09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að með því að samþ. þessa brtt. mundi málið ekki komast fram á þessu þingi, vildi ég henda hv. þm. á það, að það er búið að samþ. brtt., þannig að þetta mál fer hvort sem er í Ed. aftur, þannig að ég get nú ekki séð nein rök í því, að þessar brtt. þurfi endilega að koma því til leiðar, að málið dagi hér uppi, ég sé það ekki.

Hann taldi, og fullyrti reyndar, að það mundi vera á mjög fáum stöðum, sem aðstöðugjöld væru lögð á áburð. Ég sagði það í minni ræðu, að það mundi vera sums staðar. En ég vil benda honum á, að þetta að leggja á aðstöðugjald er heimild. Það er heimilt samkv. lögunum að leggja á allt upp í 2%. Þar er talið upp það, sem leggja má á 1/2%, og svo það, sem leggja má á 1 og 11/2%, en allt annað fer í 2%. Áburðurinn er ekki neins staðar talinn upp, þannig að hann kemur undir þann lið, auðvitað er heimilt að leggja á hann allt upp í 2%, eins og nú er, en ég get ekki séð, að hv. þm. sé neyddur til þess að fara að leggja á áburðinn, jafnvel þó að þessi brtt. verði samþ. Þetta er heimild eftir sem áður. En það er bara það, að þetta mundi stuðla að því, að það yrði ekki annars staðar hærra. En þar sem hann efaðist um mín orð, að það væri allt upp í 2%, ætla ég að leyfa mér að lesa hér upp úr ræðu, sem var flutt hér 24. okt. af hv.1. þm. Norðurl. v. (SkG), þar sem hann einmitt ræðir þetta mál. Og ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Skúli Guðmundsson viti vel, um hvað hann er að tala, og hann er að tala um sitt kjördæmi þarna. Með leyfi forseta ætla ég hér að lesa aðeins lítinn kafla upp, til þess að draga ekki þessar umræður um of:

„Hitt dæmið, sem ég vil nefna, er um þau aðstöðugjöld, sem bændur eru látnir borga af tilbúnum áburði, sem þeir þurfa að kaupa til framleiðslustarfseminnar. Bændur verja miklu fé til áburðarkaupa ár hvert, hjá því geta þeir ekki komizt. Mér er kunnugt um, að á einum verzlunarstað var seldur áburður í ár fyrir rúmlega 40 þús. kr. til hvers bónda að meðaltali. Ég veit til þess, að í einu kauptúni var ekkert aðstöðugjald lagt á áburðinn. Sveitarstjórnin þar mun hafa litið svo á, að hér væri um slíka nauðsynjavöru að ræða, að rétt

væri að sleppa því að leggja aðstöðugjald á hana, en annars eru aðstöðugjöldin af áburðinum ákaflega mishá á verzlunarstöðunum. Það lægsta er 0% og hæst 2% og þrepin þar á milli eru ekki færri en sjö. Meðan bóndi á einum stað, sem kaupir áburð fyrir 40 þús., borgar í einum stað ekkert, en annars staðar fyrir jafnmikla upphæð borgar hann 800 kr. í aðstöðugjald af þeim viðskiptum eða 8 sinnum hærri upphæð og ég spyr: Er nokkur vitglóra í þessu? Ég get ekki komið auga á það.“

Þetta segir hv. þm., og það kemur alveg heim við það, sem ég sagði áðan. En þar sem hv. 3. þm. Vesturl. bar brigður á, að þetta væri á rökum reist, vildi ég láta þetta koma hér fram.