnum, ekki sízt mörg sveitarfélög úti á landsbyggðinni, sem byggjast á útgerð og fiskvinnslu. Þau mega ekki ganga of langt í vasa þessara atvinnufyrirtækja, ef þau ætla ekki að grafa grunninn undan þeim fyrirtækjum, sem afkoma þeirra og framtíð raunverulega byggist á.