27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið skýrt fram í umr. hér á Alþ., var berum orðum tekið fram, þegar verðtryggingarl. voru sett 1964, að það væri mjög undir atvikum komið, hvort slík ákvæði ættu við til frambúðar eða ekki. Ég vitna enn til þess, sem ég sagði í framsöguræðu minni fyrir því frv. hinn 20. okt. 1964, þegar ég m.a. komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Á sínum tíma var það skýrt fram tekið, að skuldbinding um gildi þessara l. gilti að sjálfsögðu ekki lengur en þeir samningar eða samkomulag, sem frv. byggist á. Það þótti hins vegar ekki ástæða til þess að hafa neinn slíkan gildistíma ákveðinn í frv. sjálfu. Það verður að fara eftir aðstæðum, viðhorfum á hverjum tíma, hvað í þessum efnum er ákveðið.

Frá því að vísitala fyrst var hér upp tekin, ég hygg á árinu 1939, hefur um hana gilt margháttuð og mismunandi löggjöf. Hún veitir launþegum að vissu leyti tryggingu, það er óumdeilanlegt, en hins vegar hefur hún hættur í sér fólgnar varðandi of öran verðbólguvöxt, sem einnig kemur niður á launþegum eins og öðrum landsmönnum. Það er þess vegna hvorki hægt að segja, að verðtrygging eða vísitala skuli undir öllum kringumstæðum vera lögboðin né heldur að algert bann við þessu skuli að staðaldri vera í lögum. Það verður að fara eftir ástandi og horfum í efnahagsmálum hverju sinni, hvað tiltækilegt þykir í þessum efnum.

Eins og á stóð 1960 vegna þeirra breytinga, sem þá voru taldar óhjákvæmilegar og leiddi af ástandi fyrri ára, þótti ekki fært að halda fyrri ákvæðum um vísitölubindingu kaups í lögum. Þessu fylgdi aftur á móti það, að kaupgjaldssamningar voru gerðir til mjög skamms tíma. Vinnufriður varð ærið ótryggur, og þegar það kom í ljós í vor, að það var skilyrði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar fyrir samningsgerð, sem að öðru leyti þótti viðhlítandi og átti að standa til eins árs, að verðtrygging kaups væri tekin upp að nýju á þessu tímabili og bannið úr l. numið, þá þótti ekki áhorfsmál, að rétt væri að verða við þeim óskum.“

Þetta var berum orðum fram tekið, þegar frv. um verðtryggingu launa var flutt á Alþ. í okt. 1964. Nú hefur skipazt þannig, að slík fyrirmæli um sjálfvirkar vísitöluhækkanir eiga ekki lengur við vegna þeirra aðgerða, sem óhjákvæmilegar hafa reynzt með gengisfellingunni. Þar sem það er og hefur verið á valdi verkalýðsfélaga og samtaka vinnuveitenda að semja um sjálft grunnkaupið hvað sem vísitölu hefur liðið, er eðlilegt, að þetta mál sé allt, öll ákvörðunin um kaup, í höndum þessara sömu aðila. Þeir geta hvort eð er gert ákvæði um bann við vísitölubindingu að engu, ef þeim svo sýnist. Þess vegna má segja, að þær deilur, sem um það efni hafa staðið að undanförnu, hafi að nokkru leyti verið óraunhæfar og það sé miklu skynsamlegri og þar með happasælli lausn að láta þetta vera í höndum aðila sjálfra, sem hvort eð er hafa úrslitavaldið um ákvörðun kaupgjalds.

Það er því lagt til í þessu frv., að verðtryggingarl. frá 1964 séu nú felld úr gildi, en ekki horfið til þess, sem áður var, að banna slíka verðtryggingu, ef aðilar koma sér saman um hana, heldur er það látið vera undir frjálsu ákvörðunarvaldi þeirra sjálfra. Samtímis er svo kveðið á um, að nú hinn 1. des. eigi launþegar að fá bætt upp það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir vegna hækkunar á vöruverði nú síðustu víkur. Við vitum, að þetta hefur verið deiluefni og víst er það svo, að meðan hugsanlegt var, að hægt væri að ráða fram úr efnahagsvanda okkar í bili með öðrum ráðum en slíkri stóraðgerð sem gengisfelling er, var eðlilegt, að reynt væri að hafa hemil á því, að þessar aðgerðir leiddu til beinna kauphækkana þegar í stað, enda þótt slík skerðing óneitanlega hefði í för með sér nokkra kjaraskerðingu á meðan á henni stóð. Nú hefur þetta ekki reynzt fært. Vegna þeirrar atburðarásar, sem við höfum ekki fengið við ráðið, var gengi krónunnar lækkað og þar með hefur atvinnuvegunum skapazt meira svigrúm en ella, svo að nú má segja, að þeim sé fært að greiða þá kaupuppbót, sem hér er ráðgerð. Að vísu verður að játa, að slíkt eykur hættu á verðbólguþróun, en þar sem hérna er einungis um það að ræða, að kaupgjald nú hækkar um rösklega 3% frá því, sem var á miðju ári 1966, verður að segja, að þrátt fyrir þessa hækkun hafi óvenjulegur stöðugleiki haldizt í launum, og það sé tilvinnandi að leggja sig í þá hættu, sem þessari hækkun er samfara, ef það verður til þess, eins og sýnt er nú þegar, að skapa meiri möguleika til friðsamlegrar lausnar á þeim deiluefnum, sem uppi eru og óhjákvæmilega hljóta að koma ætíð þegar slík viðhorf eru í efnahagsmálum, sem nú eru hér á landi. Það verður heldur ekki á móti því mælt, að auðvitað er það ekki æskilegt, þó að um stund horfði svo sem það væri óhjákvæmilegt, að svipta menn þannig eftir á þeirri uppbót, sem lög og samningar standa til að þeir hljóti. Atvik geta verið slík, að slíkt sé óhjákvæmilegt, en þegar atvik breytast þannig, að önnur lausn er fáanleg eins og nú vissulega er fyrir höndum, er eðlilegt, að sá háttur sé upp tekinn. Og nú vita menn alveg að hverju þeir ganga. Þeir fá bætur fyrir það, sem liðið er, og síðan er það undir þeirra frjálsa samkomulagi komið, hvernig kaupgjaldsmálum verði háttað í framtíðinni. Jafnframt er svo ráðgert, að haldið verði áfram útreikningi framfærsluvísitölu, og er þá byggt á því eins og í 1. gr., að við þann útreikning verði lagt til grundvallar það samkomulag um nýja vísitölu, sem segja má að fengið sé og verkalýðsfélögin hafa talið sér til frambúðar hagkvæmara en þann gamla grundvöll, sem hingað til hefur gilt frá árinu 1959.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en legg til, að því sé vísað til 2. umr. og fjhn. Ég hygg, að það sé eðlilegast, að málið fari fyrir hana frekar en félmn. Það fer eftir venju.